04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

132. mál, jarðræktarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þessu frv. til jarðræktarlaga hefur nú verið lýst hér, og munu menn yfirleitt fagna því, að það er fram komið og að það er til mikilla bóta og samræmingar, miðað við þann tíma, sem nú er starfað á. En það er ein till. hér frá hv. landbn., sem ég vil vekja athygli á og gera aths. við, vegna þess að hún virðist vera flutt af nokkrum ókunnugleika, þar sem gert er ráð fyrir, að það sé miklu ódýrara að rækta sanda en önnur lönd. Þetta er nú ekki alltaf þannig, vegna þess að það er oft með sandana, að jarðvegurinn er það rýr, að það þarf miklu meiri áburð til þess að rækta sand en aðra jörð. Ég hef verið að leita mér upplýsinga um þetta atriði og átti von á skýrslu um það, hve miklu meira áburðarmagn þyrfti í venjulegan sand en t.d. í móa- eða mýrarjarðveg. Það er allmiklu meira. Ég vil ekki staðhæfa það hérna, af því að þessi skýrsla er ekki komin.

Í öðru lagi er það víða, þegar um ræktun sanda er að ræða, að þá verður að leggja nokkuð mikið í kostnað til þess að binda sandinn, að binda jarðveginn, og þeir, sem þessum málum eru kunnugir, fullyrða, að undir mörgum kringumstæðum sé sandræktunin á engan hátt ódýrari en önnur ræktun, t.d. miklu dýrari en valllendisræktun, þar sem ekki þarf að ræsa fram og landið er þurrt.

Ég hygg, að það sé vegna þess, að þessi till. er hér fram komin, að hv. landbn.- menn séu ekki nógu kunnugir sandræktun. Þeir munu ekki vera úr héruðum, þar sem sandræktun er eða sandar eru, þótt þeir séu víða hér um land, og hafa þess vegna ekki gert sér fulla grein fyrir því, hvað hér er um að ræða. Það er þess vegna nauðsynlegt, að hv. d. geri sér fulla grein fyrir þessu.

Það er mikils virði, að sandræktuninni verði haldið áfram, að sá uppblástur og eyðilegging, sem hefur átt sér stað vegna þess, að sandarnir hafa fengið að vera lausir undanfarið, verði heft, ekki aðeins í bráð, heldur einnig fyrir alla framtíð. Ég mun þess vegna koma með brtt. við þennan lið till., ef hann verður samþ. hér við þessa umr.

Tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni. Ég vænti þess, að þessi liður, þ.e. 4. liður brtt. á þskj. 528, um ræktun sanda, a-liðurinn, verði ekki samþ., þótt landbn. hafi flutt þessa till., og er ég dálítið hissa á því, þar sem hér er um landbúnaðarmenn að ræða. En það er aðeins ein skýring á því, þ.e., að þeir séu ekki sandræktuninni nógu kunnugir, að þetta er fram komið.