25.04.1955
Efri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

132. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Viðvíkjandi þessari brtt., sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) er með, vil ég fyrst taka þetta fram: Það er búið að framlengja oft þessi bráðabirgðaákvæði um túnþýfið, sem gáfu þeim, sem túnþýfið áttu, tvöfaldan styrk, miðað við þá, sem voru að rækta tún í nýrækt. Í marzmánuði í fyrravetur skrifaði ég hverjum einasta búnaðarfélagsformanni í landinu og minnti þá á, að nú væri seinasta árið, sem aukastyrkur á túnþýfið væri í gildi, og nú skyldu þeir ganga fram í því að láta það hverfa úr íslenzkum túnum. Á sumardaginn fyrsta skrifaði ég öllum trúnaðarmönnum, sem mæla jarðabætur, dreifibréf og lagði þar ríka áherzlu á við þá að brýna þetta rækilega fyrir mönnum.

Þegar kom dálítið fram á sláttinn, eins og þm. Eyf. orðaði það, þá komst ég að raun um, að til voru formenn búnaðarfélaganna, sem ekki höfðu sagt sínum félagsmönnum frá því, og að einir þrír trúnaðarmenn Búnaðarfélags Íslands höfðu ekkert gert til þess að láta menn vita það. Þá fór ég með það í útvarp og talaði um það og lagði enn ríka áherzlu á, að þetta væri síðasta árið og nú skyldu menn ganga milli bols og höfuðs á þúfunum. Afleiðingin varð sú, að meira hefur verið látið í ár í styrk til að slétta þýfi í túnum en nokkur tvö ár áður, og menn hafa þess vegna sýnilega lagt sig alveg sérstaklega fram um það að koma þúfunum í túnunum burt úr heiminum. En vel má fyrir því vera, að einhvers staðar sé eftir eitthvað af þeim; það má vel vera, og mér þykir það líklegt, en vil ekkert fullyrða um það. En mér finnst nú, þegar Alþ. er búið að framlengja þetta stöðugt og endalaust og þegar túnþýfisstyrkurinn hefur verið eins hár og hann hefur verið eftir bráðabirgðal., þar sem grunnstyrkurinn hefur verið 450 kr., meðan hann hefur verið 200 kr. á ha. í nýrækt, en 450 kr. á ha. í gömlu túnþýfi, sem hefur lítinn nýjan áburð þurft að fá og miklu léttara er að vinna, — þá finnst mér, að það sé búið að gera það vel við þetta túnþýfi eða þá, sem það hafa átt og þurft við það að eiga, að það sé ekki bein ástæða til þess að halda ákvæðinu við. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess að greiða atkv. með breytingunni, en n. hefur vitanlega ekkert talað um það og hefur alveg óbundnar hendur um, hvað hún gerir.