21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar alilengi og leitað umsagna aðila, eins og greint er í nál. N. gat ekki orðið ásátt um að mæla með samþykkt 1. og 2. gr. frv., og eins og nál. ber með sér, leggur hún til, að þær gr. falli burt. Hins vegar leggur hún til, að 3. gr. frv. verði samþ. óbreytt og 4. gr. með nokkrum orðalagsbreytingum.

Það er öllum hv. þdm. kunnugt, hver vandræði hafa verið og eru búin lögreglunni í landinu í sambandi við ölvun á almannafæri. Lögreglan hefur ekki haft neina aðstöðu til þess að veita þeim mönnum, sem teknir eru höndum fyrir ölvunarbrot, þá meðferð, sem nauðsynleg er og l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra frá 1949 gera ráð fyrir. Í þeim l. er í 4. gr. gert ráð fyrir því, að reist verði sjúkrahús eða sjúkrahúsdeildir, er taki á móti viðkomandi fólki eftir nánari fyrirmælum laganna, og þar er gert ráð fyrir, að sveitarsjóðir eða bæjarsjóðir kosti að nokkru stofnun og rekstur þessara sjúkrahúsa eða sjúkrahúsdeilda. Með 3. gr. frv. er þessu breytt, og þetta má kalla meginatriði frv. Því er þessu breytt þannig, að gæzluvistarsjóður skuli einn bera kostnað af slíkum sjúkrahúsum eða sjúkrahúsdeildum. Það er ætlun flm. og n. allrar, að með þessu móti yrði greitt fyrir því, að skriður kæmist á framkvæmdir.

Eins og ég gat um, hefur n. lagt til, að gerðar verði orðalagsbreyt. á 4. gr., en efnið má heita óbreytt. Efni gr. er að heimila gæzluvistarsjóði að styrkja félög áhugamanna til að koma upp hælum til aðhlynningar og lækningar drykkjusjúku fólki. Þetta atriði álít ég mjög mikilsvert. Það hefur sýnt sig hér á landi eins og viða annars staðar, að ef félög áhugamanna eru fyrir hendi og starfa af verulegum krafti og ef þau fá eðlilegan stuðning þess opinbera, megna slík samtök oft svo mikils, að fyrir fram hefðu menn kannske ekki látið sig dreyma um það.

Ég hygg, að ekki þurfi að hafa fleiri orð fyrir n. í þessu sambandi. Hún leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., er greinir á þskj. 375.