21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 375 ber með sér, hef ég fallizt á fyrirvaralaust, að frv. yrði samþ. með þeim breyt., sem þar um ræðir og öll hv. heilbr.- og félmn. er sammála um að leggja til að samþ. verði. Mér þykir þó rétt að gera hér nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég hef fallið frá þeirri kröfu, að samþ. yrði einnig 1. og 2. gr. frv.

Efni 1. og 2. gr. frv., eins og það er á þskj. 108, er það, að hætta skuli við þá reglu, sem nú er samkvæmt lögum, að flytja ölvaða menn á lögreglustöð og láta þá fá þá meðferð, sem kunnugt er að þeir hafa fengið þar, sérstaklega hér í lögreglustöðinni í Rvík, sem hefur mjög takmarkaðar aðstæður til þess að taka á móti slíkum mönnum. Um þetta atriði hefur ekki orðið samkomulag í n., og var ekki hægt að fá nm. til að fallast á, að það væri rétt eða eðlilegt að gera þá breyt., sem farið er fram á í frv., enda hefur m.a. landlæknir lagzt mjög á móti þessari breyt. á löggjöfinni, eins og sést á því fskj., sem birt er hér með í nál.

Ég skal viðurkenna, að ef hægt væri að skapa betri aðstæður á lögreglustöðinni, hafa viðunandi herbergi til þess að taka á móti drykkjuföngum, og ef hægt væri að hafa þar m.a. lækni til þess að úrskurða, hvort maðurinn er í því ástandi, að það sé verjandi að setja hann inn í fangaklefa, eins og gert hefur verið undanfarið, þá væri þetta kannske miklu meira framkvæmdaratriði en lagafyrirmæli, en það er nú svo í dag, að lögreglustöðin hefur ekki neinar aðstæður til þess að láta fara með þetta fólk eins og æskilegt væri. Þess vegna hefur því verið hrúgað saman þarna í algerlega óhæfa klefa. Þessir menn eru brennimerktir af að liggja þarna innan um ýmsa aðra afbrotamenn og enginn vafi á því, að unglingar, sem hafa komið þar í fyrsta skipti, hafa liðið andlega við að vera settir í slíkan félagsskap, og má segja, að það sé miklu meira að kenna því, að ekki séu til sæmilegar vistarverur, heldur en hinu, að lagaákvæðið fyrirbjóði slíka meðferð. Þá hefði einnig verið hægt að fyrirbyggja a.m.k. tvö dauðsföll, sem hafa skeð þar í fangaklefunum, eins og kunnugt er, ekki alls fyrir löngu. Ef því fjárveitingarvaldið tekur á sig rögg og leggur nægilegt fé fram til þess að bæta þessa aðstöðu, — og mér er kunnugt um, að hæstv. dómsmrh. hefur lagt á það mjög mikla áherzlu, að það yrði gert, — þá kann það að vera að deila um keisarans skegg, hvort breyta skuli þessum ákvæðum í l., sem ætlazt er til að breytt sé með 1. og 2. gr. frv., enda væri þá höfuðtilgangi mínum náð, þ.e. að fara mannúðlegar með þessa menn en gert er.

Nú hefur verið upplýst í n., að það muni verða byrjað á því að byggja einmitt við hina nýju lögreglustöð þá klefa, sem ætlaðir eru til að taka á móti föngum yfirleitt til skammrar dvalar, þeim sem teknir eru fastir áður en genginn er dómur um þeirra mál. Má því vænta þess, að það verði alveg sérstaklega gerðar ráðstafanir til þess, að þessi hluti hinnar nýju lögreglustöðvar verði útbúinn þannig, að í framkvæmdinni megi ná því, sem ég hafði hugsað mér að ná hér með lagafyrirmælum 1. og 2. gr., en þá er einnig sýnilegt, að óhjákvæmilegt er, að lögreglustöðin hafi á næturvakt lækni til þess að skera úr um þessi mál, svo að meðferð þessara manna fari eftir mannúðlegri reglum en hún fer í dag vegna þeirrar aðstöðu, sem fyrir er.

Allt þetta hefur gert það, að ég hef fallizt á, að lagt yrði til að fella úr frv. þessar tvær greinar, eins og hv. frsm. hefur nú lýst.

Hins vegar hefur verið fullkomið samkomulag um það í n. að leggja til, að 3. gr. frv. verði samþ., og er þar stigið stórt spor í rétta átt. Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á stuttan kafla úr bréfi þeirrar n., sem skipuð var af rn. til þess að undirbúa drykkjumannahælið, sem nú er búið að setja á stofn í Gunnarsholti. Hún segir í bréfi sínu til rn., með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt það sé ekki í verkahring nefndarinnar að gera tillögur um annað eða meira en það, sem snertir ákvæði 8. gr. l., sbr. þó lög frá 17. des. 1953, þykir henni þó rétt að benda á, að hún lítur svo á, að brýna nauðsyn beri til að koma upp þeim sjúkradeildum, sem 1.–5. gr. l. frá 1949 gera ráð fyrir, þar sem ljóst er, að sú starfsemi, sem þar er gert ráð fyrir að tekin verði upp, er meginskilyrði fyrir því að fyrirbyggja langvarandi drykkjusýki og minnka á þann hátt eða jafnvel útiloka þörfina fyrir hæli handa sjúklingum, sem þyrftu að dvelja um langan tíma á slíkum stofnunum.“

Hér er beint svo alvarlegum orðum til hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, og það er einmitt það, sem hugsað er að ná nú með frv. eins og gengið er frá því frá n., að byrjað sé að koma upp slíkum sjúkrahúsum eins og talað er um í 1.–5. gr. l. frá 1949. Og það er miklu stærri sigur í þessu máli en þó að hægt hefði verið að fá ákvæði 1. og 2. gr. samþ. ein út af fyrir sig, og það er m.a. þess vegna, sem ég hef fellt mig við, að þessar breyt. væru gerðar, úr því að ekki náðist samkomulag um frv. óbreytt.

Það er nú verið að undirbúa byggingu á upptökuheimili fyrir drykkjusjúka menn, sem alveg er óhjákvæmilegt að hafa hér nálægt bænum, til þess að þeir verði þar rannsakaðir, áður en þeir fara á heimili til langvarandi dvalar. Ég hygg, að það þurfi ekki að hafa mjög mikið aukinn kostnað í för með sér að byggja vistarverur þar, sem gert er ráð fyrir í frv. eftir till. mínum á þskj. 108 og eftir till. n. á þskj. 375, í áframhaldi af þeirri byggingu. Hér er því stigið mjög stórt spor í áttína til úrbóta á þessu mikla vandamáli þjóðarinnar.

Þá hefur n. einnig fallizt á, að 4. gr. frv. verði efnislega samþ. Ég skal ekki eyða tíma hv. deildar í að ræða hana. Hv. frsm. hefur gert það. Þótt ekki fáist allt í sambandi við þetta mál, þá er þó náð svo miklum áfanga, að ég get sætt mig fullkomlega við það, að málið verði afgr. eins og n. leggur til.