22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Kjarni þessa frv. er í raun og veru eingöngu sá, að kostnaður við að koma upp sjúkrahúsum eða sjúkrahúsdeildum til þess að fullnægja gildandi lagaákvæðum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra skuli framvegis greiddur úr ríkissjóði að öllu leyti, en að engu leyti úr sveitarsjóðum.

Nýmæli 2. gr. er í raun og veru aukaatriði, þó að það megi gjarnan verða að lögum.

Í þessu sambandi vil ég ekki láta hjá líða að vekja athygli á, hversu frammistaða Reykjavíkur, sjálfrar höfuðborgarinnar, í þessu mikla nauðsynja- og mannúðarmáli hefur verið slæm, beinlínis vítaverð. 1949 voru gildandi l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra sett í algeru samráði við yfirvöld höfuðborgarinnar, Reykjavíkurbæjar. Grundvallaratriði þeirra laga er, eins og þm. er vafalaust ljóst, að ríkisvaldið eða heilbrigðisstjórnin og sveitarfélögin, og þá fyrst og fremst Reykjavíkurbær, sem er langstærsta og öflugasta sveitarfélagið, skuli hafa samvinnu með sér um það að koma upp nauðsynlegum hælum fyrir drykkjusjúkt fólk. Var gert ráð fyrir, að sum þessara hæla skyldu eingöngu kostuð og rekin af ríkinu, en öðrum skyldi komið upp og þau rekin með samvinnu ríkis og sveitarfélags, svo sem og á sér stað um sjúkrahús.

Á þeim 5 árum, sem liðin eru síðan l. voru sett, hefur ríkið þegar hafizt handa um framkvæmdir á því sviði, sem því var einu ætlað, en á þeim sviðum, þar sem gert var ráð fyrir samvinnu ríkis og sveitarfélaga, fyrst og fremst Reykjavíkurbæjar, hefur ekkert verið aðhafzt, þ. á m. á því sviði, sem hér er um fjallað sérstaklega, að koma upp sjúkrahúsum eða sjúkrahúsdeildum til þess að láta þá menn fá læknismeðferð, sem teknir eru úr umferð sakir ölvunar. Þetta var kannske eitt brýnasta og nauðsynlegasta nýmælið í lagasetningunni frá 1949, en það var vanrækt og hefur verið vanrækt til þessa dags. Ég skal ekki fjölyrða um það, hvernig á þeirri vanrækslu stendur, en víst er um það, að úr málinu hefur ekkert orðið, og eftir þessu frv. að dæma, þá virðist Alþ. nú verða að fella þann úrskurð, að vonlaust sé, að nokkuð muni úr þessu máli verða, meðan treysta eigi á aðild Reykjavíkurbæjar að þessu máli. Og þess vegna er frv. breytt í það horf, að ríkissjóður eða gæzluvistarsjóður einn skuli standa undir þessum framkvæmdum. Þetta finnst mér bera stjórn höfuðborgarinnar svo lélegt vitni, að ekki verði hjá því komizt að vekja sérstaklega athygli á því og átelja það, að þetta skuli eiga sér stað, að ríkissjóður skuli eftir 5 ár neyðast til þess að taka þessar bráðnauðsynlegu framkvæmdir í sínar hendur, af því að útséð virðist vera um það, að Reykjavíkurbær fáist til þess að leggja nokkurn eyri af mörkum til þessara bráðnauðsynlegu framkvæmda.

Ég tel, að eins og nú er komið, sé æskilegra, að ríkið taki þetta alveg að sér og greiði allan kostnaðinn, heldur en að eiga það á bættu, að aðild sveitarfélaganna að þessu verði til þess að tefja málið enn frekar. Þess vegna mun ég greiða atkvæði með þessu frv., þó að ég teldi hins vegar, að sú upphaflega skipun, sem gert var ráð fyrir á málunum, þ.e.a.s., að stofnunin yrði kostuð og rekin með sama hætti og almenn sjúkrahús, sé miklu eðlilegri. En meðan ekki sitja að völdum í sjálfri höfuðborginni myndarlegri yfirvöld en hér á sér stað, virðist ekki vera um annað að gera en að ríkissjóður taki þetta alveg að sér.