28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði við 2. umr. þessa máls, að hann mundi fyrir 3. umr. þess afla sér gagna, sem mundu algerlega afsanna þá staðhæfingu mína við 3. umr. málsins, að bæjarstjórn höfuðstaðarins hefði vægast sagt staðið sig illa í sambandi við lausn þess þjóðfélagsböls, sem drykkjusýki hlýtur að teljast. Ég hafði á það bent, að á sveitarstjórnunum og þá fyrst og fremst Reykjavíkurbæ hvíldu lögum samkvæmt vissar skyldur í þessum efnum og að öllum þessum skyldum sínum hefði bæjarstjórn höfuðstaðarins brugðizt. Það var þetta, sem hv. þm. sagðist mundi afsanna við 3. umr. Það gerði hv. þm. ekki, heldur þvert á móti staðfesti hann í ræðu sinni allt það, sem ég hafði um þetta sagt við 2. umr. málsins. Þau gögn, sem hann vitnaði í, staðfesta algerlega frásagnir mínar um málið við 2. umr.

Staðreyndir þess eru ofur einfaldar. Það eru í gildi lög frá 1949, og samkv. þeim er gert ráð fyrir þrenns konar sjúkrahúsdeildum eða hælum, sem drykkjusjúkir menn skuli vistaðir á. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir hæli fyrir þá sjúklinga, sem talið er að eigi sér batavon. Það hæli á ríkissjóður að reisa lögum samkvæmt. Svo er gert ráð fyrir sjúkrahúsdeildum fyrir þá drykkjusjúklinga, sem teknir eru úr umferð af lögreglunni. Það var eitt merkasta nýmæli þessara laga, að með slíka menn skyldi farið á sjúkrahús, en ekki á lögreglustöð. Þessum sjúkrahúsdeildum áttu að koma upp í sameiningu bær og ríki, en forustan að vera í höndum sveitarfélaganna, og var þá fyrst og fremst hugsað til Reykjavíkurbæjar. Í þriðja lagi var gert ráð fyrir drykkjumannahælum fyrir „króníska“ drykkjusjúklinga, — fyrir menn, sem þyrftu að dvelja langdvölum á slíku hæli og ættu sér litla batavon. Þessi hæli átti að reisa af bæjarfélögum og ríki sameiginlega og forustan enn fremur að vera í höndum bæjarfélaganna.

Af þessum þremur tegundum hæla hefur aðeins einu verið komið á fót, þ.e.a.s. drykkjumannahæli fyrir drykkjusjúklinga, sem eiga sér batavon, en það var slíkt hæli, sem ríkið átti að koma á fót. Hinar tvær tegundir hælanna, hæli fyrir „króníska“ sjúklinga og sjúkrahúsdeildir fyrir þá, sem teknir eru úr umferð, hafa ekki séð dagsins ljós enn í dag. M.ö.o., þar sem forustan átti að vera í höndum bæjarstjórna og þó aðallega Reykjavíkurbæjar, þar sem þetta mein er mest áberandi, hefur ekkert verið gert. Það var á þessa staðreynd, sem ég benti við 2. umr. málsins, og þau gögn, sem hv. 5. þm. Reykv. las nokkuð upp úr, staðfesta fullkomlega, að ég fór með rétt mál, enda ekki við öðru að búast; staðreyndirnar tala hér gleggstu máli. Sjúkrahúsdeild fyrir þá, sem teknir væru úr umferð, mundi væntanlega sjást, einhver hefði væntanlega í hana komið, ef hún væri til, og einhvers staðar ætti að sjást á landinu hæli fyrir „króníska“ drykkjusjúklinga, ef það væri til. En hvorugt er til.

Ég hafði sagt, að ástæðan fyrir þessu gæti ekki verið önnur en áhugaleysi forráðamanna Reykjavíkurbæjar í þessum málum. Á þeim hefði hvílt lagaskylda að hafa framkvæmdir með höndum. Þeirri lagaskyldu hefðu þeir brugðizt. Nú segir hv. þm., að höfuðástæðan fyrir því, að Reykjavíkurbær hafi ekki hafizt handa á þessu sviði, hafi verið og sé sú, að uppi hafi verið meðal sérfróðra manna mikill ágreiningur um framkvæmdir á þessu sviði. Sumir hafi viljað, og það væri stefna gildandi laga, hafa þessi hæli í tengslum við geðveikrahælið á Kleppi, en aðrir sérfróðir menn teldu skaðlegt að hafa slík hæli í sambandi við geðveikrahæli. Ég skal taka fram, að ég vil ekki blanda mér í þessar sérfræðilegu deilur, eins og hann sagðist ekki heldur vilja, það er auðvitað ekki á færi okkar leikmanna á þessu sviði að kveða upp um það nokkurn dóm, hvorir sérfræðinganna hafi rétt fyrir sér, þeir, sem réðu stefnu gildandi laga, eða hinir, sem telja þá stefnu vera skaðlega. En á það vil ég benda, að með þessari deilu er þó ekki hægt að afsaka nema það, að ekki skuli vera komið upp hæli fyrir „krónísku“ drykkjusjúklingana, því að lagaákvæðin eru einvörðungu um, að það skuli vera í sambandi við geðveikrahælið á Kleppi, sem og hælið, sem ríkið átti að byggja eitt fyrir hina, sem eiga sér batavon. Í l. eru engin ákvæði um, að sjúkrahúsdeildir, sem eiga að veita viðtöku þeim mönnum, sem teknir eru úr umferð, skuli vera í sambandi við geðveikrahælið á Kleppi. Laganna vegna getur slík sjúkrahúsdeild verið í sambandi við hvaða sjúkrahús sem er, enda hefði verið mjög óskynsamlegt og óeðlilegt að binda það að einhverju leyti við geðveikrahæli, því að hér er ekki til nema eitt geðveikrahæli, en l. gera ráð fyrir því, að slíkum sjúkrahúsdeildum verði ef til vill komið upp víðar en í Reykjavik. Því miður ber það við, að taka þarf menn úr umferð sökum ölvunar á öðrum stöðum en í Reykjavík. Það hefði því verið laganna vegna fullkomlega heimilt og framkvæmanlegt að koma upp slíkri sjúkrahúsdeild án nokkurra tengsla við geðveikrahælið á Kleppi og án þess, að skoðanamunur sérfræðinganna um það efni hefði þurft að vera til nokkurs trafala. Þessi afsökun er því hreinn fyrirsláttur. Bæjarstjórnin getur ekki vitnað í þessa deilu til afsökunar drætti sínum á því að hafa haft forgöngu um framkvæmd þessa þýðingarmikla máls. En það er einmitt um þetta atriði, sem frv., sem hér er til umræðu, fjallar.

Ef forráðamenn Reykjavíkurbæjar teldu það vera svo stórskaðlegt, að slíkri sjúkrahúsdeild fyrir þá, sem teknir eru úr umferð, yrði komið upp að einhverju leyti í sambandi við hælið á Kleppi, ef það væri skilyrði af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar fyrir styrkveitingu til þessa, sem alls ekki mun vera, þá hefði verið eðlilegt, að fram hefði komið brtt., sem bannaði að koma upp slíkri sjúkrahúsdeild í sambandi við geðveikrahælið á Kleppi. Það hefur ekki verið gert, heldur er þetta frv. um það eitt að koma kostnaðinum af þessari sjúkrahúsdeild yfir á ríkið eitt. M.ö.o., frv. fjallar um það eitt að losa bæjarsjóð Reykjavikur við það að greiða sjálfsagðan og eðlilegan hluta af kostnaðinum við að bæta úr því gífurlega böli, sem hér er á ferðinni. Þeir menn, sem hér eru því miður daglega teknir úr umferð sökum ölvunar og hafna á lögreglustöðinni í Reykjavík, en eiga samkv. þessum l. að fá samastað á einhverju sjúkrahúsi, eiga rétt á því, að bæjarsjóðurinn taki einhvern þátt í þeim kostnaði, sem nauðsynlegur er til þess að bæta hlut þeirra. En stefna frv. gengur þó aðeins í þá átt að losa bæjarsjóðinn við að taka nokkurn þátt í þessum kostnaði.

Ég fyrir mitt leyti er því nú fylgjandi, að ríkissjóður geri þetta einn, af því að ég hef vantrú á því, að nokkuð muni verða úr framkvæmdum, ef það þarf að treysta á fjárframlög úr bæjarsjóði Reykjavíkur til þess, að þetta mál verði leyst.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið skoðun sérfræðinga, sem Reykjavíkurbær hefði leitað til 1952, að heppileg lausn á hælismálum áfengissjúklinga fengist ekki á grundvelli gildandi laga. Um álit þessara sérfræðinga ræði ég auðvitað ekki, um það erum við leikmenn ódómbærir. Ég get aðeins bent á, að Alþingi hefur sagt sitt orð um þetta og ákveðin lagafyrirmæli eru í gildi um, hvernig með þessi mál skuli fara. Þau lög voru auðvitað sett að ráði tiltekinna sérfræðinga. Þeim kaun að hafa skjátlazt. Ég vil engan veginn láta skilja orð mín svo, að ég telji þá stefnu, sem lá til grundvallar þessum lögum, hljóta að vera rétta og alveg óumbreytanlega. Það kann vel að vera, að hinir sérfræðingarnir, sem sögðu sitt álit þrem árum seinna, hafi réttara fyrir sér, en framkvæmdavaldíð getur auðvitað ekki annað en staðíð á grundvelli gildandi laga, meðan þau eru í gildi, og mér hefur skilizt, að heilbrigðisstjórnin, undir forustu hæstv. heilbrmrh., telji enn, að grundvöllur þessara laga sé skynsamlegur og réttur. Ef svo væri ekki, hlyti hann að hafa forgöngu um að fá þessum lögum breytt. En er bæjarstjórn Rvíkur, sem lögum samkvæmt á að vera aðili að framkvæmd þessa máls, hefur talið grundvöll þessara laga og þá fyrst og fremst tengslin við geðveikrahælið á Kleppi hafa verið rangan og óeðlilegan, þá hefur henni auðvitað borið skylda til þess aðhafa forgöngu um það, að l. sé breytt.

Hv. þm. upplýsir, að sérfræðingar Reykjavíkurbæjar hafi 1952, eða fyrir þremur árum, sagt það sem skoðun sína, að þessum lögum ætti að breyta. Ef það var einnig skoðun bæjarstjórnar Rvíkur eða meiri hl. bæjarstjórnar, þá bar henni skylda til þess að koma brtt. um það efni á framfæri hér á hv. Alþingi. Borgarstjóri Rvíkur situr hér á Alþingi, og einn af forvígismönnum bæjarstjórnarmeirihlutans, hv. 5. þm. Reykv., situr einnig hér á Alþingi, svo að því fer víðs fjarri, að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Rvík hafi ekki duglega forsvarsmenn hér á hinu háa Alþingi. Ef áhugi hefði verið hjá bæjarstjórnarmeirihlutanum og þessum mönnum, ef sannfæring hefði verið fyrir því, að grundvöllur gildandi laga væri rangur, og áhugi fyrir því að breyta þessum grundvelli, þá hefðu þeir sannarlega ekki átt að láta bíða í þrjú ár að koma þessum hugmyndum um breytingar á framfæri. Það gerist ekki heldur núna. Það eina, sem þessir menn virðast hafa áhuga á, er að losa bæjarsjóðinn við útgjöld. Það eina, sem frá þeim hefur sézt í þessu máli, og það eina, sem þeir fást til að styðja, er að losa bæjarsjóð við lagaskyldur til útgjalda og koma þeim yfir á ríkið. Það er því allt saman fyrirsláttur og fyrirsláttur einn, þegar vísað er í það, að ástæðan til athafnaleysis bæjarstjórnarmeirihlutans í þessum málum sé ágreiningur sérfræðinga, sem hvorugur okkar vill leggja nokkurn dóm á. Svo sanngjarnir menn erum við báðir, að við blöndum okkur ekki inn í deilur sérfræðinga á þessu sviði, en ég segi aðeins: Ef áhuginn hefði verið fyrir hendi, hefðu brtt. átt að koma fram um nýja skipun málanna, til þess að eitthvað hefði getað orðið úr framkvæmdum, en þær till. hafa ekki sézt og sjást ekki enn.

Hv. þm. nefndi eina framkvæmd Reykjavíkurbæjar á þessu sviði, þ.e. áfengisvarnastöðina, sem Reykjavíkurbær hefur komið upp og er mjög gagnleg og nauðsynleg stofnun og Reykjavíkurbær á vissulega þakkir fyrir að hafa komið upp. Það er sjálfsagt að láta hann njóta sannmælis í því, sem hann þó gerir vel á þessu sviði, en áfengisvarnastöðin er þarft fyrirtæki og hefur án efa komið, ekki tugum, heldur hundruðum sjúklinga á þessu sviði að hinu mesta gagni. Ég leyfi mér þó að staðhæfa, að á það hafi mikið skort, að Reykjavíkurbær hafi búið áfengisvarnastöðinni eins góð skilyrði og sú góða stofnun á skilið. Mér hefur skilizt, að forvígismenn áfengisvarnastöðvarinnar hafi sótt það mjög fast til bæjaryfirvaldanna að fá umráð yfir nokkrum sjúkrarúmum í bænum og haldið því fram nú um alilangt skeið, meira en ársskeið, að stöðin yrði í raun og veru gerð alveg óstarfhæf, ef hún fengi ekki aðgang að eða yfirráð yfir um það bil 10–12 sjúkrarúmum. Við þessum bænum forstöðumanna áfengisvarnastöðvarinnar hafa bæjaryfirvöldin skellt skollaeyrum. Enn hefur stöðin engan aðgang að sjúkrarúmum, svo að hún getur í raun og veru aðeins sinnt leiðbeiningarstarfi, sem að vísu er gagnlegt, en kemur engan veginn að fullum notum, ef ekki er hægt að veita þeim sjúklingum, sem þess sérstaklega þurfa, sjúkrahúsvist til þess að stuðla að bata þeirra. Líka á þessu sviði hefur sannazt, að áhugi bæjaryfirvaldanna um lausn þessara mála hefur því miður ekki verið eins mikill og skyldi.

Ég vil svo að síðustu aðeins endurtaka, að ég tel hv. 5. þm. Reykv. með skýrslu sinni í raun og veru hafa staðfest það, sem ég sagði við 2. umr. málsins, að bæjarstjórn Rvíkur hefur ekki innt af hendi þá skyldu um lausn þessara mála, sem á hana var lögð með löggjöfinni frá 1949. Að því er snertir sjúkrahúsdeildirnar fyrir þá, sem teknir eru úr umferð, er ógerningur að vísa í deiluna um það, hvort meðferð þessara mála skuli vera í tengslum við geðveikrahælið eða ekki, því að lögin segja alls ekki, að slík sjúkrahúsdeild skuli vera í sambandi við geðveikrahæli. Hér er því um að ræða hreina vanrækslu af hálfu bæjarstjórnarinnar. Um hæli fyrir „krónísku“ drykkjusjúklingana má að vísu til sanns vegar færa, að þar hafi framkvæmdir getað strandað á ágreiningi um þessi sérfræðilegu atriði, þó að ég vilji ekki trúa því, að ef raunverulegur og sannur, vakandi og lifandi áhugi hefði verið fyrir hendi hjá þeim, sem lögum samkvæmt eiga að hafa forustu í þeim málum, þ.e.a.s. bæjarstjórnarmeirihlutanum, hefði ekki tekizt að jafna þann ágreining eða þá að fá l. breytt, þar sem þeir menn, sem á oddinum eru í sérfræðingahópnum báðum megin, eru ekki líklegir til þess að vilja láta ágreining sín á milli verða til þess að tefja framgang slíks nauðsynjamáls árum saman, en hitt líklegra, að málið hafi strandað á áhugaleysi forvígismanna bæjaryfirvaldanna.