04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Almenningur hefur stundum haft það að gamanmálum, þegar Alþingi hefur tekið til umræðu mál, sem fólki hefur fundizt að ætti lítið erindi inn á Alþingi, og Alþingi hefur þó eytt nokkuð mörgum dögum til að ræða, að kalla það rjúpnamál. Það á sína sögu. Og nú hefur almenningur verið að segja undanfarna daga: Ja, nú hefur hlaupið á snærið fyrir Alþingi; nú hefur stjórnarliðið fundið eitt rjúpnamálið til þess að verja nokkrum dögum þingsins til að ræða um, þó að málið virðist þannig vaxið, að það ætti í raun og veru á þessu stigi ekkert erindi inn á Alþingi. Nú hefur farið svo, að þetta mál hefur tekið svipaðan tíma af starfstíma þingsins og rjúpnamálið forðum.

Hv. ræðumaður, sem hér talaði seinast, vék að því, að þegar slík mál sem þetta kæmu fyrir Alþingi, að breyta ætti hreppsfélagi í kaupstað, þá væru það mál, sem oftast nær gengju greiðlega í gegnum Alþingi, enda væru málin þá þannig undirbúin, að það væri búið að þaulræða slíkt mál í viðkomandi sveitarfélagi, og því aðeins væri farið með það á stað inn á Alþingi, að meiri hluti fólksins hefði fengið að láta á ótvíræðan hátt óskir sínar í ljós um slíka skipulagsbreytingu á stjórnarháttum sveitarfélags síns, að hreppsnefndin eða meiri hluti hennar hefði á sama hátt látið í ljós óskir sínar í þessa átt og sýslunefnd sömuleiðis og önnur þau yfirvöld, sem með hreppsmálin eiga að fara. Og þegar málin eru svona undirbúin, þá er það segin saga, að það er ekki hægt að gera neitt rjúpnamál úr slíkri umsókn, svo vel studdri rökum.

Nú er hér flutt frv. til laga af hæstv. forsrh., hæstv. félmrh., og þriðji flm. er fyrrverandi ráðherra. Það er þess vegna alveg greinilega mjög vel vandað til flutnings á þessu frv., og það ætti ekki heldur að verða því að meini, að það virðist samkvæmt gögnum, sem því fylgja, vera samið af sjálfu félmrn. En hvað er þá áfátt við þetta mál? Jú, það er það, að það hefur að vísu samkvæmt fylgiskjall meðmæli sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann telur, að það sé æskilegt að samþ. þetta frv., af því að það sé orðið erfitt fyrir hann að framkvæma innheimtu gjalda fyrir ríkissjóð og annast skyldustörf, sem á embættinu hvíli vegna trygginganna, og þess vegna vilji hann að þessu hreppsfélagi sé breytt í bæjarfélag. Nú mun hafa verið á það bent í þessum umræðum, að þessu væri auðvett að ráða bót á. Það væri vafalaust ódýrara fyrir ríkið að leyfa sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu að hafa mann þrisvar til fjórum sinnum í viku í skrifstofu hreppstjórans eða einn eða tvo tíma á dag í skrifstofu hreppstjórans til þess að vinna að þessum innheimtustörfum, sem sýslumaðurinn telur nú vera orðin í ólestri í þessu sveitarfélagi, af því að starfskraftar í hans þjónustu séu ekki nægilegir til þess að inna þetta af hendi. En út yfir þetta virðast meðmæli sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu ekki hafa nokkra þýðingu, og hann ræðir engar aðrar hliðar þessa máls en þetta með innheimtuaðstöðuna og það, að hann hafi ekki starfskrafta til að aðstoða hreppstjórann við þessi störf. En svo er það, að sýslumaðurinn leitaði til sýslunefndarinnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu og spurði hana, og hún var ekki látin svara í neinu fljótræði, því að það mun vera staðreynd, að sýslufundur, sem ræddi málið, vísaði málinu til nefndar, sem valdir menn voru kosnir í, og þeir héldu fundi og athuguðu málið og komust að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að vísu að bæta aðstöðuna um löggæzlu og skattheimtu að því er snertir embætti sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, til þess að betri framkvæmd yrði komið á þau mál. En svo benda þeir á, og virðast hafa verið sammála um það, og munu það ekki vera pólitískir fjandmenn hæstv. forsrh., sem þar tala, heldur samherjar hans, a.m.k. að meiri hluta, — þeir benda á, að það mundi veikja athafnamöguleika sýslunnar, Kjósarsýslu, ef Kópavogshreppur yrði skilinn frá henni. Og þessi röksemd sýslunefndarinnar bendir í þá átt, að auðvitað vilja sýslunefndarmennirnir ekki veikja sitt sýslufélag, og þetta er þess vegna röksemd á móti því, að frv. verði að lögum. Þó er þetta ekki eina röksemdin, sem sýslunefndin færir fram, heldur heldur sýslunefndin áfram í fylgiskjalinu hér með frv. og segir, að hér sé nokkuð óvenjulega að farið, því að venjulega beri svona mál þannig að, að frumkvæðið að flutningi eða beiðni um flutning á svona málum komi venjulega frá viðkomandi hreppsfélögum, enda telji sýslunefndin, að það sé hinn eðlilegi gangur slíkra mála. M.ö.o.: Sýslunefndin, flokksbræður hæstv. forsrh., hafa bent honum á í fskj. með frv., að hér væru farnar óeðlilegar leiðir um flutning þessa máls á Alþingi. Og í þessu tilfelli segir sýslunefndin, að það liggi ekki fyrir, eins og nú standi sakir, að hreppsstjórnin óski eftir slíkum flutningi sem þessum á frv. um að breyta hreppsfélaginu í kaupstað. Og enn bæta þeir við: Aftur á móti ef það kæmi fram eindregin viljayfirlýsing meiri hluta sveitarstjórnar Kópavogshrepps eða óumdeilanlegs meiri hluta atkvæðisbærra íbúa hans, þá gæti sýslunefndin fallizt á, að hreppsfélaginu væri breytt í kaupstað. — Nú er sjálfsagt að líta á það, hvort ekki sé búið að leiða þessi rök fram fyrir málinu, að það liggi nú fyrir óumdeilanlegur meiri hluti atkvæðisbærra íbúa í hreppnum, sem vilji kaupstaðarréttindi nú þegar, eða að hreppsnefndin sjálf sé nú orðin þeirrar skoðunar, að hér beri að breyta skipulagsháttum hreppsfélagsins á þann hátt, að lög verði samþykkt um kaupstaðarréttindi því til handa.

Ég efast ekkert um það, að einmitt hæstv. forsrh. hlýtur að hafa tekið tillit til þessara röksemda sýslunefndarinnar og hefur því gert það að skilyrði fyrir því, að hann flytti þetta mál og aflaði meðflm. til þess að flytja það, að þessi sönnunargögn, sem sýslunefndin taldi að yrðu að koma fram, til þess að hún gæti mælt með málinu, lægju fyrir. Og þá er það, sem hæstv. forsrh. hefur óskað eftir því, að safnað yrði undirskriftum um málið í hreppnum, og þá hafa útsendararnir verið dubbaðir á stað. Og hvað koma þeir svo með? Koma þeir ekki með sönnunargögnin, sem sýslunefndin bað um, sönnunargögn, sem sýndu, að óyggjandi meiri hluti kosningabærra manna í Kópavogshreppi vildi, að frv. yrði flutt um, að hreppsfélagið yrði gert að kaupstað?

Það er búið að upplýsa það margsinnis í umræðunum, að fram hafi verið lagt undirskriftaskjal með 760 nöfnum, en á gildandi kjörskrá eru 1350 manns. Þannig leit út fyrir fljótt á lítið, að þarna væri komin viljayfirlýsing meiri hluta hreppsbúa, og ég lái hæstv. forsrh. það ekki, þó að hann teldi, að þarna mundi vera sönnunargagn, sem væri óhætt að byggja á, því að 760 er eins og við sjáum meira en helmingurinn af 1350. Nú hafa einhverjir verið að gamna sér við að halda því fram, að á kjörskrá í þessu sveitarfélagi væru ekki nema 1150 eða eitthvað um það bil, en þá hefur þeim skotizt um það, að þeir hafa reiknað með úreltri kjörskrá, en samkvæmt núgildandi kjörskrá sveitarfélagsins eru 1350 á kjörskrá, og þyrftu því a.m.k. að vera 675 manns af hinum atkvæðisbæru kjósendum, sem óskuðu eftir því, að hreppnum væri breytt í kaupstað. En það mun hafa farið fram nú þegar rannsókn á því, hvort öll þessi nöfn væru ekki nöfn kosningabærra manna í sveitarfélaginu, og það stendur enn þá ómótmælt, að 224 séu þar ekki á gildandi kjörskrá. Það er enn fremur búið að upplýsa það, að eitt nafnið þarna sé nafn á 11 ára gömlu barni. Það gat forsrh. ekki vitað fyrir fram. Það er búið að upplýsa það, að þarna sé nafn á konu, sem hafi verið fjarverandi miklu lengri tíma en frá því, að undirskriftirnar hófust, og lítur því út fyrir, að það nafn hafi verið falsað. Hér hefur því farið líkt og í ævintýri Andersens, — og það er eðlilegt, að manni komi í hug ævintýri Andersens nú um þessar mundir, þegar verið er að halda veglegt 150 ára afmæli þessa ódauðlega og heimsfræga skálds um veröld alla — en það gerðist í einu af þessum ævintýrum, að það komu þrír svíkarar, falsarar, til konungsins og buðu honum að búa honum klæði svo fín og fögur, að önnur eins hefðu aldrei sézt, áttu að vera úr svo finum efnum, að enginn konungur hefði nokkurn tíma klæðzt slíkum búnaði áður. Og þeir tóku mál af kónginum og tóku að sér að sauma á hann föt. Og svo klipptu þeir út í loftið, og þeir saumuðu út í loftið, og allar tiltektirnar voru hinar stásslegustu, og það leit út fyrir, að úr þessu ætti að verða dýrindis klæðnaður, eins og lofað var. En svo endaði þessi saga þannig, að það reyndust hafa verið svíkarar og falsarar, sem höfðu gert þennan glæsilega samning við konunginn og ætluðu að dubba hann svona vel upp. Og því miður verð ég nú að segja, að það lítur út fyrir, að þrír svikarar hafi líka komizt að forsrh. okkar núna, og þegar þeir áttu að leggja honum í hendur óyggjandi gögn, sem dygðu til þess að gera það réttlætanlegt, að þetta frv. væri flutt, þá leggja þeir fyrir gögn, sem eru með 224 nöfnum, sem ekki áttu að standa á slíku skjali og hafa ekkert sönnunargildi. M.ö.o.: Eins og svíkararnir þrír klipptu út í loftið og höfðu alla tilburði til, þá var skrifað þarna út í loftið, skrifuð 760 nöfn, sem eru ekki með neinu gildi nema 530, og þegar svo er komið, þá stendur forsrh., sem var í góðri trú eins og kóngurinn, nakinn, hann vantar sönnunargögnin, sem hann átti að fá, og hann er jafnilla leikinn af hinum þremur svíkurum nú og kóngurinn af hinum þremur svíkurum í ævintýrinu. Hvað hefði nú hæstv. forsrh. átt að gera, þegar búið var að leika hann svona, alveg að óverðugu? Hann hefði átt að segja: Hypjið þið ykkur í burt, ykkar mál er eyðilagt með þessum vinnubrögðum ykkar, þið þóttuzt ætla að leggja fram sönnunargögn, þið hafið lagt fram svíkið plagg. — Hugsið ykkur, þessir menn standa yfir 11 ára gömlu barni og láta það skrifa nafnið sitt á skjal, sem á að færa forsætisráðherranum, og það á að vera sönnunargagn um það, að þarna hafi kjósandi í Kópavogshreppi verið að láta í ljós vilja sinn. Heimurinn er búinn að hneykslast á svíkurunum þremur í ævintýrinu, en þarna er alveg fullkomin ástæða til á sama hátt að hneykslast yfir þessum þremur svíkurum, sem hafa reynt að gera gabb að forsrh. og félmrh. með þessum óviðurkvæmilega hætti. Það hefði vissulega átt að gera þetta plagg afturreka og segja þessum mönnum: Þið hafið flýtt ykkur of mikið, þið hefðuð átt að flýta ykkur hægar. — En nú virðist þessi aðferð ekki hafa verið höfð. Hæstv. forsrh. virðist ekki hafa runnið í skap við að vera svona leikinn, því að nú mun hafa verið sagt við þessa menn: Farið og látið fleiri skrifa, því að það vantar enn þá á, að það sé kominn meira en helmingur kosningabærra manna í sveitarfélaginu.

Nú kann einhver að segja: Er það nú fylillega sannað mál, að það séu ekki nema 536 og alls ekki 760 kosningabærra manna, sem hafi skrifað undir plaggið. Ég hef að vísu engar sannanir í höndum, en ég vil segja við hina ágætu flm. frv.: Látið þið engu ljúga að ykkur um þetta, látið þið alls ekki gabba ykkur á ný. Látið þið t.d. yfirvaldið í Gullbringu- og Kjósarsýslu, einhvern opinberan embættismann, fara í gegnum þessi plögg, bera þau saman við kjörskrá í Kópavogshreppi, hina gildandi kjörskrá, og látið hann gefa vottorð um það, hve margir kosningabærir menn séu þarna á þessu plaggi. — Það er alveg sjálfsagt, að flm. séu ekki í neinum vafa um það, hvað sé hið rétta í þessu efni. Og ég hygg, að þegar málið fer til nefndar, ef flm. útvega sér ekki slíkt vottorð frá eiðsvörnum embættismanni, þá verði þingnefnd, sem fær málið til meðferðar, að útvega slíkt plagg í hendurnar.

Mál eins og þetta á erindi til nefndar og svo bezt erindi til hennar, að hún gangi úr skugga um það, sem um er deilt í málinu, komist t.d. að réttri niðurstöðu um það, hve margir kjósendur hafi þarna ritað nöfn sín undir, hve mörg börn og hve margar fjarverandi konur t.d.

Það er svo annað mál, og tel ég þó, að hæstv. forsrh. hefði nokkuð mátt á það lita strax, þegar hann gerðist flm. frv. síns og fékk það plagg í hendur, sem hann vafalaust hefur gert að skilyrði að fá, að hausinn, sem kjósendurnir áttu að skrifa undir, var um tvo ósamrýmanlega hluti, um það, að þeir í senn óskuðu, að Kópavogshreppur yrði gerður að kaupstað, og í öðrum stað, að þeir með undirskriftinni óskuðu eftir annarri lausn á málinu, sem sé að skerða á engan hátt möguleikana á því, að hann yrði sameinaður Reykjavíkurborg. Þetta gat auðvitað ekki samrýmzt hvort tveggja, og hæstv. forsrh. er áreiðanlega nú búinn að uppgötva það fyrir löngu, að þarna hefur verið á nokkuð óheiðarlegan hátt strax orðaður svo haus undirskriftaskjalsins, að þar væru veiddir á menn með gagnstæðar skoðanir. Það er líka alveg út af fyrir sig ein aðferð við fölsun. Það eitt út af fyrir sig hefði átt að nægja til, að þessir virðulegu flm. segðu: Hér hefur verið óheiðarlega að farið, plaggið ber það með sér, og þetta verður gert afturreka af þeirri ástæðu einni.

Önnur rök mæla gegn því, að þetta mál sé hespað í gegnum Alþingi nú, án þess að fyrir liggi ótvíræður vilji meiri hl. kjósenda og meiri hl. löglegrar hreppsnefndar og meirihlutafylgi sýslunefndar, en ekkert af þessu liggur fyrir nú. Hafa verið færð fram þau rök, að þetta sveitarfélag hafi ekkert sjálfstætt atvinnulíf að byggja á og geti það verið illa farið, þegar það eigi að búa að sínu sem sjálfstæður kaupstaður. Það hefur enn fremur verið bent á það, að þessi byggð er byggð fólks aðallega úr Reykjavík, fólks, sem hefur ekki fengið að byggja þak yfir höfuðið á sér hér, fólks, sem hefur ekki fengið lóðir til þess að byggja á hér í höfuðborginni og því leitað þangað, sem það gat fengið þetta hvort tveggja, og hefur lagt fram alla krafta sína við að koma þessari byggð upp á svo skömmum tíma, að undrum sætir. Og þarna er það búið á tiltölulega skömmum tíma að búa nokkuð um sig, þannig að það er búið að leggja þarna marga tugi km, ef ekki hundruð km í götum. Það er búið að leggja þarna vatnsleiðslur og skólpleiðslur. Það er búið að byggja skólahús fyrir 5 eða 6 millj. kr. Það er búið að útvega sér þarna þá aðstöðu, sem því var synjað um í höfuðborg landsins, og það valdi að fara á þessar slóðir, af því að það gat þar þó betur fengið að neyta eigin krafta til að brjótast þarna áfram og búa um sig, að vísu með miklum erfiðismunum og að vissu leyti á frumstæðan hátt til að byrja með. Það hefði ekki farið út fyrir endimörk Reykjavíkurbæjar, ef það hefði getað fengið að gera þetta innan endimarka borgarinnar. Það er því fólk frá Reykjavík, sem myndar meiri hluta þessa sveitarfélags, alveg nákvæmlega á sama hátt og fólkið leitaði héðan út fyrir Hringbrautina og kom upp Kleppsholtsbyggðinni eða Bústaðavegsbyggðinni eða byggðinni í Skjólunum. En ef á að gera eina af þessum útbyggðum frá Reykjavíkurborg að kaupstað og til þess liggja þung rök og það svo brýn, að það verður að hraða málinu, er þá ekki eðlilegt, að Bústaðavegsbyggðin verði líka gerð að sérstökum kaupstað og að Kleppsholtsbyggðin, sem er orðin fjölmennari en Akureyrarkaupstaður, verði gerð að sérstökum kaupstað líka? Það sýnist vera nákvæmlega eins ástatt um allar þessar byggðamyndanir, og ef það er rétta leiðin um eina þeirra, þá verður nákvæmlega sama viðfangsefnið og sjálfsagt að leysa úr þörfum fólksins í hinum byggðahverfunum með nákvæmlega sama hætti, og hæstv. forsrh. ætti auðvitað að vera flm. að kaupstaðarfrv. fyrir allar þessar byggðir. Sé það hins vegar rétt, að Kleppsholtsbyggðin og Bústaðavegsbyggðin o.s.frv. séu hluti af Reykjavík, þá liggur það náttúrlega í hlutarins eðli, að það er á sama hátt rétt og eins sjálfsögð lausn, að þessi byggð handan við Kópavogslæk sé líka hluti af Reykjavíkurbæ. Það er enginn eðlismunur á þessu, og á annan hvorn veginn á að taka þetta með sama hætti, annaðhvort að gera þetta að sjálfstæðum kaupstöðum allt saman eða að gera þetta allt saman að hluta af Reykjavík. Það hefur verið vitnað í Glerárþorp á Akureyri, og það er óneitanlegt, að það var mjög hliðstætt mál við þetta. Það var búið að ræða það árum saman heima í Akureyrarkaupstað og í Glerárþorpi og ekki flutt inn á Alþ. fyrr en búið var að ná samkomulagi um málið, þannig að þm. kaupstaðarins mælti hér fyrir sameiningunni, samningar höfðu efnislega átt sér stað milli byggðarlaganna og var ekkert annað en að gefa því hér hina síðustu olíu, þegar málið var í raun og veru fullútkljáð af réttum aðilum. Það tók ekki heldur langan tíma; það varð ekkert rjúpnamál úr því.

Hæstv. forsrh. mun hafa sagt í ræðu, að hann héldi, að það væri beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins, að það fengi að greiða atkv. opinberlega og það hafi það nú fengið að gera. Ég held, að það sé beztur úrskurður fólksins, sem fenginn er með leynilegri atkvgr., og það hyggst fólkið í Kópavogshreppi nú að gera. En e.t.v. hefur hæstv. forsrh. svipaðar skoðanir á hinum leynilega og almenna kosningarrétti eins og ritstjóri einn vestur á landi, sem var einn af helztu framámönnum Sjálfstfl. þar, lögfræðingur að mennt, og hann skrifaði um það í blaðið Vesturland, málgagn Sjálfstfl., að hinn almenni, leynilegi kosningarréttur væri sú mesta plága, sem yfir þetta land hefði komið, því að hinn almenni, leynilegi kosningarréttur hefði leitt af sér meiri bölvun en hafís og svarti dauði og allar styrjaldir til samans. Þetta þóttu furðulegar skoðanir hjá Vesturlands-Páli, en svo hét maðurinn eða var kallaður það hjá okkur vestur frá, og það var mjög sótt að honum út af þessum furðulegu skoðunum. En mér virðist örla á þessu sama hjá hæstv. forsrh.: Það fer bezt á því, fólkið lætur bezt í ljós vilja sinn með því, að það fái að greiða atkv. opinberlega, og það er það nú búið að gera.

Nei, þeir sem eru svo fáránlegir í hugsun að vilja heldur hafa leynilegan almennan kosningarrétt og telja hann ekki eina verstu plágu, sem yfir þjóðina hafi komið, vilja, að fólkið fái að ganga leynilega að kjörborði og tjá sig þar, eins og nú stendur til að það geri í Kópavogshreppi.

Hæstv. forsrh. mun líka hafa haldið því fram, að hreppsnefndin hafi gert tilraun til þess að tefja þetta mál. Ég hef ekki heyrt um þetta mál fyrr en núna fyrir þremur vikum eða mánuði, og það mun vera staðreynd, að ekki hafi verið rætt um þetta mál í sambandi við þær tvennar sveitarstjórnarkosningar sem fóru fram á s.l. ári. Þá mun málið ekki hafa verið talið aðkallandi af neinum flokki eða frambjóðanda neins flokks. Og ég hélt, að byrjunin á málinu nú hefði verið sú, að fulltrúar frá flokksfélögum þriggja flokka í hreppnum hefðu tekið það upp hjá sjálfum sér án viðræðu við fólkið að fá flutt frv. um þetta á Alþingi og þá beðið forsrh. og helzt stjórnina að flytja það sem stjórnarfrumvarp. Síðan mun stjórnin hafa sett sig í samband við sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu og hann þegar haldið fund um málið og leitað eftir áliti sýslunefndarinnar, sem rétt var. En þá bara kemur í ljós, eins og ég benti á áðan, að meiri hluti sýslunefndarinnar var andvígur málinu, vildi ekki veikja Kjósarsýslu með því að nema burt úr því sýslufélagi stærsta og fjölmennasta hreppinn og vildi fá fram ótvíræðan vilja hinna kosningabæru manna og kvenna í hreppsfélaginu.

Mjög fljótlega eftir að þessi sýslunefndarfundur var haldinn og eftir að þessi nefnd var þar kosin til að falla um málið, mun sveitarstjórnin hafa tekið málið til umræðu og tekið þá ákvörðun að leita eftir ótviræðum vilja fólksins, eins og sýslunefndin krafðist, með leynilegri atkvgr., sem færi fram samkv. gildandi kjörskrá hreppsins. Hæstv. forsrh. mun hafa látið að því liggja, að hreppsnefndin hefði vanrækt að leggja fram kjörskrá þá, sem nú ætti að gilda. En þetta byggist víst áreiðanlega á þekkingarskorti hæstv. forsrh. á sveitarstjórnarlögum, því að í lögum um sveitarstjórnarkosningar stendur, að kjörskrár í kaupstöðum og í hreppum, þar sem almennar hreppsnefndarkosningar fara fram í janúarmánuði, gildi frá 24. janúar næsta ár eftir að þær eru samdar og til 23. janúar næsta ár þar á eftir. Kjörskráin, sem á að gilda í Kópavogshreppi, en þar eiga kosningar að fara fram eins og í kaupstöðunum í janúarmánuði, er kjörskráin, sem nú er rétt nýbúið að semja. Að hún hafi ekki verið lögð fram, byggist á því lagaákvæði, að þegar bæjar- eða sveitarstjórnarkosningar eiga að fara fram, þá skal tveimur mánuðum áður leggja kjörskrá fram til sýnis almenningi og fer um allt, sem lýtur að því, á sama hátt og um kjörskrár fyrir kosningar til Alþingis. Um kjörskrárkærur og alla meðferð þeirra fer einnig á sama hátt sem um kjörskrárkærur þegar um kosningar til Alþ. er að ræða. Síðan segir:

„Nú ber nauðsyn til, að bæjarstjórnar- eða hreppsnefndarkosningar, aðrar en almennar bæjarstjórnar- eða hreppsnefndarkosningar, fari fram með svo stuttum fyrirvara, að ekki er unnt að láta kjörskrá liggja jafnlengi frammi eða veita þá fresti og fyrirvara, sem annars er ráð gert fyrir, og má þá bæjarstjórn eða hreppsnefnd stytta þetta allt hlutfallslega, enda auglýsi hún það nákvæmlega, jafnframt því sem kosningin er auglýst.

Allar bæjarstjórnar- og hreppsnefndarkosningar skulu fara fram samkv. gildandi kjörskrá.“ Þegar kosningar eiga að fara fram eða atkvæðagreiðslur, sem byggðar eru á kjörskrá, á óvenjulegum tíma, þá á að leggja kjörskrána fram tveimur mánuðum áður. Þó eru heimildir til að stytta frestina alla saman, og það mun hreppsnefndin einmitt hafa gert hér til þess að draga málið ekki á langinn. Það mun vera óalgengt að stytta frestina meira en um helming, en nú munu þeir hafa verið styttir einmitt niður í einn mánuð.

Það er því algert öfugmæli hjá hæstv. forsrh. og byggist á ókunnugleika af hans hendi, þegar hann sakar hreppsnefndina um að hafa reynt að draga málið á langinn. Hún hefur farið eftir heimildum sveitarstjórnarlaganna um að stytta alla fresti og fara eftir þeirri kjörskrá, sem ber að leggja fram tveimur mánuðum áður en kosningar fara fram, þegar þær fara fram á óvenjulegum tíma. Þær eru alls ekki lagðar fram í ársbyrjun þau ár, sem ekki eru kosningar. Það vita allir, sem við sveitarstjórnarmál fást.

Það er því auðvelt með þessu að hnekkja því, að sveitarstjórnin hafi enn þá gert sig seka um að vilja draga málið á langinn. Hún hefur gert sér far um að hafa atkvgr. um þetta mál eins fljótt og lög leyfa með því að nota heimildirnar um stytta fresti og tók málið undireins fyrir, þegar sýslunefnd var búin að afgreiða málið og allt sýslunefndar lá fyrir. Þá var eðlilegt, að sveitarstjórnin tæki málið til meðferðar.

Og hvenær á svo þessi ekki opinberlega undirskriftasmölun að fara fram, heldur hin löglega, leynilega atkvgr. eftir gildandi kjörskrá? Hún á að fara fram þann 24. apríl, eftir tæpar þrjár vikur.

Þegar hæstv. forsrh. var að gera að gamni sínu áðan um að kosta hv. 2. þm. Reykv. austur í Moskva, til þess að það fengi að koma í ljós, hve mikils lýðræðið væri virt þar, þá virðist mér, að hæstv. ráðh. hafi skuldbundið sig um að meta íslenzkt lýðræði og fara að lýðræðisreglum og venjum. Annars væri ekkert gaman við það að vera að senda hv. 2. þm. Reykv. til Moskva, ef hæstv. forsrh. er jafnandvígur hinum sanna anda lýðræðis og hann vill telja að þeir austur í Moskva séu. Ég held, að þó að undirskriftasmalanir séu góðar, þá geti hæstv. forsrh. landsins ekki haft á móti því, að leynilegar, skriflegar atkvgr., byggðar á kjörskrá, gefi sýnu réttari og áreiðanlegri niðurstöðu en undirskriftasmalanir manna, sem eru eins og sögupersónurnar í ævintýri H. C. Andersens.

Nú skulum við segja, að þetta frv. til laga verði gert að lögum, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki biðlund til þess að doka við eftir niðurstöðu hinnar leynilegu atkvgr. og það sé búið að gera Kópavogshrepp að kaupstað, áður en niðurstaða atkvgr. liggur fyrir. Þá bæri ríkisstj. að láta þetta nýja bæjarfélag fá sinn bæjarfógeta, sem ég hygg að væri þá mjög eðlilegt að yrði líka sýslumaður í Kjósarsýslu. Og þangað ætti að setja skattstjóra. Annar gæti verið sjálfstæðismaður, og hinn gæti verið framsóknarmaður, svo að það gæti allt saman fallið inn í kerfið. Það yrði enginn framkvæmdaörðugleiki á því. Svo þyrfti að setja þangað lögregluþjóna, einn fyrir hverja 500 íbúa, — svona 6–7 lögregluþjóna. Þarna þyrfti að byggja fangahús. Og það þyrfti að byggja bæjarfógetabústað, svipaðan og þann í Hafnarfirði. Það þyrfti að byggja veglega skrifstofu fyrir bæjarfógetaembættið. Og svo skyldi eftir nokkrar vikur liggja fyrir vilji fólksins, úr leynilegri atkvgr. að vísu, um það, að það óskaði ekki eftir að vera sérstakt bæjarfélag, heldur hefði ákveðið með meirihlutavilja að leita samninga við Reykjavíkurkaupstað um, að hreppsfélagið fyrrverandi yrði hluti af Reykjavík með sérstökum samningum. Þá held ég að væri ástæða til, að það lyftist brúnin á Eysteini Jónssyni, hæstv. fjmrh. Það yrði búið að búa þarna til nokkuð mörg embætti og búa þessum embættismönnum aðstöðu, og svo léti fólkið í ljós, að það vildi ekkert hafa með þetta að gera, og það yrði að taka þessa hjörð á eftirlaun. Það væri lagleg sparnaðarráðstöfun, af því að þetta mál hefði verið lamið fram af svo miklu offorsi hér á Alþ. á röngum forsendum, því að niðurstaða leynilegrar atkvgr., sem færi í aðra átt en undirskriftaskjölin, hefði sýnt það, að fyrr hefði verið farið með málið á röngum forsendum og það hespað af þrátt fyrir margvíslegar aðvaranir þeirra manna, sem vildu, að vilji fólksins réði úrslítum málsins.

Ég vil halda því fram, að slík málsmeðferð væri algert einsdæmi á Alþingi. Ekkert af rjúpnamálunum fyrrverandi hefur fengið eins hastarlega afgreiðslu og lítið grundaða og þetta mál hefði þá fengið. Það er því sama, hvort maður talar um þetta lengur eða skemur. Forsendurnar fyrir þessu máli virðast vera óvandaðar, að maður ekki segi falskar. Og það hefur verið farið með alveg einstaklega óvönduðum hætti með undirbúning málsins, og ég hygg, að forsrh. hafi ekki á þeirri stundu, sem hann varð flm. málsins, haft hugmynd um, að svo væri í pottinn búið. Ég trúi honum alls ekki til þess að hafa tekið að sér flutning málsins, ef hann hefði vitað, hvernig gögnin voru honum í hendur búin. Og því síður trúi ég hæstv. félmrh. til þess.

Ég sætti mig vel við það, að málið, eftir þá rækilegu umræðu, sem það hefur hér fengið, fari til nefndar, og treysti því, að sú nefnd, sem fær það til meðferðar, gangi alveg örugglega og vandlega úr skugga um það, hvort undirskriftir hinna 760 manna eru allar undirskriftir kjósenda í Kópavogshreppi. Ef þær reynast það, þá hef ég farið með rangt mál og þeir, sem hafa haldið öðru fram. Ef þær reynast ekki vera nema 536 eða eitthvað þar í kring og meðal þeirra finnast nöfn 11 ára barns og konu, sem hafði ekki verið í hreppnum frá því löngu áður en undirskriftirnar hófust, þá sýnir sig, að þarna hefur verið með klækjum að farið, og þeir menn, sem töldu sig hafa vilja meiri hluta fólksins á bak við sig í þessu máli, áttu alls ekki að þurfa að grípa til slíkra ráða.

Ég tel, að ef n. kæmist að þeirri niðurstöðu, að svona bellibrögðum hefði verið beitt, þá mundi hún og vafalaust í fullu samráði við flm. vísa málinu frá á þessu þingi og bíða eftir því, að fólkið segði sinn vilja, og væri þá hægt að taka málið fyrir næsta haust, þegar Alþ. kæmi saman, og það væri auðvitað það eina, sem Alþ. væri sæmandi í slíku máli.