19.04.1955
Neðri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir okkur nál. um frv. til l. um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað frá meiri hl. heilbr.- og félmn. Í þessu nál. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur athugað frv., og m.a. hefur hreppsnefnd Kópavogshrepps mætt á fundi n. til viðræðu um málið. Hefur oddviti látið n. í té útskrift úr gerðabók Kópavogshrepps varðandi þetta mál.“

Enn fremur segir:

„Hreppsnefndin tjáði nefndinni, að hún hefði ákveðið að efna til atkvgr. um það innan Kópavogshrepps þann 24. apríl n.k., hvort kjósendur óski, að Kópavogshreppi verði breytt í kaupstað nú þegar með lögum, og um það, hvort þeir óski eftir sameiningu hreppsins við Reykjavíkurbæ. Af þessu tilefni hefur meiri hl. heilbr.- og félmn. leitað umsagnar bæjarráðs Reykjavíkur um þetta atriði, og er þess að vænta, að þinginu berist sú umsögn undir meðferð málsins.“

Undir þetta nál. hafa skrifað Páll Þorsteinsson, Jóhann Hafstein, Helgi Jónasson.

Það verður ekki sagt um þetta nál., að það sé mikið að vöxtum, og því síður, að þar sé gerð tilraun til þess að rökstyðja og mæla sérstaklega með því frv., sem nál. fjallar um. Það má segja, að n. hafi svikizt um flest það, sem henni bar að gera til að afla upplýsinga í málinu. Ekki hefur verið leitað eftir umsögn sýslunefndar um málið. Það hefur ekki einu sinni verið rætt við sýslunefndina, hún hefur ekki einu sinni verið boðuð á fund til viðræðna við hv. heilbr.- og félmn., sem hafði með málið að gera. Ekki hefur n. rannsakað eða látið rannsaka undirskriftalistana og borið þá saman við gildandi kjörskrá. Nei, nei, það datt hv. heilbr.- og félmn. ekki í hug að gera. Þá hefur ekki verið hið minnsta tillit tekið til skoðana meiri hluta hreppsnefndar í málinu. Aftur á móti hefur minni hlutinn, hv. 3. landsk., látið fara fram allýtarlega rannsókn á undirskriftalistunum, og við þá rannsókn hefur það komið í ljós, sem búið var að benda hér á við 1. umr. þessa máls, að hvorki meira né minna en 224 menn af þeim, sem á listann hafa skrifað, fyrirfinnast ekki á þeirri kjörskrá, sem er gildandi í dag fyrir þetta sveitarfélag.

Það má segja, að þessu máli hafi verið flýtt mjög mikið af þeim, sem málið fluttu, og n., sem málið hafði til meðferðar, hefur gert sitt til þess að hraða því sem hægt væri. Svo ört var þetta drifið áfram, að minni hlutanum vannst ekki tími til að semja álit og því síður til að afla þeirra gagna, sem nauðsynlegt var að fá fram í málinu. Það var fyrst í kvöld, að áliti minni hl. var útbýtt hér á meðal hv. alþm.

En eitt hefur þó meiri hl. gert í þessu máli, og það er það, að hann hefur gert pöntun á umsögn bæjarráðs Reykjavíkur um það, hvort bæjarráð sé fylgjandi því, að Kópavogshreppur sameinist Reykjavík. Í nál. er lofað, að þetta álit liggi hér fyrir. Ég hef ekki orðið var við, að það liggi hér fyrir. Ég tel það út af fyrir sig illa farið, að það skuli ekki liggja hér fyrir, ekki aðeins álit bæjarráðs Reykjavíkur, heldur líka bæjarstjórnar Reykjavíkur. Og það hefði mátt ætlast til þess, þegar svona stórmál, — við skulum kalla það stórmál, því að það er eitt af mestu hitamálum og áhugamálum núverandi hæstv. ríkisstj. að koma þessu máli í gegnum þingið, — þegar stórmál eru á dagskrá, eins og þetta mál virðist vera í augum þessara manna, þá hefði verið a.m.k. að því unnið af miklum dugnaði að fá álit þessara aðila um afstöðu þeirra til málsins. Auðséð er, að öll meðferð þessa máls er hin furðulegasta og mun tæplega eiga sér hliðstæða sögu í málum þingsins um hliðstæð efni.

Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í þessari hv. d., benti ég á nokkur meginskilyrði, sem þyrfti að liggja ljóst fyrir hvort hefði verið fullnægt, svo að hægt væri fyrir hv. Alþ. að taka afstöðu í slíku máli eins og því, sem hér hefur verið flutt. Þessi skilyrði eru:

1) Að sveitarstjórnin óski eftir, að frv. sé flutt.

2) Að yfirgnæfandi meiri hluti íbúanna í sveitarfélaginu óski þess.

3) Að sýslunefndin velti frv. meðmæli sín. Ekkert af þessum skilyrðum lá fyrir, og ekkert af þeim liggur fyrir enn. Meira að segja það eina hálmstrá, sem hv. flm. frv. héngu í í sinni framsöguræðu og frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur líka reynt að hanga í, sem sagt undirskriftirnar, eru líka roknar út í veður og vind, með því að það hefur sannazt, að stór hópur af þeim mönnum, sem skrifuðu á þessa lista, hefur ekki haft rétt til þess að skrifa á þá sem kjósendur í Kópavogshreppi. Með flutningi þessa frv., sem flutt er í óþökk meiri hl. hreppsnefndar, er verið að fótumtroða allar vanalegar lýðræðisvenjur, eins og þær hafa hingað til verið túlkaðar og skildar af öllum almenningi. Enginn hefur leyft sér að halda því fram, að núverandi hreppsnefnd í Kópavogshreppi hafi ekki verið kosin á fullkomlega löglegan hátt; ekki einn einasti maður. Ég hef lesið flest það, sem hefur verið skrifað um þessi mál, frá því að deilurnar voru sem harðastar um sveitarstjórnarkosningar í Kópavogshreppi í fyrravetur og fram til þessa dags, og ég hef hvergi séð því hreyft eða séð í einni einustu blaðagrein dregið í efa, að kosningarnar, sem fóru fram 16. maí s.l., hafi verið í alla staði löglegar, enda hefur enginn leyft sér að halda því fram, að núverandi hreppsnefnd í Kópavogshreppi hafi ekki verið kosin á fullkomlega löglegan hátt. Mér vitanlega komu engin kæruatriði fram að kosningum loknum, og allir aðilar beygðu sig að sjálfsögðu undir dóm kjósendanna í hreppnum, sem m.a. sannast á því, að fulltrúar minni hl. tóku sæti í hreppsnefndinni án nokkurs fyrirvara. Ef eitthvað hefði verið við kosningarnar að athuga, þá liggur það í hlutarins eðli, sérstaklega þegar það er haft í huga, hvað þessar kosningar voru heitar, að það hefði ekki verið legið á því, ef hægt hefði verið að benda á einhverja agnúa í sambandi við kosningarnar. Hefði minni hl. talið eitthvað athugavert við kosningarnar, hefði hann að sjálfsögðu látið það koma fram opinberlega. Ekkert slíkt kom fram, eins og ég benti hér á áðan. Með flutningi þessa frv., eins og allt er í pottinn búið, er gerð hin grófasta árás á sjálfsagðan og löglegan sjálfsákvörðunarrétt hreppsfélagsins.

Hér leyfa sér m.a. tveir hæstv. ráðh. og annar þeirra sjálfur forsrh. að flytja frv., sem breytir algerlega því skipulagi, sem áður hefur ríkt í þessu byggðarlagi, og gerir að engu þær kosningar, sem fóru fram á algerlega löglegan hátt og vitanlega áttu að gilda að óbreyttu ástandi til fjögurra ára. Engin frambærileg rök eru færð fram í málinu. Engar sakir eru fram komnar eða fram bornar á meiri hluta hreppsnefndarinnar, engin vanræksla í störfum, engar ásakanir á meðferð fjármála. Öll meðferð þessa máls, allur undirbúningur þess einkennist af fljótfærni, fyrirhyggjuleysi og alvöruleysi. Aftur á móti hníga flest rök að því, að málið sé flutt til að þóknast nokkrum pólitískum gæðingum stjórnarflokkanna, sem ekki vildu una úrslítum síðustu sveitarstjórnarkosninga. Ef slíkar starfsaðferðir ættu að verða ráðandi, er orðið lítið eftir af hinu marglofaða lýðræði í okkar ágæta landi. Flutningur þessa frv., án þess að uppfyllt séu nauðsynleg og sjálfsögð skilyrði, er hreinasta hneyksli og móðgun við Alþ. að hafa lagt frv. þetta fram. Þó er frv. þetta fyrst og fremst hin mesta móðgun við íbúa Kópavogshrepps, sem í almennum kosningum kusu á löglegan hátt hreppsnefnd til 4 ára. Í þessu máli er það mjög táknrænt, að það er Sjálfstfl., sem fyrst og fremst hefur beitt sér fyrir þessu máli, en þó með ágætum stuðningi að minnsta kosti framsóknarmanna í Kópavogshreppi. Til að undirstrika stuðning sinn við flokksbræður sína í Kópavogshreppnum við málið hafa þeir fengið hæstv. félmrh. til þess að vera meðflm. að málinu. Það er svei mér ekki verið að fá minni spámennina í flokkunum til þess að flytja slíkt stórmál sem þetta, enda liggur nú mikið við.

Fyrir nokkru birtist grein í blaði framsóknarmanna hér, Tímanum, um Sjálfstfl. Í þessari blaðagrein var Sjálfstfl. lýst á heldur ófagran hátt sem ólýðræðislegum flokki, svo að ekki sé nú meira sagt. Sjálfstfl. var talinn að eðli, uppbyggingu og starfsaðferðum líkjast mjög mikið stjórnmálaflokkum afturhaldsins í Suður-Ameríku. Ekki var nú stutt róið á miðin. Gefið var í skyn, að slíkur flokkur mundi ekki hika við að beita ofbeldi, hvenær sem hann teldi sér það fært. Sérstaklega ef Sjálfstfl. fengi meiri hluta á Alþ., mundi hann misnota rétt sinn á hinn herfilegasta hátt og jafnvel ekki hika við að óska eftir erlendri aðstoð, ef hann teldi þess þörf. Ja, þetta er ófögur lýsing. Þetta er ekki lýsing okkar sósíalistanna á Sjálfstfl. Þetta er lýsing samstarfsflokksins á Sjálfstfl., og er þó mjög mikið úr henni dregið. – Ég skal nú taka það fram, að mér finnst að sumu leyti, að með flutningi þessa frv. hafi skoðun dagblaðsins Tímans reynzt nokkuð rétt, því miður. En eitt er þó mjög athyglisvert í málinu, og það er, að Framsfl. styður þó Sjálfstfl., sem blað Framsóknar stimplaði sem ofbeldisflokk, í því að flytja hér á Alþ. frv., sem er brot á öllum venjulegum lýðræðisvenjum, og allar forsendur fyrir frv. eru gerólíkar þeim frv., sem flutt hafa verið hér á Alþ. í hliðstæðum málum. Hvernig mundi nú Sjálfstæðisfl. haga starfsemi sinni, ef hann t.d. næði hreinum meiri hl. á Alþ.? Mundi flokkurinn starfa í anda almenns lýðræðis? Ja, mér finnst, að framkoma flokksins í þessu máli bendi til hins gagnstæða og af hendi Sjálfstfl. mætti vænta ýmissa þeirra ráðstafana, sem almennt eru taldar brot á lýðræði. Sú takmarkalausa frekja, sem Sjálfstfl. hefur sýnt í þessu máli, lofar ekki góðu, a.m.k. ef slík ógæfa skyldi henda Íslendinga að veita þessum afturhaldsflokki meiri hluta á Alþ. Íslendinga. Svo mikilli frekju er beitt í málinu af flm. frv., að flm. frv. munu ófáanlegir til að bíða eftir þeirri leynilegu atkvgr., sem fram á að fara n.k. sunnudag. Er nú ekki hér heldur langt gengið, eða hvað finnst hv. alþm.? Hvernig sem á þetta mál er litið, er það hin mesta óhæfa af fylgjendum frv. að knýja það í gegn, áður en hin leynilega atkvæðagreiðsla hefur farið fram og úrslit atkvgr. liggja fyrir.

Eins og þessu máli er nú komið, eru mjög litlar líkur fyrir því, að hægt verði að afgr. málið á Alþ. fyrr en á laugardag í fyrsta lagi, þ.e.a.s. nokkrum klukkutímum áður en hin leynilega atkvgr. á að fara fram meðal kjósenda í Kópavogshreppi. Sjá það nú ekki allir, sem vilja sjá, að hér er beitt alveg óvanalegum aðferðum? Og ég verð að segja það, að ég get ekki trúað því fyrr en ég tek á, að hv. alþm. láti hafa sig til slíkra aðgerða. Ég endurtek það, að ég get ekki trúað því, fyrr en ég sé sjálfur, að hv. alþm. greiði atkv. með því að afgr. málið á síðasta degi áður en leynileg atkvgr. á að fara fram í málinu, sérstaklega þegar það er upplýst, að þeir undirskriftalistar, sem hér hafa legið fyrir, eru ekki réttir og 224 af þeim mönnum, sem hafa skrifað á listana, eru ekki á kjörskrá.

Nú verður manni á að spyrja: Hvað veldur því, að flm. frv. leggja slíkt ofurkapp á það að fá málið afgr. frá Alþ. fyrir atkvgr. meðal kjósenda í hreppnum um málið? Það er engin leið að finna út aðra ástæðu fyrir slíku framferði, slíku ofurkappi en þá, að þeir séu hræddir um, að kjósendur í hreppnum muni vera andvígir málinu og fella það við atkvgr. á sunnudaginn kemur. Það eru engin önnur frambærileg rök til í málinu frá hendi þeirra manna, sem málið flytja, ef hægt er að kalla þetta rök. Sé þetta rétt og komi það í ljós, að meiri hluti kjósenda í Kópavogshreppi sé mótfallinn bæjarréttindum og óski máske eftir annarri tilhögun á málefnum sveitarfélagsins, væri það hið mesta glapræði af Alþ. afgr. frv., áður en fyrir liggur óumdeilanlegt álit íbúa hreppsins.

Ég tel rétt að athuga örlítið nánar, þó að það hafi verið gert reyndar mjög rækilega af þeim, sem hafa talað í málinu á undan mér, hvaða hagnað Kópavogsbúar mundu hafa af því að öðlast bæjarréttindi fram yfir það, sem þeir nú þegar hafa. Engin atvinnuaukning getur átt sér stað fyrir það eitt, þó að hreppurinn öðlist bæjarréttindi. Það er alveg útilokað. Bæjarfélag fær engar sérstakar fjárveitingar fram yfir hreppsfélögin.

Þá er rétt að athuga hina hliðina, þ.e.a.s. kostnaðarhliðina á málinu. Sumir af þeim mönnum, sem harðast hafa barizt fyrir þessu máli, sérstaklega utan þings, — það hefur lítið verið rætt um það hér á Alþingi, — hafa viljað halda því fram, að það sé engin skylda t.d. að hafa lögreglu í bæjarfélagi. Þetta er hin mesta og hin fáránlegasta fjarstæða. Samkv. lögum frá 12. febr. 1940 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr.: Ríkisstjórninni er heimilt, að fengnum tillögum bæjar- eða sveitarstjórnar, að fyrirskipa, að í bæjum (kaupstöðum og kauptúnum), þar sem eru 1000 íbúar eða fleiri, skuli vera allt að tveimur starfandi lögregluþjónum á hverja 1000 íbúa, enda sé lögreglustjóri þar búsettur.

2. gr.: Þar sem ríkisstjórnin gerir slíka ráðstöfun, skal ríkissjóður greiða 1/6 hluta kostnaðar við lögreglu og löggæzlu, þó eigi fyrr en að minnsta kosti einn lögregluþjónn kemur á hverja 700 íbúa“

Hér kemur það mjög skýrt fram í lögum, að bæirnir eru lögum samkv. skyldaðir til að hafa tvo lögregluþjóna á hverja 1000 íbúa. Ég veit ekki til þess, hver sem hefur annars farið með dómsvaldið, að nokkurn tíma hafi fengizt nokkur undanþága frá þessu ákvæði laganna fyrir eitt einasta sveitarfélag. Mér er kunnugt a.m.k. um, að það sveitarfélag, sem ég er frá, hefur farið fram á að þurfa ekki að hafa tilskilda tölu lögregluþjóna. Þessu hefur verið neitað hvað ofan í annað og því hótað jafnframt, að ef ekki væri fylgt lögunum út í yztu æsar, þá tæki ríkissjóður ekki þátt í að greiða þann 1/6 hluta af kostnaði við löggæzluna, sem áskilið er í lögunum. Og halda menn svo virkilega, að Kópavogshreppi, sem þá væri orðinn bær, verði veitt einhver sérstök undanþága í þessu máli? Nei, síður en svo. Þar er ekki að ræða um neina undanþágu. Það þekkjum við af gamalli reynslu.

Þessu til viðbótar verða svo að sjálfsögðu viðkomandi bæir að greiða mikinn hluta af kostnaðinum við aðra löggæzlu. Ríkið greiðir, eins og áður er tekið fram, aðeins 1/6 hlutann. Allan annan kostnað verður bæjarfélagið að sjálfsögðu að greiða, þar með talin nauðsynleg áhöld, sem lögreglan þarf að hafa, svo sem lögreglubifreið o.s.frv. Verði samþykkt að veita Kópavogshreppi bæjarréttindi, þarf ríkissjóður að kosta sérstakan lögreglustjóra. Auk þess þarf að byggja lögreglustöð og fangahús. Þá þarf hinn nýi bær að kaupa lögreglubíl og sjá um rekstur hans. Auk þess er ýmis annar kostnaður, sem að mestu leyti lendir á viðkomandi bæ, að öðru leyti en því, að ríkið greiðir að sjálfsögðu laun lögreglustjórans.

Þá þarf vitanlega ríkið að uppfylla sínar skyldur gagnvart þessu nýja bæjarfélagi. Það þarf að skipa sérstakan skattstjóra. Þar myndast nýtt embætti fyrir einhvern stjórnargæðinginn. Það verða sjálfsagt nógu margir til þess að hirða þann bitann. Þá verður ríkið að láta byggja símstöð og pósthús með tilheyrandi embættum.

Þetta Kópavogsævintýri gæti orðið alldýrt, kostað allálitlegan skilding fyrir ríkissjóð, en það er ekki horfandi í það, þegar svona stórmál er um að ræða, sem ríkisstj. virðist hafa gert að einu sinna aðalmála. Margvislegur kostnaður annar en við löggæzluna er samfara rekstri bæjarfélags. Og það verður ekki um það deilt, að það kostar mjög mikið að reka eitt bæjarfélag. Á það má benda, að það verður að ráða sérstakan bæjarstjóra. Sá bæjarstjóri geri ég ráð fyrir að þurfi að hafa skrifstofu, þar af leiðir náttúrlega stærra skrifstofupláss en nú er. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi að ráða eina 6–7 á skrifstofu, og hef ég þar í huga starfslið hjá öðrum bæjum, og má benda á það, að í bæ eins og Ísafirði, þar sem eru heldur færri en íbúar Kópavogshrepps eru, munu vera a.m.k. 6 eða 7, ef ekki fleiri starfandi menn á skrifstofum bæjarins. Sama er að segja um Siglufjörð og fleiri staði. Það er heill hópur af starfandi embættismönnum hjá bæjunum, og virðist vera yfirleitt erfitt að komast hjá því að hafa slíka tilhögun á málunum.

Þá er rétt í þessu sambandi að athuga, hvort í Kópavogi séu sérstök skilyrði til stofnunar sjálfstæðs bæjar. Allir þeir, sem til þekkja, vita, að þeir staðir úti á landi, sem öðlazt hafa kaupstaðarréttindi á undanförnum árum, eru vaxnir upp í kringum sæmilega góð hafnarskilyrði og margvíslegan atvinnurekstur, sem þróazt hefur þar í áratugi. Ég er ekki vel kunnugur því, hvernig hafnarskilyrði eru í Kópavogshreppi. Ég geri ráð fyrir því, að í Kópavogshreppi sé hægt með töluverðum tilkostnaði að byggja sæmilega höfn eða bryggju, það mun vera byrjað á því og mundi vera sjálfsagt að gera það, hvort sem byggðarlagið fær bæjarréttindi eða ekki. En eitt er víst, að þarna á þessum stað hefur a.m.k. fram til þessa tíma ekki vaxið upp sérstakur atvinnurekstur að neinu ráði. Flestir þeir staðir á landinu, sem öðlazt hafa bæjarréttindi, hafa t.d. mjög góð sambönd við nálæg landbúnaðarhéruð. Margir þeirra eru þannig í sveit settir, að landbúnaðarhéruðin hafa góð sambönd við bæina með góðu vegasambandi, en sumir ekki, og þeim bæjum, sem hafa ekki slík vegasambönd, stendur það mjög mikið fyrir þrifum. Að hafa góð sambönd við landbúnaðarhéruðin skapar að sjálfsögðu mjög mikla atvinnumöguleika og m.a. mikla verzlun. Engu slíku er til að dreifa með Kópavog. Það pláss er vaxið upp eins og hvert annað úthverfi Reykjavíkurbæjar, og það getur, að ég held, aldrei orðið annað. Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að ég beri nokkurt vantraust út af fyrir sig til þess fólks, sem býr í Kópavogshreppi. Mér finnst bara allar aðstæður vera þannig, að það muni vera mjög erfitt að byggja þarna upp sérstaklega fjölskrúðugt atvinnulíf. Og ég held, að Reykjavík verði fyrst og fremst sá staðurinn, sem sogar til sín yfirleitt það fjármagn, sem þarf til þess að byggja upp atvinnulífið. Það finnst mér að dæmin sýni deginum ljósara. Og að sjálfsögðu þurfa aðrir þeir bæir, sem þegar eru komnir vel á veg hér við Faxaflóa, mikið fjármagn til þess að halda í horfinu og auka sinn atvinnuveg frá því, sem nú er. Sérstaklega ef það er haft í huga, að einhvern tíma linnti því hernámi, sem nú er, þá gæti maður látið sér detta í hug, að þeir bæir og þeir staðir hér á Suðurlandi, sem að einhverju leyti hafa stuðzt við hernámsvinnuna, mundu þurfa að auka sitt atvinnulíf, ef ekki ætti að myndast atvinnuleysi þegar hernámsvinnunni lýkur, sem við vonum að verði sem allra fyrst.

Það er mjög mikið lagt upp úr því af vissum hópi manna, að Kópavogshreppi verði veitt bæjarréttindi eins og oft er búið að taka fram. Ég er einn af þeim, sem telja þetta vera mál, sem fyrst og fremst snertir íbúa Kópavogshrepps sjálfa, en hef þó mínar ákveðnu skoðanir á málinu. Ég tel t.d., að ef það er rétt, að það fari vel á því og það sé nauðsynlegt fyrir Kópavogshrepp að fá bæjarréttindi, þá væri það ekki meiri fjarstæða, þó að íbúar í Kleppsholti og í Vogunum t.d. krefðust þess að fá sérstök bæjarréttindi. Og hví þá ekki að stofna sérstakt bæjarfélag um Bústaðahverfi og Fossvog? Jafnvel gæti komið til mála að veita Seltjarnarneshreppi sérstök bæjarréttindi. Ja, hvað segja Reykvíkingar t.d. um það að veita öllum úthverfum Reykjavíkurbæjar sérstök bæjarréttindi og líða þar með Reykjavík í sundur í 4–5 bæjarfélög. Þetta gæti vel komið til mála. Það má ræða alla hluti. Það er hægt að finna rök fyrir svo að segja hverju einasta máli. Það er hægt að tína ótalmörg rök fram fyrir því, að það væri ekkert meiri fjarstæða að liða Reykjavík sundur og stofna þar fjögur eða fleiri bæjarfélög heldur en að veita Kópavogshreppi sérstök bæjarréttindi. Hví þá ekki að skipta Austur- og Vesturbæ í tvo bæi, skipta um Aðalstræti. Vesturbæingar tala alltaf um sig sem nokkurs konar bæjarfélag og Austurbæingar um sig sem sérstakt bæjarfélag o.s.frv. Nei, það væri ekkert meiri fjarstæða að samþykkja bæjarréttindi handa þessum sérstöku úthverfum Reykjavikurbæjar heldur en að veita Kópavogi bæjarréttindi.

Þá er rétt að athuga örlítið nánar, hvert mundi verða hlutskipti verkamanna og iðnaðarmanna eftir stofnun bæjarfélags í Kópavogshreppi. Ég tel það ekki minnsta atriðið í þessu máli. Eins og nú er högum háttað, hafa verkamenn og iðnaðarmenn, búsettir í Kópavogi, fullkomin vinnuréttindi í Reykjavík. Ég veit a.m.k. ekki annað en svo sé. Þessi réttindi eru, að ég tel, í yfirvofandi hættu, ef stofnað verður sérstakt bæjarfélag þar suður frá. Þetta sjá fleiri menn en ég. Til dæmis hefur yfir 70% iðnaðarmanna búsettra í Kópavogshreppi lýst því yfir, að þeir séu fylgjandi athugun á samkomulagi við Reykjavík um sameiningu byggðarlaganna, áður en lagt sé út í að stofna sérstakan kaupstað í Kópavogshreppi. Af hverju vilja þeir láta athuga sameininguna við Reykjavík áður? Af því að þeir eru hræddir um það, að þeir kunni að missa þau réttindi, sem þeir hafa til að standa fyrir húsbyggingum í Reykjavík.

Í þessu sambandi er vert að benda á, að engar líkur eru á því, að nokkur trésmíðameistari eða múrarameistari fái að standa fyrir byggingum í Reykjavík, ef hann er búsettur í öðrum kaupstað. Eða dettur nokkrum manni í hug t.d., að trésmíðameistari eða múrarameistari búsettur norður á Akureyri eða uppi á Akranesi, búsettur í Vestmannaeyjum eða búsettur í Hafnarfirði, fái að standa fyrir húsbyggingum hér í Reykjavík? Nei. Ég fullyrði, að það dettur engum í hug. Sú regla hefur gilt hingað til, að meistari með réttindum, sem flutzt hefur til Kópavogs, hefur haldið réttindum sínum til að standa fyrir byggingum í Reykjavík áfram, en meisturum búsettum í Kópavogi, er sótt hafa um ný réttindi, hefur verið neitað um það leyfi. Af hverju? Af því að þar er um annað sveitarfélag að ræða. Þetta er ósköp skiljanlegt og ekkert til að undrast yfir.

Bæði iðnfélögin og verkalýðsfélögin hafa látið félagssvæði sitt ná yfir Kópavogshrepp. Eftir að Kópavogshreppur fengi kaupstaðarréttindi, eru miklar líkur fyrir því, að á þessu yrði einhver breyting. Sérstaklega er mikil hætta á því, ef um atvinnuleysi yrði að ræða, t.d. í Reykjavík. Á þeim tímum, þegar atvinnuleysið var sem alvarlegast, bæði hér sunnanlands og annars staðar, — það er reyndar atvinnuleysi víða á Norður-, Vestur- og Austurlandi enn þá, því miður, — var það regla, að yfirvöld bæjanna og verkalýðsfélögin, þar með talin Reykjavík, auglýstu aðvaranir til verkafólks annars staðar frá um að koma í atvinnuleit til viðkomandi staða, þar sem óheimilt væri að taka aðkomuverkafólk í vinnu vegna atvinnuleysis á staðnum. Þetta er ósköp skiljanlegt og jafnvel sjálfsögð ráðstöfun á atvinnuleysistímum.

Halda menn virkilega, að t.d. Reykjavíkurbær færi að halda uppi atvinnubótavinnu fyrir Kópavogsbúa til jafns við Reykvíkinga, ef um atvinnuleysi væri að ræða? Ja, ég veit það ekki. Ég held ekki. Ég held, þrátt fyrir það að það séu ágætir menn, sem stjórna Reykjavík, ég er ekki að hnýta neitt í þá, það eru að sjálfsögðu góðir og gegnir menn, að fyrst og fremst mundu þeir hugsa um íbúa Reykjavíkurbæjar í þessu tilfelli og létu að sjálfsögðu íbúa Kópavogsbæjar sjá um sig. Hvert bæjarfélag telur það skyldu sína að reyna fyrst og fremst að sjá íbúum sínum fyrir atvinnu. Þetta er eðlileg og sjálfsögð skylda hvers bæjarfélags, og það er ekkert til að undrast yfir. Það má hins vegar vel vera, að Kópavogshreppur, sem þá væri orðinn bær, gæti í framtiðinni sjálfur séð íbúum sínum fyrir nægjanlegri atvinnu. Til þess þarf þó geysilegt átak, sem mundi taka líka langan tíma. Það er ekkert smáatriði, að í þessu plássi eru svo að segja engin atvinnufyrirtæki til. En þarna munu nú vera hátt í 3000 eða jafnvel yfir 3000 íbúar. Og það þarf mikið átak til þess að byggja upp viðunandi atvinnulíf fyrir svo stóran bæ. En það, sem hefur valdið því, að þarna hefur ekki verið farið inn á þá braut sérstaklega að byggja atvinnuvegina upp, er m.a. það, að alltaf hefur verið litið á þetta sem nokkurn hluta af Reykjavík, jafnvel þó að það væri sérstakt hreppsfélag, og íbúar í þessu hreppsfélagi hafa notið þeirra hlunninda að fá að sækja vinnumarkaðinn óhindrað hingað í Reykjavík. En það er, eins og ég hef þegar tekið fram, mikil hætta á því, að þessi hlunnindi yrðu af þeim tekin, í fyrsta lagi ef Kópavogshreppur fengi bæjarréttindi og þó sérstaklega ef atvinnuleysi héldi innreið sína aftur hér í höfuðborgina, sem við skulum út af fyrir sig vona að ekki verði. En eins og ástandi er háttað í atvinnumálum okkar í dag, verður aldrei bægt að fullyrða neitt um það, hvenær skellur hér yfir atvinnuleysi. Við búum í þjóðfélagi, þar sem ekkert atvinnuöryggi er til, þar sem hið opinbera jafnvel telur það ekki skyldu sína að sjá öllum landsins börnum, sem þurfa og vilja vinna, fyrir nægri atvinnu. Þetta er staðreynd, sem er gott að hafa í huga, þegar við ræðum þessi mál og önnur, sem snerta hliðstæð mál.

Hitt er svo jafnsjálfsagt, að íbúar Kópavogshrepps verða og eiga sjálfir að ákveða um þessi mál. Alþingi hefur engan siðferðislegan rétt til þess að skipa málefnum sveitarfélagsins nema að vilja þess fólks, sem þar býr. Þetta er mjög stórt atriði í málinu, að Alþ. leyfi sér ekki að fara að skipa sveitarfélögum fyrir verkum um það, á hvern hátt þeim er stjórnað og undir hvaða formum. Það er leið, sem hv. Alþ. hefur aldrei farið inn á nema eftir beiðni íbúanna sjálfra, eftir beiðni þeirra, sem bæjunum hafa stjórnað, og með samþykki viðkomandi sýslunefndar. Þetta er staðreynd, sem er ekki hægt að mæla á móti að er rétt. Allt annað væri tvímælalaust brot á okkar lýðræði og öllum þeim venjum og reglum, sem gilt hafa um hliðstæð mál því, sem hér liggur fyrir. Vilji hins vegar meiri hluti kjósenda í Kópavogshreppi fá bæjarréttindi, þá á að verða við þeirri ósk. Óski meiri hlutinn ettir annarri tilhögun þessara mála, t.d. að sameinast Reykjavík, ber að taka það mál upp til viðræðna við ráðamenn Reykjavikurbæjar. Vilji meiri hluti kjósenda óbreytt ástand, þá þeir um það. Þá skoðun hefur Alþ. enga heimild til þess að taka af íbúum Kópavogshrepps. Þeir eiga að hafa einir vald til að ráða því, hvernig og við hvaða stjórnarfar þeir búa, hvort þeir vilja heldur sameinast Reykjavík, hvort þeir vilja vera við það ástand, sem nú er, þ.e.a.s. hafa bara hreppsfélag, eða hvort þeir óska eftir sérstöku bæjarfélagi. Þetta er mál, sem þá eina varðar, og Alþ. getur ekki og hefur ekki leyfi til að blanda sér inn í þetta nema eftir beinni ósk þess fólks, sem þar býr.

Ég hef hér bent á, að öll nauðsynleg skilyrði þessu máli viðkomandi vantar. Hv. flm. að þessu frv. voru, mjög upp með sér af undirskriftasmöluninni, hún átti að sanna allt í þessu máli. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Í nál. minni hl. liggur fyrir staðfest vottorð frá borgarfógeta um, að hvorki meira né minna en 224 menn, sem skrifað höfðu nöfn sín á undirskriftalistana, eru ekki til á kjörskrá. Það verð ég að segja, að það hafa verið duglegir menn, sem gengið hafa með þessa lista í Kópavogshreppi, og þeir hafa ekki verið neitt að rannsaka hlutina nákvæmlega. Ég veit ekki, hvort það er rétt, en mér er sagt, að það sé fjöldi manns, sem sé búsettur hér og þar úti um allar byggðir landsins, sem hafi verið skrifaður á þessa lista. Ef öll meðferð í þessu máli er á líkum grunni reist sem undirskriftasmölunin, þá læt ég það bara vera. Og mér sýnist öll rök hníga í þá átt, að þannig sé það.

Ekki hafa hv. flm. leyft sér að fullyrða út af fyrir sig, að kjörskráin væri fölsuð. Það mátti kannske draga það að meiningu til út úr því, sem kom hér fram við umr. um þetta mál. Það hefði verið mjög létt verk fyrir þá hv. nefnd, sem fjallaði um þetta mál, að rannsaka kjörskrána og beinlínis fá úr því skorið, hvort hún væri rétt eða ekki. Mér er sagt, að sumir af þeim mönnum, sem um þetta mál hafa fjallað, telji, að það sé mjög rétt og alveg sjálfsagt að láta siðasta manntal ráða um það, hverjir hafi skrifað á þessa lista. Það er út af fyrir sig alveg ný skilgreining og ný skoðun, sem hér kemur fram, ný stefna, eða ég veit ekki hvað ég á að kalla það. Hingað til hefur það verið látið gilda og gildir nú við allar kosningar, að það er samin kjörskrá og hún fær löglega staðfestingu af viðkomandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd, og það er það eina plagg, sem hægt er að fara eftir. Og vitanlega er ekki hægt að taka undirskriftir, sem eru ekki byggðar á kjörskrá, alvarlega. Við vitum, að maður, sem er fluttur fyrir nokkrum vikum inn í viðkomandi pláss, er ekki kominn á kjörskrá, þó að hann telji sig vera kominn inn í sveitarfélagið.

Það hefur engin tilraun verið gerð til þess að rannsaka kjörskrána. Það hefur bara verið hvíslað um það í skúmaskotum hér og þar, að það væri margt við hana að athuga. Óg það mun meira að segja hafa komið fram á fundi ekki alls fyrir löngu, borgarafundi suður í Kópavogi, að einn af forustumönnum annars stjórnarflokksins vildi halda því fram, að kjörskráin væri ekki rétt. Hvað var hv. heilbr.- og félmn. að gera? Af hverju fór hún ekki fram á það að fá kjörskrána? Af hverju lét hún ekki rannsaka, hvort kjörskráin væri rétt eða ekki? Hvaða starfsaðferðir eru þetta, sem hv. meiri hluti hefur sýnt í þessu máli? Er hann í raun og veru að gera gabb að þm. með því að leggja nefndarálit eins og þetta hér fyrir? Ja, ég verð að segja, að ég tel, að þetta nál. sé alveg með endemum, það hafi ekki verið í öðrum málum, sem ég minnist, málum, sem jafnmiklar deilur hafa staðið um, útbýtt jafnómerkilegu og í alla staði ófullkomnu nál. og þessu nál., sem beinlínis er ekki neitt og verra en það. Meira að segja það, sem lofað er í nál., er ekki einu sinni staðið við. Það liggur ekki hér fyrir, svo að ég viti til, umsögn bæjarráðs Reykjavíkur, sem sagt er að þinginu muni berast undir meðferð þessa máls. Ég veit ekki annað en að málið sé hér á dagskrá, ég veit ekki annað en sé verið að ræða um málið, og hvar er umsögn bæjarráðs Reykjavíkur? Hvar er umsögn bæjarstjórnar Reykjavíkur um málið? Hvað er verið að lofa hér og svíkja það, sem búið er að lofa?

Nei, þessum hv. mönnum, bæði hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. og hv. flm., dettur ekki slíkt í hug. Þeir eru ekki að láta rannsaka neina hluti í sambandi við þetta mál. Hér skal bara nota pólitískt meirihlutavald stjórnarliðsins á Alþ. og berja málið í gegn, hvað sem öllum rökum liður. Til hvers er svo verið með allt þetta Kópavogsbrölt? Hvað er hér á ferðinni? Hverjum er verið að þjóna með flutningi frv. þessa á Alþ.? Ég fullyrði, að það er ekki verið að þjóna hagsmunum alþjóðar með þessu, síður en svo. Það er verið að þjóna óskum og kröfum nokkurra ágætra flokksmanna Sjálfstfl. og Framsfl., sem töldu sig hafa farið illa út úr síðustu hreppsnefndarkosningum. Það er mergurinn málsins. Þetta er kjarni málsins. Þetta er aðalástæðan fyrir því, að málið er flutt hér á Alþ., og ekkert annað. Það hefur ekkert skeð, síðan síðustu hreppsnefndarkosningar fóru fram 16. maí s.l., sem hefur gert nauðsynlegt að breyta um stjórnarhætti í Kópavogshreppi, annað en það, að núverandi minni hluti hreppsnefndar beið ósigur í kosningunum. Það er aðalatriðið, og við þann ósigur vilja þeir ekki una. Hvernig lízt mönnum á það, ef í hvert sinn sem einhverjir pólitískir forustumenn telja sig hafa faríð illa út úr kosningum, yrði það að viðteknum hætti, að þeir gætu farið með mál inn á Alþ. og þar fengju þeir flokksmenn sína til að flytja frv. til að ónýta kosningarnar og nota til þess meirihlutavald á Alþ. og þar með vitanlega fengju réttan hlut sinn að þeirra dómi? Ég verð að segja það, að þá færi að minnka glansinn á lýðræði hér á landi, ef slíkar aðferðir yrðu almennt teknar upp. En mér finnst, að einmitt með flutningi þessa máls sé verið að leiða hér asnann í herbúðirnar, og við vitum aldrei, hvað getur komið í kjölfar slíkra óþurftarmála eins og þessa máls, sem hér er flutt.

Það hefur mörgum fundizt að vinnubrögð hv. Alþ. í vetur hafi verið heldur léleg. Fjölmörg mál hafa legið hjá nefndum Alþ. óafgreidd um marga mánuði. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir forseta Alþ. hafa málin ekki fengizt afgr. frá n. Ég ætla ekki að fara að draga í efa, að hæstv. forsetar Alþ. hafi talað við n. og óskað eftir því, að mál, sem lægju hjá þeim, yrðu afgr., en það hefur bara ekki borið neinn árangur. Ég a.m.k. vil leyfa mér að halda því fram, þar til annað upplýsist, að hæstv. forsetar hafi orðið við áskorunum hinna mörgu þm., sem hafa óskað eftir því, að þau mál, sem þeir hafa flutt, yrðu tekin til afgreiðslu hjá n., en árangurinn hefur enginn orðið, það er víst. Nefndirnar hafa gert sér leik að því að liggja á fjölmörgum málum hinna ýmsu þingmanna. Sérstaklega hafa þm. stjórnarandstöðunnar orðið fyrir barðinu á starfsleysi nefndanna.

Þetta er út af fyrir sig ekkert nýtt fyrirbæri hér á hv. Alþ. Í tíð núverandi og fyrrverandi ríkisstj. hefur það verið föst regla meiri hlutans á Alþ. afgr. engin mál svo að segja frá þm. stjórnarandstöðunnar. Þetta er þeirra lýðræði. Það er ýmislegt, sem hægt er að færa undir þingræði og lýðræði, jafnvel að neita stjórnarandstöðunni um þann sjálfsagða rétt að fá mál sín afgr. á þinglegan hátt. En það er ekki hægt að tala um, að mál séu afgr. á þinglegan hátt, ef þau fást ekki aftur frá n., ef nefndirnar gera sér leik að því að liggja á þeim mánuðum saman án þess að afgr. þau.

Það hefur staðið hér yfir í þessum bæ og víðar reyndar á annan mánuð mjög hart verkfall. Það mál hefur ekki fengizt rætt nema lítils háttar utan dagskrár. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki talið sér fært að vera að ræða slík mál sem það, þó að 7 þús. manns sé í verkfalli, einhverju því harðasta, sem hér hefur verið háð á þessu landi. Það er mál, sem ríkisstj. virðist ekkert koma við. Hún hefur skipað sáttanefnd í málið án þess að aðstoða sáttanefndina á nokkurn hátt til að fá lausn deilunnar. Það er framlag ríkisstj. í það mál. Jú, hún hefur gert annað, hún hefur látið hagfræðinga sína semja álit og látið dreifa þeim út, birta í blöðum og útvarpi, álit, sem eru þannig úr garði gerð, að undravert er, að menn með ekki minni menntun en hagfræðimenntun skuli hafa látið setja nöfn sín undir slíkt. Hv. Alþ. hefur verið látið bíða eftir frumvörpum frá ríkisstj. mánuðum saman. Allan þennan tíma mátti heita, að Alþ. væri starfslaust. Alltaf var beðið eftir stóru málunum frá ríkisstj. Loksins komu svo stóru málin, þ. á m. frv. til l. um bæjarstjórn í Kópavogi.

Loksins fékk Alþ. mál, sem vert var að tala um. Málið var flutt af sjálfum hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. Það var ekki verið að velja af verri endanum með flutningsmennina.

Þetta stórmál skyldi nú keyrt í gegn, hvað sem á gengi. Nú skyldi meiri hl. hreppsnefndar Kópavogshrepps verða að láta í minni pokann. Það var aðalatriðið. Það stendur náttúrlega ekki í frv., en þetta er andinn. Þetta er það, sem meint er. Hvað varðar ríkisstj. um verkfall 7 þús. verkamanna og kvenna í Reykjavík, sem búnir voru að vera í verkfalli í 11/2 mánuð? Það var mál, sem kom ríkisstj. ekki mikið við að hennar dómi. Hvað varðar hana um verkafólk, 7 þús. verkakarla og verkakerlingar, þegar annað eins stórmál var komið á dagskrá og bæjarstjórn í Kópavogshreppi?

Þetta Kópavogsmál sýnir okkur allvel starfshætti hæstv. ríkisstj. Nú er þetta fræga mál tekið á dagskrá dag eftir dag, og það eru hafðir kvöldfundir eftir þörfum. Ekkert er til sparað að koma þessu ástfóstri hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. í gegn. Í gegn skal það fara, hvað sem það kostar. Öllu skal fórnað, öllum málum er til hliðar hrundið fyrir þessu mikla hagsmunamáli, þessu mikla ástfóstri hæstv. ráðh.

En sjálfir láta flm. ekki mikið sjá sig hér á fundum í d., þegar málið er á dagskrá. Þeir telja sig örugga um framgang málsins, hvort sem þeir eru við eða ekki. Þeir eru alveg öruggir um að koma því fram með flokksvaldi.

Ég veit ekki um það, hvort þm. stjórnarflokkanna eru sérstaklega hrifnir af þessu máli.

Engin sérstök hrifning hefur komið fram hér, ekki elnu sinni í framsöguræðu meiri hl. heilbr.- og félmn. Frsm. var ósköp hógvær í sinni framsögu, og hann er það nú yfirleitt í málflutningi, en mér fannst hv. alþm. vera sérstaklega framlágur, þegar hann var að halda sína framsöguræðu um þetta mál. Það var eins og hann vantaði alla hrifningu með málinu. Þegar stórmál eru á ferðinni, þá þurfa þeir, sem tala fyrir þeim, að tala af hrifningu, sýna hv. alþm. fram á, að hér sé í raun og veru um stórmál að ræða, hér sé mál, sem alþjóð varðar, hér sé alþjóðarheill í voða, ef slík mál fari ekki í gegn eins og hér um ræðir, en alla slíka hrifningu hefur vantað í málflutning þeirra hv. þm., sem hafa mælt með þessu frv. Og þó alveg sérstaklega vantaði þessa hrifningu, þennan áhuga, sem einmitt hefur auðkennt oft hæstv. forsrh. í málflutningi hans fyrir hinum ýmsu málum. Mér fannst hann ósköp framlágur, hæstv. forsrh., þegar hann var að flytja þetta mál hér í d., og er ég ekkert hissa á því, eins og allt er í pottinn búið.

Sjálfsagt munu hv. stjórnarþm. greiða atkv. með frv. Hins mætti þó vænta, að hv. alþm., hvort sem þeir eru í stjórnarlíðinu eða ekki, gætu fellt sig við frestun á málinu þar til eftir helgi, en þá liggja áreiðanlega fyrir úrslít atkvgr. þeirrar, sem fram á að fara 24. apríl næstkomandi.

Ég verð að segja það, að svo mikið álit hef ég á þessum hv. alþm., að ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að þeir láti sig henda slíka reginvillu og vitleysu að keyra málið í gegn nokkrum klukkutímum áður en atkvgr. á að fara fram. Ég er alveg viss um, þó að maður tæki sig til og læsi alla þingsöguna í gegn, sögu Alþ. frá fyrstu hendi, þá væri engin hliðstæða til sambærileg við það og ef ætti að fara að keyra þetta mál í gegn t.d. á laugardaginn, þ.e.a.s. nokkrum klukkutímum áður en atkvgr. á að fara fram um þetta mál á meðal kjósenda í viðkomandi sveitarfélagl. Ég vil endurtaka það, að ég trúi því ekki fyrr en ég sé hv. alþm. rétta upp hendurnar með því að koma málinu í gegn, áður en atkvgr. fer fram.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að ég hef viljað láta álit mitt í þessu máli koma fram á sem allra skýrastan hátt, vegna þess m.a., að hér er um að ræða mál, sem er alveg einstakt í sinni röð. Hér er lagt til, að réttkjörin sveitarstjórn sé svipt löglegu umboði sinn án nokkurs tilefnis og á móti vilja meiri hl. sveitarstjórnar. Þessu frv. fylgja ekki tilskilin og nauðsynleg meðmæli viðkomandi sýslunefndar, og ekki liggur heldur fyrir álit meiri hl. íbúa sveitarinnar í málinu. Slíkum starfsaðferðum vil ég mótmæla. Þær eru í alla staði óeðlilegar og eiga ekkert skylt við það, sem við í daglegu tali köllum lýðræði, eiga ekkert skylt við það, sem áður hefur gilt um hliðstæð mál, sem flutt hafa verið hér á hv. Alþ. á undanförnum árum. Og ég vil endurtaka það: Ég vildi mega vænta þess, að Alþ. gætti það vel virðingar sinnar, að það léti sig ekki henda það að troða á eigin samþykktum og eigin stefnu með því að samþ. þetta frv., áður en fyrir liggur sú atkvgr., sem fram á að fara n.k. sunnudag.