19.04.1955
Neðri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist vera fylgt allfast eftir við meðferð þessa máls af hálfu flm. þess að koma því hér í gegn, en þeir leggja því þó sjálfir lítið lið. Og ég vil leyfa mér að átelja þá meðferð, sem höfð er í sambandi við þetta mál af hálfu forseta, að hafa nú kvöldfund um mál eins og þetta. Það væri skiljanlegt, ef hér væri um að ræða stjórnarfrv., sem eðlilegt er að forseti, sem ætið er kjörinn af stjórnarliði, mundi reyna að sjá um og beita til þess öllum þeim venjulegu aðferðum, sem bann telur færar, til að fylgja eftir. En hér er ekki um að ræða stjórnarfrv. Hér er um að ræða venjulegt þingmannafrv., sem hefur raunverulega engin réttindi fram yfir önnur venjuleg þmfrv., mitt eða einhverra annarra. Þó að það séu tveir ráðh. af þeim þm., sem flytja þetta mál, þá flytja þeir ekki þetta mál sem ráðh. Þeir flytja þetta mál, annar sem þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu, hinn sem þm. Skagafjarðarsýslu, og þetta mál hefur engin þau sérréttindi, sem stjórnarfrv. er veitt í þinginu, hvað snertir afbrigði eða annað slíkt. M.ö.o.: Í þessu tilfelli eiga þessir þm., sem flytja þetta mál, að sitja við sama borð og aðrir þm., og þeir eiga að sætta sig við það. Ef þeir vildu láta þetta mál njóta þeirra sérréttinda, bæði lagalegra og siðferðislegra, sem stjórnarfrv. hafa, þá gátu þeir flutt þetta sem stjórnarfrv., og það er ekki sæmilegt af hálfu flm. þessa frv. að leyfa sér að vera ekki viðstaddir og þora ekki sjálfir að taka til máls um eigin frv., þegar það kemur frá n. Það er ekki viðkunnanlegt, jafnvel þó að það séu ráðh., og þó að það sé siður ráðh. að vera yfirleitt ekki í þingsölum, þá er það ekki viðkunnanlegt, þegar þeir sem þm. flytja frv. Það hefur t.d. þótt sú minnsta kurteisi, sem þm. gæti sýnt, sem flytur mál hér á Alþ., að þegar n. skilar slíku frv. og ég tala nú ekki um þegar meiri hl. hennar mælir með því, að hann a.m.k. standi þó upp til þess að þakka meiri hl. n. fyrir að hafa afgr. þetta mál. Ekki einu sinni svo mikið er haft við af hálfu flm. þessa frv., þeirra hv. þriggja þm., sem það flytja.

Yfirleitt virðist svo sem þetta frv. eigi hér formælendur fá, það fæst enginn maður, ekki einu sinni flm., til að standa upp til að mæla með því. Og hvernig var við 1. umr. þessa máls um þeirra framkomu og sérstaklega 1. flm., hæstv. forsrh.? Ég tók þetta mál fyrir við 1. umr. málsins og flutti um það eina ræðu, eina einustu ræðu, og ég taldi mig taka málið allmálefnalega og hrekja, eins og ýmsir aðrir líka gerðu, innihald þess og sýna fram á vissar falsanir, sem hv. minni hl. heilbr.- og félmn. nú hefur fengið staðfestar með „notarial“-vottorði. Og ég tók alveg sérstaklega fyrir þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. hafði gefið og var mjög merkileg yfirlýsing um leynilega atkvgr. annars vegar og opinbera atkvgr. hins vegar, og sýndi fram á, hvað í þessu fælist. Hvað gerist svo við þessa 1. umr.? Jú, það gerist það, að 1. flm. málsins, hæstv. forsrh., treystir sér ekki til þess að svara neinu af þeirri gagnrýni, sem kom fram á frv. Hann skrapp í sinni ræðu austur til Moskva, og ég skal koma nánar að því síðar, flúði síðan af fundi, hefur ekki sýnt sig síðan í sambandi við umr. um málið og hefur ekki sýnt sig hér í dag við 2. umr. þessa máls. Ég er óvanur slíkum bardagahætti af hálfu hæstv. forsrh. Hann er sá þm. stjórnarliðsins, sem er þó venjulega einna vígreifastur eða til í að ræða málin og jafnvel skammast um þau, og það kemur ekki fyrir, að hann geri slíkt sem að flýja gersamlega af hólmi, nema því aðeins að hann finni sjálfur, að hann hafi orðið sér til skammar, hann sjái, að hann hefur verið flæktur inn í að flytja mál og ætla að kúska fram mál í þinginu, sem ómögulegt er að verja. En eftir að hann er orðinn sér þannig til skammar, hefði honum verið nær að segja við sína flokksbræður í Kópavogi: Ég kem ekki nærri þessu máli meir, þegar þið hafið farið svona að. Þið hafið sýnt mér óvirðingu sem forsrh. og þm. kjördæmisins, og ég hendi þessu í ykkur aftur. — En í staðinn kemur hann hér, eða réttara sagt kemur hann ekki hér, heldur segir sínum mönnum: Setjið þið nú þetta í gegn, því að ég skammast mín fyrir að koma nærri því. — Hvers konar framkoma er þetta og það af hæstv. forsrh., sem sjálfur talar svo við 1. umr. þessa máls öll ósköp um, að þetta frv. sé flutt af lýðræðisflokkunum og fulltrúum lýðræðisflokkanna og það sé til þess að framfylgja þeim eina sanna anda lýðræðisins í okkar landi.

Mér liggur við að spyrja: Til hvers hefur verið barizt fyrir málfrelsi á undanförnum áratugum í heiminum og hér á Íslandi, ef þeir menn, sem ætla sér að fá fram mál hér á Alþ., treysta sér ekki orðið lengur til þess að nota það málfrelsi, sem þeir hafa til þess að vinna að framgangi þeirra, ef handjárnin ein eiga að duga?

Ég held þess vegna, að það sé mjög rangur metnaður, sem hæstv. forsrh. hefur lagt í það að pína þetta mál fram, og að það sé mjög misráðið að beita því offorsi, sem nú er beitt með að halda næturfund eftir næturfund til þess að knýja mál eins og þetta í gegn.

Mér þykir mjög slæmt, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera staddur hér. Þó að hann hafi ekki svarað þeirri rökstuddu gagnrýni, sem ég kom fram með við 1. umr. þessa máls, í þeirri ræðu, sem hann hélt, og það af góðum og gildum ástæðum, af því að hann treysti sér ekki til þess, þá kann ég þó ekki við annað, sumpart upp á góðan og gamlan kunningsskap og sumpart af því að hann er þó forsrh. í augnablikinu, en að svara því ágæta tilboði, sem hann var að gefa mér. Ég hefði svarað því við 1. umr., ef hann hefði ekki sjálfur verið farinn af fundi, þegar þar kom að, og ég hélt, að við 2. umr. málsins mundi hann þó a.m.k. sýna sig. En við þá seinni ræðu, sem hann hélt við 1. umr. málsins, byrjaði hann og endaði á því sama. Hann endaði á því að bjóða mér, að ríkisstj. sendi mig til Moskva, kostaði för mína fram og aftur, og ég skyldi þar flytja þá ágætu ræðu, sem honum fannst ég halda hér um ágæti lýðræðisins, fyrir æðstu mönnum Sovétríkjanna. Það er ekki daglega, sem maður fær svona tilboð frá hæstv. ríkisstj. og það frá sjálfum forsrh., og það væri nú skárri ókurteisin, ef maður ekki í fyrsta lagi svaraði slíku tilboði og í öðru lagi þakkaði kærlega fyrir sig. Ég vil að vísu segja, að það er ekki í fyrsta skipti, sem hæstv. forsrh. býður mér að senda mig til Moskva eða sendir mig þangað; ég hef farið slíkar ferðir fyrir hann áður, ekki aðeins til Moskva, heldur til fleiri höfuðborga. Í það skiptið var verkið, sem hann fól mér að gera, að boða þar austur frá, bæði í Helsingfors og Moskva og Varsjá og Prag, ágæti hins íslenzka fisks og hve heppilegt væri fyrir þessar þjóðir að taka upp viðskiptasambönd við Ísland og hve það gæti orðið til gagnkvæmra hagsmuna fyrir báða aðila, að þessar þjóðir færu að kaupa íslenzkan fisk. Það varð góður árangur af þeirri för, sem hann bauð mér að fara þá og ég fór, og við búum að þeim árangri enn þá. Nú býður hann mér að fara til Sovétríkjanna, til Moskva, til þess að boða ágæti lýðræðis og lýðréttinda þar, og í þetta skipti á ég ekki að tala við neina verzlunarfulltrúa eða neina slíka þar, heldur við sjálfa æðstu menn Sovétríkjanna, og ég verð að segja það, að ég þakka ákaflega mikið fyrir það traust, sem hæstv. forsrh. sýnir mér með því að ætla mér svo virðulegan starfa, og tek því með miklum þökkum.

Nú þykist ég vita, að hæstv. forsrh. hefur athugað það mál mjög vel, hvernig hann ætlaði að koma því fyrir, að ég fengi að flytja, að því er mér skilst í nafni Alþingis Íslendinga, þann boðskap um lýðræði og lýðréttindi, sem hann sagði að ég hefði flutt svo vel hér, fyrir æðstu menn Sovétríkjanna. Það er vafalaust ekki auðhlaupið að þessum körlum, svo að það hefur vafalaust verið vel athugað hjá forsrh. Íslands, áður en hann setti þetta tilboð fram, því að hann veit af gömlum vana, að þegar hann biður mig um svona hluti, þá hef ég venjulega reynt að bænheyra hann. Hann veit sem sé, að alveg nýlega er komið til ríkisstj. sérstakt tilboð, og það tilboð hefur verið frá ríkisstj. síðan sent hingað til forseta Alþ. og af forsetum Alþ. sent til flokkanna á Alþ., og jafnhliða hefur svo verið útbýtt hér til allra alþm. yfirlýsingu frá Æðsta ráði Sovétríkjanna og í þessari yfirlýsingu Æðsta ráðs Sovétríkjanna, sem okkur hefur borizt eftir tveim leiðum, stendur m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„.Æðsta ráðið telur, að bein tengsl milli þjóðþinga, skipti á sendinefndum þingmanna sem og ávörp slíkra sendinefnda á þingum annarra þjóða væri í fullu samræmi við óskir þjóðanna um eflingu vinsamlegra samskipta og samvinnu.“

Ég sé þess vegna alveg, hvað það er, sem hæstv. forsrh. hefur haft í huga, þegar hann gerir mér þetta ágæta tilboð, að flytja þessa ræðu frammi fyrir æðstu mönnum Sovétríkjanna. Hann hefur þarna fyrir sér tilboð frá Æðsta ráði Sovétríkjanna um, að sendinefndir, sem séu sendar á milli þjóðþinganna, ávarpi þing þjóðanna og fái þannig tækifæri til að segja þeim ýmsa góða hluti, og mér virðist líka þetta vera eina tækifærið, sem hæstv. forsrh. getur haft í huga, þegar hann gerir mér þetta tilboð. M.ö.o.: Ég geri ráð fyrir, að það verði að vísu ekki ég einn, sem verð sendur, enda álít ég, að það væri mjög viðeigandi, að það væri frítt föruneyti, sem færi héðan af alþingismönnum, en mér finnst bókstaflega felast í þessu, að hæstv. ríkisstj. óski alveg sérstaklega eftir því, þegar t.d. okkar forsetar ávarpa þar þing Sovétríkjanna, þá fái ég að flytja þar alveg sérstaklega ræðu um ágæti lýðræðis og lýðréttinda, og eftir að hæstv. forsrh. nú hefur gert þetta tilboð, þá vona ég, að þetta verði munað, þegar þar að kemur.

Mér þykir mjög leitt, að hæstv. forsrh. skuli nú ekki vera hér til þess að taka undir þetta og lýsa ánægju sinni yfir því, að ég skuli hafa orðið við þessari bón hans. En hitt vildi ég segja við hann, að til þess að geta talað af þeim krafti, sem honum fannst ég gera hér við 1. umr. málsins, þarf ég að geta verið það stoltur af lýðræðinu í framkvæmd heima hjá okkur og meðferð Alþingis á því, að það hafi ekki verið beint, rétt áður en slík sendinefnd fer og áður en ég á eftir hans ósk að fara að flytja ræðu um ágæti okkar lýðræðis þar eystra, verið að misþyrma því lýðræði hér heima hjá okkur. M.ö.o.: Ég álít, að hann þurfi að sjá til þess, að það sé ekki farið að beita því valdi, sem virtist vaka fyrir honum við 1. umr. þessa máls, að hann láti meiri hl. pína þetta mál í gegn og hunza eða brjóta á bak aftur lýðræðislegan vilja kjósendanna í Kópavogshreppi og þeirra sjálfsforræði, sem þeir eins og aðrir hreppar í Íslandi hafa haft um svo langt bil. Ég vildi gjarnan, ef ég á að fara að tala fyrir hann þar eystra í Moskva um ágæti lýðræðisins, að hann forðaði því, að það yrði búið að setja þann blett á það, sem meiningin var að setja með því að pína þetta frv. fram á móti vilja meiri hl. í Kópavogshreppi. Þess vegna vil ég leyfa mér að vonast til þess, að það verði hætt við að pína þetta frv. fram fyrir atkvgr. 24. apríl og það verði gert meira; það verði hætt við allar þær fyrirætlanir, sem fólust í yfirlýsingu hæstv. forsrh. um að þurrka út leynilegar atkvgr. á Íslandi og að fara að gera undirskriftasafnanir að rétthærri framkvæmd á vilja fólksins en leynilegar atkvgr.

Hæstv. forsrh. gaf við 1. umr. þessa máls yfirlýsingu, þar sem hann sagði: Ég held, að það sé beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins að lofa því að greiða atkv. opinberlega, og það er það búið að gera. — Þetta var hans yfirlýsing. Og frá þessari yfirlýsingu gat hann ekki hlaupið í sinni ræðu við 1. umr. þessa máls, þó að hann reyndi að fara í kringum hana. En mér sýnist, að enn þá sé þó ekki búið að ganga þannig frá þessu máli, að tryggt sé, að vilji fólksins í Kópavogshreppi fái að njóta sín á eðlilegan og lýðræðislegan hátt við leynilega atkvgr. Hvað hefur sem sé gerzt, eftir að hæstv. forsrh. gaf þessa yfirlýsingu og þar með formaður Sjálfstfl., að undirskriftir, þ.e.a.s. opinber atkvgr., væru rétthærri að sínu áliti og lýðræðislegri en leynileg atkvgr.? Það hefur gerzt, að nokkrir af æstustu meðmælendum þessa frv., þ.e. í Kópavogshreppnum, hafa lýst því yfir, að atkvgr. 24. apríl væri skrípaleikur og að atkvgr. 24. apríl væri skollaleikur, — skollaleikur kommúnista, eins og þeir komust að orði. M.ö.o.: Það hefur orðið vart þeirrar tilhneigingar að reyna að fæla menn frá því að greiða atkv. á sunnudaginn kemur í Kópavogshreppi.

Nú vil ég biðja menn að athuga, hvað verið er að gera með þessu tvennu. Fyrst er sagt af hálfu forsrh.: Ef fólkið lætur í ljós sína skoðun með opinberum undirskriftum, þá er það rétthærra en leynileg atkvgr. — Síðan er sagt af ofstækisfullum fylgjendum þess frv., sem hér liggur fyrir: Þeir menn, sem taka þátt í atkvgr. 24. apríl í Kópavogi, eru að taka þátt í skollaleik kommúnista. — Það á að reyna að fæla fólk á þennan hátt frá því að taka þátt í leynilegri atkvgr., sem hreppsnefnd í einum hreppi gengst fyrir. Hvað er verið að reyna að gera þarna? Það er verið að reyna að gera þá leynilegu atkvgr., sem á að fara fram, opinbera með því að reyna að sjá um, að það fari helzt ekki aðrir á kjörstað en þeir, sem ætla megi að væru fylgjandi því t.d. að sameina Kópavog Reykjavík, þannig að það væri hægt þannig að vinza úr, hverjir það væru, sem væru mótfallnir því frv., sem hér er um að ræða, m.ö.o. að reyna að hindra menn í að taka þátt í leynilegri atkvgr. til þess á þennan hátt að gera hina leynilegu atkvgr. raunverulega opinbera. Þessar aðferðir ná ekki nokkurri átt, fyrst að ganga með undirskriftaskjal og segja mönnum að skrifa undir það, síðan að lýsa því yfir hér á Alþingi, að slíkar undirskriftir séu hin raunverulega atkvgr. og rétthærri en leynileg atkvgr., og síðan að reyna að hindra menn í því að taka þátt í leynilegri atkvgr. og stimpla hana sem skrípaleik og skollaleik.

Með þessu er verið að grafa grunninn undan lýðræðinu. Með þessu er verið að eyðileggja leynilegar atkvgr. Þetta nær því ekki nokkurri átt. Þetta verður að koma í veg fyrir, og ef það tekst með þeirri skörpu gagnrýni, sem þetta frv. eðlilega hefur fengið hér í þinginn, að hindra, að það verði orðið að lögum fyrir 24. apríl, þá þarf að sjá um, að þær ólýðræðislegu aðferðir, sem nú er verið að reyna að beita til þess að hindra menn í því að taka þátt í atkvgr. 24. apríl, heppnist ekki. En það er eftirtektarvert hins vegar, hve lítt málsvarar þessa máls treysta á lýðræði, á sjálfstæðan vilja, á málfrelsi og venjulega framkvæmd á atkvgr. hér á Íslandi við að framkvæma og koma í gegn sínu máli.

Ég ætla svo að láta útrætt um afstöðu hæstv. forsrh. og þeirra fhn. málsins. En ég get ekki stillt mig um að minnast á smáhlut, sem mér fannst hálfskrýtinn, í því blaði, sem er gefið út í Kópavogi og heitir Kópavogstíminn, hinn 14. apríl, þ.e. síðasta fimmtudag, þar sem það gefur dálitla hugmynd um, hvernig þessir menn hugsa, sem þar í heimahögunum standa að þessu máli. Þessir menn skýra þar frá því, það er aðalfyrirsögnin hjá þeim, fimm dálka fyrirsögn á forsiðunni um þetta mál, og er sagt í fyrirsögninni: Látum ekki málþóf og skollaleiksatkvgr. kommúnista blekkja okkur. — Síðan er sagt: Kommúnistar reyna að tefja kaupstaðarréttindamálið með málþófi á Alþingi. — Þetta er í tvennum fyrirsögnum. Síðan er sagt í feitletruðum inngangi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hafa kommúnistar á Alþingi, einkum Einar Olgeirsson, haldið uppi miklu málþófi um málið til þess að tefja það í þeirri von, að það dagi uppi.“ — Og svo er sagt í greininni sjálfri: „Þess í stað hafa kommúnistar á Alþingi gripið það örþrifaráð að þæfa um formgalla og annað snertandi undirskriftirnar.“

Þetta er það, sem þessi Kópavogstími hefur að segja um 1. umr. þessa máls. Og nú vil ég taka það fram, að við 1. umr. þessa máls flyt ég eina ræðu, eina einustu ræðu, og tveir aðrir af þm. Sósfl. eina ræðu hvor. Þetta kalla þessir menn málþóf. Ég svaraði ekki einu sinni forsrh. þetta kvöld, af því að hann var farinn.

Ég vil aðeins segja þessum mönnum, sem svona skrifa um mál og kalla mikið málþóf, ef haldin er ein ræða t.d. af minni hálfu, að þeir ættu að fá að kynnast því, hvað málþóf væri. Það er yfirleitt svo, að það er ekki gripið til þess hér á Alþingi, og ég vil segja það alveg hreinskilnislega, að ég held, að ef stjórnarandstaðan yfirleitt gripi til þess að stunda málþóf, þá dygði ekki árið til þess að koma stjórnarfrv. í gegn, hvað þá fleirum. Sannleikurinn er, að venjulegast er þannig háttað hér í þinginu, ekki ólíkt jafnvel og er nú í nótt, að meira að segja við atkvgr. um stjórnarfrv. mætir í fyrsta lagi ríkisstj. sjálf svo illa og venjulega þar að auki stjórnarliðið sjálft, að hvað eftir annað komast þessi frv. ekki í gegn öðruvísi en að stjórnarandstæðingar hjálpi til þess, jafnvel þá, ef þeir eru á móti málunum, með því að greiða atkv. á móti þeim. Það er þess vegna ekkert fjær en að ásaka yfirleitt stjórnarandstöðuna um málþóf í sambandi við þau mál, sem samþ. hafa verið hér í þinginu. Ég held, að það væri nær fyrir ríkisstj. að þakka stjórnarandstöðunni fyrir þá samvinnu og fyrir það langlundargeð, sem hún yfirleitt sýnir í því að aðstoða við, að það sé hægt að halda uppi yfirleitt þingfundum, að það sé hægt að samþ. mál í þinginu, að það sé hægt að afgr. mál í þinginu, og ráðh. mætti gjarnan sýna ofur lítið meiri kurteisi en þeir gera í því að ræða þau mál, sem stjórnarandstaðan óskar eftir að ræða við ráðh. Hins vegar virðast mér skrif eins og þarna eiga sér stað í þessum Kópavogstíma bera vitni um, að þeir menn, sem þar heima í héraði leggja svona mikla áherzlu á að véla sína forustumenn eins og hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. út í að flytja annað eins frv. og það, sem hérna liggur fyrir, séu haldnir slíkum oflátungshætti, að þeim bókstaflega finnist það ósvífni, ef einn alþm. vogar sér að halda eina ræðu um mál, sem þeir sjálfir, einhver Hannes eða einhver „idiot“ í Kópavogshreppi, leyfa sér að láta sér detta í hug að sé sjálfsagt að fari í gegn. Þetta er að verða „týpískt“ fyrir, hvers konar hugsunarháttur ríkir hjá þessum mönnum, sem eru aldir upp sem skjólstæðingar núverandi ríkisstj. og halda, að þeir geti fyrirskipað Alþ. hvað sem þeim þóknast, og voga sér að fara að tala um málþóf, ef einn alþm. heldur eina ræðu, þegar hann hefur eftir stjórnarskránni og þingsköpum rétt til þess að halda tvær og athugasemdir þar að auki.

Mig skal að vísu ekki undra, þó að svona oflátungsháttur komi fram hjá þeim stjórnarkálfum, sem eru þannig ofaldir, að þeir bókstaflega ofmetnast af þeim frama, sem þeim er sýndur. Ég hef það fyrir satt, að sá maður, sem ég held að sé á oddinum af hálfu Framsfl. í Kópavogshreppnum í þessu, hafi fyrir síðustu kosningar verið gerður eins konar lénsmaður félagsmálaráðherra til þess að úthluta þar lóðum ríkisins, gripið fram fyrir hreppsnefnd og alla venjulega aðila. Og hann fer að sletta sér fram í, hverjir það séu, sem eigi að fá lóðir þarna, rétt eins og það sé jarðeigandinn, þó að það í þessu tilfelli sé ríkið, sem eigi að ráðstafa lóðum í hreppum á Íslandi. Og þessi sami maður, sem er lénsmaður hvað lóðir snertir fyrir félmrh., kemur svo þarna fram sem umboðsmaður fyrir þann umboðsmann, sem á að úthluta lánum til smáíbúða, líka fyrir hreppsnefndarkosningarnar. Mig skal ekki undra, þegar farið er að ala pólitíska gæðinga á þennan hátt með því að tvinna svo að segja saman að veita þeim lénsvald skyldast aðalstímabilinu og eins konar lánveitingavald frá tímum bankavaldsins, þó að það sé ef til vill hægt að pína þá einhvern veginn inn í hreppsnefnd. En það fer að færast skörin upp í bekkinn, ef þessir menn ætla að fara að tala gagnvart Alþ. eins og þeir hafi eitthvert vald gagnvart því. Ég verð þess vegna að segja það, að svo lélega sem flm. þessa máls hafa haldið á sínum málstað hér á Alþ., hér í þingsölunum, þá standa þeir sig auðsjáanlega ekki betur mennirnir, sem eiga að berjast heima í héraði fyrir þessum málum.

Þá hefur verið gripið til þess ráðs, þegar ekki þótti vænlegt að leyfa íbúum Kópavogshrepps að kveða sjálfir á með leynilegri atkvgr., hvaða hátt þeir vildu hafa á stjórn síns samfélags í framtíðinni, og þegar ekki heldur þótti rétt að láta hreppsnefndina í Kópavogshreppi og sýslunefndina gefa sínar skriflegu yfirlýsingar til heilbr.- og félmn. í heild, að vísa málinu til bæjarráðs Reykjavíkur. Það er nú dálítið furðulegt að ætla að fara að knýja fram umsögn frá bæjarráði Reykjavíkur í þessu máli. Það stendur svo sérstaklega á í bæjarstjórn Reykjavíkur og bæjarráði sem stendur, að sjálfur aðalforustumaður bæjarins, borgarstjóri Reykjavíkur, sem líka á sæti hér á Alþ. sem þm. Reykv., er farinn af landi burt, en borgarstjóri Reykjavíkur gaf um það yfirlýsingu í ræðu 17. júní 1952, að hann áliti, að núverandi Kópavogshreppur ætti að sameinast Reykjavík. Og borgarstjóri Reykjavíkur var spurður að því nú, áður en hann fór til Ameríku, af einum góðum sjálfstæðismanni, sem er búsettur í Kópavogshreppi og vinnur hjá einu af fyrirtækjum Reykjavíkurbæjar, hvort hann, borgarstjórinn, væri þessarar sömu skoðunar enn þá, að það ætti að sameina Kópavogshrepp Reykjavík, og borgarstjórinn kvaðst vera sömu skoðunar enn þá. Ég vil nú spyrja: Af hverju er verið að flýta þessu máli svo og jafnvel að fara að knýja fram einhverjar umsagnir frá einhverjum mönnum í bæjarráði Reykjavíkur, á meðan sjálfur borgarstjórinn, sjálfur æðsti maður höfuðborgarinnar, er fjarverandi af landi burt? Og af hverju er verið að reyna að pína fram slíkar umsagnir, þegar ekkert virðist þó liggja á að taka ákvarðanir um þetta mál fyrr en hann kæmi heim? Ég vil þess vegna alveg eindregið mælast til þess, að þessu máli sé frestað, ekki aðeins þangað til þeir í Kópavogshreppi eru sjálfir búnir að fá að láta á lýðræðislegan hátt sína skoðun í ljós um, hvaða meðferð þeir vilja hafa í framtíðinni á sínum samfélagsmálum, heldur einnig þangað til okkur Reykvíkingum, bæjarstjórn Reykjavíkur og borgarstjóra Reykjavíkur, gæfist tækifæri til þess að láta okkar skoðanir í ljós um, hvort við álítum, að Reykjavík sem bæjarfélag hefði alveg sérstakra hagsmuna að gæta í þessu efni og vildi mjög gjarnan taka upp samninga við núverandi Kópavogshrepp um sameiningu, eins og ég raunar kom nokkuð inn á við 1. umr. þessa máls. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að sameining Kópavogshrepps og Reykjavíkurkaupstaðar sé heppilegasta framtíðarlausnin á þessum málum. Og ég álít, — og um það held ég líka að hv. minni hl. heilbr.- og félmn. hafi einmitt verið að flytja tillögu, ef ég man rétt, — að það beri að setja sameiginlega nefnd frá bæði Kópavogshreppi, sýslunefndinni í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Reykjavíkurbæ til þess að athuga um framtíðarskipan þessara mála. Ég held, að það sé það mest misráðna, sem hægt er að hugsa sér í sambandi við afgreiðslu á svona málum, að ætla að knýja í gegn frv., sem upphaflega eru illa hugsuð, samin í flýti og fylgt eftir af offorsi heima fyrir í héraði, síðan góðir og gegnir menn á Alþ. plataðir til þess að kasta þessu hér inn, treysta sér síðan ekki til þess að mæla með slíkum málum, en kunna ekki við annað en að láta reka á eftir þeim í þinginu, eins og það væru stærstu frumvörp, sem ríkisstj. nokkurn tíma hefur flutt, sem um væri að ræða. Ég kann ekki við svona meðferð á málum, sem eru þó eins þýðingarmikil og það, hvernig hafa skuli í framtíðinni hátt á um stjórnarfarið viðvíkjandi þeim hreppi, sem næst liggur Reykjavík og þeir, sem mest hafa um þetta mál hugsað, eins og m.a. borgarstjórinn í Reykjavík, álíta að ætti í framtíðinni að sameinast Reykjavíkurbæ. Ég vil aðeins minna hæstv. ríkisstj. á, að henni hefur ekki tekizt það vel, þegar hún hefur verið að flýta þessum málum um lögsagnarumdæmi og slíkt í gegnum deildir þingsins, að hún ætti að læra ofur lítið af sínum óförum. Á síðasta þingi lá hér mál fyrir um lögsagnarumdæmi í sambandi við Keflavíkurflugvöll. Ég gagnrýndi það mál mjög, þá skiptingu, sem þar var verið að framkvæma, og ég benti á, hve ófær allur frágangur á því frv. væri, hvernig það væri í andstöðu við allar þær aðferðir, sem tíðkazt hefðu um að ákveða, hvernig lögsagnarumdæmi, hreppaskipting og annað slíkt væri á Íslandi, og í andstöðu við, hvernig verið hefði frá upphafi vega um hreppatakmörk og takmörk lögsagnarumdæma og allt slíkt. Það varð engu tauti við komið. Nei, ríkisstj. setti frv. í gegnum báðar deildir þingsins. En hvað gerðist svo á eftir? Jú, það varð m:íl út af frv., og það mál fór fyrir hæstarétt, og hæstv. ríkisstj. tapaði fyrir hæstarétti, vegna þess hve frv. var vitlaust hvað þetta snertir. Og hvað varð að gera? Það varð að láta forseta Íslands setjast niður norður á Sauðárkróki, — og síðan Álfur í Króki var að flækjast á Hegranesþingi, sællar minningar, þá held ég varla, að miklar aðgerðir æðstu manna landsins hafi verið framkvæmdar þar norður frá, — sem sé þar á Króknum verður forsetinn að setjast niður og gefa út brbl., einu brbl., sem út hafa verið gefin á Sauðárkróki, allt saman vegna þess, að ríkisstj. lá svo mikið á að setja lög um vitlausa framkvæmd á því, hvernig lögsagnarumdæmi skyldu vera, í gegnum þingið og gat ekki tekið tillit til neins af því, sem stjórnarandstaðan sagði, að hún varð að athlægi um allt land fyrir, varð sjálf að líða þá smán að verða bæði í undirrétti og hæstarétti dæmd út af því, að hún hafði ekki sjálf skilið, hvað fólst í lögunum, sem hún hafði pínt í gegn. Þá fylgdi hún þó þessu frv. eftir og var að reyna að verja það við umr. í þinginu. Nú hins vegar gefast þeir upp, formælendur frv., eftir 1. umr. í fyrri deildinni. Ja, hvað verður eiginlega síðar, við þær fimm umræður, sem eftir eru og af hverjum ein stendur nú yfir? Og hvernig verður þetta frv., þegar hitt varð stjórninni svona til skammar, þegar það loksins verður að lögum, ef hún í raun og veru ætlar að gera það að lögum? Nei, ég held, að það sé tími til kominn, að hv. flm. þessa frv. sjái að sér, að þeir stöðvi sjálfir þetta mál, þeir bíði í fyrsta lagi eftir því að heyra, hvaða álit kjósendur í Kópavogshreppi hafa á því, hvernig skipa skuli þeirra málum í framtíðinni, og í öðru lagi hafi þann hátt á að stofna til skynsamlegra, rólegra og friðsamlegra umræðna milli fulltrúa Kópavogshrepps, Reykjavíkurbæjar og sýslunefndarinnar, og ríkisstjórnin gæti vafalaust haft sína fulltrúa þar líka, um það, hvernig þessum málum verði bezt fyrir komið í framtíðinni. Það held ég væri affarasælasta lausnin á þessu, en ekki að fara að setja neinn falskan metnað í að knýja þetta mál í gegnum þingið með offorsi.