19.04.1955
Neðri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þrátt fyrir að flm. þessa frv. hafi ekki lagt mikið til umr. um málið, hefur þó teygzt það úr umr. um það, að hægt var að koma að minnihlutanál., áður en umr. var lokið. En svo hraðan þurfti að hafa á um að taka málið á dagskrá, að hv. meiri hluta nefndarinnar gafst ekki tóm til og hefur ekki gefizt það enn þrátt fyrir þessa alllöngu umr. að geta staðið við það fyrirheit sitt að láta umsögn bæjarráðs Reykjavíkur um vissa hlið þessa máls liggja hér fyrir, og minni hlutanum hefur ekki heldur gefizt tóm til að koma sínu nál. á framfæri fyrr en undir lok umræðunnar. Er þó venjan sú, að gefið sé hæfilegt tóm til þess, að gögn í málum liggi fyrir þingmönnum, meðan málin eru rædd. Ég hafði þó ekki neinn drátt á því að semja mitt nál. Ég gerði það sama daginn og nefndin lauk störfum. En ástæðan til þess, að nokkuð dróst að ganga frá prentun nál., var sú, að embættismaður, sem ég hafði leitað til um að gefa vottorð í embættisnafni um sönnunargildi undirskriftaskjalanna í Kópavogshreppi, gat ekki skilað þessu verki fyrr en í morgun, og þá var það þegar sent í prentun, prentsmiðja ríkisins lauk prentun á nál. seinni hluta dagsins í dag, og þannig standa nú sakirnar, að minnihlutanál. hefur einnig verið lagt fram og liggur nú fyrir. Það er sem sé öllu meiri hraði á máli þessu hjá forsetum þingsins en á mörgum öðrum málum, sem borin hafa verið fram á þessu þingi, því að í flestum nefndum þingsins liggja nú fyrir mál, sem voru flutt í byrjun þings, fyrstu dagana í októbermánuði sum hver, og hafa ekki verið tekin fyrir í nefnd enn.

Á þeim sama fundi sem verið var að pressa þetta mál í gegnum nefndarafgreiðslu vakti ég athygli á því og hafði raunar gert það á næsta nefndarfundi á undan, að fyrir heilbr.- og félmn. lægi mál frá því í október um þriggja vikna orlof til handa verkamönnum, en það hefur ekki fengizt rætt í nefndinni fram til þessa. Slík mál mega sofa svefninum langa, og í þessu tilfelli er svefninn orðinn um það bil sex mánuðir. Svona er munur á, hvort það eru stjúpbörn, sem borin eru fram af stjórnarandstöðunni, sem fá líka stjúpmóðurlega meðferð, eða afkvæmi ráðherra eins og þetta mál, sem við erum hér að ræða. Það skal afgreiðast á nokkrum dögum á Alþingi, þegar hin eru látin liggja mánuð eftir mánuð.

Ég skal ekki rekja þau gögn, sem nú liggja fyrir í nál. mínu, en í skjölum og gögnum frá meiri hl. og minni hl. hreppsnefndar er rakinn allur gangur þessa máls, frá því að málinu var fyrst hreyft þ. 26. febr. þ.á. og þangað til nú, að borgarfógetinn í Reykjavík hafði látið bera saman af starfsmönnum sínum kjörskrá í Kópavogshreppi, sem ég hafði sent honum, og ljósmyndaútgáfu af undirskriftaskjölunum, sem margoft hefur verið vikið að í sambandi við þetta mál. Fógetinn hafði, þegar þessu verki lauk, þessum samanburði á undirskriftaskjölunum og kjörskránni, komizt að þeirri niðurstöðu, að á undirskriftaskjölunum væru nöfn 224 manna og kvenna, sem fyrirfyndust ekki á kjörskránni. Þessi nöfn hafa slæðzt inn fyrir einhverja óskiljanlega ónákvæmni þeirra, sem stjórnuðu undirskriftasmöluninni og voru þá að vinna að því að fá forsætisráðherra sínum óyggjandi sönnunargögn í hendur sem grundvöll fyrir því góða máli, sem þeir höfðu beðið hann að flytja. En ónákvæmnin er slík, að það hefur ekki slæðzt eitt eða tvö eða þrjú nöfn með, sem ekki fyrirfinnast á kjörskrá, heldur eru það 224 nöfn, þ.e.a.s. nöfn, sem borgarfógetaembættið hefur ekki komið fyrir á minna en 9 vélrituðum síðum.

Þegar borgarfógetaembættið hafði lokið þessu verki, gaf borgarfógetinn út samkv. ósk minni svo hljóðandi „notarial“-vottorð:

„Það vottast hér með notarialiter eftir samanburð, að nöfn þeirra manna, sem hér eru skráð að framan, 224 að tölu, með þar tilgreindu heimilisfangi, finnast ekki í því endurriti af kjörskrá, staðfestu af oddvita Kópavogshrepps 16. þ. m., sem talin er gilda frá 24. jan. 1955 til 23. jan. 1956.

Notarius publieus í Rvík, 19. apríl 1955.

Ólafur A. Pálsson, fulltrúi.“

Ég var ekki staddur hér, þegar þetta mál var lagt fyrir og hæstv. forsrh. flutti sína framsöguræðu, en ég leit í ræðu hæstv. forsrh. áðan og sá þá, að hann hafði lengi í ræðu sinni dvalizt við það, að sýslunefndin hefði lýst því yfir, að til þess að hún gæti mælt með þessu máli og fylgt því fram, yrði að liggja fyrir viljayfirlýsing óumdeilanlegs meiri hl. kosningabærra manna í sveitarfélaginu fyrir því, að þeir vildu, að hreppnum yrði breytt í kaupstað, og svo segir forsrh., að nú liggi þetta óumdeilanlega fyrir, því að nú séu komin undirskriftaskjöl frá 760 kosningabærum mönnum í sveitarfélaginu, sem hafi skrifað undir það, að þeir óski þess, að hreppnum sé breytt í kaupstað. Síðan segir hann: Þetta er þess vegna sterkur meiri hluti, sem þarna hefur látið álit sitt í ljós, og ef gert væri ráð fyrir 90% kjörsókn, þá er þarna um að ræða, að í staðinn fyrir að fyrir liggja nú undirskriftir 760 manna, hefði ekki þurft nema 721 mann til þess, að þar væri um að ræða samt öruggan meiri hluta.

Þetta sýnir það ósköp vel, að hæstv. forsrh. var í þeirri góðu trú, þegar hann flutti málið hér á Alþingi og hélt sína framsöguræðu, að það væri sannað mál, að hann væri að flytja frv., sem væri í samræmi við vilja kjósendanna í hreppnum, og þess vegna fór hann um þetta sönnunargagn svo mörgum orðum. En nú er komið í ljós með embættisvottorði óhlutdrægs embættismanns, að það eru ekki nema 559 kjósendur í Kópavogshreppi, sem með undirskriftum hafa látið í ljós, að þeir vildu, að stofnaður yrði kaupstaður í Kópavogshreppi, þó þannig, eins og stendur á hausnum á undirskriftaskjölunum, að það rýri ekki möguleika til þess að sameinast Reykjavík, sem erfitt er að sjá, hvernig geti samrýmzt. Eins og þetta stendur núna, er ekkert vitað samkvæmt þessum undirskriftum um afstöðu 792 kjósenda í hreppnum. 559 hafa látið í ljós, að þeir séu fylgjandi þessu tvennu, stofnun kaupstaðar og sameiningu við Rvík, en 792 eða rétt við 800 vitum við ekkert um, og þá vitneskju fáum við ekki fyrr en fram hefur farið hin leynilega atkvæðagreiðsla, sem fram á að fara á sunnudaginn kemur. Hæstv. forsrh. komst að þeirri niðurstöðu, að það hefði ekki þurft nema 721, sem léti í ljós ákveðinn vilja sinn um, að stofnaður yrði kaupstaður, til þess að það væri meiri hluti kosningabærra manna. En eru þeir nú 721? Nei, þar vantar talsvert á. Nú eru þeir ekki nema 559, og vantar því 162 upp á þá tölu, sem hæstv. forsrh. sagði að væri nauðsynleg til þess að sanna, að meirihlutavilji væri fyrir málinu. Það vantar 162 samkv. niðurstöðu undirskriftanna núna til þess, að þeirri tölu sé náð, sem hæstv. forsrh. sagði að væri lágmark þess, sem yrði að liggja fyrir, til þess að málið hefði meirihlutastuðning, sem hann tæki mark á. M.ö.o.: Þær stoðir, sem hæstv. forsrh. hélt að þetta mál hvíldi á, eru brotnar. Þar með ætti málið líka að vera úr sögunni, og það gleður mig, að nú virðist svo sem hæstv. ráðherrar og stuðningsflokkar ríkisstj. séu horfnir frá því áformi að knýja málið í gegnum Alþingi rétt á undan atkvgr. í Kópavogshreppi. Það er a.m.k. haft eftir þeim hv. þm., sem hafði framsögu fyrir málinu hér við 2. umr., að frá því sé horfið, og ég trúi því, því að það hefði ekki verið hægt að reisa háðulegri níðstöng gegn lýðræðinu í landinu en einmitt að gera tilraun til þess að sigra í kapphlaupinu um afgreiðslu málsins við atkvgr. um vilja fólksins í Kópavogshreppi.

Ég held, að það sé ástæðulaust fyrir mig að þylja lengri lestur í sambandi við þetta mál nú, því að öll gögn málsins liggja nú mjög aðgengilega og í stuttu máli eins og í hnotskurn fyrir öllum hv. þm., og málið hefur verið mjög rækilega og ýtarlega rætt og það sannað í þessu máli, sem sanna þurfti, að af mjög lítilli vöndun, ráðvendni og samvizkusemi hafi verið unnið að undirbúningi þess af þeim mönnum, sem bjuggu það í hendur flm. Nú eru þeir orðnir uppvísir að þessum vinnubrögðum sínum, og það eitt á að nægja svo ágætum mönnum sem hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. og hv. fyrrv. ráðherra Emil Jónssyni til að sannfærast um, að það er ekki heiðri þeirra samboðið að knýja málið fram á þeim feysknu stoðum, sem undir þetta mál var stillt.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en tek það fram, að ég áskil mér rétt til að bera fram brtt. við frv. sjálft og um meðferð þess, áður en meðferð þess hér í hv. deild lýkur. 2. umr. verður máske lokið nú í nótt, en þá er 3. umr. eftir, sem bíður þá morgundagsins, vænti ég, og munu þá verða lagðar fram brtt. við málið sjálft. Fyrir liggur frá mér frá s.l. nótt till. um að fresta frekari umr. og meðferð þessa máls, þangað til atkvgr. liggi fyrir, og virðist vera einsætt, að hv. alþm. verði við slíkri ósk með því að samþ. þá till. Það er nefnilega auðskilið mál, að ef Kópavogsbúar í hinni leynilegu atkvgr. á sunnudaginn samþykkja, að þeir vilji stofna kaupstað, þá verður það mál afgreitt hér einróma á Alþingi, en verði það hins vegar ofan á að þeir hafni því, tjái sig mótfallna því, þá dettur mér ekki í hug, að svo sé traðkað á lýðræðinu á Íslandi, að haldið verði áfram með að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum. Mér dettur ekki í hug, að það verði gert, eftir að vilji fólksins í byggðarlaginu lægi fyrir um annað. Það sýnist því vera alveg tilefnislaust að halda næturfund í nótt sem leið og aftur í nótt til þess að þjarka um mál, sem allir verða sammála um, ef það hefur þá undirstöðu, sem þarf, þ.e.a.s. fylgi fólksins, en á ekki að vera þingmál stundinni lengur, ef það reynist vera flutt í ósamræmi við vilja kjósendanna, sem hér eiga hlut að máli.

Ég hef ekki orðið þess var, að hæstv. forseti hafi leitað afbrigða fyrir þeirri till., sem ég bar hér fram í gærkvöld, og þykist því vita, að hann geri það, þegar atkvgr. fer fram, sennilega á morgun, því að ég geri ráð fyrir, að það sé nú í nótt eins og í nótt sem leið, að hv. deild sé óályktunarfær, þó að hæstv. forseti hafi ekki gert tilraun til að sannprófa það nú, eins og hann gerði í fyrrinótt. En sé svo, að deildin sé enn óályktunarfær, þá bíður náttúrlega öll meðferð tillagna þangað til á morgun.

Ég læt svo máli mínu lokið og vænti þess, að enginn þurfi að kveinka sér undan því, að ég hafi þreytt hér málþóf, þó að sífelldar kvartanir séu nú um það í sambandi við þetta mál í blöðum. En sannast að segja hefði engan þurft að undra það, þó að svo furðulega heimanbúnu máli væri svarað með allýtarlegum umræðum, og sú er líka ástæðan til þess, að hér hafa farið fram allfjörugar umræður um þetta nauðaómerkilega mál.