22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Enn þá er það svo, að þetta mál er tekið fyrir á næturfundi á Alþ., og á það sjálfsagt að sýna, að svo mikil sé nauðsyn og bráð á því að samþykkja þetta frv., að það megi ekki úr hömlu dragast. Málið hefur verið nokkuð ýtarlega rætt efnislega við 1. og 2, umr. og varla ástæða til að fara mjög ýtarlega út í efni þess, sem er það, að Kópavogshreppi verði breytt í kaupstað með löggjöf frá Alþ. Því er haldið fram, að þetta sé mjög aðkallandi, en engin rök hafa þó, að ég hygg, verið færð fram fyrir því.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði hér áðan, að það mætti kannske segja, að um þrennt væri að ræða: að hreppsfélagið væri áfram óbreytt, að það væri stofnaður kaupstaður úr hreppnum eða í þriðja lagi sameining við Reykjavík.

Kjósendur í Kópavogshreppi kusu sér hreppsnefnd til þess að stjórna hreppnum í næstu fjögur ár, áreiðanlega ekki til þess að leggja hreppinn niður á miðju kjörtímabili. Hreppsnefndir eru ekki kosnar til þess. Og þar með hafa kjósendur í Kópavogshreppi látið í ljós, að þeir vilji, að Kópavogshreppur haldist út þetta kjörtímabil. Og þetta hafa þeir staðfest við tvennar sveitarstjórnarkosningar á liðnu ári. Það hlytu því að hafa orðið einhver straumhvörf í vilja fólksins í sambandi við þetta mál einmitt á seinustu vikum eða mánuðum, ef þetta sjónarmið væri nú orðið breytt. En nú hefur því verið hreyft og það flutt inn á Alþ., að hreppsfélagið skuli lagt niður og samþ. lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað. Þetta er gert með því að ganga um hreppinn með undirskriftaskjal, sem fyrst og fremst ber það yfirbragð, að fólkið eigi að segja til um, hvort það vilji með undirskrift sinni láta í ljós fylgi sitt við hugmyndina um stofnun kaupstaðar, en undirskriftamennirnir hafa haft löngun til að fá fleiri á skjal sitt en þá, sem eindregið væru fylgjandi kaupstaðarhugmyndinni, og setja því aftan við undirskriftaskjalið, að þó rýri það ekki möguleika á sameiningu við Reykjavík síðar meir. Þarna er með þessu orðalagi í undirskriftaskjalinu fiskað eftir því að fá fólk með tvenns konar skoðanir, fólk, sem vilji báðar leiðirnar, sem hv. 2. þm. Eyf. minntist hér á að væri um að ræða, að fá þá hvora tveggja til þess að skrifa undir skjalið. Og með því að orða skjalið svona og ganga rösklega fram í undirskriftasmöluninni tókst að fá menn til að skrifa undir skjalið, þannig að því var skilað inn á Alþ. með 760 nöfnum. Þegar svo kom í ljós, að það mundu ekki allt vera kjósendur í Kópavogshreppi, sem hefðu skrifað nöfn sín á skjalið, þrátt fyrir það að upphafsorð undirskriftaskjalsins séu þessi: Við undirritaðir kjósendur í Kópavogshreppi skorum hér með á hið háa Alþingi að gera núverandi Kópavogshrepp að sérstöku lögsagnarumdæmi með fullum kaupstaðarréttindum — þá var rokið til og reynt að bæta við undirskrifendurna, og fengust þá 23 í viðbót, þannig að nöfn sín hafa skrifað undir þessa tvíþættu áskorun 783 menn.

Ég þarf ekki að rekja það, að líka er orðið upplýst í þessu máli, að svo langt hafi verið farið út fyrir óumdeilanlega kjósendur í Kópavogshreppi, þegar undirskriftunum var safnað, að 11 ára gamalt barn — það er viðurkennt af öllum er meðal undirskrifendanna og margir, sem hafa ekki íslenzkan ríkisborgararétt, og fjölmargir, sem hafa ekki kosningarrétt í Kópavogshreppi.

Nú var það eitt af deilumálunum í sambandi við þetta mál, hve margir þeir kynnu að vera, sem væru ekki kjósendur í Kópavogshreppi, en hefðu þó skrifað undir þessi áskorunarskjöl til Alþingis. Þess vegna var það, að ég sneri mér til borgarfógetans í Reykjavík og óskaði eftir því, að hann gæfi út embættisvottorð um það, hversu margir af undirskrifendunum væru ekki á kjörskrá hreppsins. Þá kom í ljós, eftir að embættismaðurinn, borgarfógetinn í Reykjavík, hafði látið bera þessi skjöl saman, að 224 menn voru á undirskriftaskjölunum, sem fyrirfundust ekki á kjörskrá hreppsins. Þetta sönnunargagn liggur nú fyrir Alþ. í svo hljóðandi vottorði frá borgarfógetanum, — hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það vottast hér með notarialiter eftir samanburð, að nöfn þeirra manna, sem hér eru skráð að framan, 224 að tölu, með þar tilgreindu heimilisfangi, finnast ekki í því endurriti af kjörskrá, staðfestu af oddvita Kópavogshrepps 16. þ. m., sem talin er gilda frá 24. jan. 1955 til 23. jan. 1956.“

Þannig er þá sannað, að það eru ekki 783 kjósendur í Kópavogshreppi, sem hafa skorað á Alþ. að gera Kópavogshrepp að kaupstað, heldur aðeins 559, eftir að þeim 23, sem síðar komu í undirskrifendahópinn, hafði þó verið bætt við. En það er svo langt frá því, að það sé meiri hluti kjósenda í Kópavogshreppi, að þar á vantar yfir 160 manns, til þess að það væri meiri hluti kjósendanna.

Nú var þetta mál lagt fyrir Alþ. af hæstv. forsrh. landsins, Ólafi Thors, hv. þm. G-K., með skörulegri ræðu, eins og vænta mátti. Og þar ræddi hann rækilega um, hvaða rök lægju helzt til þess, að hann flytti þetta mál á Alþingi og teldi sjálfsagt, að Alþ. samþykkti frv. Hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að mál eins og þetta hefðu jafnan verið samþ. á Alþ., ef fram hefðu komið um það óskir íbúanna, þannig að meirihlutavilji kjósendanna í viðkomandi sveitarfélagi lægi fyrir. Hann endurtók það, að þegar svo stæði á, að órækar óskir meiri hluta íbúanna lægju fyrir, þá hefði það verið venja löggjafans að verða við þeim óskum, endranær ekki. Þá rökræddi hann auðvitað um það, hvaða vitneskju hann hefði um meirihlutavilja kjósendanna í þessu máli, og sagði þá, með leyfi hæstv. forseta, — ég hef hér frumhandrit að ræðu forsrh. fyrir framan mig og les úr eintaki því, sem lagt hefur verið fram á lestrarsal. Hæstv. ráðh. sagði:

„Þetta mál hefur verið borið undir sýslunefndina í Kjósarsýslu, eins og eðlilegt er, og hún lét í ljós það álit, að ef ekki lægju fyrir meðmæli hreppsnefndarinnar,“ — og þau liggja ekki fyrir, — „þá yrði að liggja fyrir viljayfirlýsing frá meiri hluta atkvæðisbærra íbúa í Kópavogshreppi. Þessa meirihlutaálits hefur nú verið leitað með undirskriftaskjölum, og ef ég man rétt, hafa 10 menn, búsettir í hreppnum, 21 árs og eldri,“ — þar skeikaði honum nú, þar hafði hann verið blekktur, — „lýst yfir þessum vilja sínum. Ég hygg einnig rétt, að það hafi verið á kjörskrá í febrúar 1954, við þær kosningar, sem þá fóru fram til sveitarstjórnar í Kópavogshreppi, 1144 menn, og mættu þess vegna vera nú á kjörskrá allmiklu fleiri, til þess að auðið yrði að vefengja, að hér lægi fyrir viljayfirlýsing meiri hluta kjósenda. Það mættu vera á kjörskránni 1519 menn í staðinn fyrir 1144, eða nærri 400 mönnum fleira en var í febrúar 1954, og þó hægt að staðhæfa með réttu, að fyrir lægi yfirlýsing frá meiri hluta kjósenda í hreppnum. Auk þess er svo rétt, að menn athugi, að jafnvel þó að í hreppnum væru, við skulum segja, 1600 menn, svo að ég taki einhverja tölu, ekki 1520 og ekki 1140, eins og voru í febrúar 1954, heldur t.d. 1600 menn, þá væri óhætt að álykta, að hér væri um meiri hluta að ræða, nokkurn veginn örugglega. Ég hygg, að það sé ákaflega fátítt, að við leynilegar kosningar komi fram meira en 90% af atkvæðisbærum mönnum. Ekki er þá ástæða til að halda, að fleiri segi sinn vilja, þegar viljayfirlýsing er birt í skriflegum plöggum, í staðinn fyrir að menn gangi að kjörborði. En þó að íbúar væru 1600 og 90% hefðu greitt atkv., þá er það ekki nema 1440 menn, og þyrftu áskorendur þess vegna ekki að vera nema 721, til þess að þar væri fram kominn vilji meiri hluta. En hér er fram kominn vilji 760 manna.“

Þetta eru orð hæstv. forsrh. í framsöguræðu. Hann heldur sig alltaf fast við, að það sé kominn fram vilji 760 manna, en þyrfti ekki að vera kominn fram vilji nema 721, til þess að það væri alveg öruggt, að hann hefði fyrir sér vilja meiri hluta hreppsbúa. En hvað er nú komið á daginn með „notarial“-vottorði borgarfógetans í Reykjavík? Það, að ekki liggur fyrir viljayfirlýsing 721, eins og hæstv. ráðh. sagði að væri nauðsynlegt, til þess að hann hefði yfirlýsingu um meirihlutavilja, heldur aðeins um 559. Þar með er allur grundvöllurinn undir flutningi málsins einmitt samkvæmt rökum hæstv. forsrh. í framsöguræðu rokinn út í veður og vind. Öll undirstaða málsins er brostin. Það var að fenginni öruggri viljayfirlýsingu meiri hluta kjósenda, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri alltaf vani að samþykkja svona mál, og hann taldi sig hafa það, og það er von, að hann héldi það. Hann gat ekki látið sér detta í hug, að það væri á þriðja hundrað manns, sem hefði verið rubbað upp á þessi undirskriftaskjöl, án þess að þeir væru kjósendur í hreppnum, eins og undirskriftaskjalið gaf til kynna. Þar með hefði ég haldið að hæstv. ráðh. hefði kippt málinu til baka, en það hefur hann ekki gert enn þá.

Ég læt þetta nægja til að sýna, að hæstv. ráðh. flutti málið á þeim grundveili, að hann hefði fyrir sér meirihlutaviljayfirlýsingu íbúanna í Kópavogshreppi um það, að þetta mál væri flutt að þeirra vilja. 760 hélt hann að þeir væru, sagði, að það þyrfti ekki, til þess að þetta hefði gildi, nema 721, en nú standa ekki eftir nema 559.

Ég hef nú sýnt fram á, að grundvöllur sá, sem hæstv. ráðh. byggði málið á, er ekki lengur fyrir hendi. Kunnugt er um, að nú á sunnudaginn kemur verður leitað með leynilegri atkvgr., sem byggð verður á núgildandi kjörskrá í hreppnum, en á henni eru 1357 kjósendur, eftir vilja kosningabærra manna í hreppnum um það, hvora af þessum tveim leiðum, sem hv. 2. þm. Eyf. talaði um að væru fyrir hendi, ætti að fara, stofna kaupstað eða sameinast Reykjavík. Og það er einmitt um þessar tvær leiðir, sem kjósendurnir verða spurðir á kjörseðlinum í Kópavogi á sunnudaginn kemur. Ef þar kemur fram meirihlutavilji fólksins óþvingað við leynilega kosningu, að þeir segi: Við viljum ekki stofna kaupstað jáin við það verði svo fá, að það verði minni hl., en meiri hl. verði með því að sameinast Reykjavík, að fela hreppsnefndinni að leita eftir samkomulagi við Reykjavíkurbæ um sameiningu, þá er enn fremur brostinn grundvöllur fyrir flutningi þessa frv. hér á Alþ. Ég léti mér ekki detta í hug, ef niðurstaðan yrði þessi, að Alþ. hygðist þá setja löggjöf þvert ofan í vilja fólksins, því að hæstv. ráðherra byggði á vilja fólksins í framsöguræðu sinni og hélt, að hann lægi fyrir, og sagði, að Alþ. væri vant að afgreiða svona mál með lagasetningu, ef vilji fólksins lægi fyrir sem grundvöllur. Hins vegar er það víst, að ef meiri hluti kjósenda í Kópavogshreppi tjáir þann vilja sinn við atkvgr., að hann vilji kaupstað stofnaðan nú þegar, þá verður þetta mál ekkert deilumál hér á Alþ. stundinni lengur, þá þarf enga næturfundi um það og menn mundu þá afgreiða það samhljóða.

Ég hef haldið því fram, að það ætti að bíða eftir þessum vilja fólksins og það eigi síðan að vinna að lausn málsins í samræmi við þann vilja, sem fram kemur við þessa væntanlegu atkvgr., og ég hygg, að í hjarta sínu geti enginn lýðræðissinnaður þm. neitað því, að það væri það rétta í þessu máli.

Þegar um það var rætt í heilbr.- og félmn., þar sem þetta mál var til umr., að kjósendur í Kópavogshreppi yrðu spurðir um þetta tvennt, þá vildi hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) ekki bíða eftir því, hvort það kæmi í ljós, að meirihlutavilji kjósenda í Kópavogshreppi yrði fyrir því að leita eftir samkomulagi við Reykjavíkurbæ um sameiningu. En þá og þá fyrst þegar slíkur meirihlutavilji lægi fyrir, er mögulegt fyrir sveitarstjórnina að taka upp þetta mál, því að hún hefur enga heimild til að taka það upp nema í umboði fólksins og að vilja þess, og þá ætti hreppsnefnd Kópavogshrepps að fengnum vilja fólksins um þetta að spyrja, ekki bæjarráð Reykjavíkur, heldur bæjarstjórn Reykjavíkur, um það, hvort hugsanlegt væri, að Reykjavík vildi ganga til samkomulags eða samninga um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. En Jóhanni Hafstein fannst eðlilegra að haga þessu öðruvísi. Hann taldi rétt, að bæjarráð Reykjavíkur svaraði, áður en neinn vissi neitt um vilja fólksins í Kópavogshreppi um þetta og áður en hreppsnefndin kæmi neitt á stúfana til þess að tala um þetta mál við þá. Og það finnst mér vera nokkuð öfugt að farið eins og um fleira í þessu máli.

Nú er það vitanlega þar að auki alveg öfugt að farið að láta bæjarráð marka stefnu í svona máli, en ekki bæjarstjórnina. Bæjarstjórn hefði getað vísað þessu máli til bæjarráðs til frekari athugunar og falið bæjarráðsmönnum kannske að eiga í samningum við hreppsnefndina, ef hreppsnefndin hefði að vilja fólksins verið búin að hefja þetta mál við bæjaryfirvöldin í Reykjavík. En vitanlega er það bæjarstjórn Reykjavíkur, sem hefði átt að afgreiða þetta mál, hvort sem hún hefði þá valið þann kostinn að vísa því svo til bæjarráðs eða ekki.

Nú er það vitað, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur sótt fast eftír því að sameina nágrannahreppinn hér til annarrar handar við Reykjavík, Seltjarnarneshrepp, Reykjavík. Og bæjarstjórnin hefur, að mér virðist, verið sammála um, að það væri nokkuð eðlilegt mál. En hreppsnefndin þar hefur verið því andvíg, og á því einu hefur strandað, að sú sameining ætti sér stað. Það mætti því þykja undarlegt, ef bæjarstjórn Reykjavíkur væri hins vegar andvíg því um hið fjölmenna sveitarfélag, sem vaxið hefur upp til hinnar handar við Reykjavík og vaxið er upp af Reykvíkingum, sem hafa ekki fengið aðstöðu til að búa um sig hér á borgarlóð Reykjavíkur og þess vegna leitað út fyrir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur til þess m.a. að geta byggt yfir sig, því að þar voru frjálsari hendur með það, og óskuðu nú eftir að hverfa aftur heim til sinna fyrri föðurhúsa, til Reykjavíkur, en þá væri sagt: Nei, við viljum ykkur ekki. — Það væri undarlegt.

Nú er opinberlega upplýst, að borgarstjórinn í Reykjavík er þeirrar skoðunar, að hann sé fylgjandi því, að Kópavogshreppur sameinist Reykjavík. En svo undarlega vill til, að einmitt meðan hann er ekki hér á landi, — og hefur hann þó átt drjúgan þátt í því að marka stefnu Sjálfstfl. í bæjarmálum Reykjavíkur, síðan hann varð borgarstjóri, — þá er rokið til og bæjarráð látið óaðspurt af hendi þessa viðkomandi sveitarfélags svara því neitandi, að sameiningu vilji þeir ekki milli þessara tveggja sveitarfélaga. Þó er þetta nú dálítið loðið, því að í plaggi því, sem hv. 2. þm. Eyf. las hér upp áðan, er sagt, að í till. Sjálfstfl. sé tekið fram, að þeir vilji ekki hefja umræður um sameiningu þessara sveitarfélaga. Takið eftir því: Þeir vilja ekki hefja umræður. Það er ekki heldur þeirra að hefja þær umræður. Það er hreppsnefndarinnar í Kópavogshreppi að hefja þær umr., ef meiri hluti kjósenda þar óskar þess, — og það virðist vera reiknað fastlega með því af hv. 2. þm. Eyf. og öðrum þm. Sjálfstfl. hér, að meiri hluti kjósenda í Kópavogshreppi óski eftir sameiningu við Reykjavík, og þá mundi hreppsnefndin þar hefja þessar umræður. Um það er ekkert sagt af bæjarráði Reykjavíkur eða sjálfstæðisflokksmeirihlutanum þar, hverjar undirtektirnar mundu þá verða, enda geta þeir ekki sagt um það fyrir fram, því að það fer mjög eftir því, hvernig hreppsnefndin í Kópavogshreppi kann að leggja það mál fyrir og á hvaða grundvelli hún fer fram á eða býður samning. Þessu er því ekki hægt að svara af neinu viti fyrir fram, enda er sjaldan vit í svari, sem gefið er áður en spurt er. Það verður líkt og svarið hjá þeim heyrnardaufa í ævintýrinu, sem svaraði, sem frægt er orðið: „Í axarskaft.“ Og þetta svar er áreiðanlega „í axarskaft“, alveg svar út í hött. En nú liggur það þá fyrir og er upplýst hér, að bæjarráð Reykjavíkur er ekki sammála um að hafna hugsanlegri sameiningu við Kópavogshrepps. Nei, minni hl. bæjarráðs tekur það fram, að hann telji rétt að taka tillit til vilja fólksins í Kópavogshreppi, og ef hann lægi fyrir, virðast þeir vera fyllilega til viðtals um, að þessi sameining ætti að eiga sér stað.

Það er óumdeilanlegt, að það er fólkið í viðkomandi sveitarfélagi, sem á auðvitað að ráða því með meirihlutavilja sínum, hvernig skipað er í framtíðinni sveitarstjórnarmálum í því sveitarfélagl. Það er ekki bæjarráðs Reykjavíkur að leggja neitt til þeirra mála og sízt án þess að til þeirra sé leitað.

Nú var vikið að því við 2. umr. málsins, að skipulagsmál byggðanna í kringum Reykjavík, Seltjarnarneshrepps, Kópavogshrepps, Álftaneshrepps og Garðahrepps, með tilliti til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur væru óleyst mál og væru í rauninni margþætt vandamál, og ég hélt því fram, að það væri í raun og veru langsamlega eðlilegast að víkja frá sér þessari skyndiákvörðun um lagasetningu um framtíðarskipulag á sveitarstjórnarmálum eins þessara sveitarfélaga og láta heldur ríkisstj. það hlutverk í hendur að skipa n. manna, sem skipuð væri fulltrúum frá Reykjavík, frá Hafnarfirði og frá sýslufélögunum, sem hér eiga hlut að máli, Gullbringusýslu og Kjósarsýslu, og öllum hreppsfélögunum, sem hlut eiga að máli, og ræða þetta mál frá öllum hliðum og taka síðan ákvarðanir um þessi skipulagsmál í heild. Ég er enn þeirrar skoðunar, að þetta sé það eina, sem sé sjálfsögð leið, og mun því nú flytja till. til rökstuddrar dagskrár í þessu máli, sem er að efni til samhljóða þessari skoðun minni. Þessi rökstudda dagskrá er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Deildin telur það eðlilegustu meðferð þessa máls, að ríkisstj. skipi nú þegar 9 manna n. til þess að athuga og gera till. um, hvernig bezt verði fyrir komið til frambúðar skipan sveitarstjórnarmála í næsta nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þannig að bæði þessir bæir og núverandi nágrannasveitarfélög þeirra megi vel við una, og að n. sé skipuð tveimur mönnum kosnum af bæjarstjórn Reykjavíkur, tveimur mönnum kosnum af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, en eftirtaldir aðilar tilnefni einn mann hver: sýslunefnd Kjósarsýslu, sýslunefnd Gullbringusýslu og hreppsnefndir Kópavogshrepps, Seltjarnarneshrepps og Garðahrepps.

Í trausti þess, að n. þessi hraði störfum svo, að till. hennar geti komið fyrir næsta þing, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessa leið ætti að mínu áliti að rannsaka, áður en flaustrað verði af lagasetningu um skipun sveitarstjórnarmála í Kópavogshreppi einum.

En mál þetta, þessi rökstudda dagskrá, er slíkt nýtt viðhorf í málinu, að ég hlýt að fara fram á það við formann heilbr.- og félmn. og við hæstv. forseta, að umr. sé frestað um málið, svo að tóm gefist til að athuga það í n., hvort þessi leið þyki ekki sjálfsögð. Hún setur málið á allt annan og viðtækari grundvöll og leysir vandamál, sem snertir fólk á þessu svæði. Það er t.d. nú vandamál í Garðahreppi, hvort það eigi að innlima hluta af þeim hreppi í Hafnarfjörð, og ekkert liggur fyrir um, að vilji fólksins í Garðahreppi sé fyrir því. Ef það gerist, þá verður Garðahreppur bútaður í tvennt og Hafnarfjarðarlögsagnarumdæmi látið ná þar inn á milli þessara tveggja hluta Garðahrepps, og með það verða íbúar Garðahrepps varla ánægðir.

Ég veit, að hv. form. heilbr.- og félmn., þm. A-Sk. (PÞ), er svo sanngjarn maður, að hann mun mæla með því við hæstv. forseta og þdm., að hlé verði gefið á umr., svo að n. gefist tóm til þess að athuga, hvort ekki ætti að slá afgreiðslu málsins á frest og að fela ríkisstj. að skipa slíka 9 manna n. til þess að athuga málið á þessum breiða grundvelli.

Þá vil ég enn fremur lýsa hér ö brtt., sem ég vil leyfa mér að flytja við frv. sjálft, efnislegar breytingar við hinar ýmsu greinar frv.

Á 2. gr. tel ég sjálfsagt að verði gerð sú breyting, að á eftir orðunum „í Kópavogskaupstað“ í 1. málsgr. komi: og er hann, þ.e.a.s. bæjarfógetinn í hinum nýja kaupstað, jafnframt sýslumaður í Kjósarsýslu, og greiðist laun hans úr ríkissjóði.

Þessi breyting væri þá um það, að þegar búið væri að skipa sérstakan bæjarfógeta í Kópavogskaupstað, skuli hann ekki aðeins hafa það embætti að vera þar bæjarfógeti, heldur einnig vera sýslumaður í Kjósarsýslu, en Kópavogshreppur er núna einn af fimm hreppum Kjósarsýslu. Ég hygg, að bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði, með sýslumannsembætti í Gullbringusýslu, með Keflavíkurflugvellinum og því öllu saman og hinni fjölmennu og sívaxandi byggð þarna á Suðurnesjunum, sé ærið umfangsmikið embætti, og væri þetta jafnara, að bæjarfógetinn í hinum nýja Kópavogskaupstað væri jafnframt sýslumaður í hinni litlu, tiltölulega fámennu Kjósarsýslu.

Við 3. gr. flyt ég þá brtt., að gr. orðist svo: „Verzlunarlóð kaupstaðarins skal vera landareign jarðanna Kópavogs og Digraness.“

Í frv., eins og það er nú, stendur, að verzlunarlóð kaupstaðarins skuli vera landssvæði allt innan núverandi takmarka Kópavogshrepps. Þetta sýnir, að samning þessa frv. er sennilega stjórnarráðsvinna og hefur þá aðallega verið í því fólgin að taka einhver kaupstaðarlög og leggja þau fram í frv.-formi.

Verzlunarlóðir kaupstaðanna eru yfirleitt mjög takmörkuð svæði, en í þessari gr. mundi verzlunarlóð hins nýja Kópavogskaupstaðar ekki vera láglendið í nágrenni Reykjavíkur, heldur allt landssvæðið upp til heiða og fjalla, allt austur að mörkum Árnessýslu, heiðalönd mikil og víðlend, sem allt heyrði þá undir verzlunarlóð hins nýja Kópavogskaupstaðar.

Það er alveg áreiðanlegt, að það hefur ekki vakað fyrir flm. frv., að þetta væri eðlileg kaupstaðarlóðarstærð, heldur er þarna áreiðanlega um óaðgæzlu að ræða. Það virðist því vera alveg sjálfsagt mál að hafa kaupstaðarlóðina nokkru þrengri takmörkum háða en þetta og væri hún ærið rúm, líklega upp undir það eins víðlend og lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, ef það væri öll landareign þessara tveggja jarða, Kópavogs og Digraness, og það er það, sem ég legg til í mínum brtt. Það yrðu sannarlega ekki landþrengsli í þessum nýja kaupstað, þó að landareignir þessara jarða einar væru kaupstaðarlóðin.

Við 19. gr. flyt ég þá smávægilegu brtt., sem þó er full ástæða til, að á eftir orðinu „slökkvilið“ komi: ef stofnað verður.

Þessi brtt. víkur að því, að í 19. gr. frv. segir, að bæjarstjórnin í Kópavogskanpstað skuli semja reglugerð fyrir slökkviliðið, en ráðh. staðfesti hana. Þannig er ákveðið, af því að þetta er tekið upp óbreytt úr öðrum bæjarstjórnarlögum, að þarna skuli stofna slökkvilið, rétt við hliðina á hinu fullkomnasta slökkviliði, sem til er í landinu, slökkviliði Reykjavíkur. En nú er gildandi samningur milli Kópavogshrepps og Reykjavíkurbæjar um það, að Reykjavíkurslökkviliðið skuli annast brunavörzlu í Kópavogskaupstað, og óefað mundi væntanleg bæjarstjórn í Kópavogskaupstað einnig semja við Reykjavíkurslökkviliðið á sama hátt, af því að það mundi tryggja hina beztu fáanlega vörn móti eldsvoða. Þess vegna væri mjög óvarlegt að lögbinda það, að bæjarstjórnin skyldi semja reglugerð fyrir slökkviliðið þar í kaupstaðnum, þegar það mundi tvímælalaust vera skref aftur á bak og til minna öryggis fyrir íbúana. Þess vegna væri nauðsynlegt að hafa þennan varnagla, að þetta skyldi gert, ef slökkvilið yrði stofnað í hinum nýja kaupstað, en þá væri málinu borgið.

Við 22. gr. flyt ég till. um, að greinin orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, en koma því aðeins til framkvæmda, að meiri hluti kjósenda í hreppnum hafi óskað eftir því.“

Þarna er lagt til, að lögin skuli öðlast strax gildi, og það er mjög algengt, að lokagrein frv. sé orðuð þannig, en þar sem bæði frsm. og 1. flm. frv., hæstv. forsrh., byggði allan sinn málflutning á því, að slíkt mál sem þetta yrði að byggjast á vilja fólksins, vilja meiri hluta kjósenda í hreppnum, þá tel ég sjálfsagt, að í þessari gr. um gildistöku laganna skuli koma þessi viðbót: enda hafi meiri hluti kjósenda í hreppnum óskað eftir því. — Það er byggt sem sé með þessu orðalagi mínu á þeim sama grundvelli sem hæstv. ráðh. flutti málið upphaflega á og er sá eini, sem hægt er að réttlæta að byggja svona mál á.

22. gr. í frv. er aftur með einstæðum hætti. Hún er á þann hátt, að lög þessi skuli öðlast þegar gildi, og gerir ráðh. ráðstafanir til, að þau komi strax til framkvæmda. — Ég veit ekki til, að í nokkru frv., sem hefur verið flutt á Alþ. fram til þessa dags, hafi svona „klásúla“ verið í lokagrein frv. Er því tvímælalaust þessi brtt., sem ég flyt, í lýðræðisátt, en ég minnist þess, að hæstv. forsrh. og ýmsir fleiri ræðumenn, sem hafa rætt málið, hafa mjög rætt um lýðræði og hinn rétta anda lýðræðis, sem ætti að gegnsýra okkar löggjafarstarf hér á Alþ., og ætti það því að vera trygging fyrir því, að þessi brtt. mín yrði samþ.

Þá eru aftan við frv. ákvæði um stundarsakir. Þau eru öll góð og gild og engin ástæða til að hafa neitt á móti þeim. En það er ástæða til að taka nokkru fleira fram undir ákvæðum um stundarsakir, og þess vegna legg ég til, að aftan Við ákvæði frv. um stundarsakir bætist nýr málsliður, svo hljóðandi:

„Ríkissjóður afhendi hinum nýja kaupstað verzlunarlóð hans, eins og hún er ákveðin í 3. gr., kvaðalaust og auk þess 2 millj. kr. vegna óvenjulegs kostnaðar við hina ört vaxandi byggð.“

Það er eitt af frumskilyrðum hvers bæjarfélags, að það eigi sína byggingarlóð. Það er mjög ill aðstaða til að skipuleggja kaupstað án þess, að hann eigi sjálfur þann grundvöll, sem hann á að byggjast á, sífelldir árekstrar og alls konar skipulagslegt klúður. Auk þess er braski boðið heim með lóðir, þegar menn eru að stritast við,. eins og hér í Reykjavík, að hafa þau áhrif á skipulagið, að þeirra lóð verði ekki baklóð, heldur liggi vel að fjölfarinni götu, og þar fram eftir götunum.

Nú vill svo til, að ríkið sjálft á viðlendar lendur þarna í Kópavogshreppi, þar sem byggðin aðallega mun rísa og hefur þegar rísið. Það er alveg sjálfsagt, að þeir hæstv. ráðh., sem hafa nú beitt sér fyrir flutningi þessa máls og viljað þannig vera feður þessa kaupstaðar, sjái til þess, að hann fái sem tannfé það land, sem kaupstaðurinn á að byggjast á, og ætti þá auðvitað að afhenda þetta land ríkisins kvaðalaust til hins nýja kaupstaðar.

Samkvæmt till. minni er búið að takmarka bæjarlóðina meira en áður var, og er því ekki um hin viðlendu lönd að ræða, sem annars hefðu fallið undir hugtakið bæjarlóðin eða kaupstaðarlóðin samkvæmt frv., sem er land langt upp á Hellisheiði og upp um allar sveitir.

Til þess að sýna fram á, hversu sjálfsagt þetta er, að íslenzka ríkið afhendi hinum nýja kaupstað kaupstaðarlóðina, er sjálfsagt að geta þess, að þegar Danir stofnuðu til kaupstaðanna Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Ísafjarðar, Grundarfjarðar og Eskifjarðar, sem er gert allt með sömu tilskipuninni, var þessum kaupstöðum afhent ákveðin ferálna spilda, nokkuð rífleg, til eignar sem verzlunarlóð, og ekki nóg með það, að bæjarfélaginu væri afhent þetta, heldur voru einstaklingum, sérstaklega iðnaðarmönnum, sem áttu að vera uppistaða og öruggir vinnukraftur á þessum verzlunarstöðum, einnig afhentar eignarlóðir á kaupstaðarlóðinni.

Ég tel því alveg víst, að hæstv. ríkisstj. vildi ekki verða eftirbátur þeirra dönsku um það að búa sómasamlega að hinum unga kaupstað að því er þetta snertir. Þess vegna er það réttlátt í alla staði og sjálfsagt mál, að verzlunarlóð hins nýja Kópavogskaupstaðar verði afhent kvaðalaust.

Um hitt atriðið, að afhenda kaupstaðnum 2 millj. kr. sem eins konar tannfé, þykist ég hafa tilnefnt allt of lága upphæð, því að ég hef orð hæstv. forsrh. í öðru sambandi fyrir því, að af því, að fólkið hafi brotizt í að reisa þessa miklu og myndarlegu byggð þarna í kjördæmi hans og þannig losað Reykjavík við margvísleg vandkvæði, sem Reykjavík hafi ekki getað risið undir, eigi Kópavogshreppur siðferðislegan rétt á margra tuga milljóna fé frá ríkinu fyrir að hafa leyst þennan mikla þjóðfélagslega vanda, sem Reykjavík hefði orðið að fá hjálp ríkisins til að öðrum kosti.

Það hefði því verið miklu eðlilegra að nefna þarna miklu hærri milljónafúlgu en 2 millj., en það er gert til þess, að þessi till. mín eins og allar hinar sé svo sanngjörn, að hver maður, sem er frjáls að því að greiða atkvæði samkvæmt eigin skoðun og sannfæringu, eigi hægt með að gera það.

Ég vil vænta þess, að þessar brtt., sem allar eru til bóta á frv., verði samþ., ef til þess kemur, að frv. sjálft fái nokkra endanlega afgreiðslu á þessu þingi, en það tel ég alls ekki rétt að það fái, heldur miklu eðlilegra, að allt þetta skipulagsmál nágrennis Reykjavíkur verði athugað í 9 manna n., sem ég legg til í rökstuddu dagskránni að verði skipuð af ríkisstj. En ef dagskráin verður samþ., kemur hvorki frv. né mínar brtt. við það til atkvæða, enda skiptir engu máli, hvort það leggst þá í guðskistuna breytt eða óbreytt.

Ég læt svo máli mínu lokið og ítreka aðeins þá ósk, sem ég bar fram áðan, að hæstv. forseti og form. heilbr: og félmn. fallist á, að gert sé hlé á umr., þannig að n., sem fékk málið til meðferðar, gefist kostur á að athuga þessa nýju leið gaumgæfilega, og ef þeir vildu ekki fallast á hana, þá að athuga einnig, hvort brtt. mínar væru ekki til bóta á frv., en hvort tveggja þarf vitanlega að athugast í n., og er ósanngjarnt mjög að synja um það.

Ég er ekki með þessu á neinn hátt að reyna að bregða fæti fyrir málið, því að ég tel, að þetta mál eigi að fá framgang, ef fólkið í Kópavogshreppi lætur í ljós á sunnudaginn, að það vilji stofna kaupstað nú. Ég álít, að málið sé algerlega réttlaust og eigi ekki að fara lengra en það nú er komið, ef meiri hl. kjósendanna við þá atkvgr., sem fram fer á sunnudaginn, lætur í ljós, að hann vilji, að hreppsnefndinni sé falið að leita eftir sameiningu við Reykjavík. Og þá gæti svo farið, að það gæfist tóm til þess að athuga um leið að því er snerti önnur sveitarfélög hér í grenndinni, hvernig ætti að haga skipulagsmálum þeirra, hvað eigi að sameinast Hafnarfirði og hvað eigi að sameinast Reykjavík, eða hvort Hafnarfjörður og öllu þessi byggð eigi að sameinast í eina borg.

En það virðist mér augljóst mál, að Alþ. hlýtur, eins og nú standa sakir, að bíða eftir því að fá að vita vilja fólksins í Kópavogshreppi um þessi mál, hvora af þessum tveim leiðum eigi að fara, því að vilji fólksins liggur ekki fyrir nú. Samkvæmt því vottorði, sem borgarfógetinn hefur gefið, er nú aðeins vitað um vilja 559 manna, sem tjá sig fylgjandi því, að stofnaður verði kaupstaður og að sameinast Reykjavík, og enginn getur dregið þá undirskrifendur frá, sem eru með því síðara. Þannig vitum við ekkert, hversu margir eða fáir þeir eru, sem vilja það fyrrnefnda.

En þó að maður haldi sér nú við þessa sameiginlegu niðurstöðu, 559, sem er þó tjáning um þá, sem vilja báðar þessar leiðir, er eftir að vita um vilja nærri 800 kjósenda í Kópavogshreppi. Og það er spurningin um, hvað þeir vilja, sem kemur í ljós með atkvgr. á sunnudaginn kemur, og eftir því verður að minni hyggju að bíða, ef menn eru haldnir eins af anda lýðræðisins og látið var í veðri vaka undir þessum umræðum af flm. málsins.