03.03.1955
Neðri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

162. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 416 ásamt hv. þm. Dal. (ÁB) og hv. 4. landsk. þm. (GJóh) frv. til l. um breyt. á l. nr. 1 5. jan. 1938, um síldarverksmiðjur ríkisins. Felur frv. í sér þá einu breytingu á l., að ákveðið verði lágmarksgjald, sem síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði greiði í bæjarsjóð Siglufjarðar, og er gert ráð fyrir í frv., að það verði 100 þús. kr. á ári.

Eins og tekið er fram í grg. með frv., er svo kveðið á í 14. gr. l. um síldarverksmiðjur ríkisins, eins og hún er nú, að verksmiðjurnar skuli greiða árlega 1/2% af brúttóandvirði seldra afurða í svokallað umsetningargjald til viðkomandi bæjar- og sveitarfélags. Hafa þessar greiðslur numið allverulegum hluta af heildartekjum viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga sums staðar, þar sem síldarverksmiðjurnar eru starfræktar, t.d. í þeim bæjar- eða sveitarfélögum, þar sem fáir eru íbúar, en annars staðar, eða a.m.k. á Siglufirði, þar sem gjaldendur eru tiltölulega margir, en með litla greiðslugetu, hefur mjög lítið munað um greiðslur síldarverksmiðjanna til bæjarfélagins eða bæjarsjóðs á undanförnum síldarleysisárum.

Það er ætlunin, að þetta ákvæði um 1/2 % umsetningargjald af brúttóandvirði seldra afurða verksmiðjanna standi áfram óbreytt, þó að lágmarksgjald á verksmiðjurnar á Siglufirði verði ákveðið eins og í frv. er gert ráð fyrir, þannig að lágmarksgjaldið kemur ekki til greina, nema verksmiðjurnar vinni úr svo litlu hráefni, að umsetningargjaldið af seldum afurðum nemi ekki 100 þús. kr.

Hins vegar er lágmarksgjaldið, eins og lagt er til í frv. þessu að það verði ákveðið, lágt áætlað með tilliti til þess, að umsetningargjöld af seldum afurðum verksmiðjanna mundu nema hærri upphæð en 100 þús. kr., þó að þeim bærust ekki nema 100–150 þús. mál síldar til bræðslu, en eins og kunnugt er, bræddu síldarverksmiðjurnar á Siglufirði á hinum góðu síldarárum fyrir 10–15 árum allt að 1 millj. mála á vertíð.

Annars er tilgangurinn með flutningi frv. þessa, eins og tekið er fram í grg., að reyna að einhverju leyti að létta undir með bæjarsjóði Siglufjarðar í þeim miklu vandræðum, sem hann á nú við að etja. Eru þarfir bæjarfélagsins fyrir tekjur að mestu óbreyttar, hvort sem vel eða illa árar, en greiðslugeta alls þorra gjaldenda á staðnum að þrotum komin vegna langvarandi atvinnuskorts.

Segja má að vísu, að óeðlilegt sé e.t.v. að leggja lágmarksgjald á síldarverksmiðjur ríkisins án tillits til þess, hvort rekstur þeirra gengur vel eða illa, en helzt munu þó síldarverksmiðjurnar vera aflögufærar af þeim gjaldendum, sem fyrir eru á staðnum, og til einhverra ráða verður að grípa, þegar svo er komið, að ekki verður séð fram á, að hægt sé að koma saman fjárhagsáætlun fyrir kaupstaðinn á þessu ári.

Tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um mál þetta að sinni, en legg til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.