22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

193. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á því þingi, sem nú stendur yfir, hafa verið borin fram tvö frv. um breyt. á vegalögum. Er annað þeirra flutt í hv. Ed. af hv. þm. Barð. (GíslJ) og hitt í þessari hv. d. af hv. 2. þm. Eyf. (MJ). Við þessi frv. hefur síðan verið fluttur mikill fjöldi brtt., og sá háttur hefur verið á hafður um meðferð þessara mála, að samgmn. beggja deilda hafa myndað með sér eina n., samvn. samgm., sem síðan hefur fjallað um þessi mál í heild. Enn fremur hafa n. kvatt sér til ráðuneytis vegamálastjóra, og hefur hann mætt á mörgum fundum hjá n. og sömuleiðis hæstv. samgmrh.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., er niðurstaða af þeim athugunum, sem fram hafa farið í n. á vegamálunum í heild og samstarfi n. við vegamálastjóra, sem hefur samið frv. með nefndinni.

Vegalögum var siðast breytt árið 1951, en síðan hafa á hverju þingi verið bornar fram ýmsar till um breyt. á l., en þessar brtt. hafa ekki náð fram að ganga. Sá háttur hefur yfirleitt verið á hafður, að vegalögum hefur ekki verið breytt oftar en þriðja eða fjórða hvert ár. Nú taldi samvn. hins vegar tíma vera kominn til þess að „opna lögin“, eins og það er kallað, þar sem allknýjandi þörf væri orðin til þess í einstökum héruðum.

Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, lengjast þjóðvegir á landinu samtals um 866 km, eða úr 7343 km í 8209 km. Nemur þessi aukning, sem hér er lögð til, því 11.8%. Breytingin er að sjálfsögðu allmismunandi í hinum ýmsu héruðum. Vegaframkvæmdunum er ákaflega misjafnlega langt komið áleiðis í einstökum héruðum og jafnvel einstökum landshlutum. Sum héruð hafa fengið þjóðvegi um flestar sveitir sínar, í öðrum er vegaframkvæmdunum tiltölulega skammt á veg komið. Þetta sést mjög greinilega af þeim töflum og línuritum, sem birt eru í grg. og vegamálastjóri hefur gert og hv. þm. hafa nú fyrir sér.

En af þessari aukningu þjóðveganna leiðir það, að þörf verður fyrir verulega aukin framlög til viðhaldskostnaðar. Hins vegar hafa fjárlög fyrir yfirstandandi ár nú verið afgreidd, þannig að ekki var unnt að fá hækkuð framlög í þessu skyni á þessu ári. Það er því lagt til í frv. með ákvæði til bráðabirgða, að sömu aðilar greiði viðhaldskostnaðinn og áður hafa annazt hann, þ.e.a.s. á þessu yfirstandandi ári. Þegar fjárlög verða svo samin fyrir næsta ár, hlýtur að verða tekið tillit til þeirra breytinga, sem þá hafa orðið með þessu frv., eftir að það hefur verið afgreitt sem lög.

N. hefur haft þann hátt á að haga brtt. sinni þannig, að upp er prentuð í heild 2. gr. vegalaganna frá 1951, eins og hún varð eftir breytinguna þá.

Ég vil geta þess, að nýir vegir í frvgr. eru þar prentaðir með feitu letri, þ.e.a.s. fyrirsögn þeirra. Hins vegar eru breytingar, sem á vegunum verða undir einstökum liðum prentaðar með gleiðletri. Þetta á að gera hv. þm. auðveldara um vík að greina þær breytingar, sem gerðar eru með frv. frá gildandi ákvæðum um þjóðvegi.

Samtals hafa verið fluttar brtt. í báðum deildum við vegalögin nú um 1200 km nýja þjóðvegi. Hins vegar leggur n. til, að upp verði teknar till. um nýja vegi, sem samtals verða 866 km. Með þessu hefur n. og vegamálastjóri reynt að koma til móts við óskir hv. þm. í hínum einstöku héruðum og hefur ástæðu til þess að ætla, að samkomulag hafi tekizt við þá, þannig að ekki verði nú á ný fluttar brtt. við þetta frv.

Lengd þjóðvegakerfisins nú er um 7343 km, en þar af eru taldir akfærir 6493 km. Sýsluvegir eru hins vegar 2389.4 km, en þar af akfærir 1689.4 km. Hreppavegir eru taldir að lengd 1361.7 km, en þar af akfærir 804.9 km, og fjallvegir eru taldir um 400 km að lengd. Samtals eru vegir í landinu taldir 11494.1 km, en þar af akfærir 9387.8 km. Af vegakerfinu eru þá 2106.3 km ekki akfærir.

Til þess að fá nokkra hugmynd um þá þróun, sem gerzt hefur í vegamálunum, er rétt að benda á það, að akfærir þjóðvegir voru árið 1927 um 1300 km samtals. Árið 1937, eða 10 árum síðar, 3307 km. Á 10 ára tímabili frá 1927 til 1937, hafa þannig verið lagðir 2000 km af nýjum þjóðvegum. Sýsluvegir voru samtals árið 1937 2331 km, en þar af aðeins akfærir 1154. Samtals voru þá þjóðvegir og sýsluvegir árið 1937 6768 km, þar af akfærir 4461 km. Í dag eru hins vegar, eins og ég sagði áðan, samtals akfærir 9387.8 km, þannig að frá 1937 hefur lengd þjóðvegakerfisins rúmlega tvöfaldazt. Meginástæða hinna miklu framfara í vegamálunum á undanförnum árum er að sjálfsögðu sú, að nýjar vélar og tæki hafa komið til sögunnar, þannig að nú er hægt að vinna það verk á tiltölulega skömmum tíma, sem áður þurfti ár til að ljúka.

Þá vil ég geta þess, að n. hefur í samráði við vegamálastjóra tekið upp í 3. og 4. gr. frv. nokkurt nýmæli, þ.e. um nýbýlavegi. Þar er lagt til, að nýbýlavegir skuli að því er snertir nýbyggingu njóta sömu aðstöðu og þjóðvegir. Það hefur orðið nauðsynlegt að taka upp þetta ákvæði, vegna þess að með stofnun nýbýlahverfa hefur skapazt jafnhliða þörf fyrir lagningu nýrra vega. Um það var flutt sérstök brtt. hér í þessari hv. þd., að inn í vegalög kæmu ákvæði um það, að ríkið kostaði byggingu og viðhald nýbýlavega. Hefur vegamálastjóri lagt til, að hún yrði tekin upp í frv., og n. hefur fallizt á, að það yrði gert. Hins vegar er lagt til, að þegar lokið sé við að leggja nýbýlaveg, að dómi vegamálastjóra, þá skuli hlutaðeigandi sýslunefnd vera skylt að taka veginn upp í tölu sýsluvega og annast viðhald hans. Heimreið eða veg af nýbýlavegi til nýbýlis kostar nýbýlingur og nýbýlastjórn í sameiningu, en nýbýlingur hins vegar viðhaldið.

Þá er lagt til, að nokkur breyting verði gerð á 36. gr. vegalaganna um fjarlægð girðinga og húsa frá vegi. Nú gilda þau ákvæði um þetta efni, að setja má girðingu úr sléttum vír eða vírneti í eins metra fjarlægð frá vegi og úr gaddavír í 4 m fjarlægð frá vegi. Hefur verið talið æskilegt að hækka þessar fjarlægðir í 4 m, þegar um er að ræða sléttan vír, og í 8 m, þegar um er að ræða gaddavír, og enn fremur þykir óþarft að ákveða þessar fjarlægðir frá miðjum vegi. Þær eru nú miðaðar við vegarbrún.

Ég hygg þá, að ég hafi í aðalatriðum gert grein fyrir þessu frv. og þeim breyt., sem það felur í sér. Ég vil mjög eindregið vonast eftir því, eftir að það nána samstarf hefur verið haft sem raun ber vitni við einstaka hv. þm. í báðum d., að brtt. verði ekki fluttar við þetta frv. eins og það nú liggur fyrir. Það hefur verið reynt af hálfu vegamálastjóra og n. að koma til móts við óskir hv. þm. í þessum efnum eins og frekast hefur verið unnt, og það er nauðsynlegt fyrir framgang málsins á þessu þingi, að ekki hefjist nú almennur tillöguflutningur að nýju. Ég vænti, að hv. þm. geti fengið mjög greinargóðar upplýsingar bæði af skýrslu vegamálastjóra og enn fremur af því línuriti um vegi á Íslandi, sem fylgir grg. Ég held, að það sé mjög mikils virði einmitt, að sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir um mál sem þessi, og ég veit, að hv. þm. munu kynna sér þær upplýsingar, sem fylgja grg. þessa frv., vendilega.

Ég vil svo að lokum þakka vegamálastjóra alveg sérstaklega fyrir mikilsverða aðstoð við samningu þessa frv. og ágæta samvinnu við báðar samgmn. þingsins. Geir Zoëga hefur haft á hendi framkvæmd vegamála á Íslandi síðan árið 1911, og vegamálastjóri hefur hann verið síðan 1917. Ég býst við, að allir hv. þm., sem nú sitja hér á Alþ. og hafa starfað með honum, beri það einróma, að samvizkusamari og betri embættismann geti ekki. Ég vil ekki ljúka svo þessari framsöguræðu fyrir vegalagabreytingu nú, sem sennilega verður sú síðasta, sem Geir Zoëga undirbýr, þar sem hann hefur senn náð aldurshámarki embættismanna, án þess að flytja honum sérstakar þakkir frá samgmn. beggja þd. fyrir það mikilsverða starf, sem hann hefur unnið í þágu vegamálanna hér á landi.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.