03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

193. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Meðferð þessa máls er dálítið óvenjuleg, ef miðað er við þingmál almennt, en ef miðað er við vegalög sérstaklega, mun sams konar afgreiðsla hafa komið fyrir áður.

Eins og hv. frsm. gat um, er borið fram hér í hv. d. frv. til breytinga á vegalögunum, og annað frv. er borið fram í hv. Nd., og við þessi frv. koma svo fram ýmsar brtt. Hvorugt þessara frv. er afgr. úr þeirri nefnd, samgmn., sem um málið fjallar, en í þess stað taka samgöngumálanefndirnar sig til í báðum deildum og semja með ráði vegamálastjóra nýtt frv., sem nú liggur fyrir til umræðu. Ég legg ekki dóm á það, sízt áfellisdóm, að þetta séu neitt óheppileg vinnubrögð, þó að þau séu að vísu óvenjuleg, en þessu fylgir svo það, að samgöngumálanefndirnar, eða samvinnunefnd samgöngumála, eins og þær kalla sig, virðast með þessu hafa tekið sér eins konar einræðisvald í því, hvernig þetta mál skuli afgreitt, og er lítið tækifæri fyrir þingmenn til þess að koma þar að frekari óskum en þeir hafa áður gert. En það skal viðurkennt, að breytingarnar, sem frv. gerir á vegalögunum, eru yfirleitt byggðar á óskum þingmanna, sem fram voru komnar, og brtt., sem fram voru komnar við þau frv., sem fyrir deildunum lágu, og skal ég þá nota tækifærið fyrir mitt leyti til að þakka hv. nefnd eða hv. nefndum fyrir það að hafa tekið upp till., sem ég hafði flutt hér í hv. deild, og einnig till., sem samþingismaður minn, hv. 2. þm. Eyf. (MJ), hafði flutt í Nd. En þrátt fyrir það að málið sé undirbúið á þennan hátt, þá er það kunnugt, enda skýrt frá því af hv. frsm. nú áðan, að ein till hefði verið samþ. í Nd., sem n. ætlaðist ekki til að samþykkt yrði, og finnst mér, að hv. Ed. gæti nú einnig leyft sér að samþ. litla brtt. við frv. enn, ef svo sýndist, og það mundi varla verða því að falli.

Ég minnist á þetta sökum þess, að ég hef fengið áskorun frá flestum bændum í Skíðadal í Svarfaðardalshreppi um það, að vegur inn í Skíðadalinn verði tekinn í þjóðvegatölu.

Ég afhenti það skjal, sem þessi áskorun er í, hv. samgmn. þessarar deildar til athugunar. Að þetta er ekki fyrr flutt, er sökum þess, að ég fékk þessa áskorun víst fyrst í fyrradag, enda er hún dagsett 25. apríl s. l. Nú heyrði ég það, að hv. frsm. samgmn. óskaði eftir því, að frv. yrði samþ. óbreytt, og með því hefur hann sennilega kveðið upp dóm yfir þessari ósk Skíðdælinga, en ég vildi þó til frekari fullvissu um þetta spyrjast fyrir um það, hvort n. hefði tekið þetta erindi til sérstakrar athugunar og hver niðurstaða hennar væri um það, ef hún hefur um það tekið ákvörðun, því að hafi n. ekki tekið ákvörðun um þetta erindi, þó að það lægi fyrir henni, mundi ég, þrátt fyrir það að ég viðurkenni, að það sé rétti aðalatriðum að fallast á till. hv. n., þó gera tilraun við 3. umr. með brtt. að þessu leyti. En sé þegar tekin ákvörðun um þetta af hv. n. sérstaklega, þá tel ég ekki fært annað en að beygja mig fyrir því, því að þá mundi með öllu vera vonlaust að bera fram brtt., eftir því sem mér skilst, ekki sízt vegna þess, að þetta samkomulag, sem gert er um vegalögin, er gert á milli tveggja nefnda í báðum þingdeildum.

Úr því að ég kvaddi mér hljóðs, vil ég svo aðeins láta það í ljós, sem ég gerði í raun og veru þegar það frv. til breytinga á vegalögum var lagt fyrir þessa hv. deild, sem fyrst kom fram og ekki hefur verið til umræðu síðan, að mér finnst, að það hefði átt að endurskoða vegalögin á dálítið öðrum grundveili en gert hefur verið. Grundvöllurinn virðist vera sá að taka til greina óskir þm. að nokkru leyti — hluta þess, sem þm. hinna einstöku kjördæma hafa óskað um þjóðvegi í sínum kjördæmum, en heildarsjónarmiðs, hvað henti þjóðarheildinni, virðist ekki svo mjög gæta í þessu frv. frekar en verið hefur. Þannig hefur þetta verið, þegar vegalög hafa verið sett nú í seinni tíð, og það fer að verða auðséð, hvert stefnir. Verður án efa þannig innan skamms, ef þessari sömu stefnu verður framfylgt, að allir vegir verða þjóðvegir og engin aðgreining á vegum: þjóðvegum, sýsluvegum og hreppavegum. Þetta tekur sinn tíma, en ef nokkrum vegum er bætt í þjóðvegatölu á 3–4 ára fresti, eins og verið hefur undanfarið, þá er auðséð, að þar endar það.

Það er ef til vill ekki neitt við þetta að athuga. Að sjálfsögðu mundi þá leiða af því, að sérstakur tekjustofn, sem sveitarfélögin eða sýslurnar geta haft til vega, rynni þá til ríkissjóðs og yrði að breyta því hvað það snertir. Mér sýnist þetta þróunin, sem hljóti að koma samkvæmt því, sem nú er verið að gera og hefur verið gert, en ég er ekki alveg viss um, að þetta sé sú þróun, sem hefði í raun og veru átt að koma.