03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

193. mál, vegalög

Páll Zóphóníssson:

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós gleði mína yfir því og jafnframt þakklæti, að samgmn. hefur nú vitkazt það mikið, að hún hefur ekki lagt á móti því, eins og hún gerði síðast þegar lögin voru hér til umræðu, að teknir væru inn í lögin vegir, sem ríkissjóður sjálfur var búinn að leggja að öllu leyti og kosta lagningu á og halda síðan við. Nú eru þó þessir partar allir komnir inn nema einn. En einn, stuttur að vísu, fær enn þá að liggja utan við og ekki kominn í vegalög, þó að ríkissjóður hafi kostað hann að öllu leyti og lagt hann. Það gerir minna til núna, af því að það er ekki nauðsynlegt að fara hann hér eftir; þess vegna má hann kannske falla úr, þó ag ríkið hafi lagt hann, því að nú er kominn vegur í kringum Dýrafjörð og hægt að fara þá leið, en vegurinn frá Gemlufalli, bænum, og niður að ferjustaðnum, sem áður var farið og alltaf ferjað yfir, hefur ekki enn fengið þá náð að koma í vegalög, þó að ríkið sé búið að leggja hann og kosta hann til þessa. (Gripið fram í: Hvað er hann langur?) Hann er svo sem hálfur kílómetri, eitthvað svoleiðis, og hefur aldrei í vegalög komið. Það er nú víst sá eini vegur, sem lagður hefur verið utan við vegalög og eftir er núna, en ríkið hefur lagt og tekið að öllu leyti á sína arma. En síðast þegar við breyttum vegalögunum voru þeir einir 4 eða 5, sumir nokkuð langir, sem samgmn. sá ómögulega ástæðu til að taka inn í lögin hér í þessari deild, af því að það mátti ekki senda frv. á milli deilda, og þess vegna lét hún þá alla liggja utan við, þó að ríkið væri búið að leggja þá og kosta þá, áður en breytingin varð, af því að hún hafði gleymt að taka þá inn, þegar hún hafði málið til meðferðar, og vildi ekki senda málið milli deilda.

Ég vil þakka n. fyrir þetta. Ég vil jafnframt þakka henni fyrir það, að hún léttir dálítið á nýbýlafénu og gefur svigrúm til þess, að fleira sé hægt að gera og meira sé hægt að rækta á nýbýlunum en hefur verið, en jafnframt vil ég fá dálitla skýringu á því. Hún segir, að nýbýlavegir séu aðalvegir um lönd, sem nýbýlastjórn hefur tekið að sér að koma byggð á. Þessir vegir hafa áður verið lagðir og kostaðir að öllu leyti af nýbýlafé, af þessari 21/2 milljón, sem nýbýlasjóður hefur haft yfir að ráða til að koma upp nýbýlum. Nú eiga þessir vegir að komast inn á þjóðvegi um skeið a.m.k., en svo segir, að vegagerð þessi komi til framkvæmda jafnóðum og fé er veitt til hennar í fjárl. Á þá bygging einhvers nýbýlahverfis að stranda á því, að það hefur ekki verið veitt fé til þess í fjárl? Áður gerði það það aldrei. Nýbýlastjórnin lagði vegina fyrst, áður en hún byrjaði á að byggja nokkuð í viðkomandi hverfi, af nýbýlafé. Nú eiga þeir að leggjast af vegafé og féð á að veitast á fjárlögum, og þá vildi ég vona það og óska þess, að það stæði ekki á þeim fjárveitingum, svo að þess vegna þyrfti kannske að draga það að reisa nýbýlahverfi, af því að fé væri ekki veitt til þess og því ekki fyrir hendi.

Ég sem sagt gleðst af því, að þarna kemur viðbót við fé til að koma nýbýlunum áfram, þar sem þessir vegir eru teknir af nýbýlafénu, en ég vona jafnframt, að það standi ekki á því fé, svo að það verði til að tefja nýbyggð í einhverju byggðarhverfl. Ég vona, að það komi aldrei fyrir.

Þá vildi ég leyfa mér að benda á það — svona meira til gamans en til þess að fara alvarlega að ræða málið — að Alþ. hefur undanfarin ár með breytingu á vegalögunum geysilega mismunað sýslum og einstaklingum. Ef þið litið á þetta linnrit, sem hérna er, þá sjáið þið, að það eru hér til sýslur, sem enga sýsluvegi hafa til. Ríkið er búið að taka þá alla af sýslunni. Það eru til aðrar sýslur, sem hafa ekki neina hreppsvegi, það er allt saman komið á ríkið, bæði sýsluvegir og hreppsvegir, meðan aðrir rísa undir tugum og hundruðum kílómetra í hreppsvegum og sýsluvegum. Þetta er bara eftir því, hvað þm. viðkomandi héraða hafa verið duglegir að róa í stjórnarvöldunum til að fá vegina tekna í þjóðvegatölu. (Dómsmrh.: Finnst hv. þm. þetta vera gaman?) Nei, þetta er óréttlæti. En þetta er óréttlæti, sem samgmn. hafa aldrei reynt að laga, en vitanlega hefði átt að laga og átt að vera búið að laga fyrir löngu. Það er ekki nema eðlilegt, að í hverri sýslu sé eitthvað af sýsluvegum og í hverjum hreppi sé eitthvað af hreppsvegum. En þó að einhver þm. sé ýtinn og biðji og biðji og gangi á milli manna að fá þennan og þennan veg tekinn upp á ríkið úr hreppsvegi eða sýsluvegi, þá á bara ekki samgmn. að ljá sig til þess, en það hafa samgmn. gert. Og þó að ég þakki þeim nú fyrir hitt tvennt, sem ég áður nefndi, að hafa tekið í þjóðvegatölu vegina, sem höfðu þann rétt, af því að þeir voru lagðir og viðhaldið af ríkissjóði, alla nema þennan spotta frá Gemlufalli niður að ferjustaðnum, og þakka þeim fyrir það að hafa aukið við nýbýlaféð með tillögum sínum, þá þakka ég þeim sannarlega ekki fyrir þetta. Hér ættum við líka að vera á verði og gá að því, að það skapaðist sem minnst óréttlæti.

Einstaka tillögur, sem ég var með í tillögunum, sem ég lagði fram hér á þingi, hafa ekki komizt inn í þessi vegalög, þó allflestar. Ég skal ekki fara neitt verulega út í það. Ég t.d. gerði þá breytingu við einn liðinn, að vegurinn upp Gnúpverjahreppinn, Gnúpverjahreppsvegurinn, lægi nálægt Sandlæk í stað þess að liggja fyrir sunnan Laxá. Hann liggur þó nokkuð langt frá Laxá, en hann liggur alveg með túninu á Sandlæk, og er náttúrlega miklu eðlilegra að miða við, að hann lægi upp hjá Sandlæk, skammt fyrir sunnan Laxá. Ókunnugum manni, sem aldrei hefði faríð þessa leið og leitar að þessum vegi, dettur ekki í hug, að vegurinn upp hreppinn liggi frá Laxá, 2–3 km frá ánni. En ef það stæði, að hann lægi hjá Sandlæk, þá fer hann að átta sig, þegar hann kemur að bænum. Sömuleiðis kann ég illa við það að láta vegi liggja af vegum, sem eru ekki til í lögunum. Og ef n. hyrfi að því ráði að taka upp viðbót og leiðréttingar, þá finnst mér hún ætti að leiðrétta það. Það er nokkrum sinnum í þessum lögum, sem vegur er látinn liggja af vegum, sem eru ekki til, t.d. liggur Kaldrananesvegur af Bjarnarfjarðarvegi til Kaldrananess. Bjarnarfjarðarvegur er hvergi nokkurs staðar til í lögunum. Vegurinn, sem vegur á að liggja af, er ekki til. En það, sem meint er, er það, að hann liggi frá Reykjarfjarðarvegi í Bjarnarfirði. (Dómsmrh.: En er Bjarnarfjarðarvegur til í raunveruleikanum?) Það er til vegur, Reykjarfjarðarvegur, sem liggur yfir Bjarnarfjörð, og þar sem hann liggur yfir Bjarnarfjörð þveran dálítið innarlega, á að liggja af honum afleggjari út að Kaldrananesi, og það er sagt, að hann liggi af Bjarnarfjarðarvegi. En vegurinn heitir Reykjarfjarðarvegur alla leið úr Staðardal og norður úr, en svo er bara þessi kafli af honum skírður í vegalögunum, og það er sjáanlega meint, að hann sé kallaður Bjarnarfjarðarvegur þar, sem hann liggur yfir Bjarnarfjörð. Á sama hátt gætum við kallað veginn til Akureyrar Húnavatnssýsluveg, þar sem hann liggur yfir Húnavatnssýsluna, og Skagafjarðarveg, þar sem hann liggur yfir Skagafjörðinn, o.s.frv. Þetta er á nokkrum stöðum í lögunum. Og það er bara af óaðgæzlu að láta þetta eiga sér stað. Ég ætla ekki að koma með neina brtt. við þetta. Ég bendi á þetta. Ég leiðrétti þá nokkuð af þessu áður, þ. á m. þetta, í mínum tillögum. Og þó að nefndirnar hafi tekið þær flestar til athugunar og tekið þær upp, þá hafa þær ekki lagað þetta alls staðar. Á þetta vildi ég nú benda og benda n. á það, að ef hún fer í það að flytja hér brtt., t.d. eins og þm. Eyf. vildi, þá vildi ég gjarnan, að hún athugaði þetta, leiðrétti það sem prentvillur. Það er prentvilla, ef ég ætla að skrifa Sigurður Ólafsson, en skrifa allt í einu Gísli Jónsson, þó að það viti kannske allir, að ég á við Sigurð Ólafsson. Það er prentvilla, sem hægt er að leiðrétta jafnvel í prentun og prófarkalestri.

Ein brtt., sem ég flutti, hefur ekki verið tekin hér upp, og ég satt að segja held, að það sé af því, að þeir hafi ekki veitt henni athygli. Hún var sú, að Hegranesveg, sem liggur af Hofsósvegi hjá Garði fram að Ríp, vildi ég láta framlengja fram að Eyhildarholtí. Það byggðist í fyrsta lagi á því, að þarna liggja nokkrir bæir fyrir framan Ríp, sem hafa ekki vegasamband lengra úr kaupstað en að Ríp, en Eyhildarholt er fremsti bær í Hegranesi. En það var þó ekki fyrst og fremst vegna þessara bæja, sem ég bar þetta fram, heldur vegna þess, að það er sýsluvegur niður Hólminn og niður að Húsabakka og lögferja þar yfir og yfir í Eyhildarholt, og aftur lögferja frá Eyhildarholti yfir Austurvötnin og yfir í Blönduhlíðina. Og það var til að koma þjóðveginum í samband við þessar krossgötulögferjur, sem þarna eru yfir og eru farnar, sem ég vildi láta hann ná alla leið fram að Eyhildarholti. Það var til að tengja þjóðveginn við sýsluveg, sem liggur þarna þvert yfir fjörðinn á milli brúnna, hér um bil mitt á milli brúnna, og þar sem sýslan heldur við lögferjum bæði yfir Austur- og Vestur-Héraðsvötnin, til þess að hægt sé að fara þessa leið, þá vildi ég setja þjóðveginn fram nesið í samband við þetta, þannig að ef mér lægi á að fara yfir í Blönduhlíð og þyrfti að flýta mér, þá gæti ég farið í bíl inn að Eyhildarholti, látið ferja mig á lögferjunni yfir og verið þá kominn á þann stað, sem ég ætlaði mér á. Þess vegna var ég með þetta. Og ég held, að ef nefndin tekur upp breytingar, þá eigi hún að athuga þetta. Þetta er ósköp stuttur spotti. Það setur fjóra nýja bæi í vegasamband, og það tengir þarna saman þverveg — sýsluveg — yfir sýsluna miðja við þjóðvegina.

Svo skal ég ekki segja meira og jafnvel ekki flytja neinar brtt. við þetta, þó að ég hefði nú viljað leiðrétta sumt í þessu frv. En það er sama, ég mun ekki gera það og skal ekki hafa fleiri orð um þetta. En mér þykir vænt um þetta línurit. Það sýnir ljóslega, hvernig vegamálin á Alþ. hafa verið á villigötum fyrir áróður frá einstaka þingmönnum, án þess að það hafi verið tekið nægilegt tillit til heildarinnar.