15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Það hefur oft áður legið fyrir þinginu sams konar frv., og í raun og veru stendur í þeirri stuttu grg., sem frv. fylgir, það sem segja þarf um málið.

Eimskipafélagið hefur, eins og kunnugt er, á undanförnum árum, að mig minnir allt frá 1928, notið sérstakra skattívilnana. Það er farið fram á það í þessu frv., að það fái að njóta þessara sömu ívilnana enn um eins árs skeið og þá sérstaklega vegna þess, að nú standa yfir athuganir um skattgreiðslu hlutafélaga. Það er mþn., eins og kunnugt er, sem vinnur að því. Hún mun ekki ljúka sínu starfi varðandi þessa hlið málsins á þessu Alþ., en væntanlega verður hægt að leggja fyrir næsta þing almenn ákvæði um skattgreiðslur hlutafélaga, og mun þá Eimskipafélagið falla undir það í einu formi eða öðru. En á meðan það frv. verður ekki lagt fram, þykir eðlilegt, að það njóti þeirra sömu hlunninda og það hefur notið fram að þessu.

Ég leyfi mér að mælast til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.