15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. er raunverulega ekki aðeins frv. um skattfrelsi Eimskipafélagsins, það hefur alltaf verið á vissan hátt nokkuð meira; það hefur verið — og sérstaklega samþykkt þess — tákn eins konar viðurkenningar á þjónustu þess félags við þjóðfélagið. Það má máske um það deila, hvort út af fyrir sig sjálft skattfrelsið munar Eimskipafélagið svo gífurlegum fjárupphæðum. Hitt hefur ef til vill verið Eimskipafélaginu þýðingarmeira, að þingið hefur með skattfrelsinu á vissan hátt veitt því víssan virðingarsess á meðal fyrirtækjanna í okkar landi.

Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að við nú í dag, þegar þetta frv. kemur fram, komum fram með nokkrar spurningar og athugasemdir í sambandi við þá þjónustu, sem Eimskipafélag Íslands veitir þjóðfélaginu í dag. Við stöndum hér, og nokkra metra frá okkur liggja 7 skip Eimskipafélagsins bundin við hafnargarðinn, og í 4 vikur eru fleiri eða færri af skipum Eimskipafélagsins búin að vera stöðvuð frá því um miðjan marz. Áður hafði í febrúar allmikið af Eimskipafélagsskipunum verið bundið í hálfan mánuð út af deilu um nokkrar þúsundir króna alls, — deilu, sem lyktaði með því, að Eimskipafélag Íslands og önnur skipafélög féllust á að hækka grunnkaup hjá þeim mönnum, sem þau voru að deila við, um allt upp í 36%. Nú á Eimskipafélagið í deilu við Dagsbrún, við þá verkamenn, sem lægst eru launaðir, og Eimskipafélagið er búið að stöðva sín skip, sum allt upp í 4 vikur, og 7 þeirra liggja nú bundin. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að við hér á Alþ., þegar við förum að ræða um skattfrelsi Eimskips, hvort veita eigi Eimskipafélagi Íslands h/f áfram þá miklu viðurkenningu, sem það hefur fengið og hefur ef til vill verið því meira virði en féð, að það skipaði sérbekk á meðal allra hlutafélaga landsins, væri viðurkennt, að hafa sérstöku hlutverki að gegna, sem þjóðþingið liti svo á, að það yrði að viðurkenna með því að veita því fríðindi, sem aðeins ríkisfyrirtækjum annars eru veitt.

Nú hefur verið alger stöðvun í 4 vikur hér í Reykjavík, og það er svo einkennilegt, að á þessum 4 vikum er engu líkara en að öll framkoma af hálfu atvinnurekenda í sambandi við deiluna og öll afstaða þeirra hafi gerbreytzt. Einn stærsti aðilinn í þessari deilu er Eimskipafélag Íslands, og það er þess vegna ekki að undra, þó að við þess vegna í sambandi við Eimskipafélagið nú berum upp þá spurningu: Hvaða breyting er það, sem þarna hefur orðið á afstöðu Eimskipafélags Íslands frá því, sem oft áður var? Í upphafi þessarar deilu, sem nú stendur yfir og m.a. hefur stöðvað skip Eimskipafélagins, var rætt um það af flestra hálfu og ekki sízt af hálfu ríkisstj., að það yrði að sýna fulla sanngirni í þessari deilu. Það var jafnvel af sumum ráðherrum sagt hér á Alþ., að það væri sjálfsagt, að verkamenn fengju alla þá hækkun, sem atvinnureksturinn gæti borið, og það efast enginn um, að Eimskipafélag Íslands ber þó nokkra hækkun hjá Dagsbrúnarmönnum við uppskipunina. Það var í upphafi rætt um, að það yrði að sýna fulla sanngirni í garð verkafólks í þessari deilu. Það var sýnt fram á, að menn, sem höfðu ekki nema 3000 kr. til að lifa af á mánuði, ættu skilið að fá hærra kaup, og það var rætt um, að það þyrfti að gefast tími til þess að rannsaka þessa hluti, athuga möguleika þjóðfélagsins til þess að bera hækkun og annað slíkt.

Ég held, að það sé öllum hv. alþm. ljóst, að þjóðfélagið hefði miklu betur borið það, þó að það hefði orðið 20–25% hækkun hjá verkalýðnum, heldur en þá stöðvun, sem stóratvinnurekendur nú eru búnir að valda í einn mánuð, — og alveg sérstaklega Eimskipafélag Íslands hefði borið það betur að verða við nokkrum hækkunarkröfum verkamanna þegar í upphafi heldur en að láta koma til þessarar stöðvunar.

Hins vegar virðist ástandið þannig, að nú er hætt að ræða um það, hvort kröfur verkamanna séu sanngjarnar. Það er hætt að reyna að koma með einhverja útreikninga. Atvinnurekendur og þeirra fulltrúar hafa gefizt upp í öllum þeim hlutum. Það er allt annar hlutur, sem stóratvinnurekendurnir eru búnir að setja inn í þessa deilu, og það er valdið. Það virðist svo í dag sem auðmannaklíkan hér í Reykjavík leggi höfuðáherzluna á eitt og aðeins eitt í þessari deilu, og það er að sýna, að hún hafi vald til þess að stöðva atvinnutæki landsins og þar á meðal skip Eimskipafélags Íslands. Það lítur út fyrir, að það sé orðinn hugsunarháttur auðmannastéttarinnar hér í Reykjavík, að hún ætli að sýna verkalýðnum, að hún hafi valdið, og að hún hugsi ekki lengur neitt um það, þó að hún baki þjóðinni stórtjón, þó að atvinnulífinu sé valdið óbætanlegu tjóni með þeirri stöðvun, sem nú þegar hefur verið gerð. Það virðist svo sem auðmannaklíkan hér í Reykjavík stilli spurningunni einvörðungu frá stéttarbaráttunnar sjónarmiði, að hún, yfirstéttin í þessu landi, ætli að kenna verkalýðnum, að það sé dýrt að berjast fyrir rétti sínum. Það er ekki lengur reynt að mótmæla því, að það sé sanngirni, að Dagsbrúnarverkamennirnir fái kauphækkun og aðrir verkamenn; það er eingöngu verið að reyna að sýna verkalýðnum fram á, að til þess að fá þó að það væri ekki nema nokkuð af þeirri kauphækkun, sem hann hefur farið fram á, skuli hann verða að standa svo lengi í verkfalli, að hann tapi helzt megninu af því, sem hann vinnur, í árskaupi þessa árs.

Morgunblaðið var seinast í gær að reikna út: Verkalýðurinn er með mánaðarverkfalli búinn að tapa 8% af árskaupi, á sama tíma, sem atvinnurekendur hafa boðið 7%. — Ég býst við, að eftir hálfan mánuð muni þeir segja, ef þeir verða komnir upp í ein 12% þá: Nú eru verkamenn búnir að tapa 12%. — Og svona er reiknað. M.ö.o., sú auðmannaklíka, sem ræður yfir atvinnutækjum landsins, er að gera leik að því gagnvart þjóðfélaginu að stöðva atvinnutækin til þess að reyna að hræða verkamenn frá því í framtíðinni að knýja fram kröfur, sem allur landslýður viðurkennir að séu sanngjarnar og réttmætar.

M.ö.o.: Í staðinn fyrir rökræður og sanngirni er nú komið inn í þessa deilu ofstæki og ofmetnaður of ríkrar og of voldugrar auðmannastéttar hér í Reykjavík, — auðmannastéttar, sem skirrist ekki lengur við að fótumtroða hagsmuni þjóðarinnar til þess að reyna að svelta verkalýðinn til undirgefni, og Eimskipafélag Íslands er í dag gert að tæki í höndunum á þessari klíku. Það er það, sem við verðum að athuga, og það er það, sem hér á Alþ. verður að kryfja til mergjar í sambandi við það mál, sem við hér erum að ræða.

Það hefur ekki ætíð verið svona. Eimskipafélag Íslands hefur ekki alltaf verið notað á þennan hátt. Og ég vil leyfa mér að efast um það, að það sé vilji forstjóra Eimskipafélags Íslands, að Eimskipafélag Íslands sé notað á þennan hátt, sem nú er gert. Ég gæti trúað, að þeim, sem gagnvart þjóðinni eiga að bera ábyrgðina á framkvæmdum á málum Eimskipafélagsins, þyki hart að vera af utanaðkomandi öflum beygðir til þess að beita Eimskipafélagi Íslands á þann hátt, sem nú er gert. Ég gæti trúað, að ef forstjóri Eimskipafélags Íslands, Guðmundur Vilhjálmsson, hefði átt að fá að semja í friði og frjáls við Dagsbrún og við önnur verkalýðsfélög, þá væru komnir samningar nú þegar á.

Í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, þurfum við að grafast fyrir um, hvaða önnur öfl eru að verki, sem gera þessa deilu svona harðvítuga og stofna Eimskipafélagi Íslands í þá hættu, að það verði skoðað sem valdatæki ósvífinnar yfirstéttar til þess að beita almenning kúgun.

Eimskipafélag Íslands leit í upphafi á sitt hlutverk sem það að verða að þjónustu við okkar þjóð. Þegar hafizt var handa um stofnun Eimskipafélags Íslands, árin 1914–15, var grundvöllurinn lagður að þessu félagi í krafti þeirrar hugsjónar sjálfstæðis fyrir þjóðina og þjónustu við þjóðina, sem einkenndi alla þá reisn, sem var á söfnuninni í h/f Eimskipafélag Íslands. Þó að það héti hlutafélag, þá var ekki litið á það sem neitt venjulegt gróðafélag. Það var litið á það sem þjóðarsamtök, sem allir Íslendingar yrðu að standa saman um. Ég veit um bláfátæka verkamenn, sem lögðu fram sín 25 kr. hlutabréf, og 25 kr. voru 1914 og framan af árinu 1915 hundrað vinnutímar, það voru eins og 1400 kr. nú, og það var þorrinn af verkamönnum landsins, sem horfði ekki í það að vinna sína hundrað klukkutíma til þess að geta lagt fram minnsta skerfinn, sem hægt var að leggja í að reisa þetta félag. Af hverju var þetta gert? Það var gert vegna þess, að landsmönnum var ljóst, að með því að stofna þetta félag voru þeir að berjast á móti einokun. Þeir voru að berjast á móti einokun erlends auðfélags, sem einokaði ekki aðeins siglingar við okkar land og arðrændi okkar þjóð, heldur líka sýndi Íslendingum í hvívetna fyrirlitningu í allri sinni framkomu við þá, eins og sum kvæði okkar beztu skálda enn þá bera vott um.

Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað, voru þetta samtök þjóðar, sem var að rísa upp á móti auðvaldi, sem var að sýna danska auðvaldinn í tvo heimana, sem var að sýna, að heil þjóð, frá verkamönnum til atvinnurekenda, gæti staðið saman um að skapa íslenzkt félag til þjónustu við þjóðina og svara þannig erlendu auðfélagi og þeim kúgunarbrögðum, sem það beitti.

Það fór að vísu nokkuð snemma að bera á því, eftir að Eimskipafélagið var stofnað, að einnig sú auðmannastétt, sem upp reis í Reykjavík, ætti þar nokkra fulltrúa í, m.a. menn, sem nákomnir eru hv. flm. þessa máls. En það virtist þó ekki koma að verulegri sök. Eimskipafélag Íslands leit lengi vel svo á, þótt einstaka sinnum slægi í smábrýnur, að því bæri að koma öðruvísi fram en venjulegum hlutafélögum í landinu, því bæri að rækja skyldur við þjóðina, en ekki gerast beinn aðili í neinum beinum kúgunartilraunum við verkalýðinn.

1942, þegar verkamenn Reykjavíkur svöruðu þrælalögunum, sem sett voru þá í janúar, gerðardómslögunum svonefndu, með skæruhernaðinum, þá var Eimskipafélag Íslands eitt af fyrstu félögunum, sem sömdu við verkamenn, eitt af fyrstu félögunum, sem brutu þrælalögin, brutu lög landsins til þess að halda áfram sinni þjónustu við þjóðina og aðstoðuðu á þann hátt verkamenn við að fá fram sanngjarnar og réttmætar kröfur, sem þjóðinni var brýn nauðsyn á að fá fram þá. Eimskipafélag Íslands sýndi þá skilning á afstöðu verkamanna, og það gekk meira að segja svo langt að brjóta landslög, sem síðar voru brotin í „mask“ og afnumin um sumarið í ágúst. Verkamenn og Eimskip sýndu þá, að það var hægt að vinna saman að nauðsynjum þjóðarinnar, og sá andi í afstöðunni bæði hjá Eimskip og til Eimskips kom hvað eftir annað fram á næstu árunum á eftir.

Það vofðu á þeim árum líka oft yfir verkföll, og ég átti á þeim árum alloft samtöl og nokkra samninga við fim. þessa frv., hæstv. forsrh. núverandi, um þau mál. Þá var litið þannig á, ekki aðeins af okkar beggja hálfu, heldur og af meginhluta þjóðarinnar, að langvarandi vinnustöðvanir væru ógæfa fyrir þjóðina, — ógæfa, sem þyrfti að afstýra, — og að það væri rétt, að allir þeir menn, innan hvaða stjórnmálaflokka sem væri, sem vildu þjóðinni vel, reyndu að sameinast um að afstýra því, að framleiðslutæki þjóðarinnar og þ. á m. skip Eimskipafélags Íslands þyrftu að stöðvast vikum og mánuðum saman. Það var litið á það bæði af hálfu okkar og þorra þjóðarinnar sem skyldu að reyna að afstýra slíku, að reyna að láta ekki koma til þess, að verkamannastétt landsins annars vegar, sú sem heldur uppi öllu atvinnulífi þjóðarinnar, og auðmannastéttin hins vegar, sú sem hirðir gróðann af atvinnutækjunum og vinnu fólksins, þyrftu að standa sitt hvorum megin við hyldýpi og kasta peningum í þetta hyldýpi til þess að sjá, hvor þeirra gæti haldið út lengur.

Það var sameiginleg skoðun okkar og þorra þjóðarinnar þá, að það væri nauðsynlegt að hindra, að það kæmi til þess, að verkamannastéttin annars vegar og auðmannastéttin hins vegar yrðu að fleygja þeim 500 millj. kr., sem þjóðin þá var búin að eignast fyrir kauphækkanir verkalýðsins, í eyðslugjána, á meðan atvinnutækin stöðvuðust mánuðum saman og þessar stéttir prófuðu á milli sín, hvor þeirra væri sterkari. Það var litið á það sem gæfu, ef það væri hægt að afstýra slíkum langvarandi vinnustöðvunum. Og gæfan var í svo ríkum mæli með okkur, að það tókst, þrátt fyrir það þótt ýmsir væru á annarri skoðun í ýmsum flokkum, að tryggja vinnufrið, þegar leit út fyrir hörðustu stéttabaráttu á milli auðmannastéttar og verkalýðs Íslands. Og í krafti þess vinnufriðar tókst að endurnýja algerlega flota Eimskipafélags Íslands. Það tókst að mynda nýsköpunarstjórnina, og það tókst að gerbreyta allri afstöðu Íslendinga hvað flutninga snerti. Það tókst að tryggja, að hundruð millj. kr. yrðu hagnýtt til þess að kaupa flutningaskipaflota handa Íslendingum í staðinn fyrir að standa í 3 eða 6 mánuði í vinnustöðvunum og fleygja þessum flota í það hyldýpi, sem sú eyðsla hefði verið að standa í slíkri baráttu.

Ég man vel eftir þeim degi hjá okkur, sem þá áttum sæti í nýbyggingaráðinu, þegar Eimskipafélag Íslands, stjórn þess og forstjóri, komu til okkar. Við höfðum samið nokkra áætlun um byggingu flutningaskipaflota fyrir Íslendinga og sent til Eimskipafélagsins og fleiri skipafélaga og heitið þeim okkar aðstoð til þess að framkvæma og ná því háa marki, sem sett var um ekki aðeins endurnýjun, heldur nýsköpun flutningaskipaflotans. Það voru ýmsir á þeim tíma, sem þóttust vera fjármálamenn, en voru tortryggnir á, að það væri rétt að leggja í skipakaup á þeim tíma. Við áttum tal við stjórn Eimskipafélags Íslands, og hún virtist skilja, að það mundi vera rétt, að það væri einmitt þá tíminn til þess að leggja í að kaupa ný skip. Og ég man eftir því, að þegar hún lagði formlega sína umsókn um fé inn til okkar í nýbyggingaráði, þá afhentum við henni sama daginn ávísun á allt, sem hún bað um, ávísun á 42 millj. ísl. króna, sem hún gæti tekið, hvort heldur hún vildi í pundum eða dollurum, til þess að kaupa nýjan flutningaskipaflota handa Íslendingum, og þær 42 millj. ísl. króna, sem við afhentum stjórn Eimskipafélagsins til yfirfærslu á hennar inneignum hér, voru íslenzkar krónur, það voru krónur lýðveldisáranna, það voru stórar krónur, það voru krónur, þar sem ekki þurfti nema 6.50 til að eignast einn dollar, það voru ekki þær litlu krónur, þær „ameríkaníseruðu“ krónur, sem við búum við í dag. Þær 42 millj. væru a.m.k. jafngildi 140 millj. kr. í dag. Eimskipafélagið gerði þá þegar samninga um að kaupa og láta byggja þorrann af þeim glæsilega skipaflota, sem Eimskipafélagið nú á. Og það, að Eimskipafélag Íslands í dag á í sínum skuldlausu eignum einhvers staðar á milli 100 og 150 millj. kr., er því að þakka, að það tókst að skapa samstarf á milli ekki aðeins verkamannaflokkanna, Alþfl. og Sósfl., heldur líka meiri hluta Sjálfstfl. um nýsköpunina, um vinnufrið, og í krafti þess vinnufriðar og þeirrar stjórnarstefnu, sem þá var sköpuð, eignaðist Eimskipafélag Íslands sinn stóra, myndarlega skipaflota, sem ekki aðeins það, heldur líka þjóðin öll er stolt af.

Þegar nýbyggingaráð afhenti sín leyfi, hvort heldur fyrir togurum eða flutningaskipum, var aðeins sett eitt einasta skilyrði af þess hálfu, og það var, að þessi tæki, sem keypt væru fyrir þetta fé, væru notuð í þjónustu þjóðarinnar og væru ekki seld úr landi.

Eimskipafélagið hafði gott samstarf við verkalýðinn og verkalýðsflokkana á þessum árum. Eimskipafélagið gat í krafti þeirra áhrifa, sem verkalýðshreyfingin hafði þá í landinu og á ríkisstjórn, keypt sín nýju, glæsilegu skip. Og það var ekki nóg með það, það var líka af hálfu verkalýðshreyfingarinnar boðið fram og stungið upp á því þá að gera Eimskipafélaginu og togarafélögunum mögulegt að afskrifa á skömmum tíma allan þennan skipaflota. Það vorum meira að segja við, sem áttum upphaflega uppástungurnar að því. Það sigldi hvert skipið á fætur öðru í höfn á næstu árunum á eftir. Þjóðinni óx ásmegin. Reisn hennar, meðvitund hennar um mátt sinn og stolt hennar óx við hvert skip, sem í höfn kom. — Og nú lifum við það, að 7 af þessum skipum Eimskipafélagsins eru stöðvuð af harðsvíraðri atvinnurekendaklíku hér í Reykjavík, sem í 4 vikur hefur raunverulega ekki talað við verkamenn um kauphækkanir. Við lifum það, að þetta óskabarn þjóðarinnar, sem þjóðin og raunverulega verkalýðshreyfingin ekki sízt hvað eftir annað hefur borið á höndum sér, er misnotað sem tæki í höndum ofstækisklíku til þess að reyna að kúga verkalýðinn, til þess að reyna að kúga þjóðina.

Hvað er það, sem gerzt hefur á þessum tíma? Hvað er það, sem nú veldur því, að Eimskipafélag Íslands er notað í dag — að því er mér liggur við að fullyrða á móti vilja þeirra, sem opinberlega bera mesta ábyrgð, framkvæmdastjóra þess og slíkra og starfsfólks — til þess að reyna að sveigja verkalýðinn og þorra þjóðarinnar til undirgefni, því að það er vitað, að í þessari deilu stendur allur þorri þjóðarinnar með verkalýðnum? Hvað er það, sem gerzt hefur á bak við tjöldin frá þeim tímum, sem ég lýsti í upphafi, þegar Eimskipafélagið var stofnað, — frá þeim tímum, sem ég var að lýsa, þegar verkalýðsflokkarnir og meiri hluti Sjálfstfl. lögðu grundvöllinn að þeim glæsilega skipaflota, sem Eimskipafélagið á í dag?

Það virðist vera svo sem einhver ofstækisklíka, sem er illa við að koma fram í dagsljósið, ofstækisklíka innst í Sjálfstfl. hafi náð tökum á þessum fyrirtækjum og beiti nú öðrum aðferðum í viðureigninni á milli stéttanna en þeim aðferðum, sem þóttu réttmætar og skynsamlegar og voru þjóðinni til gæfu 1944.

Þegar ég segi: Sjálfstfl., þá segi ég það mjög vitandi vits. Það vill þannig til nú, að í öðru stjórnarblaðinu, í Tímanum, kemur hvað eftir annað fram, að hann hvetur til samninga í þessari deilu. Hvað eftir annað koma fram í Tímanum, málgagni Framsfl., tillögur um, að það sé orðið við sanngjörnum tilmælum verkamanna, það sé leyft að semja við þá, það sé ekki hleypt hörku í þessar vinnudeilur. Það er alveg öfugt við það, sem kvað við í Tímanum og hjá Framsfl. 1944, þegar bæði hjá Tímanum og sérstaklega Vísi voru ákaflega hatrammar áskoranir til atvinnurekenda um að halda út og að leggja til langrar baráttu við verkamenn, sem þá tókst að afstýra með samkomulagi verkalýðsflokkanna við meiri hluta Sjálfstfl. M.ö.o., annar stjórnarflokkurinn, Framsfl., virðist beinlínis vilja frið, vilja vinnufrið, vilja samstarf og samkomulag við verkamenn og er alveg ósmeykur við í ritsjórnardálkum Tímans að taka undir, að það sé sjálfsagt að semja, kauphækkanir séu nauðsynlegar.

Það berast því böndin að Sjálfstfl., innstu klíkunni í honum. Og ég mundi ekki fyrst og fremst draga hæstv. forsrh. inn í dilkinn hvað þetta snertir, vegna þess að hann hefur áður, eins og ég hef drepið á, sýnt mjög ríkan skilning á því, hvílík þjóðarógæfa það væri, ef til langra vinnustöðvana kæmi, ef stéttabaráttan milli verkamanna og auðmanna þyrfti að verða þjóðinni svo dýr, að þjóðarhagur kæmi til með að líða stórkostlega þar undir. Hvað er það, sem hefur gerzt í sambandi við pólitískar breytingar í innsta hring Sjálfstfl. og í sambandi við stjórn Eimskipafélags Íslands, sem gæti gefið okkur, sem erum þessum hnútum nokkuð kunnugir, ástæðu til þess að ætla, hvaða öfl væru þarna að verki? Ég tók eftir því, að fyrir nokkru bættist einn nýr stjórnarmeðlimur í stjórn Eimskipafélags Íslands. Það var hæstv. dómsmrh., sem nú er að koma hér inn, Bjarni Benediktsson, sem tók sæti í stjórn Eimskipafélags Íslands. Þar með virðist sá innsti hringur Sjálfstfl. og það e.t.v. einmitt sá armurinn, sem harðskeyttastur er, hafa fengið sinn fulltrúa í stjórn Eimskipafélagsins, og nú bregður allt í einu svo við, að Eimskipafélag Íslands er — öfugt við það, sem oft var áður — hagnýtt af einhverjum dularfullum öflum á bak við tjöldin, þannig að í 4 vikur er nú búið að stöðva alla þjónustu þessa óskabarns þjóðarinnar við þjóðina — og stöðva hana út frá hvaða sjónarmiði? Ekki út frá því sjónarmiði, hvort það sé sanngjarnt, sem verkamenn eru að fara fram á í þessu sambandi, heldur út frá hinu sjónarmiðinu, að nú skuli sýna verkamönnum, að þeir geti ekki fengið sínar kröfur fram, ekki einu sinni það, sem auðmannastéttin kunni að álita sanngjarnt af þeim kröfum, nema til þess sé fórnað hér í Reykjavík vinnu 7 þús. manna, sem hafa 20 þús. eða fleiri á sínu framfæri, það sé fórnað vinnu þessara manna í einn mánuð, tvo mánuði og máske lengur, þannig, eins og Morgunblaðið var að reikna út nú, að svo framarlega sem þeir að lokum mundu knýja fram þá kauphækkun, sem þeir eiga kröfu á, þá væri þó hægt í Morgunblaðinu að reikna út, að þeir væru búnir að tapa eins miklu af sínu árskaupi það árið. En það er sleppt að reikna út, hvað þjóðfélagið væri búið að tapa með slíku.

Nú vill máske einhver segja við mig, að það geti ekki verið, að í innsta hring Sjálfstfl., allra þrengstu klíkunni, séu teknar ákvarðanir um hluti eins og það, hvernig þessi deila skuli háð, hvort þessari deilu skuli ráðið til lykta með samstarfi og sættahug á öðrum eða þriðja degi verkfallsins, eins og margir vonuðust eftir, eða hvort það skuli heyja deiluna í einn mánuð eða lengur, til þess frá sjónarmiði auðmannastéttarinnar að kenna verkalýðnum, hvað það kosti að fara í verkfall. Nú vill máske einhver segja við mig, að það sé óhugsandi, að það sé verið að ræða svona hluti í innsta hring Sjálfstfl., — og það er rétt, að ég get ekki lagt neinar sannanir á borðið fyrir, að slíkt hafi verið gert. Ég get aðeins bent á, að einn mesti valdamaður Sjálfstfl. og einn harðskeyttasti baráttumaður hans, hæstv. dómsmrh., er nýkominn í stjórn Eimskipafélags Íslands, og eftír að hann er kominn í stjórn Eimskipafélags Íslands, er Eimskipafélag Íslands hagnýtt til harðvítugri stéttabaráttu, til harðvitugri árása á þjóðarhag en hefur nokkru sinni verið gert fyrr.

Hins vegar kann náttúrlega að koma eitthvað fram í endurminningum þessara manna seinna meir, þegar þeir fara að skrifa um, hvað gerzt hefur á þessum tímum, og þegar það hefur ekki elns mikla þýðingu fyrir dægurpólitíkina, hvað fram kemur. Það koma stundum upp slíkir hlutir seinna meir. Ég skal t.d. minna á, að 1932 gerðist sá atburður hér í Reykjavík, að meiri hlutinn í bæjarstjórn Reykjavíkur tók þá ákvörðun að lækka kaupið í atvinnubótavinnunni raunverulega úr eitthvað í kringum kr. 1.30 og niður í eina krónu, — lækka kaupið stórkostlega. Það var ákveðið að byrja á þessu í atvinnubótavinnunni. Meiri hluti bæjarstjórnarinnar ákvað að gera þetta þar einvörðungu, og meðan var ekkert farið að tala um slíka kauplækkun annars staðar. En í atvinnubótavinnunni háttaði þannig til á þeim tíma, að hundruðum saman voru verkamenn hér í Reykjavík atvinnulausir, skráðir atvinnuleysingjar voru 500–600, og miklu fleiri voru atvinnulausir. Atvinnubótavinnunni var skipt þannig niður, að eina viku af fjórum höfðu menn vinnu. Hjá þessum mönnum, sem höfðu einnar viku laun til þess að lifa af, átti að lækka kaupið um 25–30%, og það var bæjarstjórn, það var meiri hl. Sjálfstfl. í Rvík, sem ætlaði að lækka þetta, og það var náttúrlega sagt eins og vant var, að það væru engir peningar til, aumingja bæjarstjórnin hefði enga peninga til þess að borga verkamönnunum áfram. Það þekkja allir, til hvers þessi lækkunartilraun leiddi. Hún leiddi til þess, að það urðu nokkur átök, og við þau átök brá allt í einu svo við, að það voru nógir peningar til um kvöldið 9. nóv. og meiri hl. Sjálfstfl. í bæjarstjórn Rvíkur samþykkti að hætta við að lækka kaupið í atvinnubótavinnunni. En það kom nokkru seinna fram, ég veit ekki, hvort það var óvart, — að miðstjórn Sjálfstfl. hefði tekið þá ákvörðun, að það skyldi hafin allsherjar kauplækkun, að það skyldi byrjað á mönnunum í atvinnubótavinnunni í Rvík og að bæjarstjórnin eða meiri hl. Sjálfstfl. í Rvík skyldi hljóta þann heiður að fá að níðast á þeim, sem höfðu minnst af öllum og meira en hálfsultu með sínar fjölskyldur. Bæjarstjórnarmeirihlutinn, sem Sjálfstfl. hafði í Rvík, skyldi fá þann heiður að hefja kauplækkunarherferðina með því að ráðast á þá, sem voru í atvinnubótavinnunni í Rvík. Þannig upplýstist það, að árásir, sem gerðar eru, og árásir, sem gera á af hálfu atvinnurekendastéttarinnar í Rvík, voru í þessu tilfelli og máske oftar upprunalega ákveðnar í innsta hring Sjálfstfl. í Rvík, og sá Sjálfstfl. áleit ekki rétt að halda undan og hætta við slíkar árásir, nema honum væri sýnt þannig í tvo heimana, að hann væri, eins og sást á blöðum þá dagana, orðinn hræddur um völd sín í landinu. Þegar lögreglan í Rvík hafði verið gerð a.m.k. frekar léleg til starfa þann dag, þá bjuggust þeir við því, auðmennirnir hér í Rvík, eins og seinna var skrifað í sumum blöðum, að nú mundu ótætis bolsévíkarnir taka bankana næst og líklega ríkisstj., því að hver einasta hræring og hreyfing hjá verkalýðnum er venjulega túlkuð sem einhver byltingartilraun ægilegra kommúnista af hálfu Sjálfstfl.

Þess vegna er það ekkert undarlegt, þegar verkfall er búið að standa hér í 4 vikur, þegar skip Eimskipafélags Íslands hafa verið stöðvuð, sum þeirra í 4 vikur, þegar 7 skip Eimskipafélags íslands liggja hér nokkur hundruð metra frá okkur bundin við hafnargarðinn og þegar þjónusta Eimskipafélags Íslands við þjóðina er slík, að svo að segja ekkert af hennar skipum gengur lengur, þó að við spyrjum, ekki sízt eftir að einn helzti valdamaður Sjálfstfl. hefur tekið sæti í stjórn Eimskipafélagsins: Hefur miðstjórn Sjálfstfl. tekið þá ákvörðun eða jafnvei einhver klíka í Sjálfstfl., sem er ekki einu sinni miðstjórnin öll, að láta þetta verkfall og láta þessa vinnustöðvun verða aflraun á milli verkamannastéttarinnar í landinu og auðmannastéttarinnar í landinu, en reyna ekki, eins og stefnt var að í upphafi, að leysa þetta mál í friði og með samkomulagi, að leysa þetta mál í sama anda og þeim, sem vinnudeilurnar voru leystar með 1944, þegar grundvöllurinn var lagður að öllum þeim auð og öllum þeim skipaflota, sem Eimskipafélagið á nú til að veita þjóðinni þjónustu með?

Það urðu verkalýðnum, og ekki aðeins verkalýðnum, heldur líka fjölmörgum atvinnurekendum, vonbrigði, þegar fyrsta sunnudaginn, sem verkfallið stóð, þá samninganótt gekk ekki saman, og það er ekki nema eðlilegt, að maður kasti fram þeirri spurningu, þegar skip Eimskipafélagsins hafa verið stöðvuð í 4 vikur og 7 þeirra liggja hér í höfninni: Var það eitthvert utanaðkomandi valdboð, sem olli því, einhverjar ákvarðanir í einhverjum innsta hring Sjálfstfl. eins og 1932, sem ollu því, að allt í einu var tekið fyrir allar samningatilraunir og af hálfu harðsvíruðustu auðmannaklíkunnar í Rvík farið inn á þá braut að gera þetta verkfall, eins og það virðist nú vera að verða, að aflraun á milli verkamannastéttarinnar og auðmannastéttarinnar?

Ég veit ekki, hvað hefur gerzt þarna á bak við tjöldin, það kemur ef til vill seinna fram og það þyrfti að koma fram. En það er a.m.k. ljóst, að það er komið í spilið í samningum um vinnufrið á Íslandi slíkt pólitískt. ofstæki og slíkur ofmetnaður frá hálfu forríkra manna, að þeir meta það meira að reyna að sýna alþýðu vald sitt og beita verkalýð kúgun heldur en að leysa vandamál þjóðarinnar, þannig að þjóðarheildinni vegni sem bezt. Og ég vil minna á, þegar við leggjum saman tvo og tvo, þegar verkalýðsflokkarnir báðir og meiri hl. Sjálfstfl. vildu leggjast á eitt, þá tókst að tryggja vinnufrið, og Framsfl. með afstöðu síns blaðs, Tímans, sýnir nú sams konar afstöðu og þá einkenndi verkalýðsflokkana og betri hluta Sjálfstfl., en þegar það kemur svo fram í dag, að farið er að stofna til svona harðsvíraðra og langra átaka, þá berast böndin að þeim aðilum innan Sjálfstfl., sem hafa alltaf gert það að aðalpólitík sinni að berjast á móti verkalýðnum og hvers konar samstarfi við verkalýðinn í landinu.

Ég vil segja auðmannastétt Rvíkur það og þeim pólitísku ofstækismönnum, sem í dag misnota Eimskipafélag Íslands til þess að stöðva það eins lengi og búið er að gera, að það þýðir ekki og það er ekki til neins fyrir þá að láta sig dreyma um það að ætla að beygja verkalýð Rvíkur með þessum aðferðum. Það þýðir ekkert að ætla að reyna að svelta hann til undirgefni. Hann hefur horfzt í augu við lengri verkföll, og hann hefur horfzt í augu við lengri og erfiðari atvinnuleysistíma en þann, sem skellur yfir hann í slíku verkfalli. Verkalýður Rvíkur hefur staðizt hvaða sultarherferð sem innsti hringur Sjálfstfl. hefur skipulagt á hendur honum hér í Rvík. Hann hefur staðizt atvinnuleysisárin hér, þegar átti að níðast á honum. Hann hefur staðizt, þó að hann hafi ekki haft nema eina viku af 4 að vinna og þótt það hafi átt að lækka launin í þeirri einu viku. Verkalýðurinn bognar ekki, hann er sterkari í dag, hann er líka efnaðri í dag en hann var þá. Hann kemur ekki til með að brotna í þessu. Og það skulum við muna, að það er hægt að reka öll atvinnutæki Íslands án auðmanna og án atvinnurekenda, en það er ekkert hægt að reka af þeim án verkalýðs. Það mega þeir menn muna, sem ætla að láta verkföll og vinnustöðvanir verða aflraun á milli verkamannastéttarinnar og auðmannastéttarinnar. Það er hægt að reka öll skip Eimskipafélagsins með sjómönnunum, sem á þeim eru, og án þeirra, sem eru taldir eiga Eimskipafélagið í dag. Það er hægt að reka Eimskipafélag Íslands sem þjóðareign með sjómönnunum, sem á þeim eru, en það er ekki hægt að reka það án sjómannanna og án verkamannanna.

Það þýðir ekki fyrir auðmannastéttina að ætla að fara í slíka aflraun við verkalýðinn. Hitt skal ég viðurkenna, að það eru máske aðrir, sem hafa brotnað í þessari deilu, sem stendur í dag. Það eru ýmsir smærri atvinnurekendur farnir að kvarta. Það eru smærri atvinnurekendur — jafnvel sumir þeirra mundu kannske vera taldir allstórir — farnir að koma til forvígismanna verkalýðssamtakanna og spyrja þá að því: Hvernig er það, getum við einhvern veginn tryggt okkur að geta fengið verkamenn, þegar þessari deilu lýkur? — Það eru margir smærri atvinnurekendur, sem eru fjárhagslega að brotna saman í þessari deilu, þola ekki svona stöðvun. Það er ekki í þágu verkalýðsins, að þeir brotni saman, en það er máske í þágu annarra, að smærri atvinnurekendur brotni fjárhagslega saman og einokunarklíkan hér í Rvík geti keypt upp fyrirtæki þeirra á eftir. Við höfum tekið eftir því, hvernig stefnt hefur verið að því að reyna að safna í hendurnar á lítilli einokunarklíku meira og meira af öllum atvinnutækjum þjóðarinnar, og það má vel vera, að harðsvíraðasta auðmannaklíkan í þessu landi vilji láta þessa vinnustöðvun verða til þess, að ýmsir þessir smærri sæmilega bjargálna menn eða jafnvel þeir, sem fyrir verkfallið voru sæmilega efnaðir menn, fari þannig á hausinn, að hægt verði fyrir einokunarklíkuna að sölsa þeirra fyrirtæki undir sig á eftir. Það er engum í hag nema þessum einokunarhring í auðmannastétt Rvíkur að heyja þessa deilu á þann hátt, sem hún nú er háð, því að frá hálfu Vinnuveitendafélagsins virðist hún nú háð með það einvörðungu fyrir augum að reyna að svelta verkamenn til undirgefni.

Þegar þess vegna farið er fram á það með þessu frv. að veita Eimskipafélagi Íslands þau sérréttindi um skattgreiðslu og þá viðurkenningu, sem það fær með þessu frv., þá er ekki nema eðlilegt, að reynt sé að knýja fram svörin við því, hvað veldur því, að Eimskipafélag Íslands er ekki búið að semja við verkamenn. Hvað veldur því, að Eimskipafélag Íslands heldur ekki áfram að rækja sína þjónustu við þjóðina? Vill máske forstjóri Eimskipafélagsins semja og fær það ekki? Er verið að beygja fleiri og fleiri af þeim, sem gjarnan vildu halda áfram sínu þjónustustarfi, undir hnútasvipu innsta hrings Sjálfstfl. til þess að láta þá heyja harðsvíraða stéttabaráttu við verkalýðinn? Rekstur Eimskipafélagsins er sameiginlegt hagsmunamál og áhugamál allrar þjóðarinnar. Misnotkun Eimskipafélagsins af hálfu auðmannastéttarinnar í Rvík skapar þjóðarhættu, og það er þess vegna nauðsynlegt fyrir okkur að vara við því, vara við þeirri braut, sem farið er inn á með þeirri misnotkun, sem á sér stað í dag með Eimskipafélagið. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að ekki aðeins hæstv. forsrh., sem sjálfur flytur þetta frv., heldur líka sú n., sem kemur til með að fá þetta mál til meðferðar, reyni, eftir því sem hún hefur möguleika til, að grafast fyrir um, hvaða kraftar eru þarna að verki. Ef svona hlutir eiga að endurtaka sig, að Eimskipafélagið er stöðvað til þess að þjóna meira eða minna duldum tilgangi harðsvíraðrar auðmannaklíku hér í Rvík, og ef það á að fara að gerast nú hvað eftir annað, þá verður þjóðin að taka til alvarlegrar athugunar, hvernig hún ætlar að hafa rekstur þessa skipafélags í framtíðinni. Þetta ástand er óviðunandi. Alþýða landsins og verkalýður landsins getur ekki horft upp á það, að tæki, sem hann hefur á margan hátt hjálpað til að skapa, hann sjálfur rekur og byggist á hans vinnu, sé notað sem kúgunartæki á móti honum. Ég vil þess vegna vonast til þess, að hv. deild athugi mjög vel sinn gang í sambandi við þetta mál. Hér er um að ræða líklega annað stærsta fyrirtæki þjóðarinnar. Eimskipafélagið með sínar 150 millj. kr. er líklega næst Landsbankanum ríkasta fyrirtæki landsins. Það er ríkt í krafti þess, að það hefur notið umönnunar, aðstoðar og virðingar þjóðarinnar. Ef sú auðmannastétt, sem sérstaklega nú á þessum síðustu fáu árum hefur risið upp hér í Rvík, ofmetnast af sínum auði, ætlar að fara að beita þessu þjóðartæki sem kúgunartæki á móti þjóðinni, þá verður alþýða landsins að taka í taumana.