15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um skattfrelsi til handa Eimskipafélagi Íslands, mun nú ekki vera hér neinn nýr gripur á ferð, en samt sem áður ætla ég nú að leyfa mér að rifja aðeins upp þær forsendur, sem hljóta á hverjum tíma að verða að liggja fyrir, til þess að Alþ. geti með skaplegu móti veitt einu félagi undanþágu frá landslögum, því að það er í rauninni það, sem hér er farið fram á að gert sé.

Til þess að það sé réttlætanlegt af Alþ. hálfu að veita slíkar undanþágur frá lögum, þá tel ég, að annaðhvort verði að vera fyrir hendi, að um sé að ræða, að félagið sé mjög fjárþurfi og hafi ekki möguleika til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem lögin annars leggja því á herðar, eða ef það er ekki, þá verði það að vera fyrir hendi, að félagið inni af hendi svo mikilvæga þjónustu fyrir þjóðina, ekki einasta einhvern lítinn hluta þjóðarinnar, heldur fyrir þjóðina því sem næst alla, að það sé réttlætanlegt að gefa félaginu undanþágu frá almennri lagaskyldu, sem í landinu gildir.

Ef við nú athugun hvernig þessir hlutir standa í sambandi við Eimskipafélag Íslands, þá er þar fyrst mála að athuga: Þarf félagið þess arna með vegna slæmrar fjárhagsafkomu? Enginn mun halda því fram. Þvert á móti er það vitað mál, að fjárhagsafkoma félagsins er góð og félagið er fullkomlega sjálfbjarga. Það hefur þegar komizt yfir þann hjalla að eignast góðan skipastól og annað, sem til þess þarf að reka hann.

Það stendur í grg. frv., að frv. sé flutt að beiðni stjórnar Eimskipafélags Ísands. En hæstv. forsrh., sem er flm. þessa máls, kom raunar þvert ofan í þessa grg. hér í framsöguræðu sinni, þar sem hann sagði, að Eimskipafélagsstjórnin væri ekki sérlega áfjáð í það, að þetta frv. væri flutt, en honum, forsætisráðherranum, fyndist eðlilegast, að félagið nyti þeirra fríðinda, þeirrar undanþágu frá skattgreiðslum, sem það hefur notið um undanfarin ár, þar til búið væri að ganga endanlega frá þeirri lagasmíð, sem ríkisstj. telur sig hafa á prjónunum um skattgreiðslur félaga í landinu.

Það er ekki að vita, hve langt getur liðið þangað til þau lög komast í höfn. Ég minnist þess, að þegar lög um tekjuskatt og eignarskatt voru afgreidd hér frá síðasta Alþingi fyrir um það bil einu ári, var kaflanum um skattgreiðslur félaga frestað, þ.e.a.s., hann var afgreiddur til bráðabirgða, en endanlegri lausn hans var frestað og gefið í skyn, að tillögur um hana mundu liggja fyrir á því þingi, sem nú stendur yfir. En þær hafa enn ekki séð dagsins ljós, og það gæti orðið býsna langur tími enn þá, sem Eimskipafélagið hefði skattfrelsi, ef það ætti endilega að miða skattfrelsistímabil þess við það, hvenær ríkisstj. kann að hafa gengið frá lögum eða lagafrv. um skattgreiðslur félaga í landinu almennt. Ég tel þess vegna, að sú meginástæða, sem gæti annars hugsazt að réttlætti skattfrelsi þessa félags, þ.e.a.s. fátækt, sé ekki fyrir hendi.

Þá komum við að hinu: Hvernig þjónar félag þetta því hlutverki sínu að inna af hendi flutninga fyrir landsmenn almennt, og hvernig kemur það fram gagnvart þjóðinni sem heild, þeirri þjóð, sem hefur haft það undanþegið skatti í mörg ár?

Það hefur verið rakið hér svo greinilega, að ég ætla ekki að fara neitt sérstaklega ofan í það, hvernig félagið í vinnudeilum, m.a. í þeirri vinnudeilu, sem nú stendur yfir, skipar sér fremst í röð með atvinnurekendum í baráttu gegn almennri kauphækkun í landinu, og hefur þó enginn mér vitanlega haldið því fram, að félagið þurfi af fjárhagsástæðum að standa gegn því, að verkamannakaup hækki.

Komum við þá að því, hvernig þjónusta félagsins er við landslýðinn almennt.

Ég sá þess getið í blaði hér sem furðulegs atburðar úr verzlunarháttum, að nú tíðkaðist það, að þeir menn í Reykjavik, sem vildu kaupa sér brennivínsflösku, fengju einhvern vin sinn, t.d. í Vestmannaeyjum, til þess að panta brennivínsflösku í pósti, þar sem áfengisverzlun ríkisins er lokuð í Reykjavík, en hún afgreiðir hins vegar póstsendingar út á land. Síðan fengju þeir aftur með pósti frá Vestmannaeyjum sína brennivínsflösku senda til Reykjavíkur. Og það er vissulega alveg hárrétt, að það er verzlunarmáti og það er þjónusta, sem enginn getur haldið fram að sé eðlileg, að sá maður, sem þarf að kaupa sér vörur, hvort heldur er brennivín eða einhver annar varningur, þurfi að gera sínar pantanir frá fjarlægum stað og fá vöruna flutta um óraleiðir fram og til baka, áður en hún kemst í þeirra hendur.

En þetta er dálítið lærdómsrík saga, og þó að þetta þyki furðusaga hér í Reykjavík, þá er þetta nákvæmlega sagan um það, hvernig vöruflutningaþjónustan er leyst af hendi fyrir allan þorra þess fólks, sem býr úti á landsbyggðinni.

Við Vestmanneyingar megum t.d. horfa á eftir Fossunum, skipum Eimskipafélags Íslands, sigla með varninginn, sem við fáum keyptan frá útlöndum, fram hjá okkar höfn, sigla með hann til Reykjavíkur um 120 mílna vegalengd. Þangað verðum við að senda á eftir Fossunum mótorbáta, sem í smáskömmtum verða svo að flytja okkur varninginn til baka, auðvitað með ærnum kostnaði og stórkostlegri dýrtíðarmyndun úti á landsbyggðinni.

Ég vil að svo stöddu máll ekki láta neitt uppi um það, hvort ég get gert kost á því að fylgja því, að Eimskipafélag Íslands fái áfram sem hingað til að halda sínum skattfríðindum. En ég skal taka fram, að það hlýtur að verulegu leyti að bindast því, hvort þetta félag, sem er aðalflutningafélag landsmanna að því er tekur til flutninga á sjó, er fáanlegt til þess að endurskoða áætlanir skipa sinna með það fyrir augum að þjóna betur því fólki, sem úti á landsbyggðinni býr. Sú þjónusta, sem það veitir nú, er engan veginn fullnægjandi fyrir þá, sem ekki búa hér í höfuðstaðnum, og því miður hefur félagið ekki tekið tillit til landsbyggðarinnar svo sem skyldi. Ef þeir hlutir stæðu til bóta, þá gæti mjög komið til mála að veita því fylgi, að það héldi sínum skattfríðindum. En skilyrði þess, að eitt félag geti ætlazt til þess af þjóðinni, að það fái að vera undanþegið þeirri þegnskyldu, sem annars hvílir á að lögum, er það, að það leggi sig fram um að veita sem bezta þjónustu.