28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Um þetta mál hafa stundum verið nokkrar deilur hér í þingi, en meiri hluti fjhn. d. leggur til á þskj. 631, að frv. verði samþ., og vísar í því sambandi sérstaklega til þess, að nú eru í endurskoðun ákvæði l. varðandi skattgreiðslu félaga. Mun vart dragast lengur en til næsta þings, að frá því verði endanlega gengið, og frv. það, sem hér um ræðir, um skattgreiðslu Eimskipafélagsins, gerir aðeins ráð fyrir að framlengja gildandi ákvæði um skattgreiðslur félagsins í eitt ár.

Að þessu athuguðu virðist harla ástæðulítið að taka upp deilur um þetta mál að svo komnu. Ég er mjög ósammála ýmsu því, sem hér hefur verið sagt um Eimskipafélagið, en hirði ekki á þessu stigi málsins að fara út í þá sálma og geri naumast ráð fyrir, þar sem málið er þannig í pottinn búið, eins og ég nú hef gert grein fyrir, að það þurfi á þessu stigi málsins að verða mönnum ásteytingarsteinn. Allir nm. nema einn leggja sem sagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.