03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat ekki mætt á fundi n., þegar þetta mál var tekið til afgreiðslu. Ég lít svo á, að í raun og veru sé fyllsta ástæða til að athuga gaumgæfilega, hvort ástæða sé til að láta Eimskipafélag Íslands framvegis halda því skattfrelsi, sem það hefur notið til þessa. Félagið er orðið mjög vel efnum búið, og fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, hvernig hluthafaskráin nú er, en því er ekki að leyna, að ýmsir óttast, að sú breyting sé sumpart orðin og sumpart að verða, að hlutabréfin, sem í upphafi mátti telja almenningseign að mestu leyti, dragist á æ færri og færri hendur, þannig að bygging félagsins og samsetning verði önnur eða sé þegar orðin önnur en í upphafi var og æskilegt var talið. Félagið hefur einnig safnað miklum eignum og er nú sennilega, ef ekki tvímælalaust, ríkasta félag á landinu, og eru því ákaflega miklir fjárhagslegir hagsmunir við það tengdir hjá þeim mönnum, sem eiga eða hafa ráð á miklum hluta hlutafjárins.

Það er augljóst líka, að Alþ. hefur gert sér grein fyrir því, að ástæða væri til þess að hafa hér alla aðgæzlu við, því að lögin um skattfrelsi Eimskipafélagsins hafa jafnan verið afgr. þannig, að þau hafa verið framlengd frá ári til árs, eins og nú er lagt til, eða framlengd um tiltölulega skamman ákveðinn tíma.

Nú stendur svo á, að endurskoðun skattalaganna, sérstaklega skatta félaga, stendur yfir, og þess er vænzt, að till: um þetta efni komi fyrir næsta Alþ., eftir þeim upplýsingum, sem bornar hafa verið fram hér í þessari hv. deild.

Ég get einnig fallizt á það, að frá því að þessi lög voru síðast samþ., hafa ekki þær breytingar á orðið hjá Eimskip, sem gefi sérstaka ástæðu til þess, að þetta skattfrelsi, sem það hefur nú, verði bundið þeim skilyrðum, sem lögin gera ráð fyrir.

Ég mun því ekki vera meinsmaður þess, að þetta frv. nái fram að ganga að þessu sinni, en vildi mega ítreka það, að ég vænti þess, að áður en kæmi til framlengingar á þessu frv. eða tilsvarandi ákvæði yrðu sett í skattalögin, væri fullnaðarupplýsinga aflað um það, hvernig í fyrsta lagi hagur félagsins raunverulega er, og í öðru lagi, hvernig háttað er umráðum yfir því fé, sem telst hlutafé félagsins, þ.e.a.s., hverjir eru hinir raunverulegu eigendur þess og þar með ráðamenn og eigendur félagsins.