10.12.1954
Neðri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

122. mál, kirkjubyggingasjóður

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um kirkjubyggingasjóð, flyt ég ásamt hv. 2. þm. N-M. Efni þess er, að breytt verði 1. gr. laganna á þá leið, að heimild til lánveitinga úr kirkjubyggingasjóði verði ekki eingöngu bundin við þjóðkirkjusöfnuði, heldur megi einnig veita lán öðrum kirkjueigendum eftir nánari reglum og með þeim skilyrðum, sem tilgreind eru í 1. gr. þessa frv., en samkv. nýsettum lögum um kirkjubyggingasjóð er eingöngu heimilt að veita þjóðkirkjusöfnuðum lán úr sjóðnum.

Í landinu munu nú vera um 280 sóknarkirkjur eða rúmlega það. Það venjulega er, að söfnuðirnir eigi sjálfir kirkjur sínar, en þessu er samt ekki svo farið um allar kirkjur. Um nokkuð margar sóknarkirkjur er þannig ástatt, að þær eru eign bænda, sem jafnframt eru eigendur þeirra jarða, sem kirkjurnar standa á. Frá fyrri tíð hafa kirkjurnar fylgt jörðunum, og sú kvöð hefur hvílt á jarðeigandanum að annast viðhald kirkjunnar og endurbyggingu, ef með þarf, svo og að bera annan kostnað við kirkjuna, að því leyti sem kirkjugjöld, greidd af safnaðarmönnum, hrökkva ekki til, en þau kirkjugjöld innheimtir kirkjubóndinn.

Nú verður að vísu að telja það eðlilegast í þessu máli, enda mun það vera stefna kirkjustjórnarinnar, að söfnuðirnir taki smátt og smátt við þessum kirkjum, helzt öllum, en úr því hefur samt ekki orðið af ýmsum ástæðum, og er trúlegt, að það dragist nokkuð, að sú skipan komist á, að allar sóknarkirkjur verði eign safnaðanna. Hins vegar þarf að halda við þessum bændakirkjum og endurbyggja þær eins og aðrar, og meðan þær eru í einkaeign, hvílir sú skylda, að því er talið er, á kirkjubóndanum að viðhalda kirkjunum eða endurbyggja. Það virðist þá mjög eðlilegt, að ef hann ræðst í þá framkvæmd að endurbyggja kirkjuna eða endurbæta varanlega, þá geti hann fengið lán til þess á sama hátt og söfnuður, sem ræðst í sams konar framkvæmd. Og það er þetta, sem lagt er til í frv., sem hér liggur fyrir.

Við höfum talið rétt að binda þessa heimild til að veita kirkjubændum lán ýmsum skilyrðum, svo sem þeim, að fyrir liggi meðmæli safnaðarstjórnar og að kirkjan sé notuð í þágu safnaðar eins og safnaðareign væri, svo og að áður hafi verið leitað eftir því, hvort söfnuður sá, er í hlut á, vilji taka við kirkjunni, og að hann hafi þá neitað. Sömuleiðis teljum við rétt, að gengið sé úr skugga um það, að kirkjan eigi ekki þær eignir, sem mundu nægja til þess að standa straum af framkvæmdinni án lántöku.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hygg, að það, sem hér er farið fram á, sé. sanngjarnt, og vona, að menn geti á það fallizt. — Ég legg svo til, að frv. verið að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.