18.10.1954
Efri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

11. mál, tollskrá o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. réttilega tók fram, þá hef ég ritað undir þetta nál. með fyrirvara, og fyrirvari minn gildir um B-lið 1. gr. frv., en þar er lagt til, að verðtollur verði innheimtur með álagi, sem nemur 45%, að undanteknum þeim vörum, sem taldar eru upp í 2. gr.

Þegar gengislækkunin var ákveðin á Alþingi 1950, var látið í veðri vaka, að það væri gert til þess að létta af landsmönnum þeim sköttum og álögum, sem á höfðu verið lagðar til þess að mæta niðurgreiðslum og uppbótagreiðslum, sem áður höfðu verið í fjárlögum. Sérstaklega var það söluskatturinn, sem hafði verið beinlínis á lagður í þessu skyni. Það fór þó svo, að þegar gengislækkunin var samþykkt, var öllum gömlu sköttunum haldið, og enn fremur var haldið viðaukanum á verðtollinum, sem áður hafði verið innheimtur, með nokkurri lítilfjörlegri lækkun.

Það er viðurkennt af öllum, að verðtollurinn komi ákaflega ranglega niður og eigi sinn ríka þátt í því að skapa dýrtíð og hátt verðlag í landinu. Því er það næst söluskattinum hin mesta nauðsyn að draga úr þessum skatti, m.a. til þess að framfærslukostnaður og framleiðslukostnaður af þeim sökum þurfi ekki að vera jafnhár og raun er á orðin. Ég hef þó ekki, sérstaklega með tilliti til söluskattsins, talið rétt að leggja til að fella þennan viðauka með öllu niður. Ég mun bera fram tillögu, með leyfi hæstv. forseta, um, að í staðinn fyrir 45% verði álagið ákveðið 20%.

Eftir því yfirliti, sem hæstv. fjmrh. gaf um útkomu ársins 1953, þar sem skattar og tollar hafa farið um 70 milljónir fram úr því, sem fjárlög gerðu ráð fyrir, og eftir þeim upplýsingum, sem hann gaf um tekjur ársins í ár, sem verða stórum hærri en tekjur ársins 1953, þá er augljóst, að ríkissjóði er ekki þörf á því að taka þennan skatt, og sízt með þeim hætti sem gert er samkv. þessum lögum.

Að ég ekki legg fram till. um meiri lækkun á þessum lið, er af tvennu: Annars vegar það, að mér er fullkunnugt um, að hv. fjhn.-menn vilja ekki með nokkru móti á það fallast, að gjaldaukinn eða álagið á verðtollinum verði fellt niður með öllu, en ég geri mér nokkrar vonir um, að þegar svo hægt er farið í sakirnar sem hér er gert, þá fáist hv. þdm. til þess að fallast á, að slíka lækkun sem hér er gert ráð fyrir sé auðvelt að gera. Hin ástæðan er sú, að ég tel alveg nauðsynlegt að breyta einnig ákvæðum söluskattsins, eins og fram mun koma í tillögum frá mér, þegar hann kemur hér til umræðu.

Till. mín, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar á þessa lið:

„Við 1. gr. Í stað „45%“ í B-lið gr. komi: 20%.“ Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta till. og bið hann að leita afbrigða.