10.12.1954
Neðri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

121. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og fram er tekið í grg. þessa frv., sem ég hef leyft mér að flytja hér í hv. þd. á þskj. 251, er frv. þetta fyrst og fremst flutt til þess að tengja á raunhæfan hátt lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum sjálfu verkafólkinu og vinnuveitendum, sem felst í því, að tekið verði inn í lögin það ákvæði, sem upphaflega hafði verið ráð fyrir gert, um öryggisráð, ásamt ýmsum smærri breytingum um skýrara og ákveðnara orðalag 2. gr. núgildandi laga.

Í upphafi þessa þings lagði ég fram í Sþ. nokkrar spurningar varðandi setningu reglugerðar þeirrar, sem gert er ráð fyrir í III. kafla laganna um öryggisráðstafanir á vinnustöðum til verndar heilbrigði og velferð verkamanna. Í svörum sínum lýsti hæstv. iðnmrh. því skýrt og skilmerkilega, hve hér væri um viðamikið og yfirgripsmikið mál að ræða, sem þyrfti mjög ýtarlegrar athugunar við. Það skal ekki dregið í efa, að margt þurfi að athuga og að mörgu að hyggja, þegar slík reglugerð er samin, en undirstaða allra þeirra athuguna hlýtur þó óhjákvæmilega að verða gerð í samráði og að fengnum till. verkamanna og vinnuveitenda. En hefur það verið gert? Nei, því miður ekki. En ég þykist þó vita, að einhverjir slíkir tilburðir muni hafðir uppi að lokum.

Alþýðusambandið og nokkur samtök vinnuveitenda munu fyrir um það bil einn og hálfu ári hafa tilnefnt fulltrúa af sinni hálfu, að ósk öryggismálastjóra, til þess að eiga viðræður um þessi mál. Enn þá hefur ekki verið boðað til fundar með þessum aðilum. Hvort sem það verður nú gert eða ekki, breytir það ekki þeirri staðreynd, að slík mál þýðir ekki að hafa sem neina tómstundastarfsemi þeirra fulltrúa, sem bezt þekkja til.

Það er ekki heldur fullkomin skipan þessara mála, að einungis við setningu reglugerða séu þessir aðilar kvaddir til ráðagerða. Sjálfa framkvæmd öryggisráðstafananna og viðbrögð gegn slysum á viðkomandi vinnustað, sem ef til vill er ekki mögulegt að gera ráð fyrir í reglugerð, verður öryggisráð tafarlaust að taka til meðferðar og gera sínar gagnráðstafanir. Það er þess vegna engin fullkomnun, þó að framangreindir aðilar verði kvaddir saman til þess að fjalla um nánari útfærslu laganna, sem að sjálfsögðu er þó undirstaðan. Það verður jafnframt að skapa þeim möguleika til þess að hafa yfirsýn með hinum raunhæfu framkvæmdum og úrlausnum vandamálanna hverju sinni.

Í grg. frv. er vísað til ályktunar, sem samþ. var á nýafstöðnu þingi Alþýðusambandsins, og vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana hér upp orðrétta, en hún hljóðar þannig:

„24. þing Alþýðusambands Íslands vítir harðlega þann óafsakanlega drátt, sem orðið hefur á löggjöf um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, að lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum hafa ekki komið til framkvæmda. Jafnframt skorar þingið á hv. Alþingi og iðnmrh. að flýta eins og unnt er samningu reglugerðar um þetta atriði og láta hana koma til framkvæmda hið fyrsta. — Þá skorar 24. þing Alþýðusambands Íslands á Alþingi að samþykkja, að inn komi í lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum kafli um öryggisráð, er var í frv. að lögum þessum, er milliþn. lagði það fyrir Alþingi, svo og að sæti eigi í öryggisráði fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands og læknir með sérþekkingu í atvinnusjúkdómum.“

Ályktun þessi var samþ. með samhljóða atkvæðum á fjórða hundrað fulltrúa í umboði 27 þús. verkamanna um land allt. — Ég efast ekki heldur um, að fullur áhugi fyrir framgangi þessara mála er í röðum atvinnurekenda, enda er það sannast sagna, að þeir munu ekki eiga minna undir því komið, að vel og örugglega sé á málum þessum haldið.

Í 7. gr. frv. er lagt til, að öryggisráðið verði skipað fjórum mönnum af ráðherra samkv. tilnefningu til sex ára í senn, en ráðherra skipi oddamann, sem jafnframt væri form. ráðsins, en með þeirri kvöð þó, að það væri læknir með sérþekkingu í atvinnusjúkdómum. Hina fjóra ráðsmennina skyldu eftirtaldir aðilar tilnefna: Alþýðusamband Íslands, sem yrði fulltrúi ófaglærðra verkamanna, Félag íslenzkra iðnrekenda, sem að sjálfsögðu yrði fulltrúi þeirrar tegundar atvinnurekenda; Landssamband iðnaðarmanna, sem að mestu samanstendur nú af iðnmeisturum, yrði því fulltrúi þeirra atvinnurekenda; og iðnsveinaráð Alþýðusambandsins, sem yrði fulltrúi faglærðra verkamanna. Þá er og til þess ætlazt, að jafnmargir varamenn yrðu skipaðir á sama hátt.

Breytingarnar, sem farið er fram á með till. um 11. gr., 40. gr. og 45 gr. laganna, þurfa ekki skýringar við. Þær eru nánast í beinu framhaldi þeirra breytinga, sem lagðar eru til með tilkomu öryggisráðsins, með 44. gr. laganna.

Breytingar frv. í heild miða að því fyrst og fremst, að lögin verði í lifandi og nánu sambandi við þá aðila í þjóðfélaginu, sem þau eiga að veita aukið öryggi.

Tímaritið „Íslenzkur iðnaður“, 24. tbl., birtir viðtal við Þórð Runólfsson öryggismálastjóra, þar sem hann skýrir á greinargóðan hátt nauðsyn þess, að haft verði náið samband við vinnustaðina, en sem svar við einni spurningu blaðamannsins segir öryggismálastjóri orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í flestum tilfellum fær eftirlitið ekkert um slys að vita, fyrr en það fréttir um þau í blöðunum eða á annan hátt. Að sjálfsögðu framkvæmir eftirlitið rannsókn á öllum slysum, sem það kemst á snoðir um, en það eru ekki nema alvarlegustu slysin.“

Í sama viðtali segir öryggismálastjórinn: „Ég hef í hyggju að reyna að koma af stað hreyfingu meðal starfsmanna á ýmsum vinnustöðum, sérstaklega þar sem vinnutaps hefur orðið tilfinnanlega vart sökum vinnuslysa, í þá átt, að starfsmenn sjálfir reyni að forðast óhöppin með varúð og betri umgengni.“

Þetta er umsögn þess manns, sem mesta og bezta yfirsýn ætti að hafa yfir ástand þessara mála í dag.

Ég ætla mér ekki að leggja út af þessari umsögn á einn eða annan hátt. Það eruð þið, hv. alþm., einfærir um. En óhjákvæmilega hlýtur sú spurning að skjóta upp kollinum, hvort þetta sé það ástand, sem til var ætlazt með setningu laganna fyrir tveimur árum. Fyrir mitt leyti svara ég þeirri spurningu neitandi. Fengin reynsla knýr því á um úrbætur í þessum málum, — þær úrbætur a.m.k., sem frv. þetta felur í sér. Verkalýðshreyfingin fer hér því ekki fram á neinar kauphækkanir, sem raska mundu fjárhagsáætlun ríkissjóðs. Það eitt, sem hún mælist til, er, að reynslan hafi fært Alþingi heim sanninn um, að dýrmætasti fjársjóður þjóðarinnar, mannslífin, sé ekki nægjanlega tryggður og þess vegna beri að stiga eitt spor í áttina til aukins öryggis þessara verðmæta með því að samþykkja frv. þetta.

Af talsmönnum stjórnmálaflokkanna allra er ósjaldan skírskotað til dómgreindar íslenzkrar alþýðu. En eigi að fella eða svæfa öll þau mál, sem fram eru borin í hennar þágu og þjóðarinnar allrar, er þess vart að vænta, að hún taki alvarlega, þegar hrópað er á skilning hennar og dómgreind til framdráttar ákveðnum málum. Í trausti þess, að þetta mál hljóti skilning og velvild hv. þdm., óska ég, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn., er afgreiði málið eins fljótt og unnt er, þannig að það hljóti fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.