03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

121. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Á öndverðu yfirstandandi þingi flutti ég frv. til l. um breyt. á l. um öryggisráðstafanir, nr. 23 frá 1. febr. 1952, á þskj. 251. Skömmu síðar var málinu vísað til hv. iðnn. Nd. og hefur verið í athugun þar síðan. N. leitaði umsagnar allmargra aðila, eða allra þeirra aðila, sem málið snertir sérstaklega, a.m.k. þeirra, sem um getur í frv. að verði væntanlegir aðildaraðilar að hinu fyrirhugaða öryggisráði, og liggja nú fyrir umsagnir allra þessara aðila að undanskildum einum, þ.e. Landssambandi iðnaðarmanna.

Ég held, að það sé ekki þörf á því á þessu stigi málsins, að farið sé að lesa sérstaklega upp umsagnirnar, en í stuttu máli mæla allir þessir aðilar með samþykkt frv. og telja það til mikilla bóta. Hefur öryggismálastjóri sérstaklega samið um þetta allýtarlegt og langt bréf, þar sem hann lýsir stuðningi sínum við frv., en óskar þó jafnframt eftir því, að tvær breytingar verði á frv. gerðar, og gat n. í heild fallizt á aðra brtt., þ.e. að í stað „Landssambands iðnaðarmanna“ komi: Vinnuveitendasamband Íslands, sem sé fulltrúi fleiri eða stærri aðila í samtökum atvinnurekenda en þó Landssamband iðnaðarmanna er. Og þar sem vitað er, að meginhluti þeirra, sem í Landssambandinu eru, eru einnig meðlimir Vinnuveitendasambandsins, taldi n. rétt og eðlilegt að verða við þessari ósk öryggismálastjóra. Um aðrar brtt. hans varðandi breytingu á núgildandi lögum um það efni og þó sér í lagi um innheimtufyrirkomulag varð hins vegar ekki samkomulag í n., og er því ekki flutt brtt. um það. Hins vegar hefur verið gerð nokkur breyting á fyrri brtt. minni við 11. gr. laganna, og er sú breyting aðallega í því fólgin, að ég hafði í minni till. um 11. gr. stuðzt við upphaflegt frv. laganna, sem flutt var hér af þáverandi iðnmrh., Emil Jónssyni, en hins vegar var samkomulag um það í n. að samræma það nokkuð við lögin eins og þau eru nú, en um verulega breytingu er þar ekki að ræða.

Ég tel ekki þörf á því, nema sérstaklega gefist tilefni til, að lesa allar umsagnir þessara aðila. Þeir mæla allir með því, eins og ég sagði, og benda hver á sinn hátt á nauðsyn þess, að frv. nái fram að ganga. Hins vegar vil ég í lok máls míns þakka samnefndarmönnum mínum fyrir afgreiðslu málsins og vona, að málinu verði hraðað svo sem unnt er, þannig að það megi ná endanlegri afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Að öðru leyti vísa ég til framsöguræðu minnar fyrir frv. sjálfu í heild, er ég flutti, þegar málinu var útbýtt, og nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga, og vona, að hv. þdm. og alþm. allir verði mér sammála um nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga sem allra fyrst, því að hér er, vissulega um mjög veigamikið atriði að ræða hvað snertir hag og heill hinna vinnandi stétta og þá einnig hag atvinnurekendanna, að koma mætti í veg fyrir þau geigvænlegu slys, sem allt of oft eiga sér stað á vinnustöðunum.

Að svo mæltu óska ég eftir því, að málinu verði, eins og ég áðan sagði, hraðað eftir föngum, þannig að það nái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.