10.05.1955
Efri deild: 87. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

121. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að vekja athygli á því, að þetta er næstsíðasti dagur þingsins og fyrir liggur, að því er mér virðist mega ætla, greinilegur þingvilji um afgreiðslu þessa máls nú á þessu þingi. Ef sú regla væri tekin upp, sem hv. 1. þm. N-M. virðist vilja halda sér að, að afgreiða ekki mál, þegar minni hl. hefur ekki gefið út nál. af einum ástæðum eða öðrum, þá er svo að segja hverju máli stefnt í voða, því að minni hl. getur alltaf, hversu lítill sem hann er, notað þá aðstöðu til þess að tefja afgreiðslu mála með því að skila ekki nál. og þar með komið í veg fyrir, ef þessari reglu er fylgt, að mál, sem þingvilji er fyrir, nái afgreiðslu. Ég leyfi mér því að treysta réttdæmi hæstv. forseta í þessu og hann fresti ekki málinu, heldur láti það ganga sinn gang, þar sem svo áliðið er þings sem nú er orðið og ætla má, að eindreginn þingvilji sé fyrir afgreiðslu málsins.