18.04.1955
Efri deild: 70. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

192. mál, Dísastaðir í Breiðdal

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til, áður en þetta mál kemur til nefndarinnar, að fá ofur lítið meiri upplýsingar hjá hv. flm.

Einhvern tíma snemma á 18. öldinni voru 10 hundruð úr Dísastöðum gefin Vopnafjarðarhreppi. Í tíð núlifandi manna hefur þessi gjöf ekki komið til framkvæmda, a.m.k. ekki á þann hátt, að Vopnafjörður hafi fengið nokkurt afgjald þaðan. Hins vegar hefur bóndinn, sem bjó á Dísastöðum fyrst í sýslumannstíð Magnúsar Gíslasonar sýslumanns í Suður-Múlasýslu, aldrei talið sig eiga 10 hundruð úr Dísastöðum. Hann sagði, að það væri sjóðeign og hann ætti það ekki, og taldi það aldrei sem sína eign. Mig langar til að vita, hvað hann vissi um þetta, hvort það hefði farið þarna fram sala og hvenær og annað þar að lútandi, því að það er náttúrlega ekki hægt fyrir ríkið að kaupa jörð af manni, sem ef til vill á ekki í henni 10 hundruð.

Magnús sýslumaður, meðan hann var í Suður-Múlasýslu, vissi ekki til þess, að þessi 10 hundruð höfðu verið seld, og hélt, að það hefði bara gleymzt svona af trassaskap, eins og getur komið fyrir, að Vopnafjarðarhreppur var hættur að hirða nokkuð um þessa eign sína.