03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

192. mál, Dísastaðir í Breiðdal

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég gat þess í gær, þegar þetta mál var til 2. umr., að landbn. hefði til athugunar að gera við það brtt. og staðfesta með því það, sem við segjum í nál., þar sem við teljum, að eðillegt sé, að við söluna sé tekið tillit til væntanlegs fasteignamats á þessari eyðijörð. Við höfum þess vegna í áframhaldi af því, sem ég þá sagði, leyft okkur að bæta við 1. gr. eins og segir á þskj. 697: „Kaupverðið skal miða við væntanlegt fasteignamat.“ Ég minntist á þetta í gær og tel mig ekki þurfa að gera frekari grein fyrir því. Þegar t.d. lög um jarðakaup ríkisins voru samþ., var kaupverðið miðað við fasteignamat, og það er yfirleitt gert. Undantekningar eru þar, sem ríkissjóður vegna einhverra almennra þarfa þarf að fá land, eins og þegar Hvammstangi var keyptur og Hofsós var keyptur o.s.frv., lóðirnar undir kaupstöðunum, þá hefur farið fram sérstakt mat. En að öðru leyti hefur verið miðað við venjulegt fasteignamat, og það finnst okkur eðlilegt að hér sé gert.