11.11.1954
Neðri deild: 16. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er frá hæstv. ríkisstj. og er um framlengingu á gildi laga um söluskatt. Lög um það efni hafa verið samþykkt árlega á þingi nú að undanförnu, lagaákvæðin framlengd frá ári til árs, og er nú lagt til, að svo verði gert.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að söluskatturinn haldist óbreyttur næsta ár eins og hann nú er. Efnisbreytingar eru ekki í frv., orðalagsbreytingar lítils háttar á tveimur stöðum, og er þar aðeins um skýringaratriði að ræða.

Fjhn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og hefur ekki orðið að öllu leyti sammála um afgreiðslu þess. Minni hl. n., en hann skipa hv. 1. landsk. þm. og hv. 9. landsk. þm., leggur til í fyrsta lagi, að frv. verði fellt, en flytur einnig brtt. við það, ef þingdeildin vill ekki verða við óskum þeirra um að fella frv. Þá hafa einnig komið brtt. á þskj. 141 frá tveim hv. þm.

Meiri hl. fjhn. lítur svo á, að ríkið þurfi á næsta ári á þessum tekjustofni að halda eins og áður. Má í því samhandi benda á það, að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1955, sem liggur fyrir þessu þingi, er gert ráð fyrir því, að tekjur ríkisins af söluskatti haldist óskertar eins og nú er, og mun ekki af þeim veita, ef takast á að afgreiða fjárlögin þannig, að viðunandi megi teljast. Það er því till. meiri hl. fjhn., eins og fram kemur á þskj. 136, í nál. meiri hl., að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.