22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Í sjálfu sér get ég látið nægja að vísa til þeirra umræðna, sem fóru fram í gær um þessi mál, og til nál., sem við í minni hl. höfum gefið út og er á þskj. 381. Höfuðatriðin, sem máli skipta, eru þar dregin fram, og einnig komu þau fram hér í umræðunum í gær, svo að það er ekki ástæða til þess að fjölyrða mikið nú um þetta mál. Við lítum mjög misjafnt á það, og eftir því sem fram kemur hjá hv. frsm. meiri hl., þá ber okkur það á milli, að við gerum allmikinn mun á því, hvort einstaklingarnir eru frjálsir eða stjórnarvöld bæjar- eða sveitarfélags hafi þetta málefni einstaklinganna í sínum höndum.

Áður en ég vík nánar að þessu atriði, af því að ræða hv. frsm. meiri hl. (BÓ) gaf nú ofur lítið tilefni til þess að víkja lítið eitt meira að þessu, þá vil ég gera grein fyrir þeirri breytingu, sem við leggjum til að sé gerð á 1. gr. Það er ekki nein efnisbreyting, en ég ætla, að með því orðalagi, sem við höfum á brtt., komi það ljósar fram, að því aðeins geti bæjarstjórnir eða hreppsfélög samið fyrir húseigendur, að þær hafi fengið hjá þeim umboð til þess, þ. e. a. s. fyrir þá, sem það veita, en ekki öðruvísi.

Hv. frsm. meiri hl. virðist engan mun gera á því, að húseigendur megi ráða því sjálfir, hvar þeir vátryggja, eða bæjar- eða sveitarstjórn ákvarði það, hvar tryggt skuli, og kallar þetta fullkomið frelsi hjá einstaklingunum. Ég er ekki alveg viss um, að í framkvæmdinni þyrfti það að vera, og víst er um það, að þetta fyrirkomulag veitir einstaklingum enga tryggingu fyrir því, að farið sé eftir þeirra vilja eða að þeirra ráðum um, hvar tryggt skuli. Ég vil ekki í sjálfu sér efast um það, að bæjar- eða sveitarstjórnir, hvor aðilinn sem er, reyni að ná hagkvæmum kjörum fyrir sína umbjóðendur. Það vildi ég ekki efast um, og það þarf ekki að blanda því atriði inn í þessar umræður, vegna þess að menn geti ekki gert greinarmun á því, hvort einstaklingarnir geta notið fullkomins frjálsræðis um þessar ákvarðanir, hvar tryggt skuli.

Ég vil ekki neita því, að svo kunni að vera, að aðili, sem hefur á sinni hendi að gera samninga fyrir marga og upp á allmikla fjármuni, geti náð betri samningum en einstaklingar, sem minna hafa umleikis. En eftir eðli málsins ætti ekki hjá opinberum tryggingarfélögum í því efni að vera ýkja mikill munur, þó að ég engan veginn vilji neita því, að það kunni að vera einhver munur á því, hvort samið er við einstaklinga eða bæjar- eða sveitarfélög, því að tryggingarfélögin munu setja sér nokkuð fastar reglur í þessu efni og í höfuðatriðum fara eftir þeim. Samt kann einhver mismunur að vera, og hann er reyndar þegar til staðar. Einstök bæjarfélög hafa undanfarið haft aðra samninga um tryggingargjöld fyrir eignir manna heldur en t. d. sveitarfélög, og þar hefur verið verulegur munur á. Viss bæjarfélög hafa komizt að hagstæðari kjörum. Fyrirkomulagið hefur verið það, að bæjar- og sveitarfélögin hafa verið aðili og þeim hefur þó ekki tekizt að komast í þessu efni að betri samningum en svo, að eftir að umtal var um að gefa þetta frjálst og löggjöfin yrði sniðin með það fyrir augum, hafa þessi iðgjöld stórlega lækkað, um 40% eða jafnvel meina. Það hefur staðið til boða, að menn gætu tryggt fyrir þetta minni iðgjöld en áður var, og það er fyrir umtalið eitt, af því að líkur voru til, að menn mundu bráðlega njóta meira frelsis í þessum efnum en áður tíðkaðist. Það var ekki eins og það væri þó komið í framkvæmd, neitt af þessu. Það var aðeins umtalið. Þessar verkanir hafði það. En hv. 3. þm. Reykv. má ekki láta sér koma það til hugar að ætla að telja neinum manni trú um það, að hann sé jafnfrjáls að þessum athöfnum, hvar hann tryggir eð.a fyrir hvaða kjör, ef sveitarstjórn gerir það, eins og hann ákvarðaði það sjálfur. Það er annað atriði hvað hagsmunina áhrærir, og hann á þá að rökstyðja sitt mál á þeim grundvelli, að sveitarfélögin nái ætíð eins góðum kjörum eða jafnvel betri, ef þau gera það, heldur en hver einstaklingur. En honum þýðir ekkert að ætla að fara að hamra á því hér, að einstaklingarnir hafi jafnmikið frelsi, ef sveitarstjórn eða bæjarstjórn fer með þetta umboð, eins og ef þeir ákvarða það alveg hver fyrir sig. Það er ekki til neins. Það fer ekki saman, og hv. þm. verður að gera skilsmun á því. Hans málstaður ætti að vera jafngóður fyrir því, þó að hann hrærði ekki þessu svona saman og ruglaði saman hugtökum og merkingu orða. Ég veit til þess, að hv. 3. þm. Reykv. er mjög annt um íslenzka tungu, en hann má ekki misbjóða henni eins og hann gerir nú með þessu.

Áður en ég skil við þetta atriði, langar mig til að spyrja hv. þm., því að ég veit það ekki með vissu, hvort húseigendur í Reykjavíkurbæ njóta nú þeirra iðgjalda fyrir brunatryggingar húseigna sinna eins og þeim stóð til boða á síðasta þingi, þegar við vorum að tala um þessi brunamál. Þá stóð Reykjavík til boða að tryggja húseignir sínar fyrir 47% lægri iðgjöld en áður höfðu tíðkazt. Ekkert skortir á, að bærinn hafi það nú í sínum höndum. Þetta bæjarfélag, Reykjavíkurborg, er langsamlega fjölmennasta bæjarfélagið á þessu landi. Njóta íbúar Reykjavíkur í þessu efni nú þessara hlunninda? Ekki dettur mér í hug að ætla það, að þeir, sem umboðið hafa fengið til að fara með þessi mál, vilji ekki sínum umbjóðendum vel. Ég fer ekkert að blanda því inn í þetta mál. En njóta þeir þessara fríðinda, sem þeim stóðu til boða? Ég vænti, að hv. þm. upplýsi það. Ef svo er, þá er það náttúrlega nokkur sönnun fyrir því, að hann hafi nokkuð til síns máls um það, að bæjar- eða sveitarstjórn komi fram fyrir einstaklingana. En ef svo væri, að þeir nytu þess ekki, þá skilst mér sem það kunni eitthvað að veikja röksemdir og málstað hv. 3. þm. Reykv.

Hv. 3. þm. Reykv. lagði á það mikla áherzlu, hve það væri mikill munur á samningum, ef margir stæðu að baki þeirra, og náttúrlega ef um mikla fjármuni væri að ræða, hvað auðveldara væri þá að komast að hagfelldari kjörum. Er ekki neitt óeðlilegt, þó að menn álykti sem svo. Það hafa verið uppi raddir um það, að við Íslendingar værum svo fámenn þjóð, innkaup okkar erlendis frá væru á mælikvarða stórþjóða ákaflega lítil og það væri enn lakara fyrir það, hvað það væru margir menn hjá okkur, sem önnuðust innkaup. Til orða hefur komið, — það veit ég, að hv. 3. þm. Reykv. kannast við, — að ríkið sjálft keypti inn og gæfi þessum einstaklingum, sem hafa annazt vöruviðskipti fyrir þjóðina, alveg lausn frá þeim störfum. Ekki efast ég um, að nokkrar líkur séu fyrir því, að hægt væri að komast að betri kjörum, ef keypt væri í einu lagi, gerð væru stórinnkaup, heldur en ef innkaupin eru lítil. Ég ætla, að ég hafi einhvers staðar lesið það, að hér séu í Rvík einni rúmir 200 heildsalar og eitthvað á níunda hundrað smásöluverzlanir, minnir mig. Svo mikið er víst, og ég man það með vissu, að verzlanir hér í bænum, ef heildsalar eru taldir með, eru á annað þúsund. Ákaflega hlyti það að vera mikill munur, ef það kæmi nú einn aðili með allt að baki sér til að gera innkaup á nauðsynjum þjóðarinnar. (Gripið,fram í: Ríkið til dæmis.) Já, t. d. ríkið, segjum það. (Gripið fram í: Eða Sambandið.)

Já, eða Samband íslenzkra samvinnufélaga gerði þessi innkaup. Ekki er hægt að neita því, að það væri frelsisskerðing hjá einstaklingunum með þessu móti, þeim sem vilja nú gera innkaup og hafa það að starfi sínu. En ef ríkisvaldið, af því að það er nú yfir okkur alla sett og er að því leyti sambærilegt og bæjar- og sveitarstjórnirnar eru yfir sitt fólk, væri nú látið annast þetta allt saman, þá er ekki óeðlilegt, þó að manni dytti í hug, að það væri hægt að fá hagfelldari innkaup. Þar sem við höfum nú þingbundna stjórn og hvert sem stjórnarfarið er, þá á það að byggjast á einstaklingum, þ. e. a. s. þeim, er kosningarrétt hafa, þá ættu einstaklingarnir samkv. röksemdafærslu hv. 3. þm. Reykv. að njóta í gegnum þetta fulls frelsis. Hans hugsanagangur út af þessu máli er færður út á ofur lítið víðara svið, en æðsta ráðið er þarna yfir, og þá ætti allt að vera í lagi.

Er hv. 3. þm. Reykv. tilbúinn til þess að færa þetta út á þetta svið? Ég er það nú reyndar ekki. Ég hef þá skoðun, að frelsi einstaklinganna sé það mikils virði, að það kunni að vera hættulegt að binda það í miklar viðjar, og þess vegna hef ég verið á móti því, þegar verið er að tala um ríkisverzlun, þannig að ríkið annist öll innkaup og deili svo út á meðal fólksins. Ég hef óttazt, að þó að það byrjaði máske vel, ef við værum heppnir með menn, sem önnuðust það til að byrja með, þá gæti það, þegar frá liði, leitt til þess, að hagsmuna fólksins yrði ekki gætt, og ekki gott að segja um, hvar það endaði. Þess vegna hef ég verið andvígur þessu og vil þar nokkuð til vinna að setja þetta ekki í neina fjötra, þó að ég játi fullkomlega, að eins og þetta gengur fyrir sig hér hjá okkur, þá veldur þetta þjóðinni, af því að verzlunarstéttin er orðin ákaflega fjölmenn, miklum kostnaði, sem æskilegt væri að þjóðin gæti sparað. — Ég bendi hv. 3. þm. Reykv. á þetta, af því að hann virtist leggja á það höfuðáherzlu, að það væri um að gera í svona málum, þegar samninga ætti að gera, að þá væru þeir stórir, þ. e. a. s., að þar væri að ræða um mikla fjármuni, og þá væru mestar líkur til þess, að við það yrði það mikill ávinningur, að hagsmunum fólksins væri bezt borgið með því fyrirkomulagi.

Ég ætla, þegar hv. 3. þm. Reykv. íhugar þetta nánar, þá finni hann, að hans röksemdir fyrir því, sem hann vill nú vera láta í þessu máli, eru ekki það sterkar, að það sé alveg sjálfsagt að fara þessa leið. Og svo mikið er víst, að ég held, að hann finni ekki eins mikið til hvað áhrærir frelsi einstaklingsins í þessum efnum og ef menn notuðu sér röksemdafærslu hans og færðu þetta út á víðara svið, að þar sem bæjar- og sveitarstjórnir nái ekki til, þar taki ríkisvaldið við. Þá gæti það borið þannig að, að honum fyndist, að það væri nokkuð skertur réttur og frelsi einstaklingsins til athafna og til þess að ráða málum sínum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið frekar. Atkvgr. verður vitaskuld látin skera úr um það, hvernig með það fer. Þessi mín orð núna voru aðallega töluð út af þeim röksemdum, sem hv. 3. þm. Reykv. dró hér fram og taldi svo mikilvæg, að það ætti að ráða úrslitum um þetta mál. Ég vildi benda honum á, að vel gæti síðar komið að því, að flutt væri mál hér í þingi, sem hefði það í sér fólgið, að það væri nokkur skerðing á rétti einstaklinganna, en væri hægt að beita nákvæmlega sömu röksemdum við til meðmæla, að þau gengju fram, að að baki þeim stæði fjöldi manns, og væri hægt að telja, að fólkið hefði meiri hagsmuni af því, að fáir aðilar fjölluðu um þau, en einstaklingarnir ekki. Þá er ég ekki viss um fyrir fram, að hv. þm. teldi, við skulum segja t. d. viðvíkjandi verzluninni, sjálfsagt, að slík rök ættu að gilda. En frá hans sjónarmiði og röksemdafærslu ætti hann að vera slíku máli fylgjandi. Ég veit ekki, hvort það kemur nokkurn tíma í minn hlut að bíða átekta um slíkt, en ef það kæmi fyrir, þannig að maður gæti gefið slíku gætur, þá mundi ég hugsa til hv. 3. þm. Reykv. og sjá, ef hann ætti um það að fjalla hér í Alþ., hvernig hann greiddi atkv. í slíku máli.