22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég býst nú við, að í sjálfu sér græðist ekki mikið á löngum umræðum úr þessu, og hvað þetta mál áhrærir nú, þá hefur býsna lítið upplýsts frá því, sem áður var komið fram. Það var frekar hjá mér, að ég tók nokkur atriði hjá hv. 3. þm. Reykv. til meðferðar, til þess að finna betur eða heyra betri grein hjá honum gerða fyrir, hvað hann teldi frelsi og aftur takmörkun á frelsi, en á hans síðustu ræðu var í því efni býsna lítið að græða.

Hv. þm. Ak. vék að því í sinni síðustu ræðu, að fyrir þeim í meiri hl. mþn. hefði vakað, skildist mér, að halda við þessu fyrirkomulagi, sem verið hefði hjá Brunabótafélagi Íslands. Það gera þeir að nokkru leyti, en opna þó möguleika fyrir menn að geta valið um tryggingu annars staðar. En ég viðurkenni fullkomlega með honum, að þeir hafi sýnt alla viðleitni í að reyna að binda þetta sem mest, og ég hef aldrei ráðizt á það. Mér hefur bara fundizt það óþarft og heldur óviðkunnanlegt.

Hv. þm. sagðist mótmæla þeim ásökunum, sem fram hefðu komið í ræðu hjá mér gagnvart Brunabótafélagi Íslands. Nú vill svo til, að hvert orð, sem við segjum hér, er tekið upp. Ég þori óhræddur að skírskota til þess, sem segulbandið hermir eftir mér, að ég hef ekki sagt eitt einasta styggðaryrði í garð Brunabótafélags Íslands, — ekki eitt einasta orð til þess að átelja það í starfi sínu eða nokkurn hlut því til miska. Þvert á móti sagði ég, að það væri fjarri því, að ég vildi á nokkurn hátt efast um starfsemi þess, eða eitthvað á þá leið. Ég man það ekki alveg nákvæmlega, en þar segir bandið frá því alveg eins og öðru. Hafi hv. þm. Ak. séð eitthvað í blöðum eða eitthvað þess konar, þá má hann ekki blanda því saman og fara að svara því hér, þannig að hann sé með því að svara mér út af því, sem ég hef sagt.

Viðvíkjandi iðgjaldagreiðslu hef ég ekki einu sinni verið neitt að tala um Brunabótafélag Íslands í því sambandi. Ég hef bara minnzt á þær staðreyndir, hvernig iðgjaldagreiðslurnar hafa verið. Því verður ekki á móti mælt. Menn eiga kost á því að tryggja núna fyrir um það bil 40% lægri gjöld en verið hefur. Þetta liggur fyrir. Ég veit til þess, að menn eru að gera samninga um brunatryggingar, og þessi er munurinn. Þó að ég varpi þessu fram, þá geri ég það ekki þannig, að það kunni ekki að vera eðlilegar orsakir til þess, að hægara sé að standa nú að einhverri ívilnun í brunabótagjöldum en áður var.

Þá kem ég að því atriði, sem hv. 5. landsk. þm. var að tala um hér áðan. Það er vitaskuld alveg rétt, að þegar brunavarnir á einhverjum stað eru orðnar góðar og brunahættan er lítil, þá er vitaskuld auðveldara að hafa iðgjöldin lág. En ég efast ekkert um, að hvers konar vátryggingarfélagsskapur sem hefði þessar tryggingar í sínum höndum mundi líka af sinni hálfu einmitt greiða fyrir því að tryggja sem beztar brunavarnir á hverjum stað, því að það fara saman hagsmunir vátryggingarfélagsins og einstaklinganna, sem láta tryggja. Hv. þm. sagði, að hann efaðist um, að ef það væru 4–5 félög, sem hefðu tryggingarnar, þá yrði eins vel fyrir þessu séð. Ég skal nú ekkert fara að fullyrða neitt um það, en öll mundu þau nú, hvort sem þau væru einu fleiri eða færri, stuðla að því að hafa sem tryggastar brunavarnir.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði hér og fór að tala um, hvernig háttað væri nú um takmarkanir einstaklinganna á frelsinu, og drap á nokkur atriði í því skyni. Ég var ekki um það að tala í minni ræðu, að það ætti ekki að leggja nein höft á frelsi einstaklinganna. Í siðuðu þjóðfélagi er það talið nauðsynlegt þjóðfélaginu sjálfu, og það er þegnunum nauðsynlegt líka. Og einmitt margar slíkar takmarkanir eru meira að segja þegnunum nokkur styrkur að lifa sínu lífi, að þeir vita, til hvers er ætlazt af þeim, hvað leyfilegt er og aftur óleyfilegt.

Út í þá sálma þurfum við ekki að fara frekar. Það eru ekki nema „anarkistar“, sem vilja engin bönd hafa á frelsinu, sem vilja, að hver ráði sér eftir eigin geðþótta, og láta sér lynda fullkomið stjórnleysi.

Ég beindi fyrirspurn til hv. þingmanns viðvíkjandi brunatryggingunum hér, af því að það var mikið talað um þær á seinasta þingi, og ég vissi til þess, hvað bænum stóð þá til boða. Bærinn tók svo það í eigin hendur, sem honum var vitaskuld frjálst, hann hafði meiri hluta hér á Alþingi til þess að koma því máli fram. Þó langaði mig til að forvitnast um það, hvort hagsmuna þegnanna hefði þá verið gætt á þann hátt, sem efni stóðu til, eftir því sem fyrir lá á síðasta þingi, og hvort iðgjöld manna hér í bænum væru þau sömu og þeim hefði staðið til boða hjá vátryggingarfélaginu, sem ég vissi um að þeir gætu tryggt hjá eignir sínar. Þessu svaraði hv. þm. engu orði, en sagði, að það væru svo góð kjör, sem menn hefðu, að mér skildist, að enginn þegn þessa bæjarfélags mætti til þess hugsa, að þessu yrði breytt eða það yrði öðruvísi. Ja, þetta er elskulegt að heyra og gott, að svona vel er búið að bæjarbúum. En ég sá einhvers staðar, að það var sagt frá samþykkt bæjarstjórnar, að það hefði verið ákveðið að tryggja húseignir manna hér til brunatryggingar fyrir sömu iðgjöld og áður hefði verið. Ég sá líka einhvers staðar, — ég ætla, að það hafi verið eftir áramótin, heldur en aðeins fyrir þau, — að það var skýrt frá því, að iðgjöld brunatrygginga hér í bænum ættu að vera hin sömu og á síðasta ári. Nú má vel vera, að það sé eitthvað saman við þetta allt saman, sem ég ekki þekki, og um þá peninga, sem menn greiða hér langt umfram það, sem þeir hefðu þurft að greiða, hefðu þeir verið frjálsir að tryggingu og tryggt hjá því félagi, sem bauð bezt kjör í fyrra. Það er ekki smáupphæð, sem þeir greiða, en vel má vera, að henni sé einhvern veginn þannig varið, að bæjarbúum þyki ekkert að því og í þeirra sálu ríki yfir því þessi fögnuður, sem hv. 3. þm. Reykv. var að tala um hér. En mig hefði langað til að fá fræðslu um það einmitt, hvernig þessu væri varið, og taldi, þegar ég varpaði þessari spurningu minni fram, að það gæti ekki verið neitt leyndarmál og mundi mega segja frá því hér. Hann kvað svo sterkt að orði, hv. þm., að það væru hvergi jafngóð kjör, sem stæðu til boða fyrir einstaklingana, eins og nú hjá þeim í Reykjavíkurbæ í þessum efnum. Þetta er gott og gleðilegt að heyra. Mér skilst, að þeir hafi þá brugðizt svona skarpt við, — ég efaðist nokkuð um þetta í fyrra. En mikið skelfing hefði mér nú liðið betur, ef ég hefði fengið að heyra, hvernig þessu er varið, en um það er ég alveg ófróður enn. — Út í þetta mál mun ég svo ekki frekar fara, það er fyrir utan efni þessa frv., og að öðru leyti er lítið á þessum umræðum að græða.