05.11.1954
Efri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

26. mál, náttúruvernd

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég álít, að hér sé um hið merkasta mál að ræða og eitt hið merkasta frv., sem lagt hefur verið fyrir þetta þing, og auk þess mjög aðkallandi mál. Slíka löggjöf sem þessa hefði þurft að vera búið að setja fyrir löngu, og ég held, að það sé þegar orðinn ærinn skaði að, að engin löggjöf hefur verið um þetta efni, eins og raunar er sýnt fram á í grg. Ekki mun sízt þörf á slíkri löggjöf til þess að vernda náttúru Reykjanesskagans, eins og nú er ástatt í voru landi.

Ég tel, að það megi ekki dragast að setja þessi lög. Allur dráttur gæti valdið tjóni á íslenzkum náttúrumyndunum, sem verður ekki bætt fyrir.

Mér virðist, að málið hafi þegar fengið mjög vandaðan undirbúning. Hæstv. ráðh. segir raunar í aths. við frv., að sum einstök ákvæði frv. orki að sjálfsögðu nokkuð tvímælis, og endurtók það hér, en hann bætir líka við: „en að athuguðu máli telur menntmrn. rétt að leggja frv. óbreytt fyrir Alþ. eins og það barst rn. frá semjendum þess, en3a hægurinn hjá að breyta einstökum atriðum á Alþ., ef ástæða þykir til.“ Ég held, að það sé enn þá nægur tími til þess á þessu þingi. Ég held, að með góðum vilja væri hægt að láta mál þetta fá þá athugun á þessu þingi, að hægt væri að afgreiða það. Ég get ekki skilið, að það sé neinn ágreiningur um þau atriði þessa frv., sem verulegu máli skipta, og get þess vegna ekki séð, að brýn nauðsyn sé á að senda það til umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna. Ekki ætti að taka langan tíma að fá umsögn Búnaðarfélags Íslands og raunar engan veginn útilokað heldur, að hægt væri að fá álit æði margra bæjarstjórna og sýslunefnda þegar á þessu þingi, ef lögð væri áherzla á, að málinu væri hraðað, enda er gert ráð fyrir, að fulltrúar sýslufélaga skuli mestu ráða um framkvæmd laganna, þar sem náttúruverndarnefndir skulu kosnar af sýslunefndum og bæjarstjórnum og sýslumenn og bæjarfógetar vera formenn nefndanna. Ég mun þess vegna greiða atkv. gegn þessari rökstuddu dagskrá. En verði þessi dagskrá samþ., þá vil ég hins vegar beina því til hæstv. menntmrh., að hann stuðli að því, að þetta mál geti a. m. k. orðið afgreitt ekki síðar en á næsta Alþingi.