21.10.1954
Neðri deild: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1974)

48. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. um breyt. á l. um kosningar til Alþ., var flutt á síðasta þingi, komst þá til 2. umr. og n., en hlaut þar væran svefn og sá ekki dagsins ljós framar. Það er nú flutt öðru sinni, þar eð flutningsmenn telja nauðsyn á, að sniðnir verði af núgildandi kosningalögum ýmsir agnúar, sem dómur reynslunnar hefur leitt í ljós að á þeim eru.

Þegar frv. þetta var til umr. í fyrra hér í þessari hv. d., gerði ég í framsögu allýtarlega grein fyrir efni þess. Frv. fylgdi þá eins og nú grg., þar sem fjallað er um ákvæði hverrar einstakrar frumvarpsgreinar. Ég mun því ekki verða langorður nú, en kemst þó naumast hjá að ítreka fátt eitt af því, sem ég sagði um þetta mál á síðasta þingi.

Sá er að sjálfsögðu tilgangur kosningalaga í lýðræðislandi, að öllum þeim, er kosningarrétt hafa öðlazt, sé gert kleift að neyta atkvæðisréttar og velja á milli flokka og frambjóðenda, frjálsir og óháðir öllu nema sannfæringu sinni. Þess hefur hins vegar gætt töluvert í flestum löndum, að gerðar hafa verið tilraunir til að beita fjármagni, umráðum yfir atvinnutækjum og hvers konar valdaaðstöðu til þess að hafa áhrif á kosningar og sveigja kjósendur undir vilja þeirra, sem fjármagnið og völdin hafa í sínum höndum. Þar sem lýðræðislegt stjórnarfar er einna þroskaðast og orðið hvað fastast í sessi, svo sem á Norðurlöndum og í Bretlandi, hafa menn í vaxandi mæli gert sér grein fyrir þeirri hættu, sem lýðræði og þingræði stafar af valdi peninga, og hafa leitazt við með lagaákvæðum að takmarka heimild stjórnmálaflokka til að nota fjármagn sér til framdráttar við kosningar. Í ýmsum nágrannalöndum okkar eru stjórnmálaflokkar skyldaðir til þess með lögum að gera grein fyrir notkun fjár í sambandi við kosningar. Þar er réttilega litið svo á, að þær kosningar geti naumast heitið fullkomlega lýðræðislegar, þar sem flokkar geta með tilstyrk auðmanna og fésterkra fyrirtækja bætt stórlega aðstöðu sína. Hér á landi er auðmagnið í æ ríkara mæli tekið í þjónustu kosningaáróðurs. Það hefur farið hér í vöxt, sérstaklega á síðustu árum, að stjórnmálaflokkar noti bifreiðar gegndarlaust til þess að flytja kjósendur til kjörstaðar. Það vex nú og hröðum skrefum, að flokkar verji miklu fé til að launa alls konar skemmtikrafta til að hæna fólk að pólitískum samkomum, ekki sízt fyrir kosningar. Gefin eru út kosningarit, sem kosta marga tugi þúsunda, og dæmi eru til þess, að svo langt hafi verið gengið, að ekki þótti nægilegt að halda ókeypis skemmtisamkomur, heldur var einnig úthlutað dýrum og eftirsóttum verðlaunum á samkomunum. Engin vitneskja liggur fyrir um það, hvernig fjár er aflað til þessarar fjölþættu og útgjaldafreku starfsemi, sem öll miðar að sjálfsögðu að því að bæta vígstöðu viðkomandi flokks eða flokka í kosningum með tilstyrk peningavaldsins. Það er vissulega nokkur vandi að setja um það fastar reglur, hvernig hafa skal hemil á óeðlilegri notkun fjár í sambandi við kosningar. Ókleift ætti það þó ekki að vera, enda hafa hinar fremstu þingræðis og lýðræðisþjóðir tekið upp í kosningalög sín ákvæði um þessi efni.

Eitt af ákvæðum þess frv., sem hér liggur fyrir, mundi tvímælalaust, ef að lögum yrði, draga mjög úr þeirri gegndarlausu bifreiðanotkun, sem nú á sér stað við hverjar kosningar, og úr hinni hvimleiðu smölun fólks á kjörstað. Hér í frv. er lagt til, að umboðsmönnum framboðslista og frambjóðenda verði algerlega bannað að senda frá sér upplýsingar um það, meðan á kjörfundi stendur, hverjir neyta atkvæðisréttar síns. Það er kunnugt, að í öllum kaupstöðum a. m. k. láta flokkarnir umboðsmenn sína í kjördeildum fylgjast nákvæmlega með því, hverjir koma til að kjósa, og senda kosningaskrifstofunum með stuttu millibili upplýsingar þar um. Á þeirri vitneskju, sem þannig fæst um það, hverjir hafa kosið og hverjir ekki, er byggð hin óskemmtilega kosningasmölun á kjördegi. Þegar líður á kjördag hverju sinni, er svo að segja hver sá kjósandi, sem einhverra hluta vegna hefur ekki farið á kjörstað, eltur uppi, og það má raunar komast svo að orði, að hann eigi sér ekki undankomu auðið fyrir ásókn kosningasmalanna. Það verður tæplega talað um lýðræðislegar kosningar, þar sem menn fá ekki sjálfir að ráða því án íhlutunar stjórnmálaflokka, hvenær eða hvort þeir neyta atkvæðisréttar sins. Ég er sannfærður um, að það mundi þegar til verulegra bóta og setja öllu mennilegri hátt á kosningar, ef fulltrúum stjórnmálaflokkanna yrði bannað að senda út fréttir af því, hverjir koma til að kjósa. Það mundi og draga mjög úr bifreiðanotkun og smalamennsku, og við það er strax töluvert unnið. Raunar virðist mér, að vel geti komið til greina að ganga feti lengra og annað tveggja takmarka stórlega með lögum rétt stjórnmálaflokka til að nota bifreiðar við flutning kjósenda á kjörstað eða jafnvel banna flokkum slíkt með öllu, en hið opinbera sjái þá öldruðu fólki og lasburða fyrir farartækjum, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt væri. Svo langt er þó ekki gengið í þessu frv., en mér virðist sú lausn engin fjarstæða.

Önnur helztu ákvæði frv. eru þessi: Umboðsmönnum frambjóðenda og framboðslista skal bannað að afrita meðmælendaskrár annarra flokka. Jafnframt er þeim gert að skyldu að fara með þá vitneskju, sem þeir fá um meðmælendur annarra flokka, sem algert trúnaðarmál. Það virðist ástæðulaust að auðvelda óhlutvöndum mönnum þann leik að beita fólk skoðanakúgun með því að hafa óþarflega rúm ákvæði um það, hverjir hafa heimild til að kanna og afrita meðmælendaskrár flokka.

Þá eru hér í frv. ákvæði, sem eiga að tryggja það, að kjósendur færi fullar sönnur á, hverjir þeir séu, áður en þeir neyta kosningarréttar síns. Þessa er alveg sérstaklega orðin þörf hér í Reykjavík, þar sem fjölmennið er mest og kjörstjórnir þekkja að sjálfsögðu ekki nándar nærri alla kjósendur. Sá orðrómur hefur komizt á kreik, að misferli hafi átt sér stað í sambandi við kosningar hér, m. a. á þann hátt, að búið hafi verið að kjósa fyrir menn, þegar þeir ætluðu að greiða atkv. á kjörstað. Á fjölmennum stöðum eins og í Reykjavík verður því að gera ráð fyrir, að þurfi að leggja þá skyldu á herðar kjósanda, að hann færi sönnur á það, að hann sé sá, er hann kveðst vera, þegar hann kemur til þess að kjósa. Þetta verður tæplega gert viðhlítandi á annan hátt en þann, að kjósendum sé boðið að hafa nafnskírteini og framvísa því á kjörstað. Slíkur háttur mun hafður í öllum stærri borgum og bæjum erlendis og þykir þar algerlega óhjákvæmilegur.

Sá ósiður er mjög tekinn að tíðkast í sambandi við kosningar, alveg sérstaklega hér í Reykjavík, að kjörfundi er ekki slitið fyrr en komið er langt fram á nótt. Þó að sjálfsagt sé að gera öllum kjósendum sem auðveldast að nota atkvæðisrétt sinn, þá er ekki hin minnsta ástæða til að halda kjörstöðum opnum lengur en til miðnættis í allra síðasta lagi. Það veldur aðeins þarflausum erfiðleikum öllum þeim, sem við kosningar starfa, ef kosningar eru látnar ganga mjög langt fram á nótt. Því er lagt til í frv. þessu, að kjörstöðum sé aldrei lokað síðar en kl. 12 á miðnætti.

Loks eru hér í frv. skýrari ákvæði en nú gilda um það, hvenær atkv. skal talið ógilt. Það hefur komið í ljós, að um þetta veigamikla atriði gilda nú svo óákveðin lagafyrirmæli, að það er komið mjög undir mati kjörstjórna á hverjum stað, hvað þær úrskurða gild atkvæði og hvað ekki. Reynslan sýnir, að þær eru mjög misstrangar í þessu efni, svo að þess eru ekki fá dæmi, að atkvæðaseðlar með nákvæmlega sams konar formgöllum eru taldir gildir í einu kjördæmi en ógildir í öðru. Þetta er óviðunandi, og ber að kippa því í lag.

Eins og ég sagði áðan, ber okkur að taka hinar fremstu lýðræðisþjóðir til fyrirmyndar um kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga. Hinn 19. sept. s. l. fóru fram bæjar- og héraðsstjórnakosningar í Svíþjóð. Svo hittist á, að þann dag voru staddir í Gautaborg nokkrir íslenzkir blaðamenn. Þegar þeir komu heim, rituðu flestir þeirra um þessa för í blöð sín. Það, sem vakti hvað mesta athygli þessara manna og flestir þeirra, ég hygg þrír eða fjórir, geta alveg sérstaklega um, var sá svipur, sem þeim virtist vera á kosningum þessum. Allir blaðamennirnir, sem minnast á þetta atriði. fara þar um mjög svipuðum orðum. Ritstjóri Tímans, er var einn þeirra Íslendinga, er gistu Gautaborg þennan dag, kemst svo að orði í blaði sínu 30. sept. s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Það vakti sérstaka athygli, að miklu minna bar á smalamennsku flokka þar en hér. Ekki sáust neinir merktir flokksbílar. Fulltrúar frá flokkunum fengu ekki heldur að vera viðstaddir í kjörstofum til þess að taka upp nöfn þeirra, sem kusu, eins og hér tíðkast. Kosningunni lauk kl. 9 um kvöldið, en hér stendur kjörfundur venjulega fram yfir miðnætti. Á kjördaginn var nær ekkert um kosningar rætt í blöðunum. Blöðin birtu seinustu kosningagreinarnar daginn áður. Hins vegar bar mikið á áróðursspjöldum. sem höfðu verið fest upp víðs vegar um borgina. Á þau voru letruð ýmis vígorð flokkanna og stundum hnútur til andstæðinga. Þegar þessi áróðursspjöld eru undanskilin, geta Íslendingar vafalaust sitt hvað lært af Svíum um tilhögun kosninga.“

Ég fæ ekki betur séð en þessi frásögn af kosningatilhögun í Svíþjóð, sem blaðamenn ýmissa íslenzkra stjórnmálaflokka og blaða hafa vitnað til sem sérstakrar fyrirmyndar, sé mjög til stuðnings því frv., sem hér er flutt. Ég vil vænta þess, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, kynni sér, á hvern hátt nágrannar okkar á Norðurlöndum reyna að hafa hemil á fjáraustri og smalamennsku í sambandi við kosningar. Ég leyfi mér svo að æskja þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.