14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (1998)

96. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Framkvæmd sandgræðslunnar er eitt af merkustu umbótamálum í okkar landi, eins og er og hefur verið að undanförnu. Um árangurinn er ekki neitt tvímæli, og það er kunnugt, að það er ekki neinn ágreiningur um, að áframhald á framkvæmd þeirra mála sé mjög nauðsynlegt. Má segja, að til þessara mála sé varið miklu minna fé en nauðsyn ber til.

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 158, felur það eitt í sér að gera nokkru skýrari ákvæði um það, til hvaða lands sandgræðslulögin nái. Þau eru, eins og þau eru nú, aðallega miðuð við uppblásturssvæði, en samkv. þessu frv. skulu þau einnig miðuð við sand eða mel eða annað gróðurlaust land, sem náttúrlega getur alltaf orkað tvímælis um, hvenær hafi blásið upp. Að öðru leyti eru ákvæðin í 1. gr. þessa frv. um hlutföllin til greiðslu á sandgræðslukostnaði alveg þau sömu og er í núgildandi lögum, svo að breytingin er ekki önnur en þessi.

Hv. landbn. hefur haft frv. þetta til athugunar og leggur einróma til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir. Einn nm. hv. 3. landsk., var að vísu ekki á fundi, þegar. ákvörðun var tekin. Fyrir n. lá umsögn frá sandgræðslustjóra ríkisins, og mælir hann eindregið með, að þetta frv. verði samþ.

Ég vil því fyrir n. hönd mæla ákveðið með því, að frv verði afgreitt eins og það liggur fyrir.