29.04.1955
Efri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

157. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa langa framsögu um þetta mál, því að það hefur verið gerð þannig grein fyrir því í grg., sem fylgdi frv. á þskj. 396.

Það er farið fram á, að tollvernd verði veitt hertri hvalfeiti og annarri hertri feiti í samræmi við það, sem átt hefur sér stað t. d. við málningariðnaðinn, til þess að lýsisherzlustöðin, sem hér hefur verið sett upp af Lýsissamlagi ísl. botnvörpunga, geti starfað. En hún telur sig ekki geta starfað vegna verðlagsákvæða þeirra, er sett hafa verið, án frekari tollverndar. Ég geri ráð fyrir, að n. hefði lagt til, að þetta frv. yrði samþ., hefði ekki svo staðið á, að það gæti haft í för með sér verulegan bagga fyrir ríkissjóð vegna niðurgreiðslu á smjörlíki. Þess vegna þykir n. rétt að leggja til, að látin verði fara fram ýtarleg rannsókn í fyrsta lagi á því, hvort lýsisherzlustöðin þurfi að fá þá vernd, sem talað er um, og í öðru lagi á því, ef svo er, hvort smjörlíkisverksmiðjurnar séu ekki færar um að taka þann bagga á sig, án þess að hann valdi hækkuðu verði til almennings.

Nefndin hefur því orðið sammála um að leggja til við deildina, að hún afgreiði þetta mál með rökstuddri dagskrá, sem ég — með leyfi hæstv. forseta — skal lesa upp:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti rannsaka, hvort framleiðsluverð innlendrar, hertrar feiti þurfi nauðsynlega að hækka, til þess að framleiðslan beri sig, og leyfi ekki innflutning hertrar feiti, nema í ljós komi að undangenginni rannsókn, að smjörlíkisverksmiðjurnar þoli ekki að taka á sig þá verðhækkun án þess að hækka smjörlíkið í verði til almennings, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“