29.10.1954
Neðri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2015)

63. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 82, um Iðnaðarmálastofnun Íslands, hefur nú legið hér fyrir í d. og hv. þdm. gefizt tækifæri til að kynna sér málið nokkuð.

Eins og kunnugt er, hefur Iðnaðarmálastofnunin starfað á annað ár og er nú þegar búin að geta sér gott orð og þýðingarmikið á ekki lengri tíma en þeim, sem liðinn er. Stofnunin hefur fram að þessu starfað undir þriggja manna stjórn, sem fyrrverandi iðnmrh., Björn Ólafsson, skipaði. En stofnunin hefur ekki starfað eftir lögum eða reglum, því að lög um Iðnaðarmálastofnun Íslands eru ekki fyrir hendi. Það út af fyrir sig getur vitanlega ekki gengið til lengdar, og þess vegna hefur verið unnið að því að semja frv. um stofnunina, sem byggðist á samkomulagi hinna ýmsu iðngreina í landinu. Það var ljóst, að þriggja manna stj. náði ekki svo víðtækum áhrifum sem nauðsyn bar til. Það voru ýmsir aðilar innan iðnaðarins, sem óskuðu eftir því að hafa aðild að stofnuninni, og með því að stj. væri aðeins skipuð þrem mönnum, var það ekki hægt. Það var þess vegna á s. l. vetri, að ég skipaði sjö manna nefnd til þess að semja lög um Iðnaðarmálastofnunina. N. var skipuð með það fyrir augum, að takast mætti að ná fullkomnu samkomulagi um aðild að stofnuninni. Og það ánægjulega hefur nú gerzt, að fullkomið samkomulag virðist hafa náðst um stofnunina. Það út af fyrir sig er afar þýðingarmikið um svo mikilsverða stofnun sem Iðnaðarmálastofnunin hefur þegar orðið og mun verða fyrir íslenzkan iðnað.

Íslenzkur iðnaður er nú orðinn það umfangsmikill og þýðingarmikill í íslenzku atvinnulífi, að það er vitanlega þess vert að gefa honum rækilega gaum. Hins vegar er þessi atvinnugrein það ung hér á landi, að ekki er nema eðlilegt, að ýmsir barnasjúkdómar geri vart við sig og að þessi atvinnugrein þurfi leiðbeiningar við á ýmsan hátt. Og það er það, sem Iðnaðarmálastofnun Íslands er sérstaklega ætlað að gera, að hafa með höndum leiðbeininga- og ráðleggingastarfsemi við hinar ýmsu iðngreinar, stuðla að því, að iðnaðurinn geti orðið samkeppnisfær við erlendan iðnað, að iðnaðarframleiðslan verði góð, að það verði góðar vörur, sem eru framleiddar, og að verðlagið geti orðið samkeppnisfært, — stuðla að því, að hér megi framleiða iðnaðarvörur ekki aðeins fyrir innlendan markað, heldur einnig fyrir erlendan markað. Í 1. gr. frv. er getið sérstaklega um tilganginn með stofnuninni. Það er gert ráð fyrir, að stofnunin verði ríkisstjórninni til ráðuneytis í tæknilegum vandamálum, er iðnaðinn varða, öðrum en fiskiðnaði. Fiskiðnaðinum er ekki sérstaklega ætlað að vera undir þessari stofnun, og kemur það til af því, að Fiskifélag Íslands hefur sérstaka stofnun, sem mun annast leiðbeiningar fyrir fiskiðnaðinn í landinu. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu, að fiskiðnaðurinn, ef hann óskar eftir, leiti einnig til Iðnaðarmálastofnunarinnar um fyrirgreiðslu eða ráðleggingar, ef svo býður við að horfa.

Iðnaðarmálastofnunin hefur fengið styrk frá Bandaríkjunum á þessu ári, á þriðja hundrað þúsund krónur, og var það gott í byrjun, auk þess sem allmyndarleg fjárhæð er á fjárlögum yfirstandandi árs til að standa undir starfrækslu stofnunarinnar. Á frv. því til fjárlaga, sem nú liggur fyrir fyrir næsta ár, er gert ráð fyrir 650 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði. Og þá má geta þess, að það standa vonir til, að áfram fáist styrkur á svipaðan hátt og þegar hefur fengizt erlendis frá. Er það í samræmi við það, sem gert hefur verið fyrir slíkar stofnanir í nágrannalöndunum, sem hafa einnig notið styrks erlendis frá, frá Bandaríkjunum, á meðan verið er að byggja upp iðnaðinn í viðkomandi löndum.

Það er gert ráð fyrir með frv. þessu, að stjórn stofnunarinnar verði framvegis skipuð átta mönnum. Sjö þeirra verða skipaðir samkv. tilnefningu, og einn verður skipaður af ráðherra. Einn verður skipaður eftir frv. samkv. tilnefningu Félags ísl. iðnrekenda, einn samkv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, einn samkv. tilnefningu S. Í. S., einn samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, einn samkv. tilnefningu iðnsveinaráðs Alþýðusambands Íslands, tveir samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, og skal annar vera fulltrúi iðnverkafólks.

Því er ekki að leyna, að það eru ýmsir fleiri aðilar. sem hefðu viljað eiga fulltrúa í stjórn stofnunarinnar, og kom vitanlega vel til álita, hvort stj. ætti að vera skipuð átta mönnum eða fleiri. Það er t. d. Verkfræðingafélag Íslands, sem hefur gert háværar kröfur um að fá aðild að stofnuninni, og verð ég nú að segja, að það út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt, því að það er nú svo, að vel menntaðir verkfræðingar hér á landi leggja sinn drjúga skerf til iðnaðarins og þeirra framfara, sem vonazt er til að verði í þessari atvinnugrein í framtíðinni. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, þó að þeir vilji hafa beina aðild að, og það liggur náttúrlega opið fyrir og til athugunar, hvort þeir verði með eða ekki. Út af fyrir sig sýnist mér ekki það skipta verulegu máli, hvort stjórnin verði skipuð átta mönnum eða níu. Ég mundi þó ekki vilja raska því samkomulagi, sem gert hefur verið, og breyta aðildinni að stofnuninni, ef það væri á kostnað þess samkomulags, sem þegar hefur fengizt, heldur mundi ég leggja til, að slíkar breytingar, bæði þessi og aðrar breytingar, sem kynnu að koma fram á frv., væru bornar undir þá nefnd, sem samdi frv. Væri það eðlilegt framhald á því, sem áður hefur gerzt í þessu, að skapa frið um þessa stofnun og leggja grundvöllinn að því, að hún geti náð þeim árangri, sem henni er ætlað, þ. e. að byggja upp og endurbæta íslenzkan iðnað og gera hann enn veigameiri þátt í íslenzku þjóðlífi en verið hefur, þótt iðnaðurinn hafi þegar á svo fáum árum sem liðin eru síðan iðnaðurinn náði hér fótfestu náð undraverðum árangri.

Ég tel ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ég efast ekkert um, að frv. verði vel tekið hér í deildinni og að lög verða sett um Iðnaðarmálastofnunina á þessu þingi, enda má svo ekki lengur ganga, að stofnunin starfi án laga og reglugerðar, eins og verið hefur fram að þessu.

Ég legg til, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. iðnn. hér í hv. deild og 2. umræðu.