29.10.1954
Neðri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2018)

63. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, sem fram hefur komið í þessum umr., að stofnun sú, sem hér er til umr., Iðnaðarmálastofnun Íslands, er mikil nauðsynjastofnun, og því ber mjög að fagna, að í það skuli hafa verið ráðizt að koma henni á fót. Ég tel það einnig fagnaðarefni, að ríkisstj. skuli hafa lagt fram lagafrv. um þessa stofnun, þannig að starfsemi hennar hangi ekki framvegis í lausum þræði, heldur fái fastan lagagrundvöll. Hins vegar vil ég einnig taka undir það, sem fram hefur komið af hálfu hv. 5. landsk. þm., að mér finnst frv. þetta í raun og veru ekki að öllu leyti sóma þeirri stofnun, sem hér er um að ræða, og ekki vera í fullu samræmi við mikilvægi hennar. Það er sérstaklega fyrsti kaflinn eða 1. gr., sem á að fjalla um tilgang stofnunarinnar, sem ég tel vera nokkuð ábótavant, þ. e., ég tel henni ekki vera markað þar nógu víðtækt starfssvið.

Hv. 5. landsk. þm. benti á nokkur atriði, sem hann taldi vanta í 1. gr. sem æskilegt starfssvið stofnunarinnar, og nefndi þar til leiðbeiningastarfsemi varðandi nýjar iðngreinar í landinu. Hæstv. ráðh. sagði, að hann teldi það felast í 1. tölulið 1. gr., að stofnunin ætti að annast slíka leiðbeiningastarfsemi. Ég tel vafasamt, að hægt sé að túlka hana þannig, en auðvitað er hægur vandi að ráða bót á því, ef það er raunverulegur vilji hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. iðnmrh., að starf stofnunarinnar skuli einnig taka til þeirra atriða.

Hv. 5. landsk. þm. nefndi einnig nauðsynina á því, að stofnunin aðstoðaði fyrirtæki við skipulagsmál sín. Þetta atriði vildi ég undirstrika alveg sérstaklega. Það vantar algerlega í gr., að það skuli vera hlutverk þessarar mikilvægu stofnunar að aðstoða iðnfyrirtæki við að haga skipulagsmálum sínum á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt. Mér virðist, að í orðalagi 1. gr. um tilgang stofnunarinnar sé fullmikil áherzla lögð á tæknihlið iðnaðarvandamálanna, en skipulagshliðinni sé að verulegu leyti gleymt. Þetta sjónarmið er varhugavert og langt frá því að vera í samræmi við nýtízku sjónarmið þeirra, sem iðnaðarmálum eru kunnugastir annars staðar a. m. k. Það hefur til skamms tíma verið algengur misskilningur, að yfirburðir t. d. þeirra iðnaðarþjóða, sem lengst eru komnar í iðnaðarmálum, svo sem Bandaríkjanna og Þýzkalands, svo að ég nefni eitt Evrópuríkjanna, eigi rót sína að rekja til þess, að sú tækni, sem iðnaður þessara þjóða hefur yfir að ráða, sé fullkomnari en sú tækni, sem tíðkast í iðnaði annarra þjóða. Það er viðurkennd staðreynd, að það, sem ekki skiptir minna máli, heldur jafnvel enn meira máli í þessu sambandi, er, hvert er skipulag iðnfyrirtækjanna í þessum löndum. Það, sem bandarískur iðnaður hefur fyrst og fremst yfirburði í umfram iðnað Evrópuþjóðanna yfirleitt, er ekki tækni, ekki fullkomnari tækni í sjálfu sér. Bandaríkin hagnýta tiltölulega fá tækniatriði, sem aðrar þjóðir þekkja ekki. Það, sem bandarískur iðnaður hefur fyrst og fremst fram yfir evrópskan iðnað, er betra skipulag. Skipulagning bandarísks iðnaðar er fullkomnari en skipulagning evrópsks iðnaðar yfirleitt. Þetta mætti rökstyðja miklu nánar, ef ástæða þætti til. En ég tel ekki nauðsynlegt að gera það hér á þessum vettvangi, enda hér um að ræða staðreyndir, sem eru viðurkenndar af öllum, sem til þekkja. Með tilliti til þessa sakna ég þess alveg sérstaklega, að ekki skuli lögð áherzla á það í þeirri gr., sem fjallar um rekstur stofnunarinnar, að hún skuli helga sig sérstaklega því að stuðla að sem hagkvæmustu og skynsamlegustu skipulagi í íslenzkum iðnrekstri. Í þessu sambandi má minna t. d. á skýrslu og ummæli iðnaðarsérfræðings þess, sem var hér fyrir nokkrum árum á vegum Marshallstofnunarinnar, en hann lagði einmitt sérstaka áherzlu á þetta atriði í þeim skýrslum, sem hann gerði, og í mörgum þeim viðtölum, sem hann átti við menn hér um þessi atriði.

Þá er einnig þess að geta, að æskilegt væri, að stofnunin leiðbeindi iðnfyrirtækjum um meðferð fjármála sinna, um fjáröflun sína og ráðstöfun fjárins. Það er einnig mjög mikilvægt atriði varðandi framleiðni eða „produktivitet“ iðnaðarins, að þeim málum sé rétt og skynsamlega hagað.

Og síðast en ekki sízt ætti það einnig að vera verkefni þessarar stofnunar að leiðbeina iðnfyrirtækjum um fyrirkomulag reikningshaldsins, því að á því sviði er ýmsu í íslenzkum iðnrekstri mjög ábótavant. Tilhögun kostnaðarreiknings eða „kalkúlationa“ hjá íslenzkum iðnfyrirtækjum er enn á mjög frumstæðu stigi.

Enn kveður allt of lítið að því, að íslenzk iðnfyrirtæki hafi hagnýtt sér nýjustu verktækni eða reikningshaldstækni, að því er snertir sundurgreiningu á kostnaðarliðum sínum, og aðferðir við það að sundurgreina afkomu sína til þess að komast að raun um, til hvers hagnaður eða halli á rót sína að rekja. Á þessu sviði hefur á allra síðustu áratugum geysimikið verk verið unnið með öllum þjóðum, þar sem iðnaður hefur mikla þýðingu.

Það, sem ég sakna því alveg sérstaklega í 1. gr., eru ákvæði um, að stofnunin skuli leiðbeina varðandi skipulag iðnfyrirtækjanna, varðandi fjármál þeirra og varðandi reikningshald þeirra. Í greininni eru auk þess þrjú atriði, sem í raun og veru má segja að hafi almenna efnahagslega eða hagfræðilega þýðingu. Það eru ákvæðin um verkefnin í 2., 4. og 5. liðnum. Með tilliti til þessa má á það benda, að samsetning stjórnar stofnunarinnar er ef til vill ekki að öllu leyti æskileg. Eins og hæstv. ráðh. gat um í frumræðu sinni, þá hafa verið óskir uppi um það af hálfu Verkfræðingafélagsins, að það ætti aðild að stjórn stofnunarinnar, þar sem það væri eðlilegt, að í stjórn stofnunarinnar væri ávallt einhver sérmenntaður maður í verkfræðilegum efnum. Með tilliti til þess, sem þegar er í 1. gr., væri það vissulega mjög eðlilegt. En við það vildi ég bæta, að með tilliti til þess, sem sumpart er þegar í gr., svo sem t. d. í 5. liðnum, að stofnunin á að vinna að því í samráði við Hagstofu Íslands, að ár hvert sé gefin út heildarskýrsla um iðnaðarmálin í landinu, og í 4. liðnum, að stofnunin á að leggja grundvöll að viðurkenndum mælikvörðum eða fyrirmyndum (standards) fyrir íslenzka iðnaðarframleiðslu og stuðla að því, að komið verði á fót gæðamati iðnaðarvara, og þó einkum með tilliti til þess, að verksviðið ætti að víkka þannig, að það tæki tillit til skipulagsmála iðnfyrirtækjanna og fjármála þeirra og reikningshalds, þá væri ekki óeðlilegt, að í stjórn stofnunarinnar gætti einhverrar hagfræðilegrar sérmenntunar. Mér finnst, að við samsetningu á stjórn stofnunarinnar hafi fyrst og fremst verið tekið tillit til þeirra hagsmunaaðila, sem hér eiga hlut að máli, en aftur á móti ekki tryggt, að þar sé fyrir hendi bæði verkfræðileg og hagfræðileg sérþekking. En hvort tveggja hlýtur að teljast mikilvægt, þegar um stjórn slíkrar stofnunar sem þessarar er að ræða. E. t. v. má segja, að þetta yrði tryggt á þann hátt, að starfsmenn stofnunarinnar hefðu bæði verkfræðilega og hagfræðilega þekkingu, en eðlilegast er, að trygging fyrir því, að slíkra sjónarmiða gætti, væri þegar fyrir hendi í skipulagi sjálfrar stjórnar stofnunarinnar.

Þetta vildi ég gjarnan láta koma fram þegar við 1. umr. málsins og mun, ef tilefni gefst til, rökstyðja þessi sjónarmið nánar við síðari meðferð málsins. — Að síðustu vil ég svo aðeins benda þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, á, — það er til að undirstrika það, að frv. virðist að sumu leyti ekki hafa verið nægilega vel undirbúið, — að mjög andkannalegt orðalag er á einni setningu í fyrstu greininni. Þar þarf nauðsynlega að bæta málfar setningarinnar. Annaðhvort er þar um prentvillu að ræða af hálfu þeirra, sem gengið hafa frá prentuninni, eða óvandaðan frágang af hálfu þeirra, sem samið hafa frv. Ég á við setninguna, að stofnunin skuli vera „ríkisstjórninni til ráðuneytis í tæknilegum vandamálum, er iðnaðinn varða, öðrum en fiskiðnaði“. Augljóst er, að þessari setningu er eitthvað ábótavant.