08.11.1954
Neðri deild: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

27. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er flutt vegna þess, að fyrir nokkru kom erindi eða ábending til menntmrn. frá hv. fjvn. um, að hagkvæmara mundi vera að breyta innheimtuaðferð útvarpsins á þann veg að fá innheimtuna í hendur sýslumönnum, bæjarfógetum og öðrum skattheimtumönnum ríkissjóðs, en taka hana af póstmönnum og útvarpinu sjálfu eða innheimtustofnun þess, sem fram að þessu hafa með þessa innheimtu farið, og var því haldið fram af hv. fjvn., að töluverður sparnaður mundi af þessu hljótast.

Ráðuneytið hefur látið athuga málið, og kom þá í ljós, að samkv. gildandi lögum var óheimilt að breyta þessu, þannig að ef ætlun var að verða við tilmælum fjvn., þurfti slíka lagabreytingu sem hér er lögð til. Er það ástæðan til þess, að frv. er nú flutt. Jafnframt er rétt að taka fram, að af hálfu útvarpsins hefur það mjög verið vefengt, að slíkur sparnaður yrði af þessari ráðstöfun sem hv. fjvn. hafði látið sér til hugar koma, og hefur verið bent á marga annmarka á þeirri væntanlegu nýju skipun.

Ég skal ekki rekja þá sögu frekar, en greinilegt er, að það er betra að hafa heimildina í lögum til þess að geta beitt henni, ef athugun sýnir endanlega, að með þessu verði hægt að spara verulegt fé, enda er þá líklegt, að hægt sé að knýja kostnað niður hjá þeim aðilum, sem nú fara með innheimtuna, er þeir sjá, að fleiri úrræði eru fyrir hendi en að semja við þá eina. Þess vegna held ég, að það geti ekki orðið umtalsmál, að þetta frv. sé til bóta. En ég hef þennan fyrirvara á, að þó að það verði samþykkt, er ekki víst, að sú breyting verði gerð, sem frv. fjallar um, heldur þarf að athuga það mál betur en enn þá hefur verið gert.