14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2049)

19. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta, mál, sem hér liggur fyrir, frv. til laga um hvíldartíma háseta á íslenzkum botnvörpungum, er nú í níunda sinn flutt hér á hv. Alþ. Það mætti nú álíta, þegar þetta er níunda árið í röð, sem Sósfl. hefur flutt það, að einhver breyting hafi orðið á eðli málsins frá því, er það var flutt fyrst. Þá var í lögum, að þeir höfðu 8 stunda hvíld og 16 stunda vinnu í sólarhring, og þetta er í lögum enn. En á þeim tíma, frá því að þetta mál var fyrst flutt og þangað til nú, er það þó orðið samningsbundið á öllum veiðum, að þeir þurfa ekki að vinna nema 12 tíma, svo að á þessu máli hefur verið meiri skriður utan þings en hér í Alþ.

Sögu þess máls eru gerð nokkur skil í grg. fyrir þessu frv. En ef maður lítur á þetta mál, hvaða áhrif það muni hafa á allra þýðingarmesta atvinnuveg þjóðarinnar, sem enginn efast um að sé vinna togarasjómannanna íslenzku, sem gefi mestan arð í þjóðarbúið, þá hafa þeir, sem í samningunum hafa staðið, atvinnurekendur yfirleitt og sérstaklega togaraútgerðarmennirnir gert samning um það, — þeir hafa ekki getað staðið á móti því, — að það væri á þessum tíma a. m. k. ekki forsvaranlegt að ætla mönnum lögboðna vinnu meira en hálfan sólarhringinn. En það hefur aldrei tekizt hér á Alþ. að láta meiri hluta Alþ. viðurkenna þetta. Við vitum um það, að það er oft hörð barátta milli atvinnurekenda og verkamanna, útgerðarmanna og sjómanna, um vinnukjör og kaupgjald og allt þess háttar. Það hefur kostað miklar fórnir bæði fyrir sjómennina og fyrir útgerðarmennina og landið að koma þessu fram. Og þegar sjómenn eru búnir að berjast við atvinnurekendur og þeir eru loksins búnir að láta undan kröfum þeirra um hvíldartímann og önnur kjör — ja, þá segir meiri hluti Alþ.: Það getur vel verið, að þið hafið slakað til þarna, en það er okkur óviðkomandi mál. — Meiri hluti Alþ. er ekki búinn að viðurkenna, að það sé réttlæti, að maður hafi lög til þess að þurfa ekki að vinna nema hálfan sólarhringinn. Löggjafarvaldið er ekki búið að viðurkenna það enn, og það er dálítið erfitt að sætta sig við það, þegar farið er að koma fram, að menn munu komnir niður í jafnvel 40 stunda vinnuviku og fyrir neðan það. En þessir menn hafa ekki enn fengið viðurkennt af löggjafarvaldinu, að þeir skyldu fá lögtryggða 12 tíma hvíld.

Þetta mál hefur farið gegnum Alþ. venjulega ákaflega umræðulítið, legið í salti allan þingtímann og í mesta lagi í lok þings verið vísað til stjórnarinnar, eins og greint er frá í frv., og ekkert verið svo gert. Nú er þetta mál flutt enn, og nú vona ég, að það sé það minnsta, sem hægt er að gera, að Alþ. viðurkenni, að það sé réttlátt, að íslenzku sjómennirnir eigi lög til þess að þurfa ekki að vinna nema 12 tíma á sólarhring, og að fá þetta frv. löggilt. Svo læt ég þessari ræðu minni lokið og óska, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til sjútvn.