14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2052)

20. mál, orlof

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Frumvarp það, sem hér liggur fyrir á þskj. 20, er um breyt. á l. nr. 16 26. febr. 1943, um orlof. Lög um orlof voru samþykkt 1943. Sumarið 1942 hafði Verkamannafélagið Dagsbrún náð mjög þýðingarmiklum samningum við atvinnurekendafélag Íslands. Í þeim samningum var í fyrsta sinn viðurkenndur 8 stunda vinnudagur, en auk þess var þá samningsbundið orlof verkamanna 2 vikur á ári og skyldu atvinnurekendur greiða verkamönnum orlofsfé þannig, að verkamenn skyldu halda launum í leyfi sínu. Hér var um að ræða stórmerkan áfanga í réttinda- og hagsmunamálum íslenzkrar alþýðu, enda var þess skammt að bíða, að þessi mikilvægi réttur næði til launþegastéttarinnar víðs vegar um land. Alþ. samþykkti svo á næsta ári lög um orlof. Þrátt fyrir það að lögin um orlof væru á sínum tíma mjög merkilegur og mikilvægur áfangi í menningar- og hagsmunabaráttu launastéttarinnar, eru þau engan veginn fullnægjandi nú orðið, enda margvíslegar breytingar orðnar síðan, sem fyllilega réttlæta það og gera það beinlínis nauðsynlegt, að lögunum um orlof frá 1943 verði breytt til samræmis við þær aðstæður, sem nú eru, og við þá reynslu, sem fengizt hefur, frá því að lögin voru sett.

Á undanförnum þingum hafa þingmenn Sósfl. o. fl. beitt sér fyrir breytingu á þessum lögum. Á Alþ. 1948–1949 fluttu þeir alþm. Hermann Guðmundsson og Sigurður Guðnason frv. til laga, svipað því, sem hér liggur fyrir. Á næstsíðasta Alþ. var frv. aftur flutt og þá af alþm. Magnúsi Kjartanssyni og Steingrími Aðalsteinssyni. Og á síðasta þingi var það enn á ný tekið upp og flutt af 9. landsk. og mér. Í hvert skipti, sem þetta merka mál hefur verið flutt, hefur hv. Alþingi sýnt málinu lítinn skilning og því minna fylgi. T. d. í fyrra var málinu að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og félmn.hv. n. sá sér aldrei fært að afgreiða það, og dagaði það uppi ásamt fjölmörgum öðrum nýtum og góðum málum hjá nefndinni. Máske hafa hv. nm. talið sig vera að þjóna flokkssjónarmiðum með því að afgreiða ekki málið.

Í þessu frv. felast fjórar nýjar breytingar á núgildandi lögum:

1) Lágmarkssumarleyfi lengist upp í 18 virka daga eða sem svarar 3 vikna orlofi, og skal orlofsfé þá hækka í samræmi við það upp í 6½% af kaupinu. Slík lenging á orlofstímanum og um leið hækkun er þegar komin til framkvæmda hjá ýmsum embættis- og starfsmönnum hins opinbera, sömuleiðis hjá ýmsum iðnaðarmönnum. Erlendis, t. d. á Norðurlöndum, hefur 3 vikna orlof komið til framkvæmda. Norðmenn samþykktu lögin um 3 vikna orlof 1947. Danir og Svíar hafa síðar komið á hjá sér 3 vikna orlofi. Það er full vissa fyrir því, að vinnandi fólk á Íslandi mun ekki sætta sig við önnur og verri kjör hvað þetta áhrærir en nú eru gildandi um öll Norðurlönd að undanskildu Íslandi.

2) Í frv. er lagt til, að orlofsrétturinn nái óskertur til hlutarsjómanna. Í orlofslögunum eru ákvæði um orlof hlutarsjómanna óglögg, og hefur það oft valdið ágreiningi. Þessu ber hv. Alþ. að kippa í lag og leiðrétta það óeðlilega misræmi, sem fram kemur í lögunum, enda mælir ekkert með því, að hlutarsjómenn séu afskiptir orlofsfé, heldur hið gagnstæða.

3) Í núgildandi orlofslögum er eigi gert ráð fyrir, að orlofsfé sé greitt á eftir-, nætur- og helgidagavinnu í sama hlutfalli og launagreiðslur, heldur svo sem um dagvinnu væri að ræða. Í þessu frv. er lagt til, að þessi ákvæði verði felld niður og að orlofsfé verði í öllum tilfellum jafnt, þ. e. 6½%.

4) Í 15. gr. orlofslaganna eru sérstök ákvæði um fyrningu á kröfum, svo hljóðandi: „Kröfur á hendur vinnuveitendum samkvæmt lögum þessum falla úr gildi fyrir fyrning, ef þær hafa ekki verið viðurkenndar eða lögsókn hafin innan loka næsta orlofsárs eftir að kröfurnar stofnuðust.“ Þetta ákvæði laganna er í alla staði óeðlilegt og getur beinlínis orðið til þess, að menn tapi rétti til orlofsfjár, enda dæmi til þess, að svo hefur farið. Sjálfsagt er, að fyrning á kröfum vegna orlofsfjár fylgi í öllu sömu reglum og um fyrningu kaupgjalds.

Verkalýðshreyfingin hefur að undanförnu krafizt 3 vikna orlofs. Í desemberverkfallinu 1952 var ein aðalkrafa verkalýðssamtakanna um 3 vikna orlof. Samið var þá um 15 daga orlof eða 5% orlofsfé. Það er fullvíst, að verkalýðssamtökin munu halda áfram að krefjast 3 vikna orlofs og muni við fyrsta tækifæri knýja þessa kröfu fram. Vilji Alþ. hins vegar sýna þessu máli fullan skilning og samþykkja þetta frv., gæti það orðið til þess að auðvelda samkomulag milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna við næstu samninga. Það getur ekki liðið nema tiltölulega skammur tími, þar til verkalýðssamtökin sjái sig til knúin að segja upp núgildandi kjarasamningum. Í tíð núverandi ríkisstj. hefur dýrtíðin haldið áfram að vaxa með ævintýralegum hraða, en kaupgjald ekki hækkað í neinu samræmi við hina ört vaxandi dýrtíð. Það væru því ekki nema örlitlar sárabætur á öllu því misræmi, sem nú er á milli verðlags og kaupgjalds í landinu og bitnar harðast á launastéttunum, að Alþ. það, sem nú hefur hafið störf sín að nýju, sæi sóma sinn í því að verða við hinni sjálfsögðu kröfu launastéttanna að fá 3 vikna orlof og samþykkja frv. það, sem hér liggur fyrir.

Að lokinni þessari 1. umr. leyfi ég mér að óska þess við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.