14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

24. mál, félagsheimili

Hannibal Valdimarsson:

Það er eingöngu vegna þess, að ég býst við, að það fari svo á þessu þingi eins og undanfarin þing um þetta mál og önnur verkalýðsmál, sem nú eru endurflutt á Alþ., að um þau ljúki 1. umr. og þeim sé vísað til nefndar, komið í þá gröf, sem þeim sé ekki ætlað að koma úr aftur, af hv. meiri hl. Alþingis, eingöngu vegna þessa, segi ég, er það, að ég vildi bæta nokkrum orðum við það, sem hv. frsm. sagði um þetta annars sjálfsagða mál.

Það er farið fram á það lítilræði í þessu frv., að verkalýðsfélög verði tekin inn í upptalningu þá, sem er í lögunum, en þar eru talin upp þau menningarfélög, sem flm. nefndi, en verkalýðsfélögin eru ekki með í þeirri upptalningu. Af þessu leiðir, að þar sem verkalýðsfélag er eitt félag á stað og þörf er á að byggja félagsheimili eða endurbæta eða stækka félagsheimili eða samkomuhús, sem fyrir er, t. d. í eign verkalýðsfélags, þá er verkalýðsfélagið á staðnum ekki talinn löglegur aðili að því að fá fé úr sjóðnum til byggingar eða endurbóta á samkomuhúsi á staðnum. Til þess að það sé hafið yfir allan vafa, að þetta er svo nú, skal ég nefna dæmi, sem hæstv. forseta þessarar deildar er vel kunnugt um. Dæmið er úr hans eigin kjördæmi. Þar er í þorpi einu allmyndarlegt hús, eða réttara sagt var á sínum tíma allmyndarlegt samkomuhús, reist af verkalýðsfélagi og ungmennafélagi. Ungmennafélagið er horfið úr sögunni fyrir mörgum árum, er hætt að starfa, og verkalýðsfélagið er þarna eitt eftir sem aðili að þessu samkomuhúsi. Samkomuhúsið hefur nú um 20 ára skeið verið notað í byggðarlaginu sem félagsheimili verkalýðsfélagsstarfseminnar og sem kirkja og skóli fyrir byggðarlagið og þannig verið athvarf allra, sem hafa þurft að rækja einhverja félagsstarfsemi. Nú, þegar húsið var orðið rúmlega 20 ára gamalt, þurfti að endurbæta það og búa það svo úr garði, að það svaraði kröfum tímans. Sýnt var, að þetta kostaði stórfé. Þá var leitað til stjórnar félagsheimilasjóðs. Málið var tekið til velviljaðrar athugunar, en, nei, því miður. niðurstaðan varð sú, að verkalýðsfélög væru ekki til í upptalningu laganna, þ. e., verkalýðsfélagið á þessum stað hefði ekki rétt til fjár úr félagsheimilasjóði til endurbótar á félagsheimili staðarins. Þetta dæmi er alveg nægilega skýrt til þess að afsanna þá kenningu Morgunblaðsins, sem það flutti, þegar málið var flutt á síðasta þingi, að það væri alveg óþarft að vera að flytja svona mál, því að verkalýðsfélögin fengju að vera með öðrum félögum um byggingu félagsheimila og endurbætur á þeim, það væri bara vanþekking flutningsmanns, að þetta þingmál hefði nokkurn tíma séð dagsins ljós. Eitthvað á þessa leið sagði þetta útbreiddasta málgagn Sjálfstfl. En sannleikurinn er sá, að þarna var það aðeins vanþekking Morgunblaðsins, en ekki flm., sem var staðreynd og er staðreynd og það er alveg með fullum rétti, að svona mál sé flutt, til þess að verkalýðsfélögin njóti sama réttar og þau menningarfélög. sem upp eru talin í gildandi lögum. Ég trúi því ekki, að nokkur alþm. standi á móti því, að verkalýðsfélögin séu viðurkennd sem aðili að þessari löggjöf, þegar hann veit, hvernig þetta mál er vaxið. Þau eiga vissulega rétt á að fá styrk úr félagsheimilasjóði, þegar þau hafa leyst sams konar vandamál á sínu félagssvæði og önnur menningarfélög fá hjálp til að leysa.

Ég efa það ekki, að dæmin eru fleiri en þetta, sem ég nefndi, og er því misréttið, sem nú á sér stað, sjálfsagt nokkuð almennt. Það bitnar ekki bara á verkalýðsfélögunum, það bitnar í heild á þeim byggðarlögum, sem ekki fá byggð félagsheimili eða fram komið nauðsynlegum endurbótum á samkomuhúsum, sem til eru á staðnum. Verkalýðsfélagið í því kauptúni, sem ég ræði hér um, reyndi að vísu að brjótast um á hæl og hnakka og útvegaði sér óhagstæð lán til þess að framkvæma það nauðsynlegasta af endurbótunum, sem gera þurfti, en það gat þó ekki framkvæmt viðgerðina og breytinguna á húsinu á þann hátt, að húsið væri fyllilega sambærilegt við þau stórmyndarlegu félagsheimili, sem nú eru víða reist með aðstoð félagsheimilasjóðsins. En þegar þetta hús var byggt, og sama er sagan um mörg önnur samkomuhús, sem verkalýðsfélögin hafa reist, þá fékkst engin aðstoð frá þjóðfélagsins hendi til þess að koma slíkum húsum upp. Það stóð meira að segja í stórkostlegu stríði, þegar þetta hús var byggt, um að geta fengið nokkurn blett í byggðarlaginu til að setja húsið á, þá voru verkalýðsfélögin svo fordæmd af ráðamönnum sumra sveitarfélaganna. Það eimir einmitt eftir af þessari fordæmingu enn þá, að því er snertir Alþingi. Úti um landið er slík fordæming ekki lengur til á verkalýðsfélögunum. Starf þeirra er orðið viðurkennt, en Alþingi vill þó standa í vegi fyrir því enn þá, að þau fái þann rétt, sem sjálfsagður telst, þegar önnur félög eiga í hlut.

Verkalýðsfélögin hafa víða komið upp samkomuhúsum á eigin spýtur, og skyldi maður einmitt ætla, að þau væru verðlaunuð, eins og í þessu tilfelli, fyrir að hafa komið upp samkomuhúsi, sem verið hefur í senn skóli og kirkja og athvarf allrar félagsstarfsemi viðkomandi byggðarlags. En umbunin er hegning. Félagið fær enga aðstoð, af því að það er verkalýðsfélag. Það er eins og hv. flm. sagði áðan: Í þessu tilfelli yrði verkalýðsfélagið á staðnum að endurreisa ungmennafélagið gamla, sem var upphaflegur aðili að húsbyggingunni, til þess að tekin væri til greina umsókn þess. Ég talaði á sínum tíma sjálfur við íþróttafulltrúa ríkisins, sem þá var formaður sjóðsstjórnarinnar, og hann sagði, að því miður væri ekki hægt, eins og lögin væru, að taka umsóknina til greina, af því að lögin veittu ekki þessum félögum þann rétt, sem önnur félög nytu, þegar þau væru ein að verki. Verkalýðsfélag yrði að vera með öðrum félögum, til þess að hægt væri að taka slíka umsókn til greina. Frv., sem hér er til umræðu, á að bæta úr þessu, og það er ekki hægt að hugsa sér sjálfsagðari hlut en að verða við þessu máli. En samt fór svo, að það mætti mótspyrnu á seinasta Alþingi og fékkst ekki afgreitt, og er það þess vegna flutt nú í annað sinn. Það má ekki fara svo, að svo sjálfsagt mál nái ekki afgreiðslu Alþingis, þegar það er endurflutt og fyllri upplýsingar lagðar á borðið en áður hafa verið lagðar fram um það. Þessi félög eru sannanlega höfð út undan samkvæmt gildandi löggjöf og fá ekki leiðréttingu sinna mála nema að breyttum lögum.