18.10.1954
Neðri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

32. mál, brotajárn

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. upplýsti, að fyrir lægju ýmsar umsóknir um að selja hina gömlu togara úr landi til niðurrifs í brotajárn, vil ég aðeins segja það, að ég tel því meiri ástæðu til þess að athuga það mál, sem þáltill. á þskj. 31 fjallar um, ef þetta er á döfinni. Það virðast miklar líkur benda til þess, að hér á landi muni vera hagkvæmt að hefja járnbræðslu og vinna úr því járni, sem til fellur árlega, ýmsar nauðsynlegar járnvörur og þá fyrst og fremst steypustyrktarjárn, sem mér er tjáð af kunnáttumönnum að sé einna einfaldast í vinnslu. Það væri því mjög æskilegt, að athugun færi fram á þessum hlutum sem allra fyrst, einmitt áður en þeir gömlu togarar, sem hér liggja enn þá, verða seldir úr landi, því að fari svo, sem ég tel miklar líkur til, að járnbræðsla hér á 1andi geti verið arðvænleg atvinnugrein, væri að minni hyggju óráðlegt að leyfa sölu á þessum togurum úr landi fyrir lítið verð.