15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2083)

34. mál, varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Gunnar M. Magnúss [frh.]:

Herra forseti. Þar var frá horfið, er ég var að tala um aðdragandann að ræðum, sem fram fóru á Alþ. um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið.

Þann 11. marz 1949 sendi danskur blaðamaður í Washington svo hljóðandi skeyti til Norðurlanda: „Utanríkisráðherra Íslands Benediktsson kemur til Washington á morgun.“ Þetta skeyti birtist í Dagbladet í Osló 11. marz, en laugardaginn 12. marz var íslenzkum blöðum fyrst send tilkynning um utanstefnuna. Hér fór því sem venjulega, að þjóðin fékk fregnirnar um sín örlögþrungnu mál fyrst frá útlöndum. Það var örlögþrungin ferð utanrrh. Íslands, því að hann fór ekki einn, heldur hafði til ánetjunar í för með sér menntmrh. Eystein og viðskmrh. Emil. Utanrmn, var ekki fremur venju kölluð saman til þess að ræða þau stórmál, sem að steðjuðu. Og ofan í kaupið marglýsti forsrh. yfir því á þingi, að engin boð eða tilmæli hefðu komið frá Bandaríkjastjórn um vesturför íslenzkra ráðh., för þremenninganna væri eingöngu farin að frumkvæði íslenzku ríkisstj. En rækilega var flett ofan af þessum ósannindum samstundis, því að útvarpsstöðvar Bandaríkjanna fluttu öllum heimi þær fregnir, að utanrrh. Íslands hefði skýrt frá því í Washington, að þeir ráðh. væru þangað komnir í boði Bandaríkjastjórnar.

Samfara þessari utanstefnu var tilkynnt, að efnahagssamvinnustofnunin í Washington hefði samþ. að veita Íslandi framlag án endurgjalds, að upphæð 2½ millj. dollara, eða sem samsvarar 16 millj. 250 þús. kr. Tilkynning um þetta barst ríkisstj. daginn áður en utanrrh. Íslands og samráðherrar hans stigu á land í Bandaríkjunum.

Það er leiður grunur, sem óneitanlega læðist fram um samband milli þessarar 16 millj. kr. gjafar og utanstefnu ráðh. Í þessari ferð skuldbundu ráðh. sig til að láta Alþ. samþ. inngöngu Íslands í hernaðarbandalagið. Til þess að koma ekki heim alveg slyppir af röksemdum fyrir meinleysi þess, en jafnframt félagslyndi að ganga í bandalagið, lögðu ráðh. ýmsar spurningar fyrir utanrrh. Bandaríkjanna. Hann svaraði, en svörin eru sannarlega allloðin og hjákátleg sum.

Önnur spurning utanrrh. Íslands, Bjarna Benediktssonar, hljóðar svo: „Skiptir miklu máli fyrir Bandaríkin, að Íslendingar gerist aðilar að bandalaginu?“ Acheson, utanrrh. Bandaríkjanna, svaraði: „Bandaríkin líta á það sem auglýsingu og metnaðarmál.“ Ekki er skilgreint, hvort hér er um að ræða auglýsingu og metnaðarmál fyrir Ísland eða Bandaríkin.

Fjórða spurning Bjarna Benediktssonar hljóðar svo, með leyfi forseta: „Telja Bandaríkin hættulegt að hafa landið óvarið eins og sakir standa, og er hætta á, að Sovétríkin geti hernumið landið fyrirvaralaust?“ Acheson svarar: „Það er alveg fráleitt, að reynt verði að taka landið með fallhlífaherjum. Það er nær óhugsanlegt, að reynt verði að lenda hér flugvélum og taka landið þannig. Eini raunverulegi möguleikinn er að taka landið frá sjó, en til þess þyrfti svo mikinn undirbúning, að Bandaríkin yrðu alltaf á undan. Ísland þarf því ekki að óttast neina vopnaða árás að óbreyttum aðstæðum.“

Fimmta spurning: „Hverrar verndar geta Íslendingar vænzt frá Bandaríkjunum gegn árás?“ Acheson svarar: „Það er engin hætta á árás á Ísland að óbreyttum aðstæðum.“

Af þessum svörum er því augljóst mál, að það er ekkert í húfi, engin hætta á árás. Ísland þarf ekki að óttast neina vopnaða árás. Hins ber aðeins að minnast, að það er auglýsing og metnaðarmál, að Ísland sé með í hernaðarbandalagi.

Áttunda spurning: „Mundi Ísland notað til árása á aðrar þjóðir, ef til stríðs kæmi?“ Acheson svarar: „Ekki í fyrstu lotu. Meðan stöðvar eru á meginlandinu og í Bretlandi, yrði ekki hafin árás héðan.“ Hér skein í gegnum grisjuna, og er hér í rauninni opinberlega viðurkennt í fyrsta sinn, að Ísland verði gert að árásarstöð á önnur ríki, strax þegar henta þykir og Bandaríkin telja þess þörf vegna hagsmuna sinna og árásafyrirætlana.

Í þessari sömu frægðarför sinni lýsti utanrrh. Íslands, Bjarni Benediktsson, yfir því í viðtali við bandaríska blaðamenn, að engir nema kommúnistar væru andvígir þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og þeir væru ekki nema 10% meðal þjóðarinnar. Hér gerist utanrrh. opinber ósannindamaður um tvö atriði: Hið fyrra, að sósíalistar, sem hann vitanlega samkvæmt venju kallar kommúnista, hefðu aðeins 10% fylgi. En sannleikurinn var sá, að þeir höfðu nær 20% fylgi meðal þjóðarinnar. Þessi skrök ráðh. sýndu því Bandaríkjamönnum, hversu sjálfsagt væri, að Ísland gengi í hernaðarbandalagið. En hvort taugar ráðh. hafi vitnað hið sama, skal ósagt látið. Hafi utanrrh, hins vegar ekki fylgzt svo vel með í útreikningum hér heima fyrir, þá hefði förunautur hans, hinn mikli bókhaldari ríkisstj., þáverandi menntmrh., núverandi fjmrh., Eysteinn, átt að geta leiðrétt hann, því að prósenttölur eru þó hans sérgrein í stjórnmálaferlinum, og til einhvers hefur hann átt að vera með í förinni. Í hinu atriðinu, þar sem Bjarni Benediktsson skýrði frá því, að engir nema kommúnistar væru andvígir þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, eru ósannindi hans ekki síður ljós. Honum hefði átt að vera það fullljóst, að áður en hann flaug vestur til Bandaríkjanna hafði mótmælaalda gegn þessu hernaðarbandalagi risið um Land allt og til Alþ. höfðu þá 59 félög og félagasamtök sent eindregin mótmæli gegn inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og mörg fóru fram á þjóðaratkvgr. um málið. Þessi mótmæli héldu áfram að berast inn í Alþ. og voru orðin í marzlok milli 70 og 80. En það segir sitt um alla málsmeðferð, að þessi mótmæli fengust hvorki birt í þingfréttum, útvarpsfregnum né blöðum stjórnmálaflokka. En að mótmælunum stóðu verkalýðsfélög, stúdentafélög og stúdentafundir, iðnaðarmannafélög, sósíalistafélög, fundir þjóðvarnarmanna, félag ungra framsóknarmanna, kennarafélög, skólafélög, ungmennafélög, sjómannafélög, kvenfélög, félag á Reykjalundi og stéttarfélög ýmis, svo að nokkuð sé nefnt. Bak við þessi samtök stóðu tugir þúsunda Íslendinga, sem ráðh. undir öðrum kringumstæðum vill vafalaust ekki stimpla sem kommúnista. En það kemur hver til dyranna eins og hann er klæddur, og er það ekki í fyrsta sinn, sem Bjarni Benediktsson er lýstur ósannindamaður frammi fyrir alþjóð sökum þjónkunar sinnar við bandaríska auðvaldið.

Þegar utanrrh. Íslands og þeir hinir tveir komu heim úr utanstefnunni, virtist styrkurinn ekki vera eins mikill og meðan þeir stóðu á bandarísku landi. Þá hélt allur undirbúningurinn undir samþykkt Alþ. á sáttmálanum áfram í fálmi og fumi, sem stefndi málum Íslands í háska og óefni. Með aðild að Atlantshafssáttmálanum var stefnt að því, að þátttökuríkin undirgengjust skuldbindingar um að taka upp hervarnir, leggja undir dóm hvers annars þátttökuríkis sem er, hvenær öryggi landsins sé hætt, taka þátt í styrjöld, m. a. með notkun hervalds, ef ráðizt er á eitthvert þátttökuríkjanna, taka þátt í hernaði, binda sig a. m. k. 20 ár fram í tímann, hvað sem gerist í heiminum. Auk þess gerðu Bandaríkin sérsamning við hvert ríki.

Þegar samningurinn kom svo til umræðu og atkvgr. á hv. Alþingi 29. og 30. marz 1949, gerði ríkisstj. fáheyrð afglöp, sem urðu meginorsök til óeirða við alþingishúsið, en þeir atburðir höfðu hinar hryggilegustu afleiðingar. Forustumenn hernámsflokkanna vissu um andúð fólksins á athæfi þeirra og létu sér ekkert koma við nein mótmæli eða kröfuna um þjóðaratkvgr. um þetta stórmál. En þeir svöruðu á minnisverðan hátt. Í fyrra lagi sendu formenn þriggja þingflokka, Ólafur Thors fyrir Sjálfstfl., Eysteinn Jónsson fyrir Framsfl. og Stefán Jóh. Stefánsson fyrir Alþfl., út fregnmiða til Reykvíkinga, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Reykvíkingar! Kommúnistar hafa nú án þess að leita leyfis boðað til útifundar í dag og skorað á menn að taka sér frí frá störfum. Við viljum því hér með skora á friðsama borgara að koma á Austurvöll milli kl. 12 og 1 og síðar til þess að sýna, að þeir vilji, að Alþingi hafi vinnufrið.“

Það upplýstist reyndar, að þessir hv. formenn þingflokkanna fóru með rangt mál um fundinn. Hann var á allan hátt lögmætur og samþykkti að skora mjög alvarlega á Alþingi að taka ekki lokaákvarðanir um málið, án þess að leitað væri álits þjóðarinnar, og krafðist þess því, að afgreiðslu málsins væri skotið undir almenna þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú mætti ætla, að samkv. yfirlýsingum utanrrh. hefði verið óhætt fyrir ríkisstj. að láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið, því að samkv. upplýsingum hans áttu 90% þjóðarinnar að vera því fylgjandi, að Ísland yrði innlimað í hernaðarbandalagið. Sennilega hefur ráðherrann og ríkisstj. fengið fyrirskipun um að haga sér þann veg, er hún gerði. Hin óhæfan, sem ríkisstj. gerði þennan dag, var að vopna æsta unga menn úr stjórnmálafélagi Sjálfstfl., Heimdalli, til þess að gera árás á mannfjöldann, sem væntanlegur var að alþingishúsinu samkv. áskorun ríkisstj., en af slíku háttalagi má bezt sjá, hverjir sögðu fyrir verkum. Fyrir allan þennan málabúnað, mistök, ofstæki hernámsflokkanna og fyrirhyggjuleysi að ana út í foraðið, hófust óeirðir 30. marz. Þar var Heimdallarliðinu hleypt á hina friðsömu borgara, svo að af hlutust meiðingar og mannskemmdir. Þá var tilganginum náð og 24 menn, sem reynt var að bendla við kommúnisma, kærðir og handteknir, síðan dæmdir þungum dómum, sumir frá mannréttindum að fullu og öllu.

Þegar dómar þessir komu til hæstaréttar, bar öllum verjendum hinna ákærðu saman um, að þeir væru ranglega dæmdir, saklausir af ákærum, en í sambandi við málsmeðferð hefðu verið framin réttarspjöll. Hinir 8 hæstaréttarlögmenn, sem voru verjendur hinna ákærðu fyrir hæstarétti, létu allir sem einn þá hiklausu skoðun í ljós, að sök á óeirðunum bæri ríkisstj., yfirstjórn lögreglunnar og þeir aðrir, sem hlýddu og samþykktu fyrirskipanir þeirra. Hæstaréttarlögmennirnir leggja heiður sinn að veði fyrir þessum fullyrðingum, svo að ekki þarf að efa, að þeir hafa borið fram rök sín að þrautrannsökuðu máli. Auk alls almennings, sem hefur þessa skoðun á málinu, kemur hér rökstutt álit hinna þjóðkunnu hæstaréttarlögmanna, þeirra Egils Sigurgeirssonar, Ragnars Ólafssonar, Sveinbjarnar Jónssonar, Ragnars Jónssonar, Ólafs Þorgrímssonar, Einars B. Guðmundssonar og Sigurgeirs Sigurjónssonar. Egill Sigurgeirsson sýndi með skýrum rökum, hvernig ljúgvitni hefðu verið notuð gegn skjólstæðingi hans. Ragnar Ólafsson sagði, að það væri ákaflega hættulegt, ef rannsóknardómurinn með spurningum sínum skapaði þá skoðun meðal almennings, að stjórnmálaskoðanir skiptu máli um niðurstöður refsidóms. En hann taldi, að rannsókn málsins hefði gefið fullkomið tilefni til þess, að hæstiréttur undirstrikaði, að allir væru jafnir fyrir lögum án tillits til stjórnmálaskoðana. Ólafur Þorgrímsson sagði, að sannað væri, að um engin skipulögð samtök fólksins hefði verið að ræða gegn Alþingi og sakborningarnir ættu enga sök á málinu. Sveinbjörn Jónsson sagði m. a., að um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið hefðu verið mjög skiptar skoðanir meðal Íslendinga, og skiptust menn í tvo flokka, með og móti Atlantshafsbandalaginu. Fór sú skipting ekki eftir skiptingu manna í stjórnmálaflokka, sagði Sveinbjörn. Menn úr öllum stjórnmálaflokkum stóðu saman í þessu máli, bæði með og á móti. Þá taldi Sveinbjörn, að áskorun ríkisstj. hefði verið misráðin og hefði átt mikinn þátt í hinum hörmulegu atburðum, sem þar urðu. Enn fremur sagði Sveinbjörn: „Þá tel ég, að val á hjálparliði lögreglunnar hafi verið mjög óheppilegt. Það er upplýst í málinu, að valdir hafi verið menn aðallega úr stjórnmálafélagi ungra sjálfstæðismanna, Heimdalli. Þá tel ég fráleitt að vopna slíkt hjálparlið. Þessir ungu menn kunnu ekki að fara með vopn, enda mistókst vopnaburðurinn þeim og hafði slæm áhrif.“ Hér má gjarnan skjóta því inn í, hversu furðulega ógætni framsóknarmenn sýndu með því að ánetjast í einu og öllu fyrirætlunum Sjálfstfl., jafnvel því að herbúa Heimdellinga. Einar B. Guðmundsson og Ragnar Jónsson héldu því fram, að með því, að slengt væri saman málum hinna 24 ákærðu, væri verið að setja pólitískan blæ á málið og varpa villuljósi á málin í heild, auk þess sem með þessari aðferð hefðu verið framin hin herfilegustu réttarspjöll. Sigurður Ólason sakaði lögreglustjórann um embættisafglöp, bæði með því að leyfa að boða mannskapinn á óeirðasvæðið og einnig fyrir það að aðvara fólkið ekki og biðja það að hverfa frá, áður en hjálpar- og lögregluliðinu var hleypt út. Auk þess var það hrein ögrun við fólkið að vopna Heimdellinga og siga þeim fyrirvaralaust á friðsama borgara, sagði Sigurður. Hann sagði enn fremur: „Deildarstjórar í Heimdalli hóuðu liðinu saman og boðuðu það daginn áður.“ Sagði hann að í kvikmynd af atburðinum sæist gangstéttarliðið kasta eggjum á friðsama borgara. Sigurgeir Sigurjónsson sagði meðal annars, að yfirsjón lögreglunnar setti meginsök á óeirðirnar 30. marz og ætti meginsök í þeim.

Með rökstuðningi hæstaréttarlögmannanna er því hinn þyngsti dómur felldur yfir ríkisstj. hernámsflokkanna, sem beindi málinu inn á pólitíska braut, bæði í rannsókn og dómum. Það var einnig álit mikils fjölda þjóðarinnar, að menn þeir, sem ríkisstj. lét kæra og dæma vegna atburðanna 30. marz, hafi verið saklausir með öllu. Það sýna bezt viðbrögð fólksins í landinu, þegar fram fór undirskriftasöfnun um kröfuna um náðun á dómunum. Undir þá beiðni skrifuðu meira en 27 þús. Íslendingar úr öllum flokkum. Þannig urðu þá fyrstu áhrifin á íslenzku þjóðina við inngönguna í Atlantshafsbandalagið: Mannhelgi rofin, réttarvitund almennings skert, stofnað til virðingarleysis fyrir dómum, fyrir lögum og rétti og æðstu dómstólum þjóðarinnar.

Þegar lokið var atkvgr. hér á Alþingi um inngönguna í Atlantshafsbandalagið, virðist utanrrh. Íslands, Bjarna Benediktssyni, hafa þótt heppilegast að koma sér sem fljótlegast úr landi, enda flaug hann strax til Bandaríkjanna þá um kvöldið. En er þangað kom, sagði hann heldur ófagrar sögur af framkomu þjóðar sinnar, en mun hafa hlotið hjá herglæframönnum Bandaríkjanna maklega viðurkenningu fyrir hraustlega framgöngu gegn þjóð sinni.

Nú hafði bandaríska auðvaldið og hervaldið stigið annað skrefið til þess að ná hinum greypilegustu tökum á þjóðinni. Hið þriðja steig hún 1951, svo sem ég hef fyrr getið, og var þá sami utanrrh., Bjarni Benediktsson, enn að verki. En þegar utanrrh. kom heim úr þessari för, tók hann upp háttu stórmenna í herveldunum og hafði næstu vikur um sig lögregluvörð. En hvers vegna? spyrja menn.

Ég hef aðallega bent á hin skaðlegu áhrif, sem hernámssamningurinn hefur haft á þjóðlíf Íslendinga. Hvernig hefur svo vináttan orðið vegna þessara samninga, vináttan frá Bandaríkjunum í stærstu málum okkar Íslendinga? Í einhverju mikilverðasta máli Íslendinga, landhelgismálinu, sem öll þjóðin stendur sameinuð um, hefur ein sambandsþjóðin úr Atlantshafsbandalaginu, Bretar, sett fyrir okkur fótinn. Hyggjast þeir að beygja þjóðina, kúga og neyða til undanhalds. Hafa nú Bandaríkjamenn staðið með okkur til verndar í þessu máli? Þess sjást ekki merki, nema síður sé. Aðrar bandalagsþjóðir, svo sem Frakkar og Belgíumenn, hafa lagzt á sveif með Bretum. Ber þá að minnast þess, að þegar Bandaríkjamenn lögðu fast að Íslendingum um að samþ. Keflavíkursamninginn 1946, þá studdu Bretar Bandaríkjamenn með því að senda íslenzku þjóðinni nokkurs konar hótun um, að það yrði ekki vel séð af Bretum, ef samningurinn yrði ekki samþ. Skyldu Bandaríkin vera að borga Bretum nú fyrir hótunina 1946 og láta þetta stórmál með öllu afskiptalaust, svo að smáþjóðin verður nú að standa því nær ein í þessu stórmáli? Má í því sambandi minna á hið fornkveðna: Verndaðu mig, drottinn, fyrir vinum mínum. — Í markaðsmálunum ber að sama brunni. Bandaríkjamenn hafa ekki keypt fisk af Íslendingum af neinni velvild. Þeir hafa valið úr þann fisk, sem þeim þóknaðist, en hraðfrystihús landsins fylltust eitt árið af óseljanlegum fiski, þar til Sovétríkin, sem Bandaríkjamenn þykjast vera að vernda okkur fyrir, gerðu við okkur stóran viðskiptasamning, keyptu af okkur mikið magn af fiskafurðum og lyftu þannig undir velfarnað þjóðarinnar. Ríkisstj. lætur sér þó sæma að láta áróðurspostula Bandaríkjanna ausa þessa þjóð hvers konar óhróðri og það mest í málgögnum ríkisstj.

Öll rök hníga að því, að herinn sé landi okkar og þjóð til bölvunar, og því magnaðri sem hann dvelur hér lengur. Það er ekki til nema ein leið til lausnar á þessu máli farsællega til þess að forða þjóðinni frá glötun — vernda sjálfstæði landsins. Hún er sú að segja varnarsamningnum upp og krefjast þannig brottferðar alls herafla af Íslandi.

Í þau nálega 4 ár, sem herinn hefur nú verið hér, hafa komið fram mörg hundruð mótmælasamþykktir gegn hersetunni og um kröfuna um uppsögn samningsins. Þær hafa verið frá einstökum fundum, frá félögum og félagasamtökum, landssamböndum og stjórnmálaflokkum, og þátt í þessum andmælum hafa átt verkalýðsfélögin, fagfélög iðnaðarmanna, kvenfélög, stúdentafundir og stúdentaráðstefnur, ungmennafélög, héraðasambönd og landsfundir ungmennafélaga, skólafélög og ýmiss konar stéttarfélög. Myndazt hefur í landinu hreyfing til þess að sameina þessi öfl, sem krefjast brottferðar hersins. Að baki hennar standa nú milli 50 og 60 félög auk fjölmargra ófélagsbundinna einstaklinga, karla og kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum. Þessi samtök hafa beitt sér fyrir áskorun til þjóðarinnar um að undirrita kröfuna um uppsögn hernámssamningsins. Hefur þegar mikið áunnizt, og ekki verður linnt fyrr en meiri hluti þjóðarinnar hefur skjallega krafizt brottfarar hersins. Á þann eina hátt munu hernámsflokkarnir og ríkisstj. þeirra knúin til undanhalds. Þess sjást nú ljós merki, að hin nýja sjálfstæðisbarátta nær langt inn í raðir ríkisstjórnarflokkanna, og mætti Framsfl. taka vinsamlegum bendingum um að slíta hernámssamvinnunni við Sjálfstfl., áður en það er um seinan. Framsfl. hefur hlotið nöturlegt hlutskipti að halda uppi vörnum fyrir Sjálfstfl., jafnvel þótt hann hjari enn um stund með honum í stjórn á hernámsgróðanum. Til lítils mundi framherjum og frumherjum samvinnuhreyfingarinnar þótt hafa verið barizt, ef það á nú að vera tryggasta samvinna að binda bagga sína sömu hnútum og „agentar“ kapítalista og hermangara.

Andstæðingar hersins á Íslandi krefjast þess, að nú sé tekið í taumana. Þeir munu ekki hætta baráttunni fyrr en svo hefur skipazt, að Ísland hefur aftur hlotið fullt sjálfstæði. Við viljum lifa í friði við allar þjóðir. Við viljum ekki blanda okkur inn í hernaðardeilur stórveldanna. Við mótmælum því, að þjóðin skuli neydd til að taka þátt í styrjaldarbrjálæðinu. Við mótmælum því, að hernaðarflugvélar fljúgi yfir byggðu bóli á Íslandi. Við mótmælum því, að íslenzk skip flytji sprengiefni og hergögn til hersins. Við mótmælum því, að íslenzkir verkamenn og bifreiðastjórar vinni að uppskipun og flutningi hergagna bæði í Reykjavík og annars staðar. Við mótmælum því, að Bandaríkjamenn fái húsnæði í íslenzkum húsum, krefjumst þess, að upp verði rætt spillingarbæli hersins, að flakk hermanna um landið verði ekki leyft. Við mótmælum allri hernaðarvinnu Íslendinga. Við mótmælum allri samvinnu við hernámsmenn. Við mótmælum hersetunni í einu og öllu og köllum forsvarsmenn hersins til ábyrgðar á gerðum sínum.

Ég hef hér bent á, að öll rök fyrir hersetunni eru tætt í sundur, tveir svokallaðir verndarsamningar, 1941 og 1951, hafa báðir verið undirritaðir haldlausir að lögum, að hersetan hefur lamað sjálfstæði þjóðarinnar, að Íslendingar hafa orðið að sæta þyngri örlögum en aðrar bandalagsþjóðir, að Bandaríkjamenn troða á réttindum landsmanna, að þeir hafa veitt inn í þjóðlífið spillingaráhrifum og líta á okkur sem væntanlega nýlenduþjóð, íslenzka ríkið verður að gefa með hermannabörnum Bandaríkjanna frá fyrri styrjöld á Íslandi, svo að hundruðum þúsunda króna skiptir, en Bandaríkin hafa neitað að borga og litlar sögur fara af því, að þeir greiði fyrir spjöll og mishöndlan, sem þeir hafa framið hér síðustu missiri.

Í síðustu ræðu sinni, sem Eisenhower Bandaríkjaforeti flutti í hershöfðingjabúningi, 3. júní 1952, kippti hann fótunum undan þeirri áróðursfullyrðingu, að Atlantshafsbandalaginu og vesturveldunum yfirleitt stafaði hætta af árásarstyrjöld af hálfu Sovétríkjanna. Hann sagði blaðamönnum í Washington, að hverfandi litlar líkur væru til þess, að Sovétríkin hæfu styrjöld að yfirlögðu ráði. Hins vegar kvað hann auðvaldsríkjunum stafa miklu meiri hættu af því, sem hann kallaði innanlands undirróður og mútur kommúnista. Bandaríkin yrðu þess vegna að senda hergögn og herlið til annarra landa til þess að koma í veg fyrir, að fleiri ríki bættust í hóp fylgiríkja Sovétríkjanna. Eisenhower sparaði allt tal um, að Bandaríkin væru að verja frelsi og lýðræði í heiminum. Hann sagði umbúðalaust, að Bandaríkjamenn yrðu að tryggja það, að þeir yrðu ekki sviptir aðgangi að auðlindum og vinum í öðrum heimsálfum. Það er þess vegna, sem nú er ausið fjármagni til áróðurs fyrir hersetunni hér á Íslandi sem annars staðar, og það er líka þess vegna, sem við eigum nú ríkisstj., sem er ánauðug erlendu valdi og getur ekki eða vill ekki leysa hin miklu vandamál þjóðfélagsins.

Ef hér hefði ekki verið her síðustu árin, svo sem hann er til kominn, hefðu atvinnuvegir þjóðarinnar þróazt á eðlilegan hátt eftir þörfum og hæfni landsmanna, svo sem til var stofnað með nýsköpunarstefnunni. Þá hefði mátt gera ráð fyrir samvinnu á mörgum sviðum, þar sem nú er sundrung. Nú stendur ríkisstj. ráðþrota í verkfalli, sem er fyrst og fremst hennar sök, horfandi á skip hennar, skip landsmanna, safnast í höfnina full af fiski, vitandi það, að útlendingar, sem á þeim hafa unnið, eru að hverfa úr landi, svo að þegar verkfallið leysist, verður fiskinum skipað á land, en skipin liggja mannlaus í höfn. Ríkisstj. hefur séð svo um, að hernámsvinnan dregur vinnuaflið til sín og fleiri og fleiri Íslendingar hafa vaxandi áhuga fyrir því, að bandaríska borgin á Suðurnesjum stækki og skapi meiri atvinnu. Þetta eru heldur óhugnanleg tíðindi, en sönn. Slíkt ástand breytist ekki til hins betra, fyrr en völdin hafa verið tekin af hernámsmönnunum og stjórnartaumarnir dregnir úr höndum núverandi stjórnarherra.

Eitt hefur aldrei brugðizt á Íslandi, hinn öruggi veðurviti, það er ljóðið á tungu þjóðarinnar. Með ljóðinu hefur þjóðin fagnað, og með ljóðinu hefur hún sýnt andúð sína. Allt frá því Hjalti Skeggjason mælti: „Spara ek eigi goð geyja“ hefur ljóðið verið stuðningur málum og dómum. Skáldin ortu frelsisljóðin á 19. öldinni, jafnframt því sem stjórnmálamennirnir sóttu fram í frelsisbaráttunni. Skáldin hafa ort fagnaðarljóð um marga eða flesta stórviðburði sögunnar. En hvar eru Fagnaðarljóðin vegna hins mikla atburðar, sem hernámsflokkarnir standa að og hafa lagt heiður sinn við? Þeir hafa fengið viðurkenningu einhverra hershöfðingja, einhverra erindreka erlends valds, sem hvorki skilja tungu vora, þjóðerni, sögu vora né baráttu við láðs, lofts og lagar ógnir í veldi eimyrju eða íss. En hvar eru hinar fagnandi raddir frá landinu sjálfu yfir verkum ykkar, hernámsmenn, frá landsins börnum? Hafið þið heyrt bergkastala okkar, standbergið, enduróma fagnaðarljóð fólksins yfir komu hersins, komu verndaranna? Hvar eru fagnaðarljóðin? Hvar eru skáldin? Hví hafa þau ekki ort? Hvar eru hershöfðingjaljóðin? Hvar eru hergönguljóðin, vetnissprengjuljóðin, Keflavíkur-hymna, hvar eru Davíðssálmar hersetunnar? Það skyldi þó ekki vera, að þið ættuð ekki eitt ljóð, ekki eina ljóðlínu til fagnaðar við komu verndaranna, og mætti þó ætla, að skáldin vöknuðu til þess að yrkja verndurum sínum fagnaðarljóð? Nei. það er ægileg dauðaþögn í kringum ykkur, hernámsmenn. Hins vegar hafa skáldin rist hernum níð. Og það er öruggur veðurviti, að svo mun fara, að slíkur verður allur þungi þjóðarinnar gegn hernum fyrr en lýkur.

Í þessum umræðum hefur rækilega verið bent á þá hættu, sem yfir þjóðinni vofir, ef til styrjaldar drægi í bráð. Bandaríkjamenn fengu andúð um allan heim eftir vetnissprengjutilraunirnar 1. marz s. l. ár. Margar þjóðir birtu andúð sína og aðvöruðu Bandaríkjamenn. En fjárveitinganefnd Bandaríkjaþings svaraði með því að veita kjarnorkumálanefndinni allt það fé, er hún hafði farið fram á, nálega 17 þús. millj. króna fyrir það tímabil, sem nú er að líða, en yfirmaður borgarvarna Bandaríkjanna lét svo um mælt, að vetnissprengjuárásir á borgir Bandaríkjanna mundu þýða, að 9 millj. manna mundu láta lífið, en 22 millj. særast og limlestast, og hann spurði: Hver á að grafa þessi 9 milljón lík? Vetnissprengjan þýðir, sagði hann, að í stríði eru engar varnir fyrir hendi í borgum. Þannig hugsaði hann um sitt heimaland. Þeir hugsa e. t. v. minna um útvarðstöðina, minna um það, hver yrði til að grafa 70 þúsund lík Íslendinga, ef vetnissprengjum yrði varpað á stöðvar Bandaríkjamanna á Suðurnesjum og höfuðborgin og allur þéttbýlasti hluti landsins legðist í rúst. Þá yrðu það sennilega frændur okkar, sem verndaðir eru í Vesturheimi, sem kynnu að raula vísu Stephans G. Stephanssonar:

„Ef er gálaust af að má

eins manns blóð úr lífsins sjóð,

hvað mun þá að hyggja á

heillar þjóðar erfiljóð?“