15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2084)

34. mál, varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Á því Alþ., sem nú situr, hafa verið flutt 5 þingmál, sem á einn eða annan hátt varða herstöðvarnar og dvöl Bandaríkjahers á Íslandi. Eitt þeirra mála er það frv. sósíalista, sem hér er til umr. Það frv. fjallar um uppsögn herstöðvasamningsins. Þá er og þáltill., sem við þjóðvarnarþingmenn fluttum snemma á þessu þingi og fjallar um hið sama, uppsögn herstöðvasamningsins og brottför hersins af Íslandi, auk þess sem þar eru allmörg bráðabirgðaákvæði, sem hníga að því að fyrirbyggja eitthvað af þeim vandræðum, sem stafa af hersetunni, meðan hún enn varir. Í þriðja lagi hafa þm. Alþfl. flutt þáltill., sem fyrst og fremst fjallar um endurskoðun herstöðvasamningsins, en þó er þar einnig gert ráð fyrir þeim möguleika, að samningnum verði sagt upp, ef sú endurskoðun, sem flm. hugsa sér, nær ekki þeim tilgangi, sem þeir telja viðhlítandi.

Öll þessi þrjú þingmál voru lögð fram í þingbyrjun, svo að segja fyrstu daga þingsins, en svo hefur nú brugðið við, að þó að nú sé komið á sjöunda mánuð, sem þingið hefur setið að störfum, að vísu með nokkru hléi, þá er þetta hið fyrsta mál varðandi herstöðvarnar, sem kemur til umr. hér á Alþ. Það er þó yfirleitt þannig, að mál ganga allgreiðlega í gegnum 1. umr. hér á þingi, fara yfirleitt fljótlega til 2. umr., þó að okkur stjórnarandstæðingum a. m. k. þyki þá við brenna helzt til oft, að mál okkar fái þar nokkuð langa hvíld og stundum væran svefn. En í sambandi við þau þingmál, sem snerta herstöðvasamninginn, bregður þannig við, að það virðist nálega ókleift að fá þau tekin á dagskrá og þá sjaldan, sem þau hafa á dagskrána komið, hafa þau yfirleitt verið tekin út af dagskrá. Ég fagna því, að hið fyrsta þeirra mála, sem flutt hafa verið varðandi þennan samning, hefur þó nú verið tekið til umr., og ég vil mega vænta þess, að það verði einnig til þess, að þau þingmál varðandi herstöðvasamninginn, sem nú bíða hjá hv. sameinuðu Alþ., komi einnig fljótlega fram í dagsljósið og verði tekin á dagskrá og til þinglegrar afgreiðslu, áður en þessu þingi lýkur.

Ég mun ekki ræða hér herstöðvamálið almennt. Það er hvort tveggja, að það mál hefur verið rætt mjög á undanförnum missirum hér á hv. Alþ. og nú síðast í langri og mjög ýtarlegri ræðu hv. síðasta ræðumanns. Einnig hefur það verið mikið rætt í blöðum. Auk þess mundi vera tækifæri til þess að fjalla um einstök atriði þessa máls, þegar teknar verða fyrir þær þáltill., sem ég gat áðan um og liggja fyrir hv. sameinuðu Alþ. Þá vitum við það einnig af reynslunni hér á þingi, að hv. fylgismönnum herstöðva og hernáms verður yfirleitt aldrei nuddað út í umr. um þessi mál, nema þeir séu bókstaflega til þess neyddir með útvarpsumr. Þeim er nú raunar vorkunn, því að málstaðurinn er slíkur, að það er ekki við því að búast, að þeir fari að hlaupa til að verja hann, nema þeir séu rækilega til þess knúðir. En þeir munu að sjálfsögðu hyggja til þess nú eins og jafnan fyrr að þegja um málið en láta hins vegar kenna liðsmunar og fella þau þingmál varðandi uppsögn eða endurskoðun herstöðvasamningsins, er fram hafa verið borin. Liðsmunar geta þeir neytt, þó að rökin skorti. En ég vil þó minna stuðningsmenn hernámsins hér á Alþ. á það, sem vitur maður hefur sagt, að sannleikurinn verður ekki sigraður með atkvæðafjölda. Og sannleikur þessa máls er sá, að Íslendingar geta aldrei um frjálst höfuð strokið, þeir geta aldrei litið upp og borið höfuðið hátt sem frjálsir og sjálfstæðir menn, fyrr en sá meiri hluti hefur myndazt hér á Alþ., sem segir herstöðvasamningnum upp.

Afstaða okkar þjóðvarnarmanna til þess frv., sem hér liggur fyrir, svo og annarra þeirra þingmála, sem snerta herstöðvasamninginn og dvöl Bandaríkjahers hér á landi, mótast að sjálfsögðu af því, að við teljum líf og framtíð íslenzku þjóðarinnar komna undir því, að þessum ógæfusamningi verði sagt upp og allur her hverfi brott af íslenzkri grund. Í hvaða formi Alþ. kynni að afgreiða slíkt mál, er að okkar dómi ekki höfuðatriði. Jafnframt vil ég lýsa því yfir, að við þjóðvarnarmenn munum styðja hvert það þingmál, hverja þá till. eða frv., hverja þá viðleitni, sem eitthvað miðar í rétta átt að okkar dómi og kynni að geta dregið úr böli hernámsins, enda þótt við séum minnugir þess, að engin önnur lausn er viðhlítandi og sæmandi í því máli en uppsögn samningsins.

Ég nefndi það hér áðan, að 5. þingmál hefðu verið borin fram hér á þessu hv. þingi, sem á einhvern hátt snerta herstöðvamálið eða dvöl hins svonefnda varnarliðs í landinu. Þrjú hef ég nefnt þegar, en tvö á ég eftir að nefna og vil aðeins víkja að þeim örfáum orðum, þó að þau séu að vísu borin fram í hv. sameinuðu þingi. Það eru þáltill. tvær varðandi radarstöðvar og gæzlu þeirra. Þessar þáltill. komu fram með stuttu millibili alllöngu fyrir jól, ef ég man rétt. Fyrri till. var flutt af nokkrum hv. sjálfstæðismönnum og sú síðari af tveimur hv. framsóknarmönnum. Ég verð nú að segja það, að mér fannst bera dálítið nýrra við, þegar hv. þm. stjórnarflokkanna fengu allt í einu þennan mikla áhuga fyrir þeim málum, sem snerta dvöl Bandaríkjahers hér og aðgerðir hans, að þeir skyldu ómaka sig til þess að flytja með fárra daga millibili tvær þáltill. varðandi sama málið. Fyrri till., frá hv. sjálfstæðismönnum, fjallaði um það, að nú skyldi hæstv. ríkisstj. látin beita sér fyrir því, að íslenzkir menn yrðu, eftir því sem mögulegt reyndist, látnir afla sér þeirrar sérþekkingar, sem nauðsynleg er til þess að geta leyst af hendi störf við radarstöðvarnar. Þetta var nú að sjálfsögðu gott og blessað og ánægjulegur sá áhugi, sem allt í einu var þarna vakinn og kom vissulega úr óvæntri átt. En hv. framsóknarmönnum fannst hér engan veginn nóg að gert. Þeir vildu vera miklu róttækari í þessu efni og ganga lengra en samstarfsmenn þeirra, sjálfstæðismennirnir. Nú koma tveir hv. framsóknarmenn nokkrum dögum síðar með aðra till., og þar á ekki einungis að athuga einhverja möguleika um það, að Íslendingar geti tekið þessi mál að sér, eftir því sem auðið reyndist, heldur á nú að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að ríkið taki að sér að öllu leyti rekstur radarstöðva varnarliðsins. Þetta þóttu mér býsna gleðileg tíðindi, þegar hv. framsóknarmenn fengu allt í einu slíkan áhuga á því að koma í veg fyrir, að nú skyldi bætt við herstöðvum, þótt í smáum stíl væri, á öllum landshornum. En því var nú hvíslað að mér, þegar þessi till. kom fram, að það væri kannske ekki alveg víst, að áhuginn væri undir niðri eins brennandi og orðalag till. kynni að gefa tilefni til að halda. Það gæti verið, að þarna væri bara um eitt þessara alkunnu kapphlaupa á milli stjórnarflokkanna að ræða, þar sem um vinsæl mál er að tefla, þegar annar hreyfir málinu í sýndarskyni, þá þarf hinn að koma og „slá hann rækilega út“, sem kallað er á vondu máli. Ég verð að segja það, að þó að ég hafi hneigð til að trúa því bezta um menn, þangað til annað reynist, þá finnst mér nú orðið, eftir að hafa beðið eftir því, að þessar till. yrðu teknar til afgreiðslu og samþykktar nú í nokkra mánuði, að e. t. v. hafi sá maður, sem þessu hvíslaði að mér um áhugann, haft eitthvað fyrir sér í því efni. Svo mikið er víst, að þessar tvær ágætu till. frá hv. sjálfstæðisþm. og hv. framsóknarþm. hafa enn ekki verið teknar til umr. hér á Alþingi, og er þó komið nálægt þinglokum.

Ég vil nú vænta þess, að það líði ekki margir dagar, þangað til þeir ágætu menn, sem þessar till. fluttu, sýni þann áhuga að ýta við hæstv. forseta til þess að taka þær á dagskrá og fá þær til þinglegrar meðferðar.

Ég vil að lokum ítreka það, sem ég áðan sagði, að ég vil vænta þess, að þær þáltill., sem hér voru fluttar í byrjun þings, önnur um uppsögn herstöðvasamningsins og hin um endurskoðun, komi á dagskrá a. m. k., þegar búið verður að afgreiða það frv., sem hér liggur fyrir og maður að sjálfsögðu veit, hver örlög hlýtur, ef að vanda lætur, en það var á síðasta þingi fellt frá 2. umr.