22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2097)

45. mál, fiskveiðalandhelgi Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og er þannig nú flutt í annað sinn. Þá fylgdi frv. ýtarleg grg., og því var einnig að því sinni fylgt úr hlaði með allrækilegri framsöguræðu. Nú er því ekki þörf á ýtarlegri málstúlkun, þó að málið sé stórt og þýðingarmikið, því að í eðli sínu er málið einfalt. Frv. fjallar í raun og veru aðeins um tvö efnisatriði: að Ísland skuli láta fiskveiðalandhelgi sína ná til alls landgrunnsins kringum Ísland og að heimilt sé að ákveða með reglugerð, hve mikinn hluta af fiskveiðalandhelginni skuli verja og friða hverju sinni, og megi setja reglur um það síðar samkv. reglugerð.

Í 1. gr. frv. er miðað við það, að landgrunnið allt skuli teljast fiskveiðalandhelgi Íslands, og skilgreining á hugtakinu Landgrunn er í þessari grein fram sett á þann hátt, að landgrunnsmörkin skuli ákveðin með línu, sem dregin sé 50 sjómílum utan yztu nesja og skerja við landið, en þar sem 200 metra dýptarlína landgrunnsins nái út fyrir þessa 50 sjómílna línu, skuli landgrunnið takmarkast af henni.

Í 2. gr. er ákvæði um það, að lágmark þess svæðis innan fiskveiðalandhelginnar, sem skuli vera varið, eigi að ná 12 sjómílur út fyrir núverandi friðunarlínu, þ. e. a. s. 16 sjómílur frá þeim grunnlínupunktum, sem ákveðnir eru í reglugerð frá 19. marz 1952. Enn fremur er í þessari gr. tekið fram, að öllum erlendum fiskiskipum skuli bannað að stunda fiskveiðar á þessu svæði, þ. e. a. s. milli 4 sjómílna línunnar og 16 sjómílna línunnar. Þá yrði framkvæmd málsins samkv. þessu á þann veg, að alfriðað væri 4 sjómílna belti í kringum landið eins og nú er, bæði fyrir erlendum og innlendum botnvörpuskipum, og síðan væri friðað belti 12 sjómílur á milli 4 og 16 sjómílna línunnar fyrir öllum útlendum veiðiskipum, en íslenzk veiðiskip hefðu þar aftur friðað svæði fyrir sig, en landgrunnið allt teldist fiskveiðalandhelgi Íslands.

Við höfum þegar fengið góða reynslu af þeirri smávægilegu aukningu á friðun á fiskimiðum, sem ákveðin hefur verið kringum landið, því að reynslan og vísindin hafa fært okkur heim sanninn um það, að fiskveiðar hafa glæðzt víðast hvar, síðan hin aukna friðun gekk í gildi. Þó er það svo, að á þeim stöðum, þar sem ágengni botnvörpuskipa hefur aukizt, eins og fyrir Vestfjörðum, er friðunin enn þá ófullnægjandi, en til þess liggja alveg sérstakar ástæður: Hin auðugu fiskimið þar fyrir utan og lokun stórra og fiskisælla svæða, sem erlend og innlend skip eiga nú ekki lengur aðgang að, einkanlega hér við Suðvesturlandið, hafa leitt til þess, að þar hefur aukizt ágangur veiðiskipa síðan friðunarlínan var færð út, og þetta hefur aftur leitt til þess, að þar er nú minna fiskmagn frá ári til árs heldur en áður var, og sýnir það, að þar er aukinnar friðunar þörf. Um það er í raun og veru ekki lengur deilt, að þetta sýnir, að friðunarreglurnar, sem nú gilda, ganga of skammt, og þarf bersýnilega að setja reglur um frekari friðun.

Það geta að vísu verið skiptar skoðanir um það, hvort það sé rétt að bera nú fram kröfur um aukna friðun og víkkaða landhelgi við strendur Íslands. Sumir segja, að við eigum að þegja sem vandlegast um allar slíkar fyrirætlanir — öll slík áform, meðan löndunardeilan brezka sé ekki leyst, því að þetta espi stórveldið á móti okkur og við því megum við ekki. Ég tel þó, að þetta séu frekar veik rök. Ég hefði haldið, að ef við vildum hafa sóma af þessu máli, og það eigum við vissulega að hafa, því að okkar málstaður er góður og líf þjóðarinnar liggur raunar við, að við höldum eins og menn á þessum málum, þá sé hitt miklu veigameiri rök, að einmitt í vændum þess, að brezka togaradeilan leysist áður en langt líður, þá sé miklu viðkunnanlegra, að við höfum haft uppi óskir um frekari friðun, áður en deilan leysist. Hitt felli ég mig síður við, að koma fyrst eftir að dellan við Breta hefði fengið einhverja lausn og segja þá: Jú, þessi friðun, sem við héldum okkur við, meðan við deildum, var alla tíð ófullnægjandi, og nú gerum við aðrar og miklu víðtækari kröfur. Það að koma eftir dúk og disk og bera fram kröfurnar um aukna friðun væri eftir minni hyggju miklu ógeðfelldari lausn á málinu. Það er drengilegra að segja strax, að við komumst ekki hjá því að gera frekari friðunarráðstafanir. Við vitum nú fullvel, að við hljótum að gera þær kröfur fyrr eða síðar, og eigum að segja til um þær strax.

Á sama hátt er með kröfurnar um, að Ísland helgi sér landgrunnið allt. Margar aðrar þjóðir hafa þegar borið fram kröfur um, að þær vilji friða allt landgrunn sitt og helga sér þannig öll þau verðmæti, sem finnast á hafsbotni og í hafinu yfir landgrunninu, hvort sem um er að ræða lífræn eða ólífræn verðmæti. Nokkrar þjóðir hafa ekki látið sér nægja að láta þessar kröfur sínar taka til 50 sjómílna svæðis í kringum lönd sín, heldur hafa sumar þeirra tekið svo djúpt í árinni, að þær vilja draga mörkin 200 sjómílur frá ströndinni. Eitt þeirra ríkja, sem þegar hafa helgað sér landgrunn sitt allt, er eitt af brezku samveldislöndunum, Ástralía. Virðist þess vegna vera hægt að benda Bretum á það, að okkar kröfur ganga miklu skemmra en eitt af samveldislöndum þeirra hefur þegar framkvæmt hjá sér. Er þar þó um að ræða þjóð, sem á miklu minna undir auðæfum hafsins en íslenzka þjóðin. Á þingi Sameinuðu þjóðanna hafa líka komið fram kröfur á seinustu árum um réttindi strandríkja til landgrunnsins og einkanlega til auðæfa þeirra, sem finnast á hafsbotni á landgrunninu. Er þá að mínu áliti mjög svo eðlilegt, að Ísland bendi á rétt sinn í sambandi við þær umræður, enda mun svo hafa verið gert. Hefur verið á það bent, að svo mikils virði sem þessum þjóðum séu hin ólífrænu verðmæti, er finnast kunni á hafsbotni landgrunnsins hjá þeim, þá séu þó Íslandi margfalt meira virði þau lífrænu verðmæti, sem finnist í hafinu yfir landgrunni Íslands, og að Ísland telji sig hafa forréttindi fram yfir allar aðrar þjóðir til þess að hagnýta sér þau verðmæti.

Ég held, að það væri illa farið, ef Íslendingar þegðu nú um þennan vilja sinn og kæmu fyrst með kröfur um landgrunnið allt, þegar búið væri að ráða til lykta með einhverjum hætti — kannske á þann veg, sem okkur væri óhagstæður fyrir áframhald málsins — landgrunnsmálum annarra þjóða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ef við þegjum, meðan þau mál eru þar á dagskrá, og ætlum síðar að taka málið upp, þá held ég, að við gætum komið til með að standa þar mjög höllum fæti, einmitt vegna þess að við hefðum ekkert aðhafzt, meðan tími var til.

Ég hef með þessu, sem ég nú hef sagt, gert grein fyrir því, hvers vegna ég tel það sérstaklega tímabært að hafa uppi óskir okkar og vilja um hvor tveggja þessi atriði: Aukna friðun við strendur landsins og hinar ýtrustu kröfur okkar til landhelgi á landgrunninu öllu kringum landið. Ég hef sérstaklega dvalið við það, hvort tímabært sé að bera þessi mál fram nú, því að ég held, að skoðanir kunni helzt að vera skiptar um það. Um hitt efast ég ekki, að allir eru í raun og veru sammála um, að Íslandi sé brýn nauðsyn á stórum aukinni friðun, saman,borið við það, sem nú þegar hefur verið ákveðið, og að Íslendingar eru einnig yfirleitt á einu máli um það, að okkur beri að helga okkur landgrunnið allt. Ég sé því enga ástæðu til að verja löngu máli til þess að rökstyðja þær kröfur í sjálfu sér.

Ég er þess fullviss, að Alþingi Íslendinga á hið fyrsta að samþykkja frv. sem þetta, og skal ég ekki hafa um það fleiri orð. Legg ég til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjhn., mundi þó alveg eins geta fallizt á, að því væri vísað til sjútvn., en málið er ekki eingöngu sjávarútvegsmál, heldur einnig stórkostlegt sjálfstæðismál, og gæti þannig eðlilega heyrt undir eina höfuðnefnd þingsins, fjárhagsnefndina.