09.12.1954
Efri deild: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ákvæði um að framlengja III. kafla laga um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, þ.e.a.s. að framlengja söluskatt þann, sem lagður hefur verið á undanfarin ár.

Þetta frv. er óbreytt frá gildandi lögum, að undanteknu einu ákvæði, er ég skal koma nokkru síðar að.

Hv. n. hefur athugað frv. Hún er þeirrar skoðunar, að ríkissjóður þurfi á þessu fé að halda. Afgreiðsla fjárl. er byggð á því, að ríkissjóður haldi þessum tekjum áfram, og þess vegna leggur hún til, að frv. verði samþykkt. Einn hv. nm., HG, var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt, og hefur því ekki tekið þátt í afgreiðslu þess.

Eina breytingin frá lögunum er í 3. gr. frv. Þar er sett inn nýtt ákvæði, þ.e. í síðari málsgr. b-liðar, síðasti málsliður. Þar stendur:

„Í öðrum umboðssöluviðskiptum skal smásali eða annar umboðssali greiða söluskatt af öllu heildarandvirði varanna frá sér.“

Þetta ákvæði er komið inn í lögin vegna dóms, sem gengið hefur í hæstarétti gegn ríkissjóði í sambandi við sölu brauða og annarra vara, sem hafa verið seldar í umboðssölu, og eru ákvæðin gerð hér nokkru skýrari en er í lögunum til þess að fyrirbyggja nokkurn ágreining.

Í n. varð nokkur ágreiningur um þetta atriði, vegna þess að það voru borin fram dæmi, sem sýna, að svo gæti staðið á, að framleiðandi íslenzkrar vöru yrði að borga 3% söluskatt sem framleiðandi. Ef hann hefði umboðssala, sem seldi vöruna til smásala, þá yrði hann einnig að borga 3% söluskatt af öllu andvirði varanna, eftir því sem greinin hljóðar nú, og síðan yrði smásalinn að greiða 2% í söluskatt af vörunni, og er þá búið að greiða af þessari vöru 8% í söluskatt. Ef hins vegar umboðssalinn selur vöruna beint til neytandans, þá fellur niður þriðja stigið, þannig að þá yrði af þessari vöru ekki greitt nema fyrsta framleiðslugjaldið, 3%, og söluskatturinn í smásölunni, og þess vegna þótti rétt að ræða um þetta við hæstv. ráðh., sem hefur lýst því yfir við n., að í framkvæmdinni skyldi það verða þannig, að það yrði ekki tekinn 3% skatturinn af millistiginu eða settur á umboðssölu til smásala. Hefur hann lofað að láta breyta reglugerðinni á þann veg, að það verði ekki misskilið.

Með þessum fyrirvara og með þessari skýringu á lögunum leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.