21.10.1954
Neðri deild: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2103)

50. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Sigurður Bjarnarson):

Herra forseti. Á hljóðfærum, sem flutt eru til landsins, er nú allhár tollur, allt að 80%. Á þetta m. a. þátt í því, að þessi tæki, sem ég hygg að menn greini ekki á um að telja verði menningartæki, eru orðin svo dýr, að það er naumast hent öðrum en efnafólki að eignast þau þeirra, sem eftirsóttust eru og nauðsynlegust eru til iðkunar hljómlistar á heimilum almennings. Á ég þar fyrst og fremst við hljóðfæri eins og slaghörpu og orgel, sem eru algengustu heimilishljóðfæri í þessu landi og hafa lengi verið.

Ég hygg, að hv. þm. greini ekki á um það, að æskilegt sé, að hljómlist sé iðkuð sem víðast og sem almennast meðal þjóðarinnar. Meðal allra menningarþjóða er tónmenntun talin snar þáttur í menningarlegu uppeldi þeirra. Ég held þess vegna, og það er skoðun okkar hv. 7. þm. Reykv., sem flytjum þetta frv., að það sé mjög illa farið, að löggjafinn vinni gegn því með geysiháum tollaálögum, að almenningur á Íslandi geti iðkað hljómlist. Við höfum þess vegna lagt til, að tollar af þessum menningartækjum yrðu felldir niður. Í þessu sambandi má á það benda, að bækur eru fluttar til landsins tollfrjálst. Á þær er litið sem menningartæki og þess vegna ekki talið rétt, að á þær séu lagðir tollar. Má þó raunar á það benda, að oft er nú maðkur í mysunni í bókmenntunum, og ekki er allt það, sem til landsins er flutt bókmenntakyns, til mjög mikillar menningarlegrar uppbyggingar.

Einnig þegar á þetta er litið, verður auðsætt, að sanngjarnt er og eðlilegt, að þau tæki, sem þetta frv. fjallar um, verði flutt inn tollfrjálst. Ég veit, að fram kunna að koma mótbárur um, að ríkissjóður muni tapa allmiklu í tekjum með slíkri ráðstöfun. Ég vil þó á það benda, að innflutningur á þessum tækjum hefur verið svo lítill undanfarin ár, einmitt vegna þess, hversu dýr þau eru orðin, að ríkissjóður mun alls ekki missa stóran spón úr sínum aski, þó að þetta frv. verði samþykkt. Samkv. þeim upplýsingum, sem við flm. höfum fengið, voru á s. l. ári flutt inn hljóðfæri fyrir rúml. 975 þús. kr. að innflutningsverði. Vörumagnstollur, verðtollur og söluskattur af þessum innflutningi nam hins vegar 915 þús. kr. Ég hygg, að sem betur fer standi hagur ríkissjóðs með þeim blóma nú, að ekki sé hættulega stórt skarð höggvið í hans tekjustofna, þó að þetta frv. yrði samþ. og tollur felldur niður af hljóðfærum.

Ég hygg svo, að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri. Mér er kunnugt um, að till. hafa verið uppi um það fyrr hér á hv. Alþingi að fara þessa leið. Ég þykist þess því fullviss, að það eigi töluverðu fylgi að fagna, og lýsi mig og okkur flm. þess reiðubúna til þess að vinna með hverjum þeim, sem í þessa átt vill stefna. Ég leyfi mér svo að óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.