21.10.1954
Neðri deild: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2107)

51. mál, menntun kennara

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Í gildandi lögum frá 1947 um menntun kennara er það tekið fram, að húsmæðrakennaraskóli skuli starfa í Reykjavík. Með frv. þessu er lagt til af flm., að lögunum verði þannig breytt, að heimilt sé að lokinni rannsókn að ákveða skólanum stað annars staðar á landinu. Á bak við frv. liggur sú skoðun okkar, að það sé engin ástæða til þess að hafa það beinlínis ákveðið í lögum, hvar skólinn skuli starfa, en sjálfsagt sé, að fræðslumálastjórnin geti ákveðið það einhliða, hvar hún telur heppilegast að starfrækja skólann. Það er engin ástæða til þess að vera að binda alla sérskólana hér á landi við Reykjavík. Það er alveg eins heppilegt að dreifa þeim út um landið, þar sem góðar aðstæður að öllu leyti eru fyrir hendi. Í því sambandi má t. d. minna á íþróttakennaraskólann, sem starfræktur hefur verið í lengri tíma á Laugarvatni. Erlendis mun víða hafa verið tekinn upp sá háttur að flytja skólana úr stórbæjunum og einmitt til smærri bæjanna úti á landi, og ég tel að mörgu leyti heppilegt, að slík þróun yrði einnig hér hjá okkur.

Á síðasta þingi var flutt frv., sem stefndi í sömu átt og þetta frv., sem nú liggur fyrir, og þó að menn hefðu nú varla getað búizt við því, þá varð þetta mál eitt hið mesta hitamál hér á hv. Alþingi. Það stóð þannig á, að um sama leyti og frv. var flutt, var húsmæðraskólinn á Akureyri ónotaður, og það lá einmitt fyrir tilboð frá stjórn húsmæðraskólans um að afhenda húsið handa húsmæðrakennaraskólanum. Á sama tíma lá það einnig fyrir, að húsmæðrakennaraskólinn þyrfti innan skamms að víkja úr því húsnæði, sem hann hafði haft í Háskóla Íslands.

Um aðstöðu til skólahalds á Akureyri fyrir húsmæðrakennaraskóla er það að segja í stuttu máli, að þarna er um nýtt hús að ræða, sem er að öllu leyti mjög vei úr garði gert. Þar væri mjög heppilegt að hafa heimavist fyrir nemendur, og eins og ástatt er í dag, þá eru ekki nema einir tólf nemendur í húsmæðrakennaraskólanum. Auk þess eru á Akureyri hin beztu skilyrði til garðræktar, en eins og kunnugt er, þá er það eitt af verkum húsmæðrakennaraskólans að kenna húsmæðrakennurum slík verk.

En það, sem er meginatriði í þessu máli, er þó ekki, að endilega þurfi að flytja húsmæðrakennaraskólann til Akureyrar, heldur hitt, að við flm. lítum svo á, að það sé engin ástæða til þess að binda skólahaldið endilega við Rvík, það eigi að vera verkefni fræðslumálastjórnarinnar að ákveða þessum skóla stað. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á einu atriði, sem raunar hefur verið allmikið rætt, að nú þegar sé búið að byggja allt of marga skóla hér á landi. Það blasir nú þegar við, að ýmsir skólar, sem áður voru þéttskipaðir nemendum, standa núna því miður hálftómir. Þó má benda á, að þrátt fyrir þessa þróun er enn eftir að byggja og koma upp skólum, eins og t. d. kennaraskóla hér í Rvík. Kennaraskólinn hefur haft gamalt húsnæði, og það er full þörf á því og sanngirnismál, að byggt sé yfir þá merku kennslustofnun. Eins má benda á það, að hjúkrunarkvennaskóli hefur enginn verið byggður enn hér á landi. Ég minnist þess, að það eru ein tvö eða þrjú ár síðan fjvn. var boðið upp í landsspítala að líta á húsakynni hjúkrunarkvennaskólans. Satt að segja urðu nm. steinhissa, þegar þeir sáu þær aðstæður, sem þessi skólastofnun í mörg ár hefur þurft að búa við, og það er ekki stætt lengur á öðru en að koma upp myndarlegum skóla fyrir þessa stofnun. Það hafa verið tekin upp á fjárlög framlög til byggingar kennaraskólans og einnig til hjúkrunarkvennaskólans,og það hlýtur að vera krafa allra réttsýnna manna, að þessum stofnunum verði sem allra fyrst komið upp.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég undirstrika það og endurtaka, að það felst ekki í frv., að húsmæðrakennaraskólinn verði fluttur norður til Akureyrar, heldur er stefnt að því í frv., að fræðslumálastjórnin hafi heimild til þess að velja þessum skóla stað, þar sem skilyrði og allar aðstæður eru beztar fyrir hendi.

Ég óska eftir því að lokinni þessari umr., að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.