22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2110)

51. mál, menntun kennara

Kristin Sigurðardóttir:

Herra forseti. Samkvæmt lögum skal húsmæðrakennaraskóli starfa í Reykjavík eða nágrenni hennar. Með frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 59, er lagt til, að lögunum verði breytt á þann veg, að fræðslumálastjórninni sé heimilt að ákveða skólanum stað utan Reykjavíkur, ef æskilegt teldist að undangenginni rannsókn á aðstæðum til skólahaldsins.

Það virðist nú ekki vera nein stórvægileg breyting, þó að slík heimild sé sett inn í lögin, en það vita allir, að á bak við er einmitt ákveðin hugmynd um að flytja skólann út á land í einhvern af þeim húsmæðraskólum, sem nú standa auðir eða lítt notaðir, og hefur þá helzt verið bent á Húsmæðraskóla Akureyrar. Í fljótu bragði sýnist þetta vera heppileg lausn á húsnæðisvandamáli húsmæðrakennaraskólans, sem verður nú bráðlega að rýma það húsnæði, er hann hefur haft í Háskóla Íslands, og verður húsnæðislaus eftir 1½–2 ár. En ef allar aðstæður eru athugaðar, kemur ýmislegt fram, sem vert er að gefa gaum. Skólanefnd húsmæðrakennaraskólans hefur sent öllum hv. alþm. bréf til skýringar afstöðu sinni til frv. og er það prentað hér sem fskj. með nál. hv. menntmn. á þskj. 168. Sé ég ekki ástæðu til að lesa það upp, býst við, að hv. þm. hafi kynnt sér það. Það er einróma álit skólanefndar og skólastjóra húsmæðrakennaraskólans, að skólinn eigi að vera í höfuðstað landsins, og eru færð fyrir því ýmis rök. Veigamestu rökin virðast mér vera þau, að til þess að skólahúsið á Akureyri geti hentað starfsemi húsmæðrakennaraskólans, þarf að gerbreyta allri innréttingu hússins. Yrði sú breyting mjög kostnaðarsöm, eins og breytingar á húsum ávallt eru. Auk þess yrði ekki hægt að koma þar öllu eins haganlega fyrir og ef byggt yrði yfir skólann nýtt hús.

Kostnaður við skólahaldið hlýtur og óhjákvæmilega að verða mun meiri, ef skólinn starfar úti á landi, heldur en í Reykjavík, þar sem auðveldast er að fá hina færustu sérfræðinga til kennslu við skólann og þar sem nemendur geta stundað verklegar æfingar í efnafræði og næringarefnafræði við atvinnudeild háskólans. Ef skólinn hins vegar starfaði utan Rvíkur, yrði að koma á fót sérstakri rannsóknarstofu fyrir matvæli í skólanum sjálfum.

Skólastjóri húsmæðrakennaraskólans telur, að ef byggt er yfir skólann, þurfi það alls ekki að vera neitt stórhýsi. Nægja mundi hús af líkri stærð og gott fjölskylduhús. Ég hef hér með höndum lista yfir það, sem rúmast þarf í skólahúsinu, og vil ég lesa hann upp, með leyfi hæstv. forseta, af því að hann gefur ágæta hugmynd um stærð hússins. Það er þá fyrst: Flokkaeldhús, sem er álíka og 3–4 lítil fjölskyldueldhús, heimiliseldhús lítið, borðstofa fyrir 24, kennslustofa fyrir 12, lítið þvottahús og straustofa, skrifstofa, kennaraherbergi, fataherbergi, snyrtiherbergi fyrir kennara og nemendur og geymslur. Af þessari upptalningu má sjá, að hér er engan veginn um stórhýsi að ræða. Það dýrasta við svona hús yrði sennilega eldhúsið, en við það er það að athuga, að skólinn á sjálfur hina prýðilegustu eldhúsinnréttingu, sem hægt er að flytja í hina nýju byggingu, og mundi það að sjálfsögðu spara töluvert.

Teiknistofa húsameistara ríkisins hefur gert lauslega tillöguuppdrátt að fyrirhuguðum skóla. Er þar gert ráð fyrir einnar hæðar húsi með kjallara undir nokkrum hluta þess. Lausleg áætlun um kostnað við allt húsið nemur þar 750 þús. kr. Á yfirstandandi fjárlögum sé ég, að húsmæðrakennaraskólanum eru ætlaðar 200 þús. kr. í byggingarstyrk. Gerum ráð fyrir, að á næsta ári yrði álíka upphæð veitt til skólans. Er þá strax kominn liðlega helmingur upp í áætlað húsverð.

Í skýrslu skólanefndar segir, að skólinn starfi þrjú samfelld námstímabil, samtals 22 mánuði, með aðeins 2 vikna sumarleyfi, námsefnið sé mikið og námið erfitt, en það, að skólinn starfar að Laugarvatni um sumartímann, skapi þá tilbreytingu um skólalífið, sem komi í veg fyrir námsþreytu hjá nemendum. Útilokað er talið, að skólinn geti starfað áfram að Laugarvatni að sumrinu, ef hann yrði fluttur til Norðurlandsins. Þar sem þetta er alhliða skóli, þ. e. a. s. skóli, sem ætlaður er jafnt fyrir þá nemendur, sem ætla sér að kenna í kaupstöðum, og þá, sem ætla sér að kenna við skóla í sveitum, er nauðsynlegt, að nemendum gefist kostur á að þroskast og auka þekkingu sína á sem flestum sviðum, með því t.d. að skoða stofnanir og verksmiðjur, sem framleiða matvæli, söfn og ýmiss konar sýningar, sem mestur og beztur aðgangur er að hér í Rvík. Töluvert atriði og ekki ómerkilegt er það, að áætlað er að koma upp sérstakri deild við skólann, er kenni þeim, sem ætla sér að verða ráðskonur, t. d. við sjúkrahús, ýmiss konar hæli, skóla eða stofnanir. Þá hefur sú hugmynd skotið upp kollinum, að skólinn verði gerður að deild í Háskóla Íslands. Yrðu þá nemendur auðvitað að hafa lokið stúdentsprófi, áður en þeir fengju upptöku í skólann. Skólastjóri húsmæðrakennaraskólans hefur kynnzt slíkum skólum í Ameríku og litizt vel á þá, en enn þá er þetta aðeins hugmynd, sem heyrir framtíðinni til.

Að öllu þessu athuguðu er ég á þeirri skoðun, að hagkvæmast sé, að skólinn verði ekki fluttur út á landið, en verði áfram hér í Rvík. Sýnist mér því vera alger óþarfi að breyta gildandi lögum um þennan skóla og mun ekki greiða atkvæði með frv.