22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2112)

51. mál, menntun kennara

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Af ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Ak., er það ljóst, ef þessi breyting á lögunum um húsmæðrakennaraskóla verður samþykkt, til hvers hann ætlast. Af orðum hans verður ekki annað ráðið en hann ætlist beinlínis til þess, þegar lokið er þeim tíma, sem húsmæðrakennaraskólinn hefur ráð á húsnæði í því rúmi, sem hann er nú, að þá verði skólinn fluttur til Akureyrar. En því þá ekki að flytja brtt. um það, ef það er tilætlunin? Hvers vegna er þá verið að fela fræðslumálastjórninni að ákvarða skólanum stað, ef tilætlunin með þessari lagabreytingu er sú, að skólinn skuli fluttur til Akureyrar? Það væri miklu hreinlegra. Þá gengju menn ekki í neinar grafgötur með það, hver tilætlunin væri með þessari lagabreytingu. Nú er þetta á huldu, ætlazt til þess, að fræðslumálastjórnin taki ákvörðun um það, en þó hnígur breytingin og ég tala nú ekki um ræðan hjá hv. fyrra flm. þessa máls eingöngu í þá átt, að fyrirætlunin sé að flytja hann norður til Akureyrar, sakir þess að þar er húsnæði, sem nú mun ekki notað, og mér skilst á ræðu hv. fyrra flm. frv., að hann búist við því, að það verði ekki notað til húsmæðrakennslu eða í þágu húsmæðrakennslunnar í landinu. Um það vil ég ekkert fullyrða, þar brestur mig kunnugleika, og ég treysti mér ekki heldur til að segja um það, hvernig þau mál kunna að ráðast hvað snertir aðsókn að þessum skóla á Akureyri. En eitt er víst, að þó að horfið yrði að því ráði að flytja skólann til Akureyrar með þeim útbúnaði, sem á skólahúsinu er, þá er það alveg sjáanlegt, að það verður að gerbreyta húsinu. Það er óhugsandi, ef þessi skóli flytur norður til Akureyrar, annað en að hann sæki stúlkur úr hinum ýmsu landshlutum, flestar aðkomustúlkur, og þá yrði ekki annað mögulegt en að sjá þeim fyrir húsnæði í skólanum. Það leiðir því af sjálfu sér, að það verður að gerbreyta þessu húsi frá því, sem það er nú. Og þeir, sem þekkja til húsasmíði og hvernig því er varið, ef á að gerbreyta innréttingu húsa, fara nærri um það, hvort það kostar ekki mikið fé. Meira að segja er það oft, að slíkar breytingar kosta öllu meira en nýsmíði frá byrjun. Það er þess vegna hvað kostnaðarhliðina áhrærir ekki veigamikil ástæða, að það sparist mikið fé við útbúnað á húsi skólans að flytja hann norður og breyta því húsi, sem hefur verið ætlað til húsmæðrakennslu, en á annan veg, og þessi skóli setjist þar að.

Þá er engan veginn heldur hægt að gera lítið úr þeim ástæðum, sem fram koma af hálfu stjórnar skólans í því fskj., sem hv. menntmn. hefur látið prenta með sínu nál. Þar er réttilega vikið að því, hvað mikilvæg þessi fræðsla er, hversu mikilvægt það er fyrir skólann og starfsemi hans og fyrir stúlkurnar, sem þangað sækja nám upp á undirbúning fyrir starf sitt í framtíðinni, að þær njóti góðrar kennslu. Nú vil ég ekki segja, að það séu ekki ágætir menn til að kenna á Akureyri það, sem þeir hafa búið sig undir að kenna; það dettur mér ekki í hug. Ég veit, að þar er margt ágætismanna. En þeir hafa ekki, að ég ætla, þá sérþekkingu til að bera, sem er einmitt mikilvæg við þessa kennslu, sem þarna á að fara fram. Það er réttilega á það bent og mun ekki vera hægt að vefengja, að hér er aðeins einn sérfræðingur í næringarefnafræði, dr. Júlíus Sigurjónsson, sem hefur kennt þá námsgrein við skólann frá byrjun. Einmitt þessi námsgrein og þessi kennsla er mjög mikilvæg fyrir nemendur skólans. Það er ekki völ á slíkum kennara á Akureyri til þess að kenna þessa námsgrein. Þó að einhver kennsla í henni ætti sér stað, þá mundi hún ekki verða á sama hátt og í höndunum á þessum manni. Þá er og að því vikið, að annar mjög þekktur maður og góður lærdómsmaður í sinni grein, prófessor Trausti Ólafsson, hafi kennt við skólann. Og ætlunin er auðvitað af hálfu stjórnar húsmæðrakennaraskólans að fá þessa menn til að kenna áfram, ef skólinn verður hér eða það nærri Reykjavík, að unnt sé að ná til þeirra og fá þá til að annast kennsluna.

Þá er og réttilega að því vikið, sem engan veginn er lítilvægt atriði, að við hinar verklegu æfingar hjá námsmeyjunum er leitað til ýmissa annarra skóla, til skólaeldhúsa, sem eru mörg hér í bænum, og þar fá stúlkurnar sína verklegu æfingu, sem verður vitaskuld fjölbreyttari og meiri með því, að leitað er til þessara skóla, húsrúm meira og verkleg æfing hjá stúlkunum verður miklu meiri fyrir þessar sakir. Þetta mundi mjög svo dragast saman og verða í minni stíl, ef skólinn yrði fluttur héðan úr bænum, þótt til Akureyrar yrði.

Þá er og það upplýst í þessari grg. af hálfu stjórnar skólans, að á sumrin hafa stúlkurnar verið í sveit, á Laugarvatni, og tekið þátt í fjölbreyttu starfi þar, bæði hvað áhrærir garðrækt, bæði í köldum og í volgum jarðvegi, og einnig tekið þátt í mjöltum og meðferð mjólkurafurða á búinu á Laugarvatni. Þetta er bæði nauðsynlegt og gagnlegt fyrir stúlkurnar, auk þess sem þetta eru hollustu ráðstafanir og stúlkunum bæði gagnlegar og nauðsynlegar, einmitt að taka þátt í sem víðtækustu starfi, því að það skilst mér, að ekki sé meiningin, að þær stúlkur, sem njóta þessarar tilsagnar og fræðslu, eigi endilega allar að vera kennarar við húsmæðraskóla í kaupstað, heldur eigi þær einnig að taka þátt í kennslu í skólum hvar sem þeir nú annars eru og úti í sveitum, og þá er það vitaskuld mjög þýðingarmikið, að þessir kennarar og þessar stúlkur, sem til þessa starfs læra, fái sem víðtækasta þekkingu á þeim viðfangsefnum, sem þær kunna að koma til með að starfa að. Auk þess geri ég engan veginn lítið úr því atriði, að einmitt taki stúlkurnar þátt í þessu starfi úti í sveit á sumrin, það verður áreiðanlega þeim til hvíldar og hressingar, en auk þess verða þær enn betur undir starf sitt búnar með þessu fyrirkomulagi

Það er að því vikið einnig af hálfu stjórnar skólans, að skólinn muni ekki þurfa á neinu stórhýsi að halda, þó að það verði annaðhvort að leigja eða byggja fyrir hann, og það skilst mér að sé eðlilegt, ef gert er ráð fyrir því, að hann sé hér annaðhvort í bænum eða svo nærri honum, að unnt sé að njóta aðstöðunnar, sem Reykjavík veitir í þessum efnum aðalnámstímann, sem vitaskuld verður að vetrinum, og hygg ég, að úr því að svo er ástatt, þá fari ekki að verða mikill munur á kostnaðinum við byggingu nýs skólahúss í þágu þessa skólahalds og þeirri breytingu, sem yrði að gera á skólahúsinu á Akureyri og sjáanlegt er að stefnt er að með þessari breytingu, enda dregur hv. fyrri flm. enga dul á það, hvað fyrir honum vakir með að flytja frv. um þessa breytingu á lögunum um menntun kennara, að það er beinlínis til þess gert að flytja þennan skóla norður á Akureyri og alls ekki gert í öðrum tilgangi. Þó að það sé látið svo í veðri vaka, að fræðslumálastjórnin eigi að ákveða þennan stað, þá er áreiðanlega tilætlunin með flutningi þessa frv. og mundi verða túlkað svo með samþykkt þess, eftir því, hvernig mælt er fyrir því, að það skyldi flytja skólann norður, þegar hann sleppir því húsnæði, sem hann er í nú. Verð ég að segja, að þá hefði verið nær að hafa það skýrt ákveðið í þessu frv., að að tveimur árum liðnum eða svo skyldi flytja þennan skóla norður til Akureyrar. Það er hvort sem er það, sem vakir fyrir hv. fyrra flm. og kannske hv. flm. báðum. Það veit ég reyndar ekki um. En ég heyri það af því, hvernig hv. fyrri flm., þm. Ak., túlkar þetta mál, að það er hans tilgangur með flutningi frv.

Hv. flm. vék að því, að mér skildist, að það væri óþarft að setja allar stofnanir niður hér í Reykjavík. Ég veit ekki, hvort ég stend nær því, að slíkt skuli gert, heldur en hv. þm. Ak. En um þá stofnun, sem kemur til með að hafa beztan undirbúning fyrir nemendur sína með því, að hún sé hér eða mjög nærri Reykjavík, og hvergi annars staðar hefur líka aðstöðu um það, að nemendurnir verði jafnvel undir það starf búnir, sem gert er ráð fyrir að þeir geri sér að lífsstarfi, þegar þeir koma frá skólanum, þá verð ég að segja það, að þá kýs ég, að skólinn sé þar staðsettur, sem hann nýtur sín bezt og maður hefur mesta von að komi að sem beztu gagni fyrir þjóðina.

Úr því nú að svo er ástatt um þetta, að ekki er aðkallandi að gera þessa lagabreytingu, þó svo að til þess kæmi síðar meir, að skólinn yrði fluttur eitthvað úr Rvík, þá finnst mér enga nauðsyn bera til þess, að þetta frv. sé samþ. nú, og nægur tími vinnist til að íhuga þetta mál betur, og mér þykir málið engan veginn nógu undirbúið til þess, að þessi ákvörðun verði tekin nú á þessu þingi, þar sem breytingin sjáanlega er eingöngu flutt til þess og það er ætlazt til þess, að það verði sama sem fyrirmæli um það, að skólann skuli flytja í burtu.

Þetta málefni finnst mér að hæstv. ríkisstj. hefði því átt að kynna sér betur milli þinga og málið kæmi betur undirbúið og íhugað fyrir þingið, ef til þess ætti að koma að gera einhverja aðra ráðstöfun með skólann eða búsetu hans en nú er. Ég vil því leyfa að gera það að till. minni, að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar.