22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

51. mál, menntun kennara

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér þótti vænt um, að hv. 1. landsk. þm. skyldi gena grein fyrir, af hvaða ástæðum hann gerðist meðflm. að þessu frv. Ég heyri það, að það er í raun og veru af allt öðrum ástæðum, sem hann flytur þetta frv., heldur en hv. þm. Ak. Það er í alla staði réttmætt að vekja athygli á því, að þessi skóli er senn húsnæðislaus, og það er ekki nema eðlilegt frá sjónarmiði hv. 1. landsk., sem hefur mikinn kunnugleika á húsnæði háskólans og þörf háskólans sjálfs til þess að nota það, að hann veki athygli á þessu í tæka tíð. Það var ekki nema vel til fundið. En einmitt frá hans sjónarmiði, — því að mér skilst á ræðu hans, að hann standi ekkert nærri því að ætlast til þess endilega, jafnvel síður en svo, að skólinn skuli fluttur eitthvað í burtu, — hefði verið heppilegra að vekja athygli hæstv. ríkisstjórnar og fræðslumálastjórnarinnar allrar með öðru móti á þessu. Til þess hefði nægt að flytja þáltill. um að fela fræðslumálastjórninni að undirbúa málið.

Nú hleypur hv. þm. Ak. að nokkru leyti frá því, sem hann sagði áður, og vill nú, að menn áliti þetta frv. miklu meinleysislegra en það í raun og veru er, og segir nú reyndar, eins og rétt er, að með frv. sé ekki það ákvarðað endilega, að skólinn skuli fluttur til Akureyrar eða eitthvað í burtu, en á ræðu hans áðan var ekki annað að heyra en það væri beinlínis til þess ætlazt. Og einstakt er það hjá hv. fyrri flm., að hann gat ekki látið sér lynda að flytja þáltill. um þetta. Það er eins og honum hafi fundizt, að hann þyrfti endilega að leggja hæstv. ríkisstj. og fræðslumálastjórninni ráð; ef nú horfið yrði að því ráði að flytja skólann í burtu, þá kynni hún ekki aðferð til þess og þyrfti að leiðbeina henni með samningu frv. um, hvernig þetta mætti gerast. (JR: Það er tekið fram í lögunum, að húsmæðrakennaraskólinn skuli vera hér í Rvík.) Ég veit það vel. En heldur hv. þm. Ak., að það sé ekki nema hann eða kannske örfáir í þingi, — ég veit ekki, hvernig hann kann að lita á það, — sem festa auga á því, ef þarf að framkvæma eitthvert verk, sem kemur í bága við gildandi lög, að þá þarf til þeirra hluta lagabreytingu? Og væri þá ekki viðkunnanlegra, að slík lagabreyting byggðist á rannsókn, sem fram hefði farið áður? Það hefur a. m. k. þótt gott hingað til, að mál, sem flutt eru og eiga að verða að löggjafaatriðum, séu þannig undirbúin, bæði að menn sjái nauðsynina og helzt með lagasmíðinni viti menn, hvað á að gera eða hvað standi til. (JR: Ég skil ekki, hvað hv. þm. er að tala um.) Um lagasetningu þessa? Það var leiðinlegt. Ja, ég hef nú sennilega ekki tíma nú til þess að taka hv. þm. í tíma og segja honum, hvernig lagasmið á að vera og á hvaða grundvelli hún á að byggjast. Það er ekki til þess ætlazt, að við höfum þau störf hér. En utan þingfundar, svo fljótt sem við höfum báðir tíma, þá skal ég gera það.

Þá sagði hv. þm. Ak. í seinni ræðu sinni, að þó að skólinn yrði fluttur norður á Akureyri og aðalkennslan færi fram þar, þá væri ekki útilokað, að stúlkurnar gætu orðið við nám að sumrinu á Laugarvatni. Það veit ég, að það er kannske ekki alveg útilok.að, en talsverður kostnaður er af því ferðalagi fyrir stúlkurnar fram og aftur, norðan af Akureyri og til Laugarvatns. Það mun kosta vafalaust í kringum 200 kr. — ég man það nú ekki nákvæmlega — fyrir hvern nemanda hvora leið, og þó að peningavelta sé nú mikil í þessu landi, þá er ekki alveg víst, að það sé í höndum þeirra ungmenna, sem oft af litlum efnum stunda nám, að það eigi að gera leik að því að baka þeim kostnað, sérstaklega ef maður hefur það á tilfinningunni, að það kunni svo að verða verr að þeim búið við námið fyrir slíkar aðgerðir en ella.

Hv. fyrri flm. hefur nú í raun og veru með sinni seinni ræðu undirstrikað það, að þetta mál á að fara til hæstv. ríkisstj. eða fræðslumálastjórnarinnar til undirbúnings og íhugunar. Ef sú niðurstaða, sem fræðslumálastjórnin kemst að, kemur eitthvað í bága við gildandi fræðslulög, þá mun hún alveg hafa ráð á því að gera breytingu á löggjöfinni þannig úr garði, að það verði fullnægjandi, ef til þess ráðs þarf að hverfa. Ég vil því jafnvel mega eiga von á, að hv. þm. Ak. geti orðið mér sammála um þetta og greiði minni till. atkv., að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstj. Það er hvort sem er sú rétta og eina boðleið, sem málið í þetta sinn á að fara.